22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

73. mál, læknishéraðasjóðir

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 81 frv. til l. um breyt. á l. um læknishéraðasjóði. Hér er um það að ræða að veita stjórnvöldum í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir víðtækari heimildir til þess að gera lífsnauðsynlegar öryggisráðstafanir í þeim byggðarlögum, sem læknislaus eru, og búa betur í haginn fyrir framtíðarlausn á þeim vanda, sem læknaskortur er úti í héruðunum. Þar sem nýlega hafa orðið miklar umr. um framtíðarlausn læknamála strjálbýlisins, og þeim till., sem hér er hreyft, er í raun fyrst og fremst ætlað að bæta úr sárustu neyðinni, á meðan leitað er frambúðarlausnar, mun ég leiða hjá mér að ræða framtíðarskipan þessara mála nú, enda hefur heilbrrh. boðað, að bráðlega muni lagt fyrir Alþ. frv. til l. um nýskipan í lækna- og heilbrigðismálum á öllu landinu.

Meginbreytingin á lögum um læknishéraðasjóði frá 1970, sem felst í 2. gr. frv., er að efni til svo sem hér segir. Ég les hér upp úr frv. nokkuð stytt:

„Nú er byggðarlag, þar sem vetrarsamgöngur eru erfiðar, læknislaust um stundarsakir og horfur á, að svo verði yfir vetrarmánuðina, og skal þá ríkisstj. heimilt að gera eftirfarandi öryggisráðstafanir eftir þörfum í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir:

1. Að láta lýsa og merkja rækilega sjúkraflugvöll í viðkomandi byggðarlagi, hafi það ekki áður verið gert, og gera hann að öðru leyti þannig úr garði, að hann sé jafnan tiltækur til notkunar á nóttu eða degi, ef slys eða bráða sjúkdóma ber að höndum.

2. Að láta greiða sérstaklega fyrir samgöngum á landi milli viðkomandi byggðarlags og þess staðar, sem stytzt er til í vel búið sjúkrahús, m. a. með því að setja sérreglur um að ryðja snjó af vegum svo oft sem með þarf öryggis vegna og afla í samráði við Vegagerð ríkisins og viðkomandi sveitarstjórn tækja í framangreindu skyni, ef þau eru ekki fyrir hendi.

3. Að kaupa, ef nauðsyn krefur, í samráði við viðkomandi sveitarstjórn sérstaklega útbúna bifreið til sjúkraflutninga innan viðkomandi læknishéraðs og til þess sjúkrahúss, sem næst er.

4. Að láta setja í samráði við Apótekarafélag Íslands sérstakar reglur um lyfjavörzlu í læknislausum byggðarlögum, þar sem apótek er ekki fyrir, og skipa trúnaðarmenn til þess að gæta fyrrgreindra lyfjabirgða, svo og afhenda lyf eftir símaviðtölum við lækna eða eftir símalyfseðlum.

Að mínu mati ber nú einkum tvennt til, að brýna nauðsyn ber til að gera þegar í stað þær breytingar á lögum um læknishéraðasjóði, sem hér eru til umr. Í fyrsta lagi er frambúðarlausn læknamálanna flókið viðfangsefni og erfitt, þannig að horfast verður í augu við, að taka mun nokkurn tíma, hvernig sem að því er unnið, að koma þar nýskipan á.

Í öðru lagi hefur skortur á læknum vaxið um allan helming í haust einmitt í þeim byggðarlögum, sem illa eru sett um vetrarsamgöngur. Það er illlýsanleg tilfinning fyrir þá, sem ekki hafa reynt það sjálfir, að vera ofurseldir því öryggisleysi að komast ekki úr byggðarlagi sínu dögum saman eða jafnvel vikum saman og geta ekki fengið læknisþjónustu á staðnum hvernig sem á stendur. Sú tilfinning er auðvitað mest þrúgandi fyrir foreldra með ung börn í heimili og lasburða fólk, en í rauninni lamar slíkur aðbúnaður viðkomandi byggðarlag, bæði þá, sem sjúkir eru og heilbrigðir. Það er óhætt að fullyrða, að öllu venjulegu fólki finnst ekki fýsilegt að byggja slíka staði til langframa eða flytjast þangað búferlum. Það er því alveg sérstakur þáttur læknavandamálsins, sem hér um ræðir og verður að leysa þegar í stað með öllum tiltækum ráðum. Í því sambandi taldi ég fyrst og fremst koma til greina þær öryggisráðstafanir, sem um getur í 2. gr. frv. og ég gerði stuttlega grein fyrir áðan. Þær miða að því að auðvelda flutninga sjúklings úr viðkomandi byggðarlagi, annaðhvort í lofti eða á landi. Við hefði e. t. v. mátt bæta grein um flutning á sjó, t. d. með aðstoð Landhelgisgæslunnar og gæti það þá komið til athugunar í n., ef mönnum þætti svo við þurfa. Einnig er í þessari grein frv. lagt til, að komið verði á lyfjavörzlu í viðkomandi byggðarlögum.

Ég vil taka skýrt fram, að það væri e. t. v. ástæðu til að kveða nánar á enn frekari öryggisráðstafanir, þegar svo er ástatt, sem um ræðir í áðurnefndri grein. Mætti m. a. til nefna ákvæði um ráðningu héraðshjúkrunarkvenna o. s. frv., en slíkar ráðstafanir mætti þá taka til athugunar við meðferð málsins hér á hinu háa Alþingi.

Að mínu viti mundu framangreindar ráðstafanir draga eins mikið úr sárustu neyð læknaskortsins og í mannlegu valdi stendur. Til meira er ekki hægt að ætlast. En það er að mínum dómi skýlaus krafa fólksins í þeim byggðarlögum, sem verst eru sett með vetrarsamgöngur og eru læknislaus, að viðlíka öryggisráðstafanir séu gerðar eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Því miður er það svo, að sjúkraflugvellir í þessum byggðarlögum eru ekki allir í góðu lagi. Þeir eru víða ólýstir og þannig byggðir, að þeir verða ónothæfir í fyrstu snjóum. Næga fyrirgreiðslu til þess að halda uppi vetrarsamgöngum af hálfu Vegagerðar ríkisins hefur einnig skort mjög á, og svo mætti fleira upp telja, sem er óverjandi við þær aðstæður, sem skapast í læknisleysinu.

Það skal tekið fram, að mér er kunnugt um, að sumar þær öryggisráðstafanir hafa verið gerðar með samvinnu milli viðkomandi sveitarstjórnar og ríkisvaldsins, sem lagt er til að gerðar verði samkv. ákvæðum þessa frv. Þær ráðstafanir hafa þó oft og tíðum reynzt harðsóttar og stundum hefur ekkert verið gert í þessum málum. Sem dæmi um torsóttar ráðstafanir er mér persónulega kunnugt, að hreppsnefnd og félagasamtök á Raufarhöfn hafa í allt haust reynt að fá snjóruðning af vegum til Húsavíkur aukinn, en þar má einungis ryðja snjó einu sinni í mánuði af vegum samkv. reglum Vegagerðar ríkisins, en læknir á að koma eftir þeim sama vegi til Raufarhafnar á hálfs mánaðar fresti a. m. k. Enn hefur ekki tekizt að fá endanlega ákvörðun í þessu máli, að því er mér skilst.

Þetta dæmi og mýmörg fleiri sýna, að það er nú þegar alger nauðsyn að setja fastari reglur um öryggisráðstafanir, þegar svo háttar til, að byggðarlög, sem búa við erfiðar vetrarsamgöngur, verða læknislaus um lengri eða skemmri tíma. Ef þau lög hefðu verið í gildi, sem hér er lagt til að samþykkt verði, hefði sveitarstjórn Raufarhafnar og aðrar hliðstæðar sveitarstjórnir, sem svipað er ástatt um, haft beinan lagarétt til þess að krefjast úrbóta.

Ég tel ástæðulaust að ræða frekar þá hlið á læknamáli strjálbýlisins, sem ég hef gert hér að umtalsefni og því frv., sem hér er til umr., er ætlað að leysa, eftir því sem hægt er. Ég treysti því, að hv. alþm. sé fullkomlega ljós þörfin í þessu efni og þetta frv. fái skjóta afgreiðslu. Ég vil þó að lokum leggja áherzlu á, að nú þegar þarf að fara fram skyndiathugun á öllum aðstæðum af hálfu heilbrn. í þeim byggðarlögum, sem nú eru læknislaus og vitað er að búa við sérlega erfiðar vetrarsamgöngur. Síðan þarf að grípa til þeirra öryggisráðstafana í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, sem hægt er að koma við.

Að svo mæltu vil ég, herra forseti, mælast til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.