24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

79. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Við flytjum hér frv. til l. um breyt. á iðnlánasjóðslögum, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég. Tilgangur okkar með flutningi þessa frv. er að koma iðnlánasjóðslögunum í svipað form og áður að því leyti, að þar sé ákvörðun um árlegt framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs. Fyrir þessu er gerð nokkur grein í grg. frv., að frá 1962 hefur iðnlánasjóðsgjaldið frá ríkissjóði verið 2 millj. kr. fram til ársins 1967, en þá er gerð sú breyting á iðnlánasjóðslögunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að nú verði aftur breytt, að árlegt framlag skuli vera 10 millj. kr., og svo hefur það verið, — þetta ákvæði hefur haldizt til þessa. Hins vegar lagði ég til í fyrra innan ríkisstj. þá að hækka framlagið á fjárl. fyrir árið 1971 í 15 millj. kr., og þá hafði ég, eða iðnrn., viðmiðun af því hlutfalli, sem áður var og væri orðið á milli árlegs framlags ríkissjóðs og Dagsbrúarkaups. Nú má auðvitað segja, að það mátti við margt annað miða, en þetta var nú miðað við það að leggja til í fjárl. þá, að hlutfallið þarna á milli væri svipað hagstætt fyrir Iðnlánasjóð og þegar það hafði verið bezt, en það var árið 1967, þegar árlega framlagið var hækkað í 10 millj. kr. Það láðist hins vegar á s. l. þingi að gera frekari úrbætur eða breytingar í samræmi við þetta í sjálfum iðnlánasjóðslögunum.

Nú eru miklar breytingar fram undan í sambandi við kaupgjaldsmálin og verðlagsmálin. Þetta er allt breytingum háð. Ég veit ekki frekar en aðrir, hver verður niðurstaðan úr þeim samningum, sem nú standa yfir. Dagsbrún hefur boðað verkfall frá 2. des., og það er ekkert ósennilegt, að um verulegar kauphækkanir verði þar að ræða. Það hefur verið haft eftir formanni Dagsbrúnar hér í þinginu, að það gæti verið a. m. k. innan þess ramma, sem talað hefði verið um í ríkisstj. samningi, að 37% kauphækkun á lægsta kaupi kæmi til greina, eitthvað sambærilegt við það, en það er einmitt viðmiðun við þá taxta, sem áður var notuð. Þá sýndist mér, að það mundi verða ekki óeðlilegt nú að miða upphæðina á hinu árlega framlagi við 25 millj. kr. og þetta kæmi svo í gildi og þyrfti að taka tillit til, ef þetta frv. yrði að lögum, við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1972, a. m. k., ef það væri ekki áætlað þar, en þetta frv. yrði samþ., þá yrði ríkissjóður að greiða það á árinu 1972.

Nú er það svo, að hér á Alþ. hafa oft verið fluttar till. um breytingar á iðnlánasjóðsgjaldi og ekki grundvallaðar á þeirri viðmiðun, sem ég hef nú gert grein fyrir, heldur verið lagt til, að árlegt framlag ríkissjóðs væri jafnhátt og iðnlánasjóðsgjaldið, en það er það gjald, sem iðnaðurinn sjálfur, iðnreksturinn í landinu, greiðir til Iðnlánasjóðs. Við sjáum hér á fskj. frá Iðnlánasjóði, að það er áætlað á árinu í ár 37,3 millj. kr. Ef við það ætti að miða, yrði árlega framlagið verulega hærra úr ríkissjóði. Nú hef ég ekki áður talið, að eðlilegt væri að miða endilega við iðnlánasjóðsgjaldið, og fært rök fyrir því, að sumt af iðnlánasjóðsgjaldinu færi inn í verðlagið hjá iðnaðinum, þar sem frjáls verðmyndun er. Hún er þar á mjög víðu sviði, og þar væri af þeim sökum nokkuð öðru saman að jafna eða t. d. þar sem gjald til Fiskveiðasjóðs var á sínum tíma jafnhátt og útflutningsgjaldið til sjóðsins frá útveginum sjálfum og einnig gjöld, sem bændur greiddu til sinna stofnlána.

Við erum hér þess vegna, tveir flm. þessa máls, með till. um að hafa þetta í svipuðu formi og áður hefur verið. Það er svo annarra, sem áður hafa flutt aðrar till. og hærri um framlög til Iðnlánasjóðs, að taka afstöðu til þess, hvort þeir vilja breyta því, og það kemur auðvitað til athugunar undir meðferð málsins. Við 1eggjum áherzlu á að hækka framlagið núna af eðlilegum ástæðum, sem ég hef gert grein fyrir, upp í 25 millj. kr. Það er vitanlegt, að stofnfjársjóðum eins og Iðnlánasjóði er mjög mikilvægt til eflingar það eigið framlag, sem þeir fá á hverjum tíma, og þarna er annars vegar ríkissjóðsframlag og hins vegar iðnlána, sjóðsgjald. Síðan hefur Iðalánasjóði, eins og kemur einnig fram í fskj., orðið það til styrktar, að hér hefur hafið starfsemi sína hinn norræni Iðnþróunarsjóður, sem á árinu 1970 veitti 50 millj. kr. lán til Iðnlánasjóðs og 20 millj. kr. lán á þessu ári, sem vel gæti hækkað, en mér er algerlega ókunnugt um það. En ef það yrði það sama áður en árinu lýkur frá Iðnþróunarsjóði og í fyrra, þá sjáum við, að líklegt væri, að hin almennu nýju útlán sjóðsins gætu verið, um 170 millj. í ár eins og þau voru og þá langhæst — á árinu 1970.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.