25.11.1971
Neðri deild: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (3059)

83. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vildi láta það koma fram í sambandi við flutning þessa frv. á þskj. 92, eins og kom fram hjá hv. flm., að jarðræktarlögin eru nú í endurskoðun. Samkvæmt ályktun, sem Búnaðarþing gerði á síðasta ári, var kosin n. af þess hálfu til að endurskoða jarðræktarlögin, og sú n. er nú að störfum.

Ég hef óskað eftir því, að fulltrúi frá landbrn. fengi að fylgjast með störfum n. og með þeim hætti yrði hægt að ná sambandi þar á milli til þess að reyna að greiða fyrir því að hraða afgreiðslu þeirrar endurskoðunar, sem þar er unnið að, svo að Alþ. geti tekið það til meðferðar síðar á þessum vetri. Ég reikna með því, að eitt af þeim atriðum, sem koma inn í þá endurskoðun, sé það, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, og tek undir rök hv. flm. um nauðsyn þess, að áfram verði haldið að koma upp þessu kerfi, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vildi bara láta það koma fram hér, að endurskoðun jarðræktarlaganna er nú unnið af fullum krafti af hálfu þeirrar n., sem fékk það til meðferðar frá síðasta Búnaðarþingi, og landbrn. mun hafa samstarf við hana þar um, og ég geri ráð fyrir því, að þetta atriði verði eitt af því, sem þar kemur fram.