16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

219. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það hefur verið okkur þm. mörgum hverjum nokkurt áhyggjuefni, hvernig komið er landhelgisgæzlu okkar eins og nú standa sakir, ekki sízt með hliðsjón af þeim mikla áfanga, sem nú stendur fyrir dyrum í sambandi við útfærslu landhelginnar 1. sept. n. k.

Landhelgissjóður Íslands hefur átt drjúgan þátt í uppbyggingu þess tækjabúnaðar, sem Landhelgisgæzlan hefur átt yfir að ráða, fyrst og fremst verið varið til kaupa á varðskipunum og ýmsum öðrum tækjum hliðstæðum. Landhelgissjóður er gömul og merk stofnun, var stofnaður með sérstökum lögum 1913, en flm. þess frv., um stofnun Landhelgissjóðsins, var séra Sigurður alþm. frá Vigur. Þegar sett var ný löggjöf um landhelgisgæzluna 1967, voru ákvæðin um Landhelgissjóð tekin inn í þau lög.

Upphaflega voru tekjur Landhelgissjóðs 2/3 af sektarfé og verðmætum, sem voru gerð upptæk í sambandi við brot á fiskveiðilöggjöfinni. Þetta varð svo síðar ekki aðeins 2/3, heldur sektarféð allt og einnig björgunarlaun, sem skyldu renna til Landhelgissjóðsins og verða tekjur hans. En í lögunum frá 1913 var einnig ákveðið framlag úr Landhelgissjóði, 20000 kr. þá á ári. Það var hins vegar síðar fellt niður og síðan hefur sá háttur verið á í framkvæmd í þessu máli, að þegar ekki hefur hrokkið fé Landhelgissjóðsins til afborgana og vaxta af skipakaupum og öðrum tækjum, þá hefur verið bætt við hverju sinni af hálfu ríkissjóðsins. Þetta kemur fram í fylgiskjali frá Landhelgisgæzlunni, þar sem greindar eru tekjur Landhelgissjóðsins síðustu árin, frá 1962 til 1970, og við sjáum af því, að framlag ríkissjóðs er æðimisjafnt, en tekjur Landhelgissjóðsins eru sektarfé og upptaka fyrir landhelgisbrot og svo björgunarlaunin, sem sérstök ákvæði eru um í lögum um landhelgisgæzlu frá 1967, í 12. gr., vextir sjóðsins og svo framlag ríkissjóðsins. Framlag ríkissjóðsins er á þessum árum, 1962 til 1968, frá 2 og 3 og upp í 6 millj. kr., hér um bil það, sem þá hefur vantað á, en eykst svo árin 1969 og 1970, upp í 14 millj. fyrra árið og 16.8 millj. síðara árið. Þá eru komnar til afborganir af varðskipinu Ægi, sem keypt var eða var fullbúið 1968, og þá vantar mikið á, að tekjur sjóðsins aðrar, sem ég hef gert grein fyrir, hrökkvi.

Nú er lagt til í þessu frv. að breyta 17. gr. laga um Landhelgisgæzlu Íslands þannig, að auk sektarfjárins og björgunarlaunanna leggi ríkissjóður Landhelgissjóði árlega til 50 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1972. Nú má segja, að hér sé kannske ekki hátt stefnt, sérstaklega með hliðsjón af því, að s. l. ár er hvort eð er ríkissjóðsframlagið nær 17 millj. kr. Það er auðvitað álitamál, hversu hátt á að stefna í þessu efni, en þó er það svo að ef Landhelgissjóður getur reiknað með ákveðnu 50 millj. kr. framlagi, — og ekki væri ég á móti því, þó að í n. þætti ástæða til að hækka þetta framlag, — þá er hægara um vik fyrir hann eða þá, sem þeim sjóði stjórna, og honum er auðvitað stjórnað fyrst og fremst af hæstv. dómsmrh., að gera áætlun fram í tímann um þau tækjakaup, sem nauðsynleg eru. En á það hefur skort, og það hefur verið nokkuð handahófslegt, hvernig í tækjakaupin hefur verið varið, — með tækjum á ég við bæði skip, flugvélar og annað hliðstætt, — en það sýnist alveg nauðsynlegt fyrir okkur nú að gera okkur áætlun um það, hvernig við viljum byggja landhelgisgæzluna upp, bæði með hliðsjón af hinni útvíkkuðu og stækkuðu landhelgi og einnig til þess að gegna því öðru hlutverki, sem landhelgisgæzlan á að gegna, þ. e. a. s. björgunarstarfinu, sem er mikilvægt.

Ég flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv. þáltill. í Sþ. um kaup á nýju varðskipi og áætlunargerð varðandi eflingu landhelgisgæzlunnar, og efling Landhelgissjóðsins hlýtur að mínum dómi að vera verulegt atriði í sambandi við áætlunargerð í þessu efni. Ég vil mega vænta þess, að um þetta verði ekki ágreiningur meðal þm.

Síðan er 2. gr. frv., þar sem í felst sú breyt., að það er tekin af heimild, sem er í 18. gr. laga um Landhelgisgæzlu Íslands, sú, að fjárveitingavaldið geti ákveðið að verja einhverjum hluta af fé Landhelgissjóðs til rekstrar landhelgisgæzlunnar. Mér finnst eðlilegt að skilja hér alveg á milli og sjóðurinn verði fyrst og fremst fjárfestingarsjóður landhelgisgæzlunnar. Að öðru leyti er svo gert ráð fyrir því, að sjóðsstjórnin verði í höndum hæstv. dómsmrh., eins og ég sagði, og skal ég ekki miklu fleiri orðum um þetta fara. Ég leyfi mér að vænta góðrar samstöðu um þetta mál og afgreiðslu nú á þessu hv. þingi.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, get ég ekki orða bundizt um það, í hvílíkri niðurlægingu Landhelgisgæzla Íslands er að því leyti, að hún skuli nú vera á götunni, og við fáum um það fréttir í blöðum og annars staðar, að utanrrn. hafi dottið það snjallræði í hug að úthýsa Landhelgisgæzlunni. Ég hefði sízt af öllu átt þess von, að frá hæstv. utanrrn. kæmi sú hugmynd að setja Landhelgisgæzluna á götuna, en það er margra ára ráðagerð, að Landhelgisgæzlan yrði til húsa í nýju lögreglustöðinni í Reykjavík á efstu hæðinni, og það var komið að því, og annar viðbúnaður hefur ekki þar af leiðandi verið hafður vegna Landhelgisgæzlunnar, — það var komið algjörlega að því, að Landhelgisgæzlan flytti þarna inn. Um þessa ráðagerð hefur mér vitanlega hvergi verið neinn ágreiningur, heldur full samstaða, og hún byggðist á því, að á þessum stað, í lögreglustöðinni, væri til húsa löggæzlan til sjós og lands, auk almannavarna, sem gert var ráð fyrir að hefðu sína bækistöð, stjórnstöð, þegar því væri að skipta, í kjallara lögreglustöðvarinnar. Þarna var um mjög góða samræmingu að ræða og stofnanir, sem hafa 24 tíma vakt allan sólarhringinn og eru mikils virði í sambandi við slysavarnir og björgun, og er mikil samvinna oft á milli landhelgisgæzlunnar og löggæzlunnar. Í þessari ráðagerð var m. a. tekið til athugunar það atriði, að á þaki lögreglustöðvarinnar er þyrluflugvöllur, og þyrla hefur athafnað sig þar, þegar samvinna hefur verið á milli löggæzlunnar og landhelgisgæzlunnar, og það gæti verið landhelgisgæzlunni mjög hagkvæmt, bæði í sambandi við hennar eigið hlutverk og einnig þegar hún er að sinna hlutverkum fyrir löggæzluna í landi. Eins og við vitum, þá hefur þyrla Landhelgisgæzlunnar oft verið hagnýtt með mjög góðum árangri og verið mikilvæg fyrir umferðarlögregluna á þeim dögum, þegar umferð er mest á sumrum, og einnig þegar mikið hefur verið í húfi, eins og þegar við skiptum frá vinstri umferð yfir í hægri umferð.

Það er sorglegt til þess að vita, að svona er komið, og ég vildi beinlínis mega vænta þess, að hæstv. dómsmrh. og forsrh. endurskoðaði þessa ákvörðun, sem hér hefur verið tekin. Ég skil mjög vel þörf hæstv. utanrrn. til þess að auka sitt húsrými, en það hlýtur að vera miklu auðveldara að fá utanrrn. bráðabirgðahúsnæði og trufla ekki það samspil, samvinnu og samræmingu, sem hér átti sér stað með því að búa landhelgisgæzlunni húsnæði eða ætla henni húsnæði í lögreglustöðinni með þeim hætti, sem ég nú hef gert grein fyrir.

Þegar utanrrn. stendur nú í jafnmiklum stórræðum í sambandi við útfærslu landhelginnar út á við og raun ber vitni, þá væri allra sízt þess að vænta, að þaðan kæmu hugmyndir eins og þessar, sem leiða til þess, að Landhelgisgæzla Íslands er á götunni, þegar mest liggur við.

Ég vona sem sagt, að þessi ráðagerð verði endurskoðuð, að úthýsa Landhelgisgæzlunni úr lögreglustöðinni.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. Það getur orkað nokkuð tvímælis, til hvaða n. þetta frv. á að fara, en ég tel nú ráðlegast, eins og er, að vísa því til hv. sjútvn., og legg það til.