18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ef dagurinn í dag væri ekki næstsíðasti starfsdagur Alþ. fyrir jólaleyfi, teldi ég ástæðu til þess að flytja allítarlega framsögu fyrir nál. mínu og ekki sízt vegna ýmissa atriða í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., en ég sé ekki ástæðu til þess. Ég flutti ræðu við 1. umr. málsins, þar sem gerð var grein fyrir afstöðu Alþfl. til þessa máls í heild og til meginefnis þessa frv., sem hér er um að ræða, og sé ég að sjálfsögðu enga ástæðu til þess að endurtaka neitt af því hér við 2. umr. En vegna þess, hve miklar annir bíða þm. á þeim tveimur starfsdögum, sem eftir eru af þingi fyrir jólaleyfi, sé ég ekki ástæðu til þess að efna til almennra stjórnmálaumr. um efni þessa máls, sem hér er um að ræða. Mun ég því láta mér nægja að fara nokkrum orðum um meginatriði málsins og gera grein fyrir þeim brtt., sem ég ýmist flyt einn sem nefndarminnihluti eða ásamt öðrum nm.

Ég ítreka það, sem ég sagði við 1. umr. málsins, að Alþfl. er fylgjandi þeirri meginstefnu þessa frv. að halda áfram þeirri áætlanagerð, sem tekin hefur verið upp í vaxandi mæli á undanförnum áratug og verið hefur í höndum opinberra stofnana, og þá fyrst og fremst Efnahagsstofnunar, Framkvæmdasjóðs, Atvinnujöfnunarsjóðs og einstakra rn. og þá alveg sérstaklega fjmrn., menntmrn., samgrn. og iðnrn.

Upphaf þeirrar áætlanagerðar, sem nú er stunduð á Íslandi og er stunduð í mjög ríkum mæli hér á Íslandi, er það, að fyrrv. ríkisstj. gerði um það samkomulag við ríkisstj. Noregs, ríkisstj. Einars Gerhardsen í Noregi, að hingað voru léðir til starfa þrír af helztu sérfræðingum Norðmanna í áætlanagerð, og lögðu þeir í samvinnu við íslenzka sérfræðinga bókstaflega grundvöllinn að því áætlunarstarfi, sem síðan hefur verið unnið hér og er unnið með nýtízku aðferðum og með nýtízku sjónarmið fyrir augum. Við Íslendingar eigum norsku ríkisstj. á sínum tíma og þessum sérfræðingum mikla þakkarskuld að gjalda vegna þess, að þeir reyndust reiðubúnir til þess að láta Íslendingum í té mikla starfsreynslu sína og þekkingu á þessu sviði. Án sérfræðilegrar aðstoðar þeirra efast ég um, að við Íslendingar værum komnir jafnlangt í áætlanagerð og raun ber vitni um. En það hika ég ekki við að fullyrða, að áætlanagerð á Íslandi nú er fyllilega sambærileg við það, sem á sér stað á hinum Norðurlöndunum. En alls staðar á Norðurlöndum og raunar víðar er slík áætlanagerð í vexti. Það er í vaxandi mæli byggt á niðurstöðum hennar við almenna hagstjórn. Það er einnig stefna þessa frv., að það skuli gert á Íslandi í framtíðinni, og það er meginástæða þess, að Alþfl. lýsir sig fylgjandi þeim grundvallaratriðum frv., sem lúta að því, að áætlanagerð skuli halda áfram á Íslandi, og ekki aðeins halda henni áfram, heldur halda áfram að auka hana, og á það legg ég alveg sérstaka áherzlu.

Ég vil og taka fram, að ég tel það vera til bóta, þar sem í frv. er gert ráð fyrir að sameina stjórn Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs undir einn hatt, auk þess sem í frv. er lögð aukin áherzla, ekki aðeins á mikilvægi áætlunagerðar, heldur á áframhaldandi samhæfingu hennar, sem tvímælalaust er til bóta.

Hins vegar telur Alþfl. það stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar, sem gert er ráð fyrir, vera mjög varhugavert. Og ég hika ekki við að staðhæfa, að það er einsdæmi í íslenzku stjórnkerfí og raunar ekki bara í íslenzku stjórnkerfi, heldur og annars staðar, að stofnun sé fengin tvöföld pólitísk yfirstjórn. En það á sér stað samkv. frv. Yfirstjórn stofnunarinnar á að vera í höndum þingkjörinnar stjórnar, og það er tvímælalaust eðlilegt fyrirkomulag. Það er það fyrirkomulag, sem í öðrum efnum gildir um íslenzkar ríkisstofnanir hliðstæðar þessari. En auk þessa gerir frv. ráð fyrir algeru nýmæli í stjórn opinberrar stofnunar. Það gerir ráð fyrir því nýmæli, að auk hinnar þingkjörnu stjórnar, sem allir flokkar Alþ. eiga væntanlega að fá sæti i, sé pólitísk stjórn yfir stofnuninni. Dagleg yfirstjórn stofnunarinnar á að vera í höndum annarrar pólitískrar stjórnar, annars pólitísks ráðs. Það ráð á eingöngu að vera tilnefnt af ríkisstj. Þetta leyfi ég mér að staðhæfa, að sé algjört einsdæmi í íslenzku stjórnkerfi, og ég þekki ekkert dæmi þessu líkt nokkurs staðar annars staðar frá.

Það kom fram í 1. umr. af hálfu hæstv. forsrh., að þetta væri hliðstætt því stjórnkerfi, sem væri hjá ríkisbönkunum. Þar væri bankaráð, og þar væri framkvæmdastjórn. En hér er auðvitað engan veginn hinu sama til að jafna. Bankaráðin eru að vísu kosin af Alþ. eins og yfirstjórnin hér, en allir vita, að bankastjórarnir eru ekki skipaðir af ríkisstj. Mér vitanlega hefur aldrei komið fram till. um það, að ráðh. eða ríkisstj. skipaði bankastjóra í ríkisbankana, aldrei, einmitt af þeim sökum, að það væri talin fullkomin óhæfa, að ráðh. skipaði bankastjóra ríkisbankanna. Það hefur aldrei mér vitanlega komið fram till. um það hér á hinu háa Alþ., einmitt af því, að það væri algerlega óeðlilegt að hafa tvöfalda pólitíska yfirstjórn yfir bönkunum, en eins og allir hv. þm. vita, eru bankastjórarnir kjörnir af bankaráðinu, þar sem allir flokkar eiga sæti. Auk þess er um það þegjandi samkomulag og hefur allar götur verið og verður vonandi alltaf, að því valdi, sem bankastjórum ríkisbankanna er falið, sé skipt með lýðræðislegum hætti milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þjóðfélaginu.

Um einn banka er það svo, að ráðh. skipar bankastjóra, þ.e.a.s. Seðlabankann, en hann hefur algera sérstöðu í bankakerfinu sem einn þáttur sjálfs ríkisvaldsins. Seðlabankinn var stofnaður, meðan ég gegndi starfi viðskrh., og það hefur fallið í minn hlut að skipa bankastjóra Seðlabankans. Ég lýsti því þá þegar yfir og hef endurtekið þá yfirlýsingu, þegar tilefni hefur gefizt til, að ég teldi það sjálfsagða skyldu mína sem viðskrh. að tryggja það, að í bankastjó,rn Seðlabankans sætu menn, sem nytu trausts bæði meiri hl. á Alþ. og minni hl. á Alþ. Það væri nauðsynlegt, að bankastjórn Seðlabankans hefði traust Alþ. sem heildar. Þótt ég telji þá engan veginn vera pólitíska fulltrúa, og ég veit, að enginn þeirra lítur á sig sem slíkan, starfa heldur ekki sem slíkir, var um það samkomulag milli þáv. þingmeirihluta og þáverandi þingminnihluta, að þeir menn, sem gegna störfum seðlabankastjóra, hefðu traust bæði meiri hl. þings og minni hl. þings. Það sama er örugglega hægt að segja um þingmeirihlutann og þingminnihlutann nú, að bankastjórar Seðlabankans njóta fyllsta trausts beggja. Þannig á auðvitað að halda á málum.

Því miður er ekki þannig haldið á málum varðandi tillögugerð um stjórn þessarar stofnunar. Auk þess, eins og eðlilegt er, að Alþ. er ætlað að kjósa yfirstjórnina, er dagleg stjórn falin pólitískt skipuðum mönnum af hálfu ríkisstj., þ.e. af hálfu þingmeirihlutans. Þessu framkvæmdaráði er falið algerlega óeðlilegt vald innan þessarar stofnunar. Þeir eiga að gera allar áætlanir stofnunarinnar. Þeir eiga að gera till. um allar rekstraráætlanir og starfsáætlanir. Þeir eiga að gera till. um allar lánveitingar og m.a.s. að ráða starfsfólk hinna einstöku þriggja deilda stofnunarinnar. Sérfræðilegir yfirmenn hinna þriggja deilda eiga að vera hreinir undirmenn, — ég vil ekki segja skósveinar, — en algerir undirmenn þessara pólitísku fulltrúa hæstv. ríkisstj. í þessari mikilvægu stofnun. Hinir sérfræðilegu yfirmenn deilda eiga ekki einu sinni að fá að ráða starfsfólki sínu, sem maður skyldi þó halda, að þeir einir hefðu vit og þekkingu á að ráða. Nei, einnig þetta á að vera verksvíð hinna pólitísku fulltrúa ríkisstj. í stofnuninni. En þetta skipulag teljum við Alþfl.-menn vera algerlega óviðunandi, algerlega óeðlilegt, enda einsdæmi, og þess vegna leggjum við til, að þessu verði breytt og stofnuninni verði fenginn einn framkvæmdastjóri og hann ásamt yfirmönnum deilda myndi framkvæmdaráð stofnunarinnar. Þá yrði þessi daglega stjórn í höndum fjögurra manna, eins framkvæmdastjóra, sem þá væntanlega yrði valinn með sérstöku tilliti til hæfni, en ekki vegna þess, að hann sé fylgismaður eins af hinum þremur stjórnarflokkum, og þriggja embættismanna, sem ég treysti samkv. orðum hæstv. forsrh. við 1. umr., að verði þeir menn, sem nú gegna þeim störfum, sem hér er um að ræða, og allir eru valinkunnir embættismenn og njóta fyllsta trausts allra, sem til þekkja, og allra, sem til þeirra hafa þurft að leita. Ég tel, að framkvæmdaráðið mundi verða þá mjög vel skipað, og ég treysti þeim fjórum mönnum vel til þess að fara með það mikla vald, sem framkvæmdaráðinu er falið, ef þeir yrðu í fyrsta lagi framkvæmdastjóri, sem valinn væri samkv. sérstökum hæfileikum, og í öðru lagi þeir þrír valinkunnu embættismenn, sem allir hafa borið fyllsta traust til og hljóta að bera fyllsta traust til.

Hv. frsm. meiri hl. n. dró engan veginn úr því, sem ég hafði sagt, að vald þessara þremenninga, sem ætlað er að sitja í framkvæmdaráðinu, væri mjög mikið. Ég vil m.a.s. segja, að hann hafi hnykkt á því, sem ég sagði um það efni, því að hann jafnaði þeim við aðstoðarráðherra. Hann sagði, að rökin fyrir því að skipa þessa menn væru hliðstæð þeim, sem Bjarni Benediktsson hefði flutt á sínum tíma og talað fyrir hér á Alþ., þegar hann lagði til, að ráðherrum væri heimilað að skipa sér aðstoðarráðherra. Hann jafnaði m.ö.o. starfi þessara manna við starf aðstoðarráðherra. Ég veit ekki, hvort hægt sé með öllu greinilegri hætti að taka undir það, sem ég sagði um úrslitavald þessara manna í stjórnkerfinu, en að líkja starfi þeirra við starf aðstoðarráðherra. — Ég get tekið undir það með hv. þm., að hér er um að ræða svo mikilvæg störf, að þeim má jafna við störf aðstoðarráðherra.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hann vonaði, að við nánari athugun skipti ég um skoðun á þessu máli, frá þeim sjónarmiðum, sem ég hafði lýst við 1. umr., og sagðist hafa vitað dæmi til þess, að ég hefði skipt um skoðun fyrr. Það er alveg rétt. Ég hef tamið mér það á þeim árum, sem ég hef þegar lifað, að skipta um skoðun, ef ný þekking og ný reynsla færa mér heim sanninn um það, að fyrri skoðanir mínar hafa verið rangar. Ég tel það nú raunar vera rétt að hafa slíkt hugarfar, en alls ekki rangt. En ég get því miður ekki sagt það sama um hv. frsm. meiri hl., því að mér finnst hann yfirleitt alls ekki hafa skipt um skoðun síðan á unglingsárum sínum. Hann heldur enn fast við mjög gamlar skoðanir sínar, sem hann tók þegar, mér liggur við að segja, í barnæsku, og það er auðvitað skýringin á því, að hann er orðinn með allra íhaldssömustu þm., sem hér eiga sæti.

Ég flyt á þskj. 221 tvær brtt. Hin fyrri er í samræmi við það, sem ég nú hef lýst, að ríkisstj. skuli skipa stofnuninni framkvæmdastjóra til þess að annast daglega stjórn hennar, og framkvæmdastjórinn og forstöðumenn deilda skuli siðan mynda framkvæmdaráð stofnunarinnar. Ég hef þegar lýst rökunum fyrir þessu.

Hin brtt. er við 16. gr., en í henni er stofnuninni heimilað að taka að sér vörzlu og bókhald sjóðanna, sem stofnuninni er falið að sjá um, Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs, og heimilað að annast afgreiðslu og innheimtu fyrir sjóðina. Ég gerði fsp. um það í n., hvort ætlunin væri að nota þessa heimild, eða m.ö.o., hvort ætlunin væri, að Framkvæmdastofnunin yrði nýr banki. Af hálfu formanns n. var því lýst yfir, að þetta væri ekki ætlunin, hér væri eingöngu um heimild að ræða, og það væri ekki ætlunin að gera breytingu á þeirri skipan, sem nú er í þessum efnum, en hún er sú, að Seðlabankinn annast framkvæmd samkv. framkvæmdasjóðslögunum, og Landsbanki Íslands annast framkvæmdir afgreiðslu samkv. atvinnujöfnunarsjóðslögunum. Engu að síður þótti mér rétt að fá tekin af um þetta öll tvímæli, og ég flyt því brtt. um, að lánadeildin skuli fela starfandi ríkisbanka eða ríkisbönkum vörzlu og bókhald þeirra sjóða, sem í umsjá Framkvæmdastofnunarinnar eru. Mig langar til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort það sé réttur skilningur, að Framkvæmdastofnunin eigi ekki að taka upp nýja bankastarfsemi. Sannleikurinn er sá, að það er nóg af bönkum á Íslandi. ríkið rekur þrjá viðskiptabanka, og það ætti að vera algerlega ástæðulaust, að ný stofnun eins og Framkvæmdastofnunin fari að reka bankaafgreiðslustarfsemi. Ef hæstv. forsrh. lýsir yfir því fyrir hönd ríkisstj., að það sé ekki ætlunin, að Framkvæmdastofnunin taki upp bankastarfsemi, heldur muni núgildandi skipulagi verða haldið, mun ég taka þessa till. aftur.

Ásamt fjórum öðrum nm. í fjhn. flyt ég þrjár brtt. á þskj. 210. Um aðeins eina þeirra sé ég ástæðu til þess að fara nokkrum orðum, en hún er mikilvæg. Það er 1. brtt., þar sem sagt er, að hagrannsóknadeild eigi að vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum og heyra beint undir ríkisstj.

Það er öllum, sem til þekkja, kunnugt, að hagrannsóknadeildin hefur unnið geysimikilvægt starf á undanförnum árum og að starf hennar hefur vaxið og orðið æ mikilvægara með hverju ári undanfarin sex ár. Hún annast ekki aðeins gerð þjóðhagsáætlana og þjóðhagsreikninga, heldur hefur hún í reynd verið ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum og annast mjög mikilvæga skýrslu- og gagnagerð, sem báðir aðilar vinnumarkaðarins telja stórkostlega mikilvæga, og þetta hefur í raun og veru orðið að ómetanlegu gagni við gerð kjarasamninga á undanförnum árum. Þá hefur þessi deild einnig komið á fót stórmerkri skýrslugerð varðandi sjávarútveginn, sem mun reynast mikilvægur grundvöllur undir áætlanagerð á sviði málefna sjávarútvegsins. Þessi skýrslugerð og sú þekking, sem starfsmenn hagrannsóknadeildar Efnahagsstofnunarinnar hafa aflað sér, hefur reynzt ómetanleg í sambandi við ákvörðun fiskverðs og raunar ýmsar aðrar opinberar verðákvarðanir.

En samning þjóðhagsáætlana og þjóðhagsreikninga sem og upplýsingasöfnun, sem á að koma að notum í vinnudeilum og við opinberar verðákvarðanir eins og fiskverðsákvörðun, verða að vera algerlega ópólitískar og mega ekki liggja undir neinum pólitískum áhrifum. Þess vegna lagði ég megináherzlu á það í n., að þessi starfsemi lyti ekki hinum pólitísku stjórnum Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e. hinni þingkjörnu stjórn og framkvæmdaráðinu, heldur heyrði beint undir ríkisstj., líkt og Hagstofa Íslands gerir. Opinber stofnun hlýtur auðvitað að heyra undir eitthvert rn., einhvern ráðh. eða ríkisstj., það gefur auga leið. Hagstofan heyrði áður undir fjmrh. en heyrir nú undir hæstv. menntmrh. Það er eðli málsins samkv. íslenzkri stjórnskipan, að allar stofnanir hljóta að heyra undir einhvern ráðh., en þar af leiðir ekki, að þær hljóti að vera pólitískar í eðli sínu. Enginn hefur nokkurn tíma kallað Hagstofu Íslands pólitíska stofnun, þótt hún hafi heyrt undir hæstv. fjmrh. og heyri nú undir hæstv. menntmrh., enda er hún það auðvitað ekki. Hagrannsóknadeildin verður auðvitað ekki pólitísk stofnun, þótt hún heyri undir ríkisstj. Persónulega hefði ég kosið, að hún heyrði undir hæstv. forsrh. og hafði mælt fyrir því í n., en ég tel einu gilda, þó að svo sé tekið til orða, að hún heyri undir hæstv. ríkisstj. í heild. Með þessu móti er hagrannsóknadeildinni gefin ópólitísk staða í stjórnkerfinu eins og Hagstofunni, og það tel ég vera til stórkostlegra bóta, því að þetta auðveldar starf hagrannsóknadeildarinnar í framtíðinni og styður að því, að hún njóti þess trausts aðila vinnumarkaðarins, atvinnuvega og fyrirtækja, sem hún á að starfa fyrir og þarf að geta notið óskoraðs trausts hjá. Þess vegna tel ég þessa breyt. á frv. vera mjög til bóta.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið og endurtek, að ég tel enga ástæðu til þess að efna til neinna stjórnmáladeilna um þetta mál og raunar nokkur önnur, þegar jafn stuttur tími er eftir af starfstíma þingsins og raun er á.