05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3243)

98. mál, Þjóðleikhús

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki viss um, að það sé til annað dæmi þess, að setning sem þessi sé í lögum. Hitt er annað mál, að það er auðvitað í fjöldamörgum tilfellum, sem Alþ. hefur bundið hendur sínar með sérlögum um ráðstöfun fjár úr ríkissjóði, og það vitum við vel, að meiri hluti af öllum útgjöldum ríkissjóðs er þannig til kominn, að það er ekki annað að gera en horfast í augu við þær staðreyndir, af því að Alþ. hefur ákveðið það með sérlögum, og vitanlega gæti Alþ. með sérlögum ákveðið það, að þjóðleikhúsráð, sem það hefur ákveðið með lögum, hvernig skuli skipað, skuli ganga frá áætlun um rekstur þessarar ríkisstofnunar, og það er ekkert formlega því til fyrirstöðu, að þetta geti orðið skilið þannig, að Alþ. hafi ákveðið í þessum lögum um Þjóðleikhús, að því fjármagni skuli varið til Þjóðleikhússins. Það, sem aðeins vakti athygli mína, er þetta óvenjulega orðalag, því að ég man ekki til, að í neinum öðrum lögum sé svona komizt að orði. Það er ekki einu sinni sagt, að staðfest áætlun skuli lögð til grundvallar tillögum til fjárveitingar, eins og í sambandi við fjárlagafrv., og væri eðlilegast, að hún kæmi þá til álita þar í fjmrn., heldur er þetta orðað: „til grundvallar við fjárveitingar til Þjóðleikhússins.“ Ef hins vegar allir eru ásáttir um þennan skilning, sem hv. for maður nefndarinnar lagði í þetta, — þó að hann að vísu lýsti því yfir, að hann hefði ekkert sérstaklega íhugað þetta eða nefndin, vegna þess að þetta væri komið í upphaflega frv., sem mun vera rétt, — þá hefði ég nú talið æskilegra, að svona orðalag væri ekki notað, af því að óneitanlega getur það valdið misskilningi. Hér er um svo ótvíræða setningu að ræða, eins og ég segi, og ég man ekki til, að nokkurri stofnun sé veitt slíkt vald eða að slíkt orðalag sé notað í lögum um stofnanir, sem eiga að gera till. til fjárveitinga í sambandi við fjárlög. Hitt er annað mál, að það getur verið eðlilegt að segja, til þess að taka af allan vafa um það, að það sé þjóðleikhúsráð, sem gangi frá fjárhagsáætlun Þjóðleikhússins, þá sé það þjóðleikhúsráðið. Það er efnislega ekkert óeðlilegt, að gert sé ráð fyrir því, að það semji till. til menntmrn. og síðan fjmrn. En ég held nú, ef maður fer að athuga þetta nánar, að þetta sé ákaflega óeðlilegt orðalag, ef við erum sammála um þann skilning, sem mér skildist, að hv. formaður nefndarinnar legði í þetta, að auðvitað getur ekki komið til mála, að Alþ. veiti þessu ráði það vald að ákveða fjárveitingarnar sjálfu, heldur megi það aðeins gera áætlun, en Alþ. meti síðan með eðlilegum hætti, hve miklu það vill verja til stofnunarinnar.