09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

21. mál, landhelgismál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sú þáltill., sem ríkisstj. ber fram á þskj. 21, er samhljóða þeirri till., sem núv. stjórnarflokkar báru fram á Alþ. s.l. vor. Hún fékkst þá ekki samþykkt, þar sem nokkur ágreiningur var þá um leiðir og starfsaðferðir. Þeir þrír flokkar, sem standa að núv. ríkisstj., gengu til alþingiskosninganna s.l. vor með sameiginlega stefnuyfirlýsingu í landhelgismálinu, er var samhljóða þeirri till., er hér liggur fyrir. Þeir lögðu ríka áherzlu á það í kosningabaráttunni, að landhelgismálið væri mál málanna og kjósendur ættu framar öllu öðru að marka skýra afstöðu til þess við kjörborðið. Úrslit kosninganna urðu þau, eins og kunnugt er, að þessir flokkar hlutu sameiginlega starfhæfan meiri hl. á Alþ. og mynduðu síðan núv. ríkisstj.

Stefna núv. stjórnarflokka hlaut þannig eindreginn stuðning í kosningunum. Í málefnasamningi þeim, sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um, er landhelgismálið efst á blaði. Segir þar svo um stefnu ríkisstj. í landhelgismálinu:

„Að landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja verði sagt upp og ákvörðun tekin um útfærslu fiskveiðilandhelgi í 50 sjómílur frá grunnlínum og komi sú útfærsla til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972. Jafnframt verði ákveðin 100 sjómílna mengunarlögsaga. Ríkisstj. mun hafa samráð við stjórnarandstöðuna og gefa henni kost á að fylgjast með allri framvindu málsins.“

Rétt þótti og eðlilegt eftir atvikum að leita formlegrar staðfestingar Alþ. á þessari stefnuyfirlýsingu, og er þessi þáltill. af þeim sökum fram borin. En um leið er rétt að undirstrika, að ríkisstj. hefur af fullum krafti unnið að málinu, bæði að undirbúningi að útfærslu og að kynningu á málstað Íslendinga, þó að alþingissamþykkt væri enn ekki fyrir hendi. Rek ég þá sögu ekki hér, nema tilefni verði til síðar.

Það er aðalefni þessarar till., að fiskveiðilandhelgin skuli færð úr 12 sjómílum út í 50 sjómílur frá grunnlínum allt í kringum landið og komi sú stækkun til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972. Ég hygg, að hér sé ekki þörf á að hafa mörg orð um nauðsyn, réttmæti og lögmæti þessarar útfærslu. Ég vona, að um það efni sé út af fyrir sig ekki ágreiningur. Efnahagsleg nauðsyn á útfærslu fiskveiðimarkanna liggur í augum uppl. Eins og segir í sjálfri tillgr., hefur margvíslegri veiðitækni fleygt fram á síðustu árum og ný, stórvirk veiðitæki hafa komið til sögunnar. Það hefur þegar leitt til ofveiði á ýmsum norðlægum fiskislóðum. Sú hætta er yfirvofandi, að fiskveiðiþjóðir beini flota sínum í vaxandi mæli á Íslandsmið á næstunni, bæði vegna þess, að nálægari mið eru uppurin, og eins vegna sívaxandi mengunar. Er því fyrirsjáanleg hætta á ofveiði við Ísland á næstu árum. ef ekki er gripið í taumana í tæka tíð. Má raunar segja, að þegar séu fyrir hendi augljós merki um ofveiði. Því til sönnunar má nefna minnkandi veiðimagn ýmissa fiskstofna, sem efalaust má rekja til ofveiði. Um þetta vitna ég til álitsgerða sérfræðinga og upplýsingarita, sem ríkisstj. hefur látið dreifa út, og hef ekki um það fleiri orð hér.

Efnahagsleg afkoma og framtíðargengi íslenzku þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á fiskveiðum. Ef miðin verða eyðilögð og fiskveiðar dragast saman, er stoðum kippt undan efnahagslegri afkomu Íslendinga. Það þarf ekki að rökstyðja hér frekar, þar sem öllum er ljóst hvert grundvallaratriði fiskveiðarnar eru í þjóðarbúskap og gjaldeyrisöflun landsmanna. Má óhikað fullyrða, að engin þjóð í veröldinni sé svo háð fiskveiðum sem Íslendingar. Fiskveiðar landsmanna mega því ekki dragast saman, heldur er þvert á móti lífsnauðsyn, að þær aukist, og að því er stefnt með aukningu skipastóls. Það er beinlínis skilyrði fyrir áframhaldandi framförum og bættum lífskjörum. En hitt er jafngreinilegt, að fiskstofnarnir við Ísland þola ekki meiri veiði en nú á sér stað. Aukning á fiskveiðum Íslendinga verður því að gerast með þeim hætti, að þeir taki stærra hlutfall af veiðinni á landgrunninu en nú. En útlendingar veiða nú um helming aflans við Ísland. Þörfin fyrir útfærslu er því brýn. Þar eru lífshagsmunir þjóðarinnar í veði.

Réttmæti þess, að Íslendingar einir eigi óskoraðan rétt til fiskveiða á landgrunninu, verður ekki heldur véfengt með nokkurri sanngirni. Landgrunnið er eðlilegt framhald af landinu sjálfu og á því að tilheyra yfirráðasvæði ríkisins. Hefur það sjónarmið að því leyti verið almennt viðurkennt, að í alþjóðasamþykktinni, sem gerð var í Genf 1958 um landgrunnið, er ákveðið, að auðlindir í og á hafsbotninum á landgrunninu tilheyri viðkomandi strandríki. Það sýnist fyllilega rökrétt að sama regla gildi um náttúruauðlindir og verðmæti í hafinu yfir landgrunninu. Það verður ekki séð, að nein sanngirni sé í því að greina á milli náttúruauðlinda í hafinu yfir landgrunninu og auðæfa á sjálfum hafsbotninum. Annað er því óhugsandi en í framtíðinni verði almennt viðurkennt, að sama regla hljóti að gilda um hvort tveggja. Ég hygg, að sú skoðun eigi vaxandi fylgi að fagna meðal frjálslyndra og framsýnna þjóðréttarfræðinga. Ég held einnig, að engin þjóð eigi sterkari siðferðilegan rétt til fiskveiða á landgrunni sínu en Íslendingar.

Eins og áður er sagt, er engin þjóð um efnahag sinn og lífsafkomu jafnháð fiskveiðum og Íslendingar. Árum saman hafa fiskafurðir verið um 80-90% af útflutningi landsmanna. Ég hygg, að engin önnur þjóð komist í námunda við það. Jafnvel hjá þjóðum, sem annars eru taldar stórar fiskveiðiþjóðir, eru fiskafurðir ekki nema um það bil 10% af heildarútflutningi, svo sem dæmi mætti nefna um. Ísland hefur því í þessum efnum algera sérstöðu. Staða þess að þessu leyti til er algerlega einstök í veröldinni. Engin þjóð getur því átt betri rétt eða meiri rétt til viðáttumikillar fiskveiðilandhelgi en einmitt Íslendingar. Ísland er ekki aðeins strandríki, það er eyland. Ég held því, að þegar miðað er við allar aðstæður, sé fyrirhuguð útfærsla fiskveiðimarkanna réttmæt og í samræmi við fyllstu sanngirni.

Ég fæ ekki heldur séð, að fyrirhuguð útfærsla brjóti gegn nokkrum viðurkenndum alþjóðalögum. Það er staðreynd, að það eru ekki til neinar almennt viðurkenndar þjóðréttarreglur um víðáttu landhelgi. Það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá slíkar reglur samþykktar, fyrst á vegum gamla Þjóðabandalagsins á Haag-ráðstefnunni 1930 og síðar af hálfu Sameinuðu þjóðanna á Genfar-ráðstefnunum 1958 og 1960. En það var einmitt að frumkvæði Íslands, að þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna var falið að fjalla um landhelgi, sem leiddi síðar til þess, að áður nefndar sjóréttarráðstefnur voru kallaðar saman. En allar þessar tilraunir hafa reynzt árangurslausar. Það hefur ekki náðst samkomulag um alþjóðasamþykkt um víðáttu landhelgi, og enn er fyrirhuguð hafréttarráðstefna 1973, sem m.a. á að glíma við þetta viðfangsefni. Ekkert sýnir betur, að viðurkennt er, að alþjóðareglur eru ekki fyrir hendi. Hin fyrirhugaða ráðstefna og viðfangsefni hennar eru skýr vitnisburður um það, að þjóðirnar telja, að alþjóðlegar reglur vanti um þetta efni.

Ekki verður því heldur haldið fram með neinum rökum, að alþjóðleg venja hafi fest tiltekin mörk fyrir landhelgi almennt eða fiskveiðimörkum. Ríki hafa jafnan helgað sér misjafnlega stóra landhelgi. Svo var jafnvel á þeim tíma, er ýmsar siglingaþjóðir, þ.á.m. Bretar, héldu því fram, að þriggja sjómílna landhelgi væri alþjóðalög samkv. venju. Þeirri kenningu var algerlega varpað fyrir róða með dómi Alþjóðadómstólsins í landhelgismáli Norðmanna og Breta frá 1951 svo og í áliti þjóðréttarnefndarinnar frá 1956. Þróunin síðar hefur og verið sú, að fjölmörg ríki hafa fært landhelgi sína út, sum í 12 mílur, en önnur mun meira. Gildir þetta einnig um þau ríki, sem áður héldu fram þriggja mílna reglu. Ég hygg því, að engum detti í hug að halda því fram nú, að þriggja sjómílna regla sé helguð af alþjóðavenju. Og það er einnig fjarri lagi að staðhæfa, að 12 sjómílur séu alþjóðavenja. Slíkt er ekki hægt, þegar það er staðreynd, að 20 ríki a.m.k. eða yfir 20 ríki telja sér viðáttumeiri landhelgi en 12 sjómílur, sum jafnvel allt upp í 200 sjómílur. Það er ekki kunnugt, að gripið hafi verið til neinna sérstakra aðgerða gegn þeim ríkjum. Við þessar aðstæður er vitaskuld vonlaust að ætla að halda því fram, að alþjóðavenja sé til um víðáttu landhelgi. Alþjóðleg regla um víðáttu landhelgi verður ekki heldur leidd af grundvallarreglum þjóðaréttar, enda mun naumast nokkur halda því fram.

Þar sem í þjóðaréttinum er ekki að finna neina almennt viðurkennda reglu um víðáttu landhelgi, hlýtur það að vera á valdi hvers ríkis að ákveða landhelgi sína innan hæfilegra marka. Þannig hafa og þjóðir yfirleitt ákveðið landhelgi sína með einhliða ákvörðun, og á það jafnt við um lögsögulandhelgi og fiskveiðilandhelgi. Þannig lýstu einstök ríki einhliða rétti sínum til landgrunnsins að því er auðæfi á hafsbotninum varðar, áður en við nokkra alþjóðasamþykkt var að styðjast í því efni, sbr. hina frægu yfirlýsingu Trumans Bandaríkjaforseta á sínum tíma.

Þegar tillit er tekið til þeirra reglna, sem ýmis ríki hafa sett um viðáttu landhelgi í dag, ætti öllum að vera ljóst, að fyrirhuguð landhelgisákvörðun Íslendinga að því er fiskveiðar varðar er innan hæfilegra marka, og má í því sambandi skírskota til efnahagslegra, líffræðilegra og sögulegra raka. Með landgrunnslögunum svonefndu, nr. 44 1948, þ.e. lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, lýstu Íslendingar í rauninni yfir rétti sínum til landgrunnsins alls, þó að ákvarðanir um fiskveiðar á því væru þá eigi látnar koma til framkvæmda, en nefnd lagasetning hvílir ljóslega á þeirri forsendu, að allt landgrunnið tilheyri íslenzku yfirráðasvæði, enda hafa allar útfærslur fiskveiðimarka síðan, þ.e.1950, 1952 og 1958, verið ákveðnar samkv. þeim lögum og með skírskotun til þeirra. Samþykkt Alþ. frá 5. maí 1959 ber og þeirri réttarskoðun ótvírætt vitni, að landgrunnið umhverfis Ísland tilheyri íslenzku yfirráðasvæði. Í þessari samþykkt er því lýst, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Áður nefnd lög nr. 44 frá 1948 eru enn í fullu gildi. Á þeim verður útfærslan væntanlega enn byggð, og auðvitað verður engum rétti glatað, þó að fiskveiðilögsagan verði eigi nú fremur en áður teygð til endimarka landgrunnsins.

Fyrirhuguð útfærsla fiskveiðimarkanna verður því byggð á landgrunnsstefnunni, þeirri stefnu, að landgrunnið allt umhverfis Ísland tilheyri Íslandi. Það er hér ágreiningslaust. Á því er byggt í íslenzkum lögum. Sú skoðun er staðfest af Alþ., eins og áður er sagt. Ég álít, að þar um sé ný lagasetning óþörf, þó að auðvitað megi segja, að staðfesting með nýjum lögum geti ekki skaðað. En verndarmörk fiskimiðanna, fiskveiðimörkin, verða að þessu sinni bundin við 50 sjómílur, svo sem segir í þessari þáltill.

Það skal skýrt tekið fram, að fyrirhuguð útfærsla varðar aðeins fiskveiðimörkin. Hún haggar því ekki á neinn hátt við siglingafrelsi. Það er alger misskilningur, þegar verið er að láta liggja að því og þegar reynt er að gera hina fyrirhuguðu útfærslu tortryggilega af þeim sökum. Hin almenna landhelgi við Ísland verður eftir sem áður óbreytt, 4 sjómílur.

Annað atriði þessarar þáltill. er það, að landhelgissamningunum við Breta og V.-Þjóðverja frá 1961 skuli sagt upp. Sú ákvörðun er byggð á þeirri skoðun, að þessir samningar hafi þegar þjónað sínum aðaltilgangi, þar sem nefndar þjóðir hafa til fulls notið þess umþóttunartíma, sem þeim var áskilinn og aðalatriðið var í þeim samningum. Í annan stað teljum við sex mánaða tilkynningarskylduna og úrskurðarvald Alþjóðadómstólsins um alla ókomna tíð óeðlilegt haft, sem einsýnt sé, að Íslendingar þurfi að leysast undan. Við teljum ágreiningsmál af þessu tagi illa fallin til úrskurðar Alþjóðadómstólsins. Hér er fremur um pólitískt en lögfræðilegt mál að ræða. Dómstóllinn hefur ekki við ákveðnar reglur að styðjast og mundi því nánast fara með hlutverk eins konar gerðardóms í þessu falli. Dómstólnum væri og vissulega vandi á höndum, þegar verið er að vinna að undirbúningi alþjóðasamþykktar um hafréttarreglur. Mestu ræður þó, að hér er um þess konar lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar að tefla, tilverurétt hennar, má segja, að hún getur ekki sætt sig við að fela öðrum. hvorki öðrum ríkjum né alþjóðastofnunum, ákvörðunarvald um það. Þess vegna viljum við segja þessum samningum upp.

Í þessum landhelgissamningum við Breta og V.- Þjóðverja eru að vísu engin uppsagnarákvæði. Samt getum við ekki fallizt á, að þeir séu einhverjir eilífðarsamningar. Við teljum, að þeim hljóti að vera hægt að segja upp með hæfilegum fyrirvara. Við bendum í því sambandi á, að þessir samningar voru gerðir við ákaflega erfiðar og óvenjulegar kringumstæður. Enn fremur bendum við á, að aðstæður allar eru gerbreyttar frá því, að þeir voru gerðir, bæði að því er varðar fiskveiðar og fiskveiðitækni og réttarskoðun í landhelgismálum. Er vægast sagt ólíklegt, að þeir hefðu verið gerðir, ef mönnum hefði þá verið ljóst, hver framvindan mundi verða. Þessi rök þarf ekki að þylja hér Íslendinga vegna. Allir stjórnmálaflokkar hafa lýst þeirri skoðun sinni, að þessir samningar séu uppsegjanlegir þrátt fyrir vöntun sérstaks uppsagnarákvæðis. Gagnaðilar okkar munu hins vegar vera á annarri skoðun eða láta a.m.k. svo, sem út af fyrir sig er skiljanlegt. Verður þó í lengstu lög að vona, að þeir haldi þeim skilningi ekki til streitu. þegar málið hefur verið skoðað ofan í kjölinn.

Á hinn bóginn þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að fyrirhuguð útfærsla okkar á fiskveiðimörkunum mætir andstöðu af hálfu ýmissa ríkja, jafnvel af hálfu þjóðar, sem ætti þó af ýmsum ástæðum að hafa ríkan skilning á okkar högum. Auðvitað þurfum við ekki að kippa okkur upp við það, þó að útfærslu sé mótmælt. Bretar hafa t.d. mótmælt og gripið til gagnaðgerða, þegar við höfum fært út fiskveiðitakmörk okkar, bæði 1952 og 1958. í bæði skiptin hafa þeir talið, að við værum að brjóta alþjóðalög. Í bæði skiptin hafa þeir þó orðið að hverfa frá mótmælum sínum. Sú saga er alkunn og mönnum í fersku minni og verður hér eigi rakin frekar að sinni.

Þegar spurt er um það, hvað sé hæfilegur uppsagnarfrestur á þessum samningum. sýnist eðlilegt að miða við þann tímafrest, sem settur er tilkynningarskyldunni í samningunum, þ.e. sex mánaða frest. Því skal að sjálfsögðu ekki neitað, að Bretar hafa hér nokkurra hagsmuna að gæta. Þeir hafa lengi veitt á Íslandsmiðum. stundum í skjóli ofríkis. Þeir veiða hér meira en aðrar erlendar þjóðir. Þó eru þeirra hagsmunir í sambandi við þessar veiðar litlir, þegar á heildina er litið og í samanburði við hagsmuni Íslendinga. Afkoma einstakra brezkra útgerðarborga kann þó enn að einhverju verulegu leyti að vera tengd fiskveiðum á Íslandsmiðum. En hvað ætli það yrði lengi, ef ekkert væri að gert og ofveiði og rányrkja væri stunduð á fiskimiðum landgrunnsins og þau uppurin? Hvaða gagn hefðu þeir af gereyddum fiskimiðum? Eigi að síður er sjálfsagt að skoða stöðu og sjónarmið þessara útgerðarstaða og athuga, hver tök eru á að draga úr þeirri röskun og aðstöðumissi, sem þeir kunna að verða fyrir vegna útfærslu fiskveiðimarkanna. Er því sjálfsagt að ræða þessi mál við Breta og V.-Þjóðverja, sem hér eiga einnig nokkurn hlut að máli. Hafa slíkar viðræður þegar verið hafnar. Verður að vona, að þar takist að finna skynsamlega lausn á þeim hagsmunaágreiningi, sem hér er um að ræða. Við viljum vissulega mikið á okkur leggja til þess að halda áfram sem allra beztum samskiptum við Breta og V.-Þjóðverja, sem frá fornu fari eru meðal okkar heztu viðskiptaþjóða.

Hins vegar er rétt að taka það fram, að fyrirhuguð útfærsla af okkar hálfu getur með engu móti komið þessum þjóðum á óvart. Ákvæðið í landhelgissamningunum um sex mánaða tilkynningarskyldu, ef til útfærslu kemur, sýnir það einmitt, að gert er ráð fyrir því. að til útfærslu geti komið. Enn fremur er því þar berum orðum yfir lýst, að ríkisstjórn Íslands muni halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Þessar þjóðir hafa því vissulega mátt reikna með því, að til útfærslu kæmi af Íslendinga hálfu og það fyrr en seinna.

Það væri rangt að gera lítið úr þeim mótbyr, sem við megum vænta úr ýmsum áttum í landhelgismálinu, og þá ekki hvað sízt frá gömlum forréttindaþjóðum. Við skulum ekki gera okkur neinar gyllivonir um fyrirhafnarlausan sigur. Við skulum þvert á móti gera ráð fyrir langri og strangri baráttu. En um úrslitin verður ekki efazt, ef við sjálfir stöndum nægilega fast saman og villumst eigi af vegi. Og eitt er alveg víst, að því meiri einhugur sem hjá okkur sjálfum ríkir um málið, því auðunnari verður sigurinn.

Ég held, að þjóðin sé nær undantekningarlaust einhuga í þessu máli. Þann einhug þarf með öllu móti að efla. Ég vona, að stjórnarandstöðuflokkarnir fylki sér í þessu máli við hlið stjórnarflokkanna og ríkisstj. Ég held, að af þeirra hálfu hafi ekkert það verið sagt, sem gerir þeim það erfitt. Það væri mikill óvinafagnaður, ef menn færu að stofna til ágreinings út af aukaatriðum. sem vitaskuld geta verið álitamál og ég ætla alveg að svo stöddu að sneiða hjá að ræða. En það vil ég segja, að þeir, sem nú fara að hengja sig í aukaatriði í sambandi við þetta mál og stofna með þeim hætti til ágreinings, ganga erinda úrtölumanna.

Það er hér með öllu ástæðulaust að fara að eltast við eða rifja það upp, sem borið kann að hafa á góma í kappsfullri kosningabaráttu. Það er í því fólginn ómetanlegur styrkur, að við sýnum það út á við, að við stöndum allir saman. Á það er lögð áherzla í þessari þáltill. með skipun sérstakrar þingmannanefndar til að vinna að málinu ásamt stjórninni. Og vilja sinn til samstöðu hefur ríkisstj. sýnt með stofnun landhelgisnefndarinnar. Þar hafa stjórnarandstæðingar getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri, og hafa þeir sjálfir sagt, að þar hafi verið tekið tillit til þeirra ábendinga. Ég fullyrði, að þar hefur ekki í neinu verið farið á bak við þá.

Þó að við kunnum að eiga erfiða baráttu fyrir höndum. þá er okkur það mikill styrkur að vita, að við stöndum ekki einir, við eigum bandamenn. Það eru margar aðrar þjóðir en Íslendingar, sem stefna að stækkun landhelgi eða hafa fært landhelgi sína út, jafnvel enn meira en við ráðgerum. Við þurfum að leita eftir samstöðu við þessar þjóðir. Það hefur verið gert, og að því mun verða unnið, m.a. í undirbúningsnefnd hinnar fyrirhuguðu hafréttarráðstefnu, svo og á öðrum vettvangi. Fyrir því er sérstaklega gert ráð í þessari þáltill. Þar segir svo: „Þá felur Alþ. ríkisstj. að hafa á alþjóðlegum vettvangi sem nánast samstarf við þær þjóðir, sem lengst vilja ganga og miða vilja mörk fiskveiðilandhelgi við landfræðilegar, jarðfræðilegar, líffræðilegar og félags- og efnahagslegar aðstæður og þarfir íbúa viðkomandi strandríkis.“ Okkur ber að vinna með þessum þjóðum að þeirri þróun þjóðaréttar, sem styður okkar málstað. Og fram að þessu hefur þróunin í þjóðarétti verið okkur hagstæð, að því er til landhelgismála tekur. En að sjálfsögðu er það svo á því sviði eins og á svo mörgum öðrum. að þjóðarétturinn er fyrst og fremst skapaður af hinum eldri og voldugri þjóðum. Það er ósköp skiljanlegt út frá hreinu hagsmunasjónarmiði, að þær þjóðir kjósi tiltölulega þrönga landhelgi og sem mest svigrúm til fiskveiða fjarri heimaströndum. Þær hafa aðstöðuna til að notfæra sér slíkt svigrúm eða frelsi, ef menn vilja kalla það svo. Frá sjónarmiði fátækra þjóða og nýrri ríkja horfir málið öðruvísi við. Þær berjast yfirleitt fyrir stærri landhelgi. Með þeim þjóðum eigum við Íslendingar samleið í þessu efni.

Ein er sú spurning, sem oftlega er lögð fyrir okkur í sambandi við þetta mál: Hvers vegna bíðið þið ekki eftir hinni fyrirhuguðu hafréttarráðstefnu 1973 og sjáið til, hvað þar gerist? Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg spurning. Og vel má vera, að sumum ókunnugum gangi illa að skilja, að við skulum ekki geta beðið. En við verðum að svara því til, að málið er að okkar dómi svo aðkallandi, að það þolir ekki slíka bið. Við teljum suma fiskstofna í yfirvofandi hættu. Það eru alveg síðustu forvöð að gera vissar verndar- eða friðunarráðstafanir og setja reglur um skynsamlega hagnýtingu fiskimiða landgrunnsins. Það er á okkar valdi að setja slíkar reglur upp á eindæmi, er fiskveiðimörkin hafa verið færð út. En það er of seint að grípa í taumana, þegar fiskstofnarnir hafa verið eyðilagðir og miðin eru uppurin. Við getum ekki tekið slíka áhættu, enda er með öllu óvíst, að ráðstefnan verði haldin 1973. Margir telja líklegt, að henni verði frestað. Enn fremur minnum við á, að það hefur áður verið sagt við okkur að bíða. Það var gert fyrir ráðstefnuna 1958. Við biðum, en á ráðstefnunni 1958 náðist engin lausn. Þá urðum við að gripa til okkar ráða og færa út þrátt fyrir mótmæli ýmissa þjóða. Þá er og á það að líta, að það er yfirlýst stefna tiltekinna stórvelda að fá 12 sjómílna landhelgi samþykkta á ráðstefnunni sem alþjóðalög. Þótt ekki séu miklar líkur til, að slíkt takist, er ekki leyfilegt að loka augunum fyrir þeim möguleika. Ef svo færi, væri erfitt um vik á eftir. Hins vegar er hugsanlegt, að jafnvel í því falli yrðu ríki ekki skylduð til að stíga til baka þau skref, sem þau hefðu þegar stigið, og gætu því e.t.v. haldið þeirri landhelgi, sem þau hefðu þegar ákveðið, enda þótt víðáttumeiri væri.

Þetta eru meginástæðurnar fyrir því, að við getum ekki haldið að okkur höndum og beðið, enda er reynslan sú, að í þessu efni hefur aldrei neitt áunnizt nema með ákveðnum aðgerðum af Íslendinga hálfu. Það lætur út af fyrir sig ekki illa í eyrum, að útfærslu fiskveiðimarka eigi að byggja á alþjóðasamningi og ekki verði viðurkennd útfærsla, nema hún byggist á alþjóðlegum samningi. En ég spyr: Hvaða útfærsla og hvenær hefur átt sér stað þannig? Ég þekki ekki til þess. Hafa stórveldin stuðzt við slíkan alþjóðasamning, þegar þau hafa fært út hjá sér? Nei, ég held ekki. Nei, í þessum efnum hafa Íslendingar ætíð þurft að berjast fyrir rétti sínum. Þeir hafa engum áfanga náð öðruvísi. Þeir verða enn að tala það mál, að viðmælendur okkar skilji, að okkur er alvara. Þar dugir engin tæpitunga. Hún hefur aldrei dugað í sjálfstæðismálum Íslendinga, en hér er í rauninni um sjálfstæðismál að ræða. Við getum ekki sætt okkur við það, að okkur sé ætlað að fara eftir einhverjum ímynduðum réttarreglum, sem önnur ríki hafa ekki farið eftir, þegar þau hafa fært út hjá sér eða helgað sér landgrunnsbotn eða auðlindir þar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um nauðsyn l00 sjómílna mengunarlögsögu, enda má segja, að hún hafi að nokkru leyti nú þegar verið lögtekin með lögum nr. 77 frá 1966, sbr. sérstaklega Viðauka A, 2. gr. í þeim samningi, sem lögfestur er með þeim lögum um bannsvæði að því er til olíumengunar tekur, en þar segir: „Íslenzka svæðið skal ná yfir 100 mílna vegalengd þaðan, sem stytzt er til lands meðfram strönd Íslands.“ Þá er og þess að geta, að á 12 ríkja ráðstefnu, sem haldin var í Osló í s.l. mánuði og Ísland tók þátt í, var gerð samþykkt um eftirlit með mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum. Þar er lagt bann við losun allra úrgangsefna innan 150 mílna frá landi. Þegar sú samþykkt hefur tekið gildi, má e.t.v. segja, að þessu stefnumarki stjórnarinnar, þ.e. að. því er til mengunarlögsögunnar tekur, sé fullnægt. Um þetta atriði þáltill. ræði ég því ekki frekar hér.

Landhelgismálið er stærsta mál þjóðarinnar um þessar mundir. Þess vegna setur ríkisstj. það ofar öllum öðrum málum. Það verður vafalaust erfitt mál á marga lund. Sjálfsagt getum við búizt við ýmsum stundaróþægindum í sambandi við það. Ég vil þó ekki að óreyndu ætla neinni þjóð það, að hún fari að reyna að beygja okkur með beitingu efnahagslegra þvingunaraðgerða. Slíkar aðgerðir, ef til kæmu, mundu valda öllum vonbrigðum og gætu aldrei gert nema ógagn. Við Íslendingar munum standa fast á rétti okkar. Við munum sækja mál okkar með einbeitni og festu, en þó einnig með nægilegri gætni. Við vonum. að með þeim hætti fáist farsæl lausn á þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Við vonum, að aðrar þjóðir skilji, þegar málavextir hafa nægilega verið kynntir þeim, að hér er um sjálfan tilverugrundvöll og sjálfstæðisskilyrði litillar þjóðar að ræða.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til. að till. verði vísað til utanrmn.umr. þessari lokinni.