09.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3374)

21. mál, landhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég mun hafa látið orð um það falla fyrir kosningar í sumar, að ég gerði ekki ráð fyrir, að miklar deilur yrðu um landhelgismálið að kosningum loknum, hvernig sem þær færu. Ég hef áður hér í þinginu átalið stjórnarflokkana fyrir að hafa fallið fyrir þeirri freistingu að vilja hagnýta sér þetta stóra lífshagsmunamál þjóðarinnar sem pólitískt kosningamál í kosningunum í vor. Ég endurtek ekkert af því, sem ég sagði um það, að ég hafi talið það þeim lítið til sóma, og ég geri það enn. Ég held, að í svona máli vaxi enginn af því að frýja hinum hugar og ganga til kosninga með þann áróður uppi í erminni, að aðrir séu eitthvað minni Íslendingar og deigari í baráttu fyrir lífshagsmunamálum þjóðarinnar, en þeir sjálfir, eins og gert var, þegar fulltrúar stjórnarflokkanna nú leyfðu sér að halda því fram. oft og tíðum á mjög vafasaman hátt og ekki viturlega, að fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. væru ekki heilir í þessu máli og ekkert mundi verða gert í landhelgismálinu, ef þeir héldu áfram sinni ríkisstj. eða væru áfram við völd. Ég vil í framhaldi af þessu segja, að mjög mikið af því, sem hæstv. forsrh. hélt fram í sinni ræðu, er umdeilulaust af minni hálfu. en hins vegar eru þó viss atriði, sem ekki verður komizt hjá að festa sjónir við og benda á, en ég ætla að vona, að ekkert af því, sem ég segi um þetta mál, geti leitt til þess að veikja á nokkurn hátt okkar samstöðu og styrk sem þjóðar í landhelgismálinu. Ég hef bæði fyrir kosningar og eftir reynt að haga mínum orðum. sem ég hef talað á opinberum vettvangi, út frá því sjónarmiði.

Hæstv. forsrh. sagði, að margt hefði verið gert til að kynna landhelgismálið, og það er gott, og að undirbúa útvíkkun landhelginnar, þó að engin alþingissamþykkt væri fyrir hendi. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. forsrh., að engin alþingissamþykkt sé fyrir hendi. Það er alþingissamþykkt fyrir hendi frá s.l. Alþ. um réttindi íslendinga í hafinu umhverfis landið, og samkvæmt þeirri samþykkt var kosin hér á síðasta þingi fimm manna nefnd til þess að undirbúa frv. og leggja fyrir Alþ., og í þessu frv. áttu að vera þessi þrjú meginatriði, með leyfi hæstv. forseta:

1. Skilgreining á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 m dýptarlínu, jafndýptarlínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um að hagstæðast þyki.

2. Ákvæði um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða í hafinu yfir landgrunninu eins og rétturinn til hafsbotnsins hefur þegar verið tryggður með lögum frá 24. marz 1969 um yfirráðarétt Íslands yfir landgrunninu umhverfis landið.

3. Ákvæði um ráðstafanir, er séu nægjanlega víðtækar til þess að tryggja eftirlit af Íslands hálfu og varnir gegn því, að hafið umhverfis Ísland geti orðið fyrir skaðlegum mengunaráhrifum úrgangsefna frá skipum eða af öðrum ástæðum.

Þá voru einnig ákvæði í þessari þáltill. um verndarsvæði á uppeldisstöðvum fisks og hrygningarsvæði. Þetta frv. lægi fyrir Alþ. nú. ef fyrrverandi stjórnarflokkar hefðu áfram farið með völd í þinginu. Nefndin átti að undirbúa þetta frv. með þessum grundvallaratriðum. að helga okkur allt landgrunnið, og leggja það fyrir þingið. Ég hef óskað eftir því, að þessi nefnd héldi fundi og semdi fr., eins og var fyrir hana lagt. Hæstv. sjútvrh. hefur nú verið fjarverandi upp á síðkastið, og annir hafa verið miklar, eftir að þingið hefur komið saman, en ég legg mikla áherzlu á það, að þessi nefnd skili þessu verki, sem henni var falið, og ég álít, að það sé ekki flókið verk eða margbrotið að semja frv. til laga um landhelgi Íslands. Við höfum að vísu ákveðið landhelgina með reglugerð fram að þessu, en við höfum grunnlínurnar og grunnlínupunktana, og reglugerðin miðar við það, að frá þessum og þessum grunnlínupunktum skuli vera 12 mílur. Ef menn sættast á 50 mílur. eru það 50 mílur eða 400 m jafndýptarlínur, ef menn sættast á það, frá þessum grunnlínupunktum. Og það. sem mestu máli skiptir í frv. til laga um landhelgi Íslands, er að lýsa því yfir afdráttarlaust að á öllu landgrunni Íslands sé fiskveiðilandhelgi Íslendinga eftir þeim ákvæðum. sem tiltekin eru í þessum lögum. og öðrum lögum og reglugerðum, sem settar kunna að verða.

Ég geri ekki lítið úr landgrunnslögunum frá 1948. Það er alveg réttilegt hjá hæstv. forsrh., að með þeim hófst einmitt sóknin í landhelgismálinu, og það var árangur af því, að ákveðið var að hefja sókn í landhelgismálinu í tíð Ólafs Thors, í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, og gerðar ráðstafanir til þess að undirbúa löggjöf og áróður af okkar hálfu á erlendum vettvangi. Landgrunnslögin frá 1948, sem Jóhann Þ. Jósefsson sem sjútvrh. hafði forgöngu um að sett voru, voru árangur af þeirri sókn, sem þarna var hafin. Það var líka árangur af þessari sókn, að landhelgissamningnum við Breta, sem Danir gerðu við þá fyrir okkar hönd 1901 um þriggja mílna landhelgi, var sagt upp 1949. Við Íslendingar gátum sagt honum upp með tveggja ára fyrirvara frá 1. des. 1918, þegar við vorum fullvalda, en það hafði nú vafizt fyrir mönnum. og það var ekki fyrr en þessi sókn, sem sjálfstæðismenn höfðu forgöngu um öðrum fremur, var hafin, að til þessara aðgerða kom og landhelgissamningnum var sagt upp og landgrunnslögin sett. Það er m.a. af þessum ástæðum æði hart að þurfa að liggja undir ásökunum fyrir einhverjar úrtölur í tengslum við landhelgismál okkar.

Nú tókum við sjálfstæðismenn og einnig Alþfl. heilum huga tilboði núv. hæstv. ríkisstj. um samvinnu í svo kallaðri landhelgisnefnd um landhelgismálið, skömmu eftir að ríkisstj. tók við völdum. Og það er rétt, sem hæstv. forsrh. vék að, að við höfum talið, að tillit hafi verið tekið til okkar um vis atriði einmitt í þessari nefnd, en hitt segi ég um leið, að það eru vankantar á því, hvernig samráð og samstarf hefur verið haft við stjórnarandstöðuna að mínum dómi eða a.m.k. Sjálfstfl. og ég geri ráð fyrir, að svipuð viðbrögð séu hjá Alþfl.–mönnum að þessu leyti. Ég tel það t.d. hafa verið mjög misráðið að tilkynna okkur þremur dögum fyrir þing, að ætlun stjórnarinnar væri að flytja orði til orðs óbreytta ályktunina frá síðasta Alþ., en gera ekki tilraun til þess innan landhelgisnefndarinnar að ná samstöðu um eina og sömu till. í landhelgismálinu, því að það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er ekki vitað, að ágreiningur sé um meginatriði í þessu máli. Það eru viss formsatriði og minni háttar atriði, sem menn greindi á um og menn höfðu skiptar skoðanir á fyrir kosningar, og það eru nokkur atriði enn, en það er einmitt mikil ástæða til þess að reyna að ryðja þessum ágreiningi okkar sjálfra úr vegi og það er mín einlæg ósk og von, að svo verði gert, áður en Alþ. endanlega afgreiðir þetta mál.

Þessi till. til þál., sem nú er borin fram og endurflutt á Alþ., er ekki raunverulega nema þrjú atriði. Það er að gera stjórnum Bretlands og V.-Þýzkalands grein fyrir því, að vegna lífshagsmuna þjóðarinnar og vegna breyttra aðstæðna geti samningarnir við þá frá 1961 ekki talizt hindandi fyrir Ísland og þeim verði sagt upp. Stjórnarflokkarnir hafa tekið þessa ákvörðun og segja þessum samningum upp. Það er ekkert í þessum samningum lengur, sem hægt er að segja upp, annað en það, að Bretar og Þjóðverjar eru skuldbundnir, eins og við, ef við deilum, að leggja ágreining um útfærslu fyrir alþjóðadómstól. Auðvitað geta menn haft skiptar skoðanir um það, hvort ástæða sé til þess, og einnig hvort réttmætt sé að segja samningunum upp. Það er auðvitað rétt, að þó að ekkert uppsagnarákvæði sé í samningunum. eru þeir uppsegjanlegir samkvæmt almennum reglum um þjóðarétt, ef verulegar breytingar eða brostnar forsendur eru fyrir hendi, alveg á sama hátt og var sýnt fram á hér í þinginu á sínum tíma, að það eru engin ákvæði um það, hvernig við eigum að komast úr Sameinuðu þjóðunum, sem við höfum tekið þátt í. En við getum auðvitað farið úr þeim, ef við höfum sómasamlegar ástæður fram að flytja, brostnar forsendur eða verulega breyttar kringumstæður fyrir veru okkar þar. En þær verðum við að hafa, og vissulega eru mjög veigamiklar og mjög mikilvægar forsendur eða kringumstæður breyttar frá því, að þessir samningar voru gerðir, og ég er ekki í neinum efa um það, að frá því sjónarmiði séð höfum við almennan rétt til uppsagnar á þessum samningum. Það er svo annað mál, hvort rétt er að segja upp þessu ákvæði, sem leggur skuldbindingar á herðar Breta og V.-Þjóðverja og ekki okkur. Ég skal ekki tjá mig um það að svo komnu máli. En ég bara bendi á það, að við höfðum skýringu á sínum tíma, 1961, að ef við tilkynntum Bretum og Þjóðverjum um útfærslu, sem eins og hæstv. forsrh. benti á, var gert ráð fyrir í samningunum, yrðu þeir að hlíta þeirri útfærslu og mættu ekki beita okkur ofbeldi, eins og þeir höfðu gert, þangað til, ef til þess kæmi, að alþjóðadómstóllinn dæmdi í málinu á milli okkar þannig, að við hefðum haft rangt fyrir okkur, en á meðan yrðu þeir að sæta þessari útfærslu. Mér er ekki kunnugt um, að Bretar og Þjóðverjar hafi undir meðferð málsins 1961 nokkru sinni gert neina aths. við þetta, og ég veit ekki heldur til þess á síðara stigi málsins.

Þá er okkar túlkun á þessu atriði, sem er mjög veigamikið. Menn, sem hafa þá skoðun á rétti okkar eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., og þar dreg ég ekkert úr, þeir kynnu náttúrlega að vilja hugsa sig um tvisvar, áður en þeir slepptu öðru stórveldinu við skuldbindingar um að ganga undir dóm í deilum, sem kynnu að skapast á milli okkar. Sjálfur er ég alveg sannfærður um, að það er hvert orð satt af því, sem við sögðum fyrir kosningar, þeir sem héldu því fram, að „tíminn vinnur sterklega fyrir okkur“. Það er að þróast mjög ört alþjóðarétturinn til hags fyrir okkur, sem bendir í æ ríkara mæli til þess, að staða okkar Íslendinga væri fullkomlega nægjanlega sterk fyrir alþjóðadómi, til þess að við þyrftum ekkert að óttast hann. Hins vegar standa málin hjá okkur þannig núna, að það standa yfir viðræður milli Íslendinga, Breta og Vestur-Þjóðverja, og þær viðræður hljóta að hafa þann tilgang, að þess sé freistað að finna leiðir til þess að losna við ágreining. Meðan niðurstöður þeirra viðræðna liggja ekki fyrir, er ástæðulaust að taka ákvarðanir um eða afstöðu til þessa atriðis, sem er þó einn af veigameiri þáttunum í þáltill., og munum við leggja áherzlu á það, sjálfstæðismenn, að okkur sé gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra viðræðna, áður en ákvörðun eða afstaða sé tekin í máli eins og þessu. Þessar viðræður eru nýhafnar. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar sérstakar um þær, ekki í landhelgisnefnd og ekki í utanrmn. enn þá, og það getur verið full ástæða til þess hjá hæstv. ríkisstj. Ég get ekki dæmt um það. Þessar viðræður eru á byrjunarstigi, og þykir kannske ekki tímabært enn að gefa stjórnarandstöðunni upplýsingar um það, hvert líklegt sé, að þær stefni, og kannske ekki heldur ljóst, en við höfum heyrt það í almennum fréttum, að viðræður við Breta muni halda áfram í des. eða e.t.v. í jan.

Annað atriði tillagna hæstv. ríkisstj. er að miða landhelgina við 50 mílur. Það eru önnur fyrirmæli en þau, sem Alþ. hafði gefið nefndinni, sem ég talaði um áðan, á s.l. þingi. Þar var fyrst og fremst miðað við minnst 50 mílur, en e.t.v. meira, ef við miðuðum við 400 m jafndýpislinu.

Það voru ein ummæli, sem féllu í ræðu hæstv. forsrh., sem ég tel, að þurfi frekari útskýringar við hér í þinginu, þar sem hæstv. ráðh. komst að orði eitthvað á þá leið, að þeir, sem væru að hengja sig í aukaatriði, gengju erinda úrtölumanna. Mér er ekki kunnugt um, að neinir séu að hengja sig í aukaatriði hér í málinu, og þess vegna skal ég ekki nánar fara út í þetta, en það krefst auðvitað frekari skýringar, hvað hæstv. forsrh. á við með þessu.

Þriðja atriðið í þessari ályktun er svo um 100 mílna mengunarlögsögu. Það er veikt ákvæði. Það var hafin í tíð fyrrv. ríkisstj. samvinna við erlendar þjóðir um að forða frá mengun hafsins með sameiginlegum ráðstöfunum, og hæstv. forsrh. vísaði til 12 ríkja ráðstefnu, sem nýlega var haldin í Osló, sem bar mjög góðan árangur og mun bera þann árangur, að í raun og veru verður Atlantshafinu lokað frá suðurodda Grænlands og suður undir Gíbraltar algerlega og norður og austur fyrir Noreg og settar ákveðnar reglur af þessum þjóðum, sem allar taka sameiginlega ábyrgð á og hvert ríki fyrir sig, að þeim reglum verði framfylgt. Þar voru svo vissar samþykktir einnig um 150 mílna svæði út frá ströndum, sem ekki mætti henda í tilteknum efnum, ákveðnum og tilteknum efnum, sem talin eru hættuleg, og ákvörðun um 100 mílna mengunarlögsögu undir þessum kringumstæðum hjá okkur finnst mér of veik og býður aðeins upp á, að sagt sé sem svo: Ja, þeir eru bara að hugsa um þessar 100 mílur, og því ekki þá að henda einhverju frá sér rétt fyrir utan 100 mílurnar? En við vonum, að það komi ekki til þess og þær alþjóðasamþykktir, sem eru á ferðinni í sambandi við þessa 12 landa ráðstefnu og ráðagerðir, leiði til þess, að svo verði ekki. En þá er auðvitað miklu skynsamlegra að framfylgja því, sem er í alþingissamþykktinni í dag, að gera nægjanlegar ráðstafanir, eins og unnið hefur verið að og með góðum árangri, til þess að tryggja eftirlitið af Íslands hálfu og varnir gegn mengun sjávarins. Ég er alveg viss um það, að ef leitað hefði verið eftir, áður en þingið kom saman, samstöðu um breytingu á orðalagi á atriðum sem þessum, þá átti það að vera alveg vandalaust. Hæstv. forsrh. óskar eftir því, að við fylkjum okkur, stjórnarandstæðingar, við hlið stjórnarflokkanna og ríkisstj. Ég ætla að gera hæstv. forsrh. sams konar tilboð. Þeir eru velkomnir við hlið okkar, þar sem greinir á í þessum málum í landhelgismálinu. Og það er nú bitamunur en ekki bagga á stjórn og stjórnarandstöðu nú sem endranær. Við skulum fylkja liði allir saman og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málinu, sem farsælast mun reynast fyrir alla aðila.

Auðvitað fer þessi till. hæstv. ríkisstj. til utanrmn., og þar munum við fyrir okkar leyti, eftir því sem við getum, reyna að ná samstöðu um viss atriði og breytingar, sem við teldum, að væru mjög æskilegar og ríkisstj. og stjórnarliðinu væri innan handar að fallast á. En það er einmitt af því, að svona var staðið að þessu máli. að við höfum, sjálfstæðismenn, talið okkur knúna til þess að flytja sérstaka till. núna á yfirstandandi þingi, sem er áréttun á fyrri till. okkar, en þó í öðru formi og nokkuð öðru efni, á þskj. 56. Ég skal nú ekki víkja neitt að efni hennar. Það verður sérstaklega rætt hér. En ég vil þó vekja athygli á því, að þar erum við að sýna lit í því að nálgast sjónarmið stjórnarflokkanna og breyta þar til, frá fyrri ályktun, sem er í gildi enn og markaði afstöðu okkar fyrir kosninganna,. þar sem ákvæði er um það í þessari ályktun, að í næstu þrjú ár sé almenn yfirlýsing um það, að erlendum fiskiskipum sé heimilt að stunda veiðar upp að 50 mílna mörkunum frá grunnlínum, nema þar sem sérstök friðunarsvæði kynnu að verða ákveðin innan þeirra marka. En þetta er þó tilraun af okkar hálfu til þess að nálgast það, að ef mönnum þykir æskilegra að hverfa ekki úr þessu frá 50 mílunum. Þá getum við þó allir verið á þeim tiltekið tímabil. Sumum er þetta, ég verð að segja það, sumum er þetta nokkurt vafamál, þessi tilslökun í okkar hópi, sem þarna er gerð, en engu að síður höfum við sameiginlega fallizt á hana, ef það gæti orðið til einhverrar liðkunar í málinu miðað við það, hvernig að því hefur verið staðið.

Það hefur ekki þótt ástæða til þess að leita mikils samráðs eða samstöðu með okkur í sendinefndum og kynningarstarfsemi úti um heim fyrir utan það, að sagt hefur verið rækilega frá því og gert mikið af því að dreifa kynningarbæklingi, sem fyrir lá í stjórnarráðinu, þegar fráfarandi ríkisstj. var þar og núv. ríkisstj. tók við, dreifa honum út um allan heim. Það var ekki hugsað um það í öndverðu, þegar ástæða þótti til að senda stjórnarliðið á Genfar–ráðstefnuna í vor, að það kynni a.m.k. ekki að spilla fyrir málum, að fulltrúar úr stjórnarandstöðunni væru þar með. Okkur var sagt í landhelgisnefndinni, að embættismannanefnd ætti að hafa með höndum viðræðurnar við Breta og Þjóðverja. Og þegar síðan er sagt frá því, eru tveir þm. stjórnarliðsins þar, Þórarinn Þórarinsson og Jónas Árnason, (Gripið fram í) Það getur vel verið, að það sé til styrktar nefndinni, og ég efast ekkert um það. En vel gat verið, að það hefði sýnt okkar einhug og styrkleika meira, hefði verið talað um það við stjórnarandstöðuna að hafa sína menn eða fulltrúa frá henni til að vera þarna með í ráðum. Ég veit ekki. hvort SF hefur verið boðið að senda þangað fulltrúa, en það er enginn frá þeim heldur í þessari viðræðunefnd. Þetta er auðvitað ekki stórmál, og ef það er þetta, sem hæstv. forsrh. á við, þegar hann er að tala um aukaatriði, þá get ég vel sætt mig við það. Við skulum þá segja, að það sé aukaatriði og láta gott heita, það kemur betur í ljós, hvað nánar er átt við með þessu. En auðvitað er mikið atriði, hvernig unnið er að svona máli, ef menn virkilega vilja standa saman, og það er mér lítt skiljanlegt, mér finnst það eiginlega lýsa skorti á vilja til að ná samstöðu að leggja inn í þingið alveg frá orði til orðs óbreytta till. frá í vor án þess að ræða um það, hvort við getum fellt saman þau sjónarmið, sem viss ágreiningur var um. En það er rétt, sem vikið var að af hæstv. forsrh., að við höfum viðurkennt líka, þegar tekið hefur verið tillit til okkar, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í landhelgisnefndinni, og það má segja, að það hafi verið gert á tvennan hátt sérstaklega. Við ályktuðum um það í þingflokki sjálfstæðismanna og sendum hæstv. forsrh. 13. ágúst bréf þess efnis, að þar sem landhelgissamningarnir við Breta og Vestur-Þjóðverja árið 1961 voru gerðir samkv. heimild Alþingis, teldi fundurinn rétt, að sá þingræðislegi háttur yrði viðhafður, að lagðar yrðu fyrir Alþ. till. til breytinga eða uppsagnar á samningum þessum. Á þetta var fallizt, og þess vegna er málið nú fyrir Alþ., en ekki hrapað að því að segja þessum samningum upp fyrir 1. sept., en eins og kunnugt er, var það ofarlega í hug hæstv. ríkisstj., og ég tel, að það hafi verið vel farið, og við metum það. Og það hefur þó leitt til þess, að viðræður fara fram milli Íslendinga, Breta og Þjóðverja, sem ég tel mikils virði, enda þótt við náum ekki árangri í þeim viðræðum. Við höfum þó sýnt okkar vilja til þess að ræða við þessar þjóðir og fulltrúa þeirra, enda hafði hæstv. utanrrh. stungið upp á því, að viðræður héldu áfram, þegar hann var í ágústmánuði í Bretlandi og Þýzkalandi. Það var þess vegna einnig af þessum ástæðum óviðurkvæmilegt að okkar dómi að efna ekki fyrst til þessara viðræðna og fá niðurstöður þeirra, áður en ákvarðanir væru teknar.

Eins var það, að Sjálfstfl. ræddi um það á þingfundi hjá sér, að ástæða væri til þess fyrir okkur að hafa frumkvæði að tillöguflutningi á næsta þingi hafréttarráðstefnunnar, undirbúningsfundi undir hafréttarráðstefnu 1973, en þann fund mun eiga að halda í marzmánuði. Þessi hugmynd kom fram vegna þess, að bæði Bandaríkjamenn og Bretar höfðu, sem kunnugt er, lagt fram till. á undirbúningsfundunum, sem voru ræddar í alheimsfréttum, og gert grein fyrir viðhorfum sínum, og ég vil segja það, að í till. Bandaríkjamanna kemur fram mikil stefnubreyting hjá þeim frá því, sem áður var, mjög mikil, þó að hún væri ekki nægjanleg til þess, að við gætum sætt okkur við hana. En ég skal ekki tefja tímann með að fara út í það nú. Og þá var spurningin: Hví leggjum við ekki fram okkar eigin till. á undirbúningsfundinum næsta — og söfnum liði með þeim þjóðum. sem vilja styðja okkur, — um sérstakan rétt strandríkisins og rétt okkar til landgrunnsins? Á þetta sjónarmið var fallizt í landhelgisnefndinni, og við metum það, og samkv. því geri ég ráð fyrir, að í undirbúningi sé hjá hæstv. ríkisstj. tillögugerð hér að lútandi. Ég veit að vísu ekki, hvernig henni miðar og hvort eitthvað er komið á pappírinn þar, en ég geri ráð fyrir, að við fáum að fylgjast með því, þegar það mál liggur fyrir.

Þegar við ræddum landhelgismálið á síðasta þingi og ríkisstjórnarflokkarnir lögðu fram sínar till., þá var gerð grein fyrir því í grg., að margs konar undirbúningur hefði átt sér stað af hálfu fyrrv. ríkisstj. miðað við það, að nú var nýr áfangi fram undan í landhelgismálunum á alþjóðavettvangi, hafréttarráðstefna ákveðin, undirbúningsfundir ákveðnir og Sameinuðu þjóðirnar búnar að taka sínar ákvarðanir. Um þetta höfum við rætt undanfarin ár og við Íslendingar lagt áherzlu á það, að fiskveiðilögsagan kæmi einmitt til kasta þessarar hafréttarráðstefnu, ef hún yrði kölluð saman. Landhelgisgæzlan hafði þess vegna fengið sérstök fyrirmæli um það að gera talningar á tilteknum tímum um fiskiskip á miðunum. Rannsóknaráð ríkisins hafði skilað merkri álitsgerð um rannsóknir á landgrunninu og till. í þeim efnum, og embættismenn og sérfræðingar ríkisstj. höfðu látið frá sér fara álitsgerð um fiskstofnana og áganginn á fiskstofnana. Og allt var þetta miðað við þær aðgerðir, sem við þyrftum að gera og halda áfram að vinna að hjá okkur til þess að styrkja aðstöðu okkar í þeirri baráttu, sem fram undan væri. Nú væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það. — það þarf ekki endilega að vera í þessum umr., en a.m.k. undir meðferð málsins í utanrmn„ — hvernig hafi orðið t.d. framvinda þeirra mála, sem byrjað var að vinna að, að rannsaka landgrunnið sérstaklega. En eins og kom fram í grg. þáltill. frá því í vor, þá hafði ríkisstj. sett á laggirnar nefnd fimm ráðuneytisstjóra undir umsjón forsrh. til þess að skipuleggja áætlun og

samræmd vinnubrögð helztu stofnana og rn., sem fjalla um málið. Og það hafði greinilega komið í ljós, að mikil þörf var á því. Það voru líka till. um samræmda yfirstjórn rannsókna og mælinga á landgrunninu í álitsgerð Rannsóknaráðs ríkisins, og það var veitt á fjárlögum heimild til þess að kaupa ýmis tæki. sem m.a. var talið, að þyrfti til þessara rannsókna. Hvernig hefur framvinda þessara mála verið og hefur verið komið á samræmdri yfirstjórn vegna mælinga og rannsókna á landgrunninu, sem okkur er mjög þýðingarmikil? Ég vonast til þess, að við fáum þetta upplýst undir meðferð þessa máls.

Svo langar mig til að varpa fram spurningu. Það getur vel verið. að hæstv. forsrh. eða aðrir ráðh. kjósi fremur að tjá sig um það í utanrmn. eða landhelgisnefnd en á opnum vettvangi, og þeir geta auðvitað valið á milli þess. En hvernig meta þeir stöðuna á alþjóðavettvangi í dag? Ég held, að hvert einasta orð, sem við sögðum fyrir kosningar, um það, hversu vænlega horfði með vaxandi skilning á réttarstöðu Íslendinga yfir landgrunninu öllu, hafi verið rétt, hvert einasta orð. Ég hef með höndum upplýsingar um það, að mjög miklar líkur séu á því, að meiri hluti þjóða verði með málstað okkar á hafréttarráðstefnunni. Ég hef ekki fengið þær frá hæstv. ríkisstj. En hún veit þetta kannske af þeim viðræðum. sem hún hefur átt og hennar fulltrúar í undirbúningsnefndunum að hafréttarráðstefnunni og t.d. í viðræðum við Afríkuríkin, sem sagt var frá í fréttum í gær, sem öll vildu styðja okkur eða öll vildu styðja þann málstað varðandi fiskveiðilandhelgi, sem er umfram það, sem við erum að óska eftir. Og þá virðist stefna að því, að við hefðum getað og getum þá að sjálfsögðu enn ekki síður nú en áður, náð þeim árangri, sem við viljum. í landhelgismálinu án nokkurra deilna við aðrar þjóðir, og það er auðvitað langsamlega æskilegast fyrir okkur Íslendinga. Það er ekki aðeins spurning um það fyrir okkur Íslendinga að veiða þorsk eða aðra fiskstofna á landgrunninu. Við þurfum líka að selja þennan fisk, og við þurfum að hafa samskipti við aðrar þjóðir. Við erum ekki einir í heiminum. Og það er okkur auðvitað keppikefli, að samskipti okkar við aðrar þjóðir séu bæði sem vinsamlegust og þannig vaxin, að báðir aðilar hafi gagn af þeim, en þau torveldist ekki vegna einhverra árekstra, sem hægt væri að koma í veg fyrir. Hæstv. forsrh. vék líka að því, eins og rétt er, að við hefðum um langan aldur haft mjög vinsamleg samskipti bæði við Breta og Þjóðverja, þó að stundum hafi sletzt upp á vinskapinn. En það er mjög fróðlegt og nauðsynlegt, að við gerum okkur einmitt grein fyrir því núna, hvernig líklegt er, að staðan verði, og ég hygg, að fyrir liggi töluvert ákveðnar vísbendingar um það, og þær mundu sennilega verða enn þá meiri eftir undirbúningsfundinn næsta undir hafréttarráðstefnuna, sem áætlað er, að verði haldinn í marz mánuði.

Nú er ég ekki að segja þetta til þess, að við eigum að bíða með ákvarðanir um útfærslu eftir þessu, en ég minni á það, að við vildum ekki tiltaka útfærsludag, Sjálfstfl. og Alþfl., á síðasta þingi, þegar núv. stjórnarflokkar vildu ákveða 1 . sept. 1972. Við litum svo á, að 1. sept. væri í sjálfu sér ekki neinn helgur dómur og það væri margt sem gæti komið til álita, áður en við ættum að slá því föstu, þeim degi. M.a. voru tvö tilvik, sem við nefndum. Ef ágengni verður mikil á fiskimið okkar frá því á vori 1971, þá getur vel verið, að okkur þyki ástæða til útfærslu fyrr en 1. sept. 1972. Enn fremur geta þær upplýsingar, sem við fáum um stöðu þjóðanna og væntanlega niðurstöðu þá á hugsanlegri hafréttarráðstefnu, leitt til þess, að við viljum fallast á 1. sept. 1972 og um það þurfi ekki að verða neinn ágreiningur. M.ö.o., við metum kringumstæðurnar þannig, að það sé ástæða til þess að færa út fyrir hafréttarráðstefnuna. Þetta sögðum við fyrir kosningarnar. Í þeirri till., sem sjálfstæðismenn flytja nú í landhelgismálinu, er ekki neinn ákveðinn dagur tiltekinn, en hins vegar er sagt, að Alþ. það, sem nú situr, skuli ákveða daginn. Og það situr náttúrlega ekki fram til 1. sept. 1972, ef að líkum lætur, svo að í því felst auðvitað, að ákvörðunin um útfærsludag verði tekin, hver sem hann verður, á því þingi, sem nú situr. Þarna er ekki mikill ágreiningur okkar á milli, þó að mismunandi skoðanir hafi verið uppi um það, hvernig rétt væri að tefla taflið hér að lútandi.

Það er eitt atriði, sem ég held, að gæti misskilnings í hjá hæstv. forsrh. Hann segir, að stórveldin sum, sennilega átti hann öðrum fremur við Bandaríkin og Sovétríkin, stefndu að því að fá 12 mílna fiskveiðilögsögu samþykkta sem lög, það væri þeirra stefna. Ég held, að þetta hafi verið þeirra hugsun fyrir meira en ári. En ég held, að það komi greinilega í ljós í uppkasti að till., sem Bandaríkin fluttu á undirbúningsfundinum í ár, að þeir eru fallnir frá þessu og þeir leggja megin áherzluna á 12 mílna almenna lögsögu, að hún væri ekki stærri, svo að hún hindraði ekki siglingar um höfin o.s.frv. En þeir eru einmitt komnir þegar sjálfir með tillögugerð um vissan rétt strandríkisins, eylands eða strandríkis, til fiskveiðilögsögu langt út fyrir 12 mílurnar á hrygningarsvæðunum og á uppeldissvæðum fisksins. Að vísu kemur þessi viðbót hjá þeim, að einhver alþjóðastofnun eigi að hafa einhverja stjórn á þessu, og það er það, sem við getum ekki sætt okkur við. En þetta er auðvitað mikið frávik frá fyrri afstöðu þeirra í þessu máli. Ég held þess vegna, að þessi stórveldi, sennilega bæði, eftir því sem t.d. hæstv. sjútvrh. tjáði okkur um viðhorf Sovétríkjanna í fréttum, hafi fallið frá þessari hugmynd, sem þau höfðu fyrir 1—2 árum, og vilji nú reyna að taka höndum saman um að fá 12 mílurnar samþykktar sem fiskveiðilögsögu. Við stöndum þess vegna styrkum fótum, Íslendingar, í þessu máli.

Það er enginn efi á því; og ég vil ljúka máli mínu með því að taka það fram. að það skyldi enginn maður, útlendur eða innlendur, vera í neinum efa um það, að við Íslendingar ætlum að færa út landhelgina og við teljum okkur eiga rétt á öllu landgrunninu. Þetta vildi ég sagt hafa, svo að enginn leggi í neitt af því, sem ég hef sagt, einhvern annan skilning að því leyti til. Og þarna stöndum við alveg saman, og þetta er þungamiðja málsins. En það er ekki rétt, að það sé ástæðulaust að lýsa þessu yfir nú einmitt í lögunum um landhelgi Íslands, vegna þess að sams konar yfirlýsing sé í landgrunnslögunum frá 1948. Við skulum leggja eins mikið og við í fyllsta máta megum upp úr landgrunnslögunum frá 1948, og ég dreg ekki úr því, hversu mikilvæg þau eru. En það er að mínum dómi mjög þýðingarmikið atriði, að því sé lýst yfir einmitt á þessu þingi, að við Íslendingar tileinkum okkur allt landgrunnið sem fiskveiðilögsögu, hvað svo sem við kunnum að gera í einhverri tilslökun, 50—70 mílur eða hver nú endanleg niðurstaða verður.

Hún hefst á þessu, þáltill. þingmanna Sjálfstfl.: „Fiskveiðilögsaga Íslands nær yfir allt landgrunnið umhverfis landið“. Um það ætti ekki að verða ágreiningur. Það er mikilvægt, að það komi inn í ályktanir Alþ. annaðhvort þál. eða þá þau lög, sem við kunnum að koma okkur saman um að setja um landhelgina, áður en störfum þessa þings lýkur.

Ég skal nú ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég sagði í öndverðu, að ég hefði búizt við því, að við mundum deila minna eftir kosningar en fyrir um landhelgismálið, og ég má þá ekki heldur gera of mikið úr því og stofna til deilna um málið. Þær ábendingar, sem ég hef verið með, hygg ég vera þannig, að þær geti á engan hátt skaðað málið. Um það, sem við segjum hér á opinberum vettvangi í þinginu, verðum við á hverjum tíma að hafa í huga, að það berst auðvitað til eyrna heimsins, og á ekkert að vera með þeim hætti, sem geti leitt til þess að villa mönnum sýn, Þjóðverjum, Bretum eða hverjum sem er, um það, að í meginatriðum stöndum við Íslendingar saman í þessu máli, að landgrunnið allt eigi að vera fiskveiðilögsaga Íslendinga.