25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

80. mál, dóms- og lögreglumál á Suðurnesjum

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt Karli G. Sigurbergssyni, sem átti sæti á Alþ. um skeið í forföllum hv. þáv. 1. þm. Reykn., till. til þál. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum. Till. hlaut þá ekki endanlega afgreiðslu og er nú flutt óbreytt á þskj. 89, og standa nú að flutningi hennar allir þeir þm., sem í síðustu alþingiskosningum voru í framboði í Reykjaneskjördæmi. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta leggja fyrir Alþingi það, er nú situr, frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum á þann veg, að á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri þessi mál til einu embætti í Keflavík.“

Mér er ekki kunnugt um, að hve miklu leyti skipan lögsagnarumdæma í landinu kann áður fyrr að hafa verið í eðlilegu samræmi við þarfir íbúa héraðanna fyrir aðgengilega þjónustu og á hinn bóginn í samræmi við þörf ríkisvaldsins á hagkvæmni í rekstri. Vera má, að einhvern tíma hafi skipting landsins í lögsagnarumdæmi verið tiltölulega eðlileg og í samræmi við aðstæður, en hvað sem því líður, er a.m.k. víst, að í dag er þörf á endurskoðun og breytingum í þessum efnum. Þetta mun vera raunin víða á landinu, en naumast mun þörfin á nýrri tilhögun á skiptingu byggðarlaga í lögsagnarumdæmi vera augljósari og brýnni en á því svæði, sem sú þáltill., sem hér er til umr., fjallar um, þ.e. á Suðurnesjum, svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar. Allt til ársins 1949 annaðist embætti sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeta í Hafnarfirði héraðsdómsstörf, umboðsstörf, löggæzlustörf og önnur stjórnsýslustörf ríkisins á öllu því svæði, sem nú er Reykjaneskjördæmi. Keflavíkurkauptún fékk síðan kaupstaðarréttindi árið 1949, og árið 1954 var Keflavíkurflugvöllur gerður að sérstöku lögsagnarumdæmi undir stjórn lögreglustjóra, þannig að Suðurnesjasvæðið sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar skiptist nú milli þriggja lögsagnarumdæma. Þar eru þau tvö sjálfstæðu lögsagnarumdæmi, sem ég áðan nefndi, en hins vegar eru Grindavíkurhreppur, Hafnahreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Njarðvíkurhreppur og Vatnsleysustrandarhreppur í lögsagnarumdæmi sýslumanns, sem situr í Hafnarfirði. Lögreglulið á þessu svæði, hreppunum, Keflavíkurkaupstað og Keflavíkurflugvelli, um 50 manns alls, lýtur stjórn þriggja aðila, og það fólk, sem býr í hreppsfélögunum umhverfis Keflavík, hefur ekki not af því, að sérstakt bæjarfógetaembætti með þjónustuliði er í Keflavík, heldur verður það að sækja til Hafnarfjarðar um afgreiðslu sinna mála. Íbúar Miðneshrepps og Gerðahrepps verða þannig að fara um Keflavík, þar sem embætti bæjarfógeta er, og halda allt til Hafnarfjarðar, ef þeir þurfa að láta þinglýsa skjali, skrá bifreið eða leita réttar síns fyrir dómstóli, og enda þótt byggðin í Ytri-Njarðvík sé samvaxin Keflavík, verða íbúar þar að fara til Hafnarfjarðar, ef þeir þurfa á afgreiðslu slíkra mála að halda.

Oft er orsök þess, að dregið er að framkvæma eðlilega endurskoðun og breytingar á tilhögun og skipan stjórnsýslu og þjónustu sú, að slíkum endurbótum fylgir aukinn rekstrarkostnaður í ríkiskerfinu, en í því tilviki, sem hér um ræðir, held eg, að annað yrði uppi á teningnum. Það er ekki aðeins svo, að augljóst er, að þægilegra væri fyrir íbúa hreppanna á Suðurnesjum að sækja þjónustu og fyrirgreiðslu og eiga skipti við embættið í Keflavík en að þurfa að sæta því, að embættið í Hafnarfirði annist þau mál, heldur ætti heldur að verða um sparnað að ræða, ef lagt væri niður sérstakt embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, og enn fremur fengist án efa betri nýting á því 50 manna lögregluliði, sem nú er á þessu svæði, en lýtur stjórn þriggja embætta, ef störf þess væru skipulögð sameiginlega á öllu svæðinu undir stjórn embættis, sem þegar er til í Keflavík. Um þetta atriði hefur undirnefnd fjvn. fjallað og lagði til fyrir rúmlega tveimur árum við fjmrn., að löggæzla á Suðurnesjum yrði sett undir eina stjórn, þannig að allt það lögreglulið, sem þar starfar, yrði unnt að skipuleggja sem eina heild. Í þessu sambandi skal þess getið, að embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli heyrir undir utanrrn., en með þeirri nýskipan að gera allt svæðið sunnan Hafnarfjarðar að einu lögsagnarumdæmi féllu dómsmál, umboðsstörf, löggæzla og önnur stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli undir dómsmrn. eins og öll önnur slík störf. Enda þótt ég sjái ekkert slíkri nýskipan til fyrirstöðu, heldur þvert á móti, þá legg ég jafnframt áherzlu á, að hvað sem um embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli yrði, er aðalatriðið í þessu máli það, að dóms-, lögreglu- og umboðsstörf í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum heyrðu til einu embætti í Keflavík.

Í þeirri þáltill., sem hér er til umr., er lagt til, að hæstv. ríkisstj. láti leggja fyrir Alþ. það, er nú situr, frv. til l. um skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum á þann veg, sem ég hef hér rætt um, þ.e.a. þau heyri til einu embætti í Keflavík. Hér er því með flutningi þáltill. gert ráð fyrir því í fyrstu atrennu að fá fram þingvilja fyrir því að þessi breyting verði gerð, en hæstv. ríkisstj. jafnframt falið að sjá um samningu frv. og nánari till. um þær lagabreytingar, sem nauðsynlegar verða taldar til þess að ná þessu markmiði. En þess má geta, að af sjálfu leiðir, að eðlilegt mætti telja, að tveir hreppar í Gullbringusýslu, Bessastaða- og Garðahreppur, yrðu látnir tilheyra Kjósarsýslu og embætti sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu yrði jafnframt skipt og bæjarfógetinn í Keflavík yrði þá jafnframt sýslumaður í Gullbringusýslu, en bæjarfógetinn í Hafnarfirði sýslumaður í Kjósarsýslu. Sveitarfélögin sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar eru samstæð heild, en jafnframt allgreinilega aðskilin frá öðrum hluta þess svæðis, sem heyrir til embætti sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Og það fólk, sem á Suðurnesjum býr, hefur á undanförnum árum verið að ná meira og betur saman en áður um sameiginleg hagsmunamál sín. En með slíkri samstöðu og samvinnu fæst aukin hagkvæmni, sem allir njóta góðs af og ríkisvaldið á að stuðla að með breytingum á löggjafaratriðum, ef með þarf. Þróunin er sú, að þessi sveitarfélög leysa meira og meira af sínum vandamálum og verkefnum sameiginlega. Sveitarfélögin hafa t.d. náð samstöðu um byggingu eins iðnskóla á Suðurnesjum, og þau hafa fyrir um það bil einu ári stofnað sérstaka samstarfsnefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum.

till., sem hér liggur fyrir, er nánast um það, að hv. Alþ. taki tillit til sameiginlegra hagsmunamála Suðurnesjabúa á þann veg, að Suðurnesin verði sérstakt lögsagnarumdæmi, en sú ákvörðun Alþ. væri eðlilegur liður í þeirri þróun, sem fram hefur farið og mun aukast, ef rétt er að staðið um nánara og árangursríkara samstarf Suðurnesjabúa til lausnar þeim verkefnum, sem við er fengizt á þessum slóðum á hverjum tíma. Óhætt er að fullyrða, að mjög ríkur áhugi er meðal almennings á Suðurnesjum um þetta mál og að það nái fram að ganga, og samstarfsnefnd sveitarfélaganna á Suðurnesjum leggur kapp á, að sem fyrst verði sú breyting gerð, sem hér er lagt til, og um þetta mál er enginn ágreiningur eftir stjórnmálaskoðunum. Með þeirri skipan, sem hér er lagt til. að upp verði tekin, að Suðurnesin verði sérstakt. lögsagnarumdæmi, er að mínum dómi samtímis unnt að auka þjónustu við íbúana á þessu svæði, styrkja stöðu sveitarfélaganna þar og koma við aukinni hagkvæmni og sparnaði í ríkisrekstrinum. Þess vegna vænti ég þess, að þessi þáltill. fái jákvæða og skjóta afgreiðslu, og legg svo til herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn., áður en umr. lýkur.