03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3583)

115. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til stuðnings þessu ágæta máli. Ég held, að það dyljist engum, sem þekkir eitthvað til bygginga í dreifbýlinu, að þar er ýmsu ábótavant, og sýnist mér réttilega bent á ýmis atriði í þessari þáltill., sem þar gætu orðið til bóta. Þó vil ég, áður en ég kem að meginefni máls míns, taka undir það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að mér sýndist einnig, þegar ég las þessa till., e.t.v. nokkuð vafasamt að fela einum og sama aðilanum að teikna og annast eftirlit með byggingarframkvæmdum. Vil ég styðja þá ábendingu, sem kom fram hjá honum.

En fyrst og fremst stóð ég upp til þess að vekja athygli á því, að víða mun efnisvali til bygginga í dreifbýlinu vera mjög ábótavant. Ég hygg, að við höfum öll séð steinsteypta veggi, sem eru að grotna niður, þótt þeir séu sem betur fer ekki eins margir nú og þeir voru. Ég hygg einnig, að þeir séu langtum fleiri úti í dreifbýlinu en almennt í þéttbýlinu, þar sem eftirlit með steypuefni er langtum betra og nákvæmara en víðast hvar um landið.

Fyrir nokkrum árum gerði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins samning við Ræktunarsjóð og tók að sér það sem nefna mætti lágmarkseftirlit eða könnun á steypuefnisnámum, og hygg ég, að þar hafi verið unnið allgott undirstöðuverk. Mér sýnist þó, að ekki sé nálægt því nógu vel tryggt, að hæfilegt byggingarefni sé notað. Ég held, að þennan þátt þurfi einnig að tengja þeirri athugun, sem lagt er til að fram fari.