18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

126. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. Ed. hefur fjallað um frv. það til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem er á þskj. 234.

N. mælir einróma með samþykkt frv., en fulltrúar stjórnarandstöðunnar áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. Um aths. einstakra nm. við ákvæði frv., svo og ákvæði til bráðabirgða, vísast til nál.

Þetta frv. var þegar í haust boðað af hæstv. trmrh., þegar hann mælti fyrir frv. um staðfestingu á þeim bráðabirgðalögum, sem sett voru á s.l. sumri um þessi mál. Þá þegar rakti hann helztu atriði þess og hefur nú í báðum hv. þd. skýrt ítarlega efni þess, svo að óhætt er að fara hér fljótt yfir sögu.

Það er rétt að minna á það enn einu sinni, að á Liðnu sumri var sett nefnd til að endurskoða allt tryggingakerfið, og þetta frv. nú er sá fyrsti áfangi, sem lagt er til, að öðlist gildi nú um áramót. Sá áfangi er reyndar geysilega mikilsverður hvað aðalatriði hans snertir, tekjutryggingu aldraðra og öryrkja, auk annarra þeirra umbóta, sem frv. gerir ráð fyrir. Það er jafnframt mikilvægt, að nefndin skuli starfa áfram og vinna að frekari úrbótum á tryggingakerfinu, enda hefur hæstv. ráðh. áður greint frá ýmsu því, sem fyrirhugað er að taka þar fyrir, þótt síðar öðlist gildi.

Svo snúið sé beint að efni frv. sjálfs, þá er hér um að ræða till. til hækkunar, sem munu gjörbreyta allri aðstöðu þess fólks, sem lakast er sett í þjóðfélaginu fyrir sakir elli eða af völdum örorku. Það atriði, sem 5. gr. frv. felur í sér, þ.e. tekjutryggingin svo kallaða, er leiðrétting á efnahagslegu og félagslegu misrétti, sem brýna nauðsyn bar til að draga sem mest úr. Þær upphæðir, sem nú skulu gilda, 10 þús. kr. á mánuði fyrir einstakling og 18 þús. kr. fyrir hjón, eru sérstaklega athyglisverðar, þegar gerður er samanburður við greiðslur fyrri hluta þessa árs, þegar sambærilegar tölur voru innan við 5 þús. á einstakling og milli 8 og 9 þús. kr. fyrir hjón. Það, að hér er á ferðinni rúmlega 100% aukning þessara bóta, sannar hvort tveggja, knýjandi nauðsyn breytingarinnar og ekki síður mikilvægi hennar. Þessari stórfelldu leiðréttingu er því fagnað af öllum. Sú tekjutilfærsla, sem hér er um að ræða, er svo sjálfsögð félagsleg umbót, að um hana geta engar deilur orðið, enda þegar komið glögglega í ljós.

Þau önnur atriði frv., sem rétt er að benda á sérstaklega, eru þessi: Í 3. gr. eru ákvæði um barnalífeyri. Þar er um ákvæði að ræða, sem að nokkru voru áður aðeins heimildarákvæði, en nú eru ótvíræð. Nú er barnalífeyrir greiddur, hvort sem faðirinn eða móðirin er öryrki, en áður gilti þetta aðeins um föður. Þá skal greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega og með barni manns, sem sætir gæzlu- eða refsivist um lengri tíma, og er þetta ákvæði í mörgum tilfellum mikilvægt og réttlátt.

Þá er í 4. gr. athyglisvert og nauðsynlegt ákvæði, þar sem ekkill engu síður en ekkja fær rétt til bóta í 6 mánuði eftir lát maka og einnig bætur vegna barns á framfæri innan 17 ára aldurs.

Í 8. og 9. gr. frv. er gert ráð fyrir hækkun sjúkradagpeninga barna og eins því, að allir fullorðnir einstaklingar hafi jafnan rétt gagnvart þessum greiðslum, en áður nutu húsmæður ekki sama réttar og aðrir.

Það er ákvæði II. gr., sem kveður á um skyldur umboðsmanna trygginganna og stofnunarinnar í heild að gera sér jafnan grein fyrir aðstæðum umsækjenda og bótaþega, og þá ekki síður að gera þeim grein fyrir ítrasta rétti þeirra til bóta tvímælalaust svo ákveðið, að ekki ætti að vera nein hætta á því, að fólk fái ekki að vita rétt sinn, ef ákvæðinu verður vel og rækilega fylgt eftir. Það hefur allt of víða viljað brenna við, að þarna hafi verið um vanrækslu og skeytingarleysi að ræða, einkanlega víða úti á landsbyggðinni, þótt allt hafi það verið í framfaraátt undanfarin ár.

Um 12. gr. hafa hvað mest komið fram ólíkar skoðanir á réttmæti þeirra breytinga, sem þar eru lagðar til. Ég hlýt að telja viðmiðun við almennt kaupgjald verkafólks sanngjarnari og eðlilegri en viðmiðun við einhvern tiltölulega afmarkaðan starfshóp innan verkalýðshreyfingarinnar.

Fylgismenn núv. stjórnar hljóta einnig að treysta henni til að beita sér fyrir breytingum á fjölskyldubótum, beinlínis til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu, eins og eðlilegast hlýtur að teljast.

Um einstakar brtt. við frv. vildi ég aðeins segja það, að ég tel á þessu stigi ekki rétt að gera hér á neinar breyt., enda hefur í Nd. verið gengið til móts við óskir stjórnarandstöðunnar í veigamiklum atriðum. Þar sem vitað er, að mál þessi eru öll í endurskoðun, eins og áður er sagt, þá munu þessi atriði og mörg fleiri verða tekin þar til gaumgæfilegrar athugunar, og skal því fyllilega treyst, að allar sanngjarnar umbætur fái þar góða úrlausn.

Því skal svo að lokum aðeins fagnað, að þessi áfangi skuli svo myndarlegur, um leið og ég hlýt að lýsa yfir gleði minni yfir samstöðu þm. um heildarefni frv.