18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

126. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir afar fljót störf. Hún hefur raunar lokið meðferð sinni á milli 1. og 2. umr. á skemmri tíma en ég gerði mér nokkrar vonir um.

Hv. þm. Auður Auðuns vék í ræðu sinni hér áðan að ýmsum atriðum í sambandi við þetta frv., atriðum, sem vissulega eru umhugsunarverð. M.a. vék hún að ákvæðinu um tekjutryggingu og talaði um skerðingarreglur í því sambandi. Ég veit nú ekki, hvort það er í sjálfu sér alveg rétt orð í sambandi við þetta. Þarna er ætlunin að aðstoða sérstaka þjóðfélagshópa, fólk, sem hefur haft allt framfæri sitt frá tryggingunum eða litlar tekjur í viðbót við það, þannig að tryggt verði, að enginn þjóðfélagsþegn, sem þessi lög ná til, hafi lægri tekjur en þarna er um að ræða, en þegar sett er löggjöf um aðstoð við sérstaka hópa í þjóðfélagi, þá koma alltaf upp vandamál í sambandi við mörkin, það er alveg rétt, og þær röksemdir, sem hv. þm. kom með, eiga vissulega fullan rétt á sér. Ég hef hugleitt þetta mál, og mér finnst sjálfsagt, að sú nefnd, sem um þetta fjallar, íhugi það, hvernig hægt er að gera þessi mörk eins mannleg og hægt er. Þetta atriði kom einnig hér til tals í Nd., og ég tók þar undir það á sama hátt, en ég minnti á það einnig í því sambandi, að á þessum kjarabaráttutímum, sem við lifum nú og ég skal sízt lasta, þá heyrist það stundum, að talað sé um vinnuna fyrst og fremst sem álag eða böl, en auðvitað er vinnan það ekki. Vinnan er lífið sjálft, það er hún, sem gefur lífinu gildi hjá einstaklingunum, og við skulum einnig muna eftir því í þessu sambandi, að þeir öryrkjar, sem geta unnið, og aldrað fólk, sem getur unnið, er í nánari tengslum við þjóðfélagið og lifir þess vegna heilbrigðara og betra lífi, hvað þessi atriði snertir. Ég vil, að menn muni einnig eftir þessu sjónarmiði, um leið og ég viðurkenni með hv. þm. Auði Auðuns, að þarna er um að ræða mál, sem sjálfsagt ber að athuga nánar.

Hv. þm. Auður Auðuns gagnrýndi þann stutta tíma, sem Alþ. hefði fengið til meðferðar á þessu máli. Ég viðurkenndi það í framsöguræðu minni í gær, að þessi tími er allt of naumur, og ég get gjarnan ítrekað það nú. Ég hef oft sjálfur staðið hér í ræðustól á Alþ. og gagnrýnt það, að Alþ. væri notað sem afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. hverju sinni, og ég hef ekki skipt um skoðun, þótt ég sé nú kominn í þá aðstöðu að verða að biðja þm. um að vinna störf sín við aðstæður, sem ég tel í meginatriðum vera rangar. Hugmyndir mínar um sambúð Alþ. og ríkisstj. eru þær, að ég tel, að Alþ. eigi að hafa miklu meiri áhrif en það hefur nú. T.a.m. tel ég, að nefndir þingsins þyrftu að geta verið miklu virkari og haft miklu meira frumkvæði en þær hafa, eins og sakir standa. Ég lít svo á, að þróunin þurfi að vera sú, að í stað þess að Alþ. sé stundum afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj., þá beri að líta á ríkisstj. sem eins konar framkvæmdarstjórn Alþ. Þetta eru mínar hugmyndir, og ég vonast til þess að geta að því leyti, sem það kemur til minna kasta, stuðlað að því, að þróun mála verði á þessa lund. Réttlæting ríkisstj. nú er sú, að hún hefur færst ákaflega mikið í fang á ákaflega skömmum tíma. Hún tekur við eftir langt stjórnartímabil annarra flokka og hefur reynt að koma ákaflega miklu í verk, og þess vegna er farið fram á þessi vinnubrögð hér á hv. Alþ., en ég endurtek, að ég tel vinnubrögð af þessu tagi ekki vera eins og vera ber.

Hv. þm. Auður Auðuns spurði mig um launaskattinn. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að innheimtur verði launaskattur, þ.e. gamli 1% launaskatturinn og síðari launaskatturinn 1.5%, sem settur var með verðstöðvunarlögunum. Þar er þessi launaskattur áætlaður 700 millj. kr., þetta 1.5% ætti þá að vera um 420 millj.

Hv. þm. spurði einnig um, hvort ætlunin væri, að hækkun samkv. ákvæðum 12. gr. þessa frv. ætti einnig að koma á þær bætur, sem þarna bætast við, og ég mundi telja það eðlilegt, að þær bætur, sem til koma á síðari hluta ársins, nái einnig til þessara upphæða.

Hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson hefur flutt hér brtt., sem einnig voru fluttar í Nd. Að þeim hefur verið vikið hér í ræðu, og ég þarf ekki miklu við það að bæta. Það atriði, sem felst í fyrri till., að fjölskyldubætur verði notaðar til að aðstoða fólk, sem er við nám, er hugmynd, sem hefur verið rædd hér áður á þingi, og ég vék m.a. að henni á síðasta þingi. Þetta er kerfi, sem ég veit, að er t.d. notað í Svíþjóð, en það er starfandi nefnd, sem hæstv. menntmrh. hefur skipað til þess að fjalla um aðstoð við námsfólk á milli skyldunámsins og háskólanámsins, og ég tel eðlilegt, að sú nefnd fjalli um þessa hugmynd. Ég tel, að hún eigi ekki heima í þessum lögum um almannatryggingar, alveg óháð því, hvað mönnum kann að sýnast um hugmyndina sjálfa, og þess vegna legg ég til, að sú till. verði felld.

Í sambandi við síðari till. um fjölskyldubætur, þ.e. að það verði skylda að hækka þær eins og aðrar bætur, þá gerði ég grein fyrir því við 1. umr., þar sem ég taldi þetta ekki rétt, að sú nefnd, sem að þessu starfar, vinnur einmitt að endurskoðun á því, hvort ekki sé hægt að nota fjölskyldubæturnar til miklu meiri tekjujöfnunar en núna er í framkvæmd,.en tilgangur fjölskylduhóta átti einmitt að vera sá. Ég er þeirrar skoðunar, að sú upphæð, sem nú fer til fjölskyldubóta, gæti nýtzt miklu betur en nú er með breyttri tilhögun, og einnig þess vegna leggst ég gegn því, að þessi till. verði samþ. Raunar vil ég minna á það í sambandi við þessa till., að þarna er gert ráð fyrir nýjum útgjöldum almannatrygginga, sem nema mjög verulegum upphæðum. Það var ekki gerð nein grein fyrir því af flm., hvaða upphæðir þarna sé um að ræða, en mér sýnist, að það muni naumast vera undir 100–200 millj. kr. Ég vil minna á það, að í þeim þríþættu breytingum á almannatryggingalögum, sem nú koma til framkvæmda um þessi áramót, eru fólgnar hækkanir, sem nema yfir 1 þús. millj. kr. Ég er sannfærður um það, að þm. almennt hafa áhyggjur af því, hvort ríkisstj. sé ekki að spenna bogann of hátt með þessum breytingum, og ég skal viðurkenna það fúslega, að við þetta eru áhyggjur minar einnig bundnar. Hv. formaður Alþfl. hefur með meiri þunga en aðrir menn bent á það, að ríkisstj. væri að auka útgjöld ríkissjóðs ákaflega mikið, og ég fæ ekki komið því saman og heim að leggja áherzlu á slíkar kenningar, en að flytja á sama tíma brtt. af þessu tagi, sem fela í sér svona mikla hækkun, sem ég hef gert grein fyrir.

Hv. þm. Páll Þorsteinsson og Axel Jónsson hafa vikið að einu atriði í ákvæði til bráðabirgða, atriði B, vegna sjúkratrygginga, og beðið mig um nánari skýringar á þessu atriði. Ég verð að viðurkenna það hreinskilnislega, að ég hef ekki þá vitneskju, að ég geti gefið þessar skýringar. Þetta mál var unnið á vegum fjmrn., og ég hef ekki kynnt mér þetta atriði það gaumgæfilega, að ég geti um það fjallað. Hins vegar heyrðist mér á hinni mjög svo greinargóðu ræðu hv. þm. Páls Þorsteinssonar, að þarna sé um að ræða vandamál, sem þurfi að skoða, og ég teldi eðlilegt, að hv. heilbr.- og félmn. athugaði þetta mál á milli 2. og 3. umr., og ég mundi þá reyna að gera ráðstafanir til þess, að hæstv. fjmrh. gæti mætt á fundi með n. eða einhver annar, sem gæti fjallað um málið af nægilegri sérþekkingu. Eina áhyggjuefni mitt í þessu sambandi er við það bundið, að ég hef, eins og menn víta, og þm. allir hafa raunar áhuga á því, að þetta mál fáist samþykkt fyrir jól, og ef gerð er breyting á því hér í Ed., þá verður hún að gerast það fljótt, að hægt verði að taka málið aftur í Nd. og afgreiða það þar, en þær röksemdir, sem hér hafa komið fram, eru þess eðlis, að ég tel sjálfsagt, að þetta verði athugað.

Að svo mæltu ítreka ég þakkir mínar til hv. n.