16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3761)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sagði ekki í mínum orðum áðan, að það væri nægilegt, að það væri byggt á vegum verkamannabústaðanna 10—15%. Ég sagði ekkert um það. Ég sagði bara, að það hefði verið reiknað með því. Því miður held ég, að það þurfi mjög að takmarka þessa fyrirgreiðslu, sem er meiri en til annarra, ef hún á að vera raunhæf. En þeir, sem eru uppi með lýðskrum í öllum málum, vilja gera allt fyrir alla. Það er í anda þess hv. þm., sem var að tala hér á undan mér. En það þýðir, að það er ekkert gert fyrir neinn, raunverulega. Hann sagði, að það væri ekki rétt, sem ég hefði sagt, að verkamannabústaðakerfið hefði verið byggt upp frá 1931 þannig, að það væri greitt til þess að jöfnu frá sveitarfélögunum og ríkinu. Svo viðurkenndi hann, að þetta væri rétt. Ég var ekki að tala um neina aðra uppbyggingu en þessa. Það er ekki ástæða til að svara þessum hv. þm. frekar.

Aðeins eitt orð við hæstv. ráðh. Það er ágreiningur okkar á milli, hvort ummæli hans um húsnæðismálastjórn hefðu verið óviðurkvæmileg eða ekki. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég hef sagt. Það er ágreiningur okkar á milli um það. Athyglin hefur beinzt að því, hvernig eigi að skilja það, sem hæstv. ráðh. nefnir sjálfur „pólitískt þukl“. Menn geta svo lagt í það þann skilning, sem þeir vilja, en ég legg þennan skilning í það, sem ég hef lýst, og þeir menn, sem þetta var mælt um, leggja þá merkingu í það. Þetta er staðreynd.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég mundi ekki þurfa að hafa áhyggjur af því, hvernig yrði aukið fé til húsnæðislánakerfisins. Mér finnst, að við megum nú allir hv. þm. hafa nokkrar áhyggjur af því. Auðvitað er það rétt, að mestar áhyggjur ætti hæstv. félmrh. að hafa í þessu efni, en því miður, mér fannst ekki mikið á því að græða, sem hæstv. ráðh. sagði um sínar fyrirætlanir í þessu efni. Það var svo loðið.

En við skulum vona, að úr rætist. Það viljum við áreiðanlega öll.