09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (3801)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég er nú ánægður með þá byrjun umr. sem orðið hafa um vegáætlunina, tel þær hafa verið hóflegar og byggðar á áætluninni, eins og hún liggur fyrir nú, sem eðlilegt er. Þó að reiknað sé með ákveðnum breytingum á henni í meðferð fjvn. og þingsins, þá geta menn ekki tekið það með inn í viðhorf sín nú.

Hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson fyrrv. samgrh., ræddi um þetta mál af sinni traustu þekkingu og af sanngirni að mínu áliti, og hef ég ákaflega litlar aths. við hans ræðu að gera. Hann átti þó ofurlítið erfitt með að koma því niður fyrir brjóstið, að arfurinn frá fyrrv. ríkisstj. væri 137 millj. kr. skuldahali. Þetta er þó staðreynd engu að síður og skal niður fyrir brjóstið á honum, því að það er staðreynd. Þetta er engin svimhá upphæð. Þetta eru leifar frá tveimur seinustu árum, og núv. ríkisstj. ætlar sér að eyða þessu á þremur árum. Hv. þm. taldi nú ófært að gera það ekki í einum hvelli, en aðalatriðið er, að þessum hala verður eytt á árinu í ár og tveimur næstu árum. Það er alveg rétt, að það hefði verið ánægjulegra að geta sett eitt feitt pennastrik yfir þessar 137 millj. núna strax, og það hefði verið gert, ef fé hefði verið handbært til þess að borga þessa eftirleguskuld.

Hann vék nokkuð að sérstakri lánsfjáröflun, 50 millj. kr., og sagðist ekki minnast þess, að það væri til nein heimild til þeirrar lántöku. Þetta mun vera rétt hjá honum. Í framkvæmdaáætluninni er þessi upphæð ekki nefnd, en ég hef alveg fullgildar heimildir fyrir því, að fyrir þessari lánsfjárútvegun verður séð, án þess að það þurfi að fara undir a.m.k. erlendar lántökur.

Varðandi hækkanir á hraðbrautum, þá er það rétt, að það eru ekki settar út neinar tölur í áætluninni eins og hún liggur fyrir varðandi lánsfjárútvegun til hraðbrauta. Og ég tók ekki of djúpt í árinni, þegar ég sagði, að um það hefði verið rætt í ríkisstj. að taka 300 millj. kr., lán til hraðbrautaframkvæmda á áætlunartímabilinu. Ég vildi ekki fullyrða meira, því að málið hafði verið rætt í ríkisstj. og fengið þar allsherjar jákvæðar undirtektir, en ekki var gengið frá samþykkt um það. En ég tel málið alveg örugglega í þeim farvegi, að stefnt verði að því að fá 300 millj. kr. erlent lán, sennilega hjá Alþjóðabankanum, eins og hin fyrri lán, sem til hraðbrauta voru tekin, og að fjvn. fái nú í byrjun síns starfs till. um það, sem hún getur byggt á, að þessu verði þannig hagað. Það vita allir, sem þessum málum eru kunnugir, að það þýðir ekkert að fara með lántöku í Alþjóðabankann til vegamála hér á landi, nema fyrir liggi alveg verkfræðilega fullunnar áætlanir um framkvæmdir. Þær eru þegar fyrir hendi og þar með vísbending eiginlega um það, hvaða hraðbrautir verði teknar fyrir á áætlunartímabilinu.

Það er rétt, sem hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, að nú eru komnir í hraðbrautatölu vegir víðs vegar um landið, og það var allt rétt, sem hann sagði, bæði varðandi nágrenni Akureyrar, örlítinn spotta í nágrenni Ísafjarðar eða innan lögsagnarumdæmis Ísafjarðar og hraðbrautirnar hér á Suðurnesjum, Grindavíkurveg o.s.frv. Þetta dreifist nokkuð, en þó verður meginþungi hraðbrautaframkvæmdanna eftir sem áður hér á sömu slóðum og verið hefur, og það er fyrir lánsfé á hrygg allra landsmanna, sem þessir vegir eru byggðir upp. Ég álít því þann tíma ekki kominn, að það sé ekki einhver sanngirni í því að leggja nokkra sérbyrði í þann hluta landsmanna, sem fær þessar framkvæmdir fyrir allsherjar lánsfé, sem landslýður í heild stendur undir. Ég kem að því betur síðar.

Ég held, að það megi því teljast víst, að það verður ekkí horfið frá framkvæmdum varðandi hraðbrautir. Það verður farið í lánsfjáröflun til þeirra, ekki lægri upphæð en 300 millj. kr. í viðbót við það, sem inni á áætluninni er. Og það er aðstaða til að leggja fram öll gögn gagnvart Alþjóðabankanum, sem eiga að nægja til þess, að hann geti tekið afstöðu til slíkrar lánsbeiðni, og það verður ekki dregið. Það verður gert nú á næstu vikum, til þess að hægt sé að öllu leyti að vera viðbúinn framkvæmdum á næsta ári, en á þessu ári er verið að framkvæma hraðbrautalagningu fyrir það, sem enn þá er eftir af fyrri lántökum hjá Alþjóðabankanum, sem eru um 140 millj. kr.

Það er rétt, að það má til sanns vegar færa, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði. Það er engin stefnubreyting í því fólgin að halda áfram stórfelldum hraðbrautaframkvæmdum, en það er haldið fram stefnunni, sem þarna hafði verið mótuð og mörkuð af honum, og að þessu leyti var alveg rétt stefnt hjá fyrrv. ríkisstj. Ég hef alltaf viðurkennt það, að þó að hraðbrautirnar hér út frá Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu séu geysilega fjárfrekar framkvæmdir, þá voru þær óumflýjanlegar. Þetta var orðinn eins konar botnlangi í vegakerfinu, og vegirnir, sem fyrir voru, báru ekki þessa feikna umferð, sem er inn í borgina og út úr henni, og í þetta varð því að ráðast, þó að þetta drægi til sín miklu, miklu hærri upphæðir en við höfðum áður unnið með í íslenzkum vegaframkvæmdum.

Já, veggjaldið á Reykjanesbraut hefur verið gert að umtalsefni bæði af hv. 1. þm. Sunnl., hv. 8. landsk. og hv. 1. þm. Reykn. Vissulega hafa þeir rétt fyrir sér, þegar þeir segja: Þingvilji hlýtur að skera úr um það, hvort við eigum að halda þessari gjaldtöku áfram eða ekki. Og það eitt vil ég segja, að ég stend við það, að það verður ekki tekið veggjald af Reyknesingum einum, ef Alþ. markar þá stefnu að taka ekki veggjald af öðrum sambærilegum vegum. Þangað til eru Reyknesingar að mínu áliti ekki rangindum beittir, því að þeir sitja við hinn bezta veg og gjalda þannig aðeins brothluta af því, sem hann kostaði, og byrðinni, sem þjóðin tekur á sig til þess að bera útgjöld af honum, og hún hefur farið .minnkandi sú byrði á þeirra herðum, eins og hér hefur verið tekið fram.

Það er ekki fjarri því, að mér finnist það nokkuð mikið bráðlæti að taka veggjald inn á vegáætlunina, áður en viðkomandi vegir eru til t.d. Vesturlandsvegur eða hringvegurinn austur um eða vegurinn í áttina til Hellu. Meðan þeir eru ekki til þessir vegir, þá finnst mér vera nokkuð mikið bráðræði að heimta, að ákveðið sé veggjald af þeim. En þegar þeir eru til, þá er kominn tími til þess að marka þá stefnu, og þangað til eiga menn að una því, að Reyknesingar borgi það litla veggjald, sem þeir eru enn látnir greiða. (MÁM: 1. jan. á næsta ári.) Já, ég get líka fallizt á það, að á seinni árum áætlunarinnar sé þá tekið inn veggjald, en ekki á þessu ári, því að þá væri verið að leggja á vegi, sem ekki eru til.

Ég fékk bréf norðan úr Skagafirði núna í vor, og það var frá öldruðum manni þar. Hann ræddi um vegamál og hann ræddi um skattamál. Hann sagði þessi gamli maður:

„Það er einn skattur, sem illt er við að búa í samgöngumálum, og það eru vegleysurnar. Það er þyngsti skatturinn,“ sagði hann, og það er sannleikur. Þeir eiga ekki að mögla, sem hafa beztu vegina, þó að þeir beri örlítið af þeirri byrði, sem lögð er á landslýðinn vegna þeirra, og þeir gera það ekki heldur Suðurnesjamenn. Ég varð ekki var við, að þeir mögluðu nokkurn skapaðan hlut, þegar ekki var ýtt við þeim á þann hátt, sem ýmsir hafa gert, að aumka þá fyrir það, hve illa sé með þá farið og hvað þeir séu miklum rangindum beittir með þessu gjaldi. Það voru menn þar, sem sögðu á fundum, þar sem ég var: Þetta gjald greiðum við með glöðustu geði. Við höfum fengið fyrirframgreiðslu, og við erum aðeins að borga lítinn hluta eftir á. Við höfum fengið fyrirframgreiðsluna í hinum góða vegi. Fólkið úti um landsbyggðina býr við þann vegaskatt, sem heitir vegleysur. Það var sagt hér, að það munaði ekki mikið um þetta gjald. Það eru þó 20 millj. kr. þarna, og það geta orðið 60—80 millj. kr., ef veggjöld eru lögð á þá vegi, sem sambærilegir verða innan tíðar við þennan veg. Og við grípum þó ekki upp úr götunni 60—80 millj., svo mikið er víst og okkur vantar margar 60—80 millj. til framkvæmda í vegamálum. Sé þetta í burtu tekið, þá þurfum við a.m.k. að afla þess með öðrum hætti.

Hv. 1. þm. Sunnl. gerði lítið úr hinum auknu framlögum ríkissjóðs samanborið við fyrri tíð. En það er staðreynd, að ríkið leggur nú fram margfalt meira en það hefur áður gert til vegamálanna. Það voru 47 millj. á fjárlögum á síðustu áætlun, sem ríkissjóður lagði beint fram. Þarna er bætt við 53 millj. og þar að auki hlutanum af innflutningsgjaldinu, 100 millj. kr., auk þess sem ríkissjóður tekur nú á sig allþungar byrðar og vaxandi byrðar af þeim erlendu lánum, sem ríkið stendur undir og léttir þannig af Vegasjóði. Ég held, að það sé ekki árásarefni á núv. hæstv. fjmrh., hversu naumlega hann hafi nú skammtað framlög af ríkisins hendi til vegamálanna. Ég held, að þarna sé mjög myndarlega að verki staðið af honum. Og einkanlega verður það mjög myndarlegt, þegar borið er saman við fyrri tíð.

Með því, sem ég nú hef sagt, hef ég að sumu leyti svarað þeim hv. þm., sem síðast töluðu, hv. 8. landsk. þm. og hv. 1. þm. Reykn., a.m.k. að því er varðar vegaskattinn, og skal ég ekki angra neinn með því að fara fleiri orðum um hann. Við verðum að taka ákvörðun um hann, í fyrsta lagi hvort við ætlum að fella hann niður núna, — en þá verðum við að sjá fyrir annarri fjáröflun í staðinn, þó að ekki séu nema þessir smámunir, 20 millj. kr., og þó hækkandi upphæð, þegar frá líður, — eða hvort við eigum í fljótræði núna að ákveða veggjald á aðra vegi, þó að þeir séu ekki orðnir til sambærilegir. Þó kemur það til mála seinni ár áætlunarinnar að slá því alveg föstu og verður það kannski ofan á. Ég held, að við getum vel verið þekkt fyrir það að taka vegaskatt eða brúarskatta til þátttöku í uppbyggingu okkar vegamála, þegar auðugustu þjóðir heims eins og Bandaríkjamenn gera þetta í stórum stíl. Ég vil ætla það, að það rísi ekki hárin á neinum, þegar þeir hafa fengið góða vegi, þó að lagður sé á þá vegaskattur, hvar sem er á landinu, því að maður verður að ætlast til þess, að þegar teknar eru mörg hundruð millj. kr. lánsfúlgur til þess að leggja í slíkar umbætur í samgöngumálum, þá sé það einhvers metið.

Hér var rætt um Skeiðarársand og vitnað til þess, að þegar málið var samþ. hér í hv. fjvn. Alþ., þá hafi verið talað um, að heildarkostnaður mundi verða 200 millj. kr. Það má vel vera, að svo hafi verið, en svo mikið er víst, að þá höfðu menn ekki við að styðjast neina tæknilega athugun á framkvæmd þessa verks. Slík tæknileg áætlunargerð hefur ekki átt sér stað fyrr en á síðari hluta ársins 1971 og byrjun þessa árs, og verður þó að játa, að þar er um frumáætlun að ræða. Og þar er staldrað við, hafa verið nefndar 500—600 millj. kr. Inn í þá upphæð, sem núna er sett hér í áætlunina, er að vísu tekinn fjármagnskostnaður á framkvæmdatímabilinu, og þegar hann hefur verið dreginn frá, þá er framkvæmdin sjálf eitthvað á milli 500 og 600 millj. En það hef ég tekið fram áður, og ég vil endurtaka það, að hér er við svo stór öfl að deila, að ég fell ekkert í stafi yfir því, þó að áætlanir um slíkt verk kunni að standast illa. Það hafa verið gerðar áætlanir um einfaldari og auðveldari verk en þetta og gengið illa stundum að láta þær áætlanir standast. Ég held, að við getum engir fullyrt það, að hérna séum við með réttar upplýsingar, eins og hv. þm. sagði. Hann sagðist vilja krefjast þess, að við hefðum réttar upplýsingar til að byggja á. Við höfum þær einar upplýsingar núna, að það er búið á nokkrum seinustu mánuðum frá því að þetta var fyrirskipað að leggja drög að frumáætlun eins og menn hugsa sér framkvæmd verksins nú, en við getum orðið fyrir stóráföllum við framkvæmd verksins, sem við sjáum ekkert fyrir og enginn getur séð fyrir. En það getur líka farið svo, að við losnum við öll slík áföll. Þarna held ég, að geti oltið á stórum upphæðum frá eða til. Og ég held, að menn megi í þessu tilfelli sízt af öllu kippa sér upp við það, þó að svo kynni að fara. En eins og menn vita nú sannast og réttast eftir því, hvernig menn hugsa sér mannvirkið, þá eru líkur til að það kosti á milli 500 og 600 millj. kr. að meðtöldum fjármagnskostnaði yfir 600 millj.

Þá var minnzt á Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun og í sambandi við það drepið á Vesturlandsáætlun og Vestfjarðaáætlun. Það var ákvörðun síðasta þings að móta svo nefnda Austurlandsáætlun og þá ákveðið, að til hennar skyldi leggja 60 millj. kr. á ári í fimm ár eða 300 millj. kr. alls, en nú þegar þykir sýnt, að ef krónutalan á ekki að rýrna, verðmæti þessarar ákvörðunar á ekki að rýrna, þá þurfi að bæta þarna við strax á fyrsta framkvæmdaári vegna hækkandi verðlags og fjármagnskostnaðar 15 millj. kr., svo að þetta er núna á áætluninni 75 millj. kr. Það er áreiðanlegt, að í vegakerfi Austfjarða þarf mikið og stórt átak að gera, og þetta var sem sé mat síðasta þings, að þarna þyrfti að taka til hendinni á næstu fimm árum fyrir 300 millj. kr. auk þeirra fjárveitinga, sem Alþ. ætlaði að öðru leyti samkv. vegáætlun. Ég veit það hins vegar, að Norðlendingar eru sáróánægðir með það að fá ekki hærri upphæð á fyrsta framkvæmdaári en 100 millj. og síðan nokkuð hækkandi upphæðir, þannig að þeirra hlutur verður kannske 600 millj. á fimm árum, en það þótti nú ekki fært að ráðast í meira. Ég veit ekki heldur, þegar liðið er svo á árið sem nú, hvort unnt verður að framkvæma miklu meira í vegamálum á Norðurlandi en fyrir 100 millj. kr. Ég veit það ekki. En ég fellst á það, að þeirra hlutur er þarna nokkru lægri, áreiðanlega nokkru lægri en Austfirðinganna samkv. Austfjarðaáætlun.

Vestfjarðaáætlun var nefnd. Hvað ætli framlögin til vegamála hafi verið þar samkv. þeirri áætlun? Ég hef ekki töluna hjá mér, en ég held, að það hafi verið innan við 100 millj. á fimm árum. Og sú áætlun var aldrei gerð fyrir alla Vestfirði. Hún var aldrei gerð fyrir Strandasýslu né heldur Austur-Barðastrandarsýslu og að litlu leyti fyrir Ísafjarðardjúp, svo að það var aðeins samgönguáætlun fyrir hluta af Vestfjörðum. Við þm. Vestf. höfum nú í höndunum plögg frá verkfræðingum um það, hvaða gífurleg verkefni eru aðkallandi og brýn í samgöngumálum Vestfjarða, og þó að þm. kunni að koma það á óvart, af því að þeir eru svo lengi búnir að heyra um Vestfjarðaáætlun, að ekki skuli öllu lokið þar í meginatriðum, þá eru þar gífurleg verkefni, sem eru aðkallandi og sem ekki verður komizt hjá að sinna. Sumu af Vestfjarðaáætluninni, sem átti að vera lokið 1969, er ólokið enn. Og að tvennu leyti hefur ekki verið staðið við gefin loforð varðandi Vestfjarðaáætlun. Það eru enn þá óframkvæmdir stórir liðir, t.d. jarðgöngin gegnum Breiðadalsheiði. Það er eftir að malbika Ísafjarðarflugvöll. Þetta var hvort tveggja í áætluninni. Og svo var því líka heitið, að útvegað skyldi jafnmikið innlent fjármagn eins og útlenda fjármagninu næmi. En þar vantar upp á marga tugi millj. (LárJ: Var Vestfjarðaáætlun nokkurn tíma til?) Hún var samsett svona með svipuðum hætti eins og þeir menn gera, sem byggja hús sitt fyrst og búa svo til teikningu á eftir, svoleiðis varð hún sennilega til að lokum. En svo mikið er víst, að skuldbindingar voru gefnar, sem ekki hafa verið efndar nema að hluta.

Ég álít, að Norðurlandsáætlun sé allt of lítið undirbúin, þegar nú er farið af stað með hana. Og Vesturlandsáætlun er tæpast enn þá í smíðum. En undirbúningur að þessum áætlunargerðum, ef þær eiga að vera nokkuð annað en nafnið tómt, er nauðsynleg forsenda. Hins vegar held ég, að engir þm. Vesturlands þurfi nú að vera mjög ósáttir við framkvæmdir í vegamálum og samgöngumálum, þó að ekki sé komið að þeirra landshlutaáætlun, því að mér er kunnugt um það, að það er ætlunin að láta til samgöngubóta á Vesturlandi á þessu áætlunartímabili til eins eða tveggja mannvirkja þar nálægt 300 millj. kr., svo að ég held, að Vesturland verði varla olnbogabarnið, sem þurfi að bera sig illa.

Ég minnist þess nú ekki, að það hafi verið mörg fleiri atriði, sem hafi verið gerð að umtalsefni varðandi vegáætlunina. Hv. 1. þm. Reykn. ræddi aðallega um veggjaldið, eins og kannske er eðlilegt og þau svör, sem ég hef gefið öðrum hv. þm., hv. 1. þm. Sunnl. og hv. 8. landsk. þm., um þau mál, hef ég líka gefið hv. 1. þm. Reykn. Ég beygi mig að sjálfsögðu fyrir því, ef þingið vill fella þetta gjald niður. Ég tel hins vegar fljótræði í því að fella það niður, ef svo skyldi verða tekin ákvörðun um að taka upp veggjöld annars staðar. Það væri álappalegt. En ef menn telja það réttara að slá stefnunni fastri á þessu þingi með því að taka upp veggjöld á seinni árum þessa áætlunartímabils og þá að sjálfsögðu að halda veggjaldinu á Reykjanesbraut áfram, þá teldi ég það viðunandi, þó að ég teldi eðlilegast, að beðið væri með að setja veggjöld á aðra vegi, þangað til þeir eru til og orðnir sambærilegir við Reykjanesbraut. Þá teldi ég tímabært að taka „prinsíp“-ákvörðun um það annaðhvort að leggja veggjald niður alls staðar eða taka það upp á öllum sambærilegum vegum í vegakerfinu.