18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3825)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um margumrætt veggjald. Afstaða ýmissa hv. flm. till. á þskj. 921 finnst mér vægast sagt ekki vera stórmannleg. Það er hægt að deila um það, hvort rétt sé að leggja veggjöld á þá, sem aka beztu vegi landsins og spara sannanlega meira en sem veggjaldinu nemur í benzíni og minna sliti á bílum, eða hvort eigi að láta þá, sem verða enn um sinn og væntanlega lengi að búa við vegleysur og ófærð og snjóa, og þar með þá, sem eyða mestu af benzíni og greiða mestan benzín skatt, láta þá raunverulega standa undir afborgunum af þessum vegum. Um þetta er hægt að deila, finnst mér. En sú afstaða, sem birtist í því að vera með veggjaldi, þegar það er lagt á aðra, en á móti því, þegar að því kemur, að það sé lagt á þá eða væntanlega fyrst og fremst þeirra kjósendur, hún finnst mér ekki bera vott um mikla karlmennsku. Mér liggur við að biðja um, að þeim veitist nú styrkur og meiri karlmennska, þannig að þeir geti látið skynsemina ráða í þessu máli, því að það er ábyggilega skynsamlegt, að fólkið allt hjálpist að því að koma sem beztum vegum sem fyrst um allt landið. Og auðvitað á að leggja veggjald á alla góða vegi, þegar að því kemur, að náð er umtalsverðum kafla. Þegar kominn er 40—50 km langur samfelldur kafli, þá er eðlilegt að taka þetta upp. Þetta finnst mér vera hin heilbrigða afstaða, og mér finnst, að allir þeir, sem fylgdu veggjaldi á Keflavíkurvegi, hljóti að fylgja því að það verði nú lagt á Suðurlandsveg og síðan á Vesturlandsveg, og þá getum við litið á þetta. Þá er að því komið má segja, að Reykvíkingar komist ekki burtu úr sinni höfuðborg án þess að þurfa að borga nokkurt gjald. Allra leiðir liggja nú til Reykjavíkur, og þar með eru raunverulega allir landsmenn farnir að greiða þetta gjald að nokkru leyti. Og ég vil aftur biðja menn að minnast þess, að þetta gjald er ekki meira en það, að menn spara sér meira með því að fá að nota þessa góðu vegi. Þegar þeir geta notað þessa góðu vegi, þá spara þeir sér meira en sem veggjaldinu nemur. Og hugsum okkur menn, sem koma að norðan eða austan, og þegar þeir eru búnir að aka daglangt á vondum malarvegum, hvort þeir verða ekki fegnir að koma á góðan veg uppi í Hvalfjarðarbotni eða hvar það nú verður, þó að þeir þurfi að greiða nokkurt veggjald. Ég er viss um, að þeir fagna, þeir greiða þetta gjald fagnandi, og ég vona, að Sunnlendingum auðnist að greiða þetta gjald með fögnuði, þegar vegurinn er kominn svo langt.