27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3942)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, að framkvæmd hinna nýju náttúruverndarlaga beri á góma í sambandi við það mál, sem nú er rætt hér, og mér er ljúft að veita svör fyrir mitt rn. við fsp. hv. 8. landsk. þm.

Þá er það fyrst, að skipanir héraðanefndanna, sem áttu að eiga sér stað fyrir 3. des., eru upphafið á þeim ferli, sem verður undanfari framkvæmdar hins nýja náttúruverndarkerfis. Menntmrn. sendi sýslunefndum og bæjarstjórnum bréf í haust, ég man ekki dagsetninguna, en minnir, að það væri þó fyrir miðjan okt., þar sem rekið var á eftir, að þessir aðilar kysu héraðanefndirnar. Vitneskja um, hversu almennt þessu erindi hefur verið sinnt, liggur ekki enn fyrir. En þetta er nú í könnun, hverjar sýslunefndir og bæjarstjórnir hafa þegar gert skyldu sína hvað þetta varðar og hverjar kunna að eiga það eftir, því að það er eindreginn vilji minn, að þau tímamörk, sem í lögunum eru sett, verði haldin, fyrirhugað náttúruverndarþing komi saman á tilsettum tíma, og það kýs síðan nýtt náttúruverndarráð.

Hvað það varðar, að ráðstafanir séu gerðar til að koma upp skrifstofu og starfsliði fyrir náttúruverndarráð, þá tel ég, að rétt sé, að þar sé ekki hafizt handa um mannaráðningar fyrr en nýtt náttúruverndarráð kemur til skjalanna, kosið samkv. nýjum lögum. Ég tel ekki rétt, að það náttúruverndarráð, sem nú situr og er skipað með öðrum hætti, geri þar ráðstafanir, sem e.t.v. yrðu á einhvern hátt á annan veg en hin nýja stofnun vildi viðhafa.

Fjárveitingar til náttúruverndarmála voru vissulega auknar verulega á fjárlögum yfirstandandi árs frá því, sem verið hefur undanfarm ár, þótt auðvitað megi ætíð um það deila, hversu miklu fé sé rétt og hægt að verja til þeirra þarfa, eins og margra annarra.