08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Af því að ég reikna nú með því, að það verði eflaust umr. hér um efnahagsmál, áður en langt um líður, eins og hv. 1. þm. Reykv. minntist hér á, þá skal ég nú ekki verða langorður og ekki fara út í það að ræða við hann eða aðra hér um þau mál, svona á almennum grundvelli, en mér finnst sérstök ástæða til þess í tilefni af orðum hans að vekja hér aðeins athygli á mjög mikilvægu máli, sem snerti einmitt það, sem við höfum verið að ræða hér.

Hann talaði hér nokkuð um það, að við hefðum notað orðin „á slíkum tímum“ óg skildi nú ekki, að það væru neinir slíkir tímar nú, að það þyrfti yfirleitt á neinum verðhækkunum að halda, því að árferði hefði verið gott og góð afkoma allra. Ber þetta þá að skilja svo, að það sé skoðun hans og hans flokks, að það muni ekki vera þörf á neinum verðbreytingum í dag og það sé m.a. óhætt t.d. fyrir mig að standa fast á því að neita öllum verðhækkunum? Það er auðvitað afskaplega mikill stuðningur fyrir mig í vandasömu starfi, ef ég á von á stuðningi Sjálfstfl. og formanns Sjálfstfl. í þessum efnum, að ég tali nú ekki um, ef hann legði Morgunblaðið með sér til þess að standa að því að verja það, að staðið yrði gegn öllum verðlagshækkunum.

Ég hef gert mér grein fyrir því, að við stöndum auðvitað frammi fyrir allmiklum breytingum. Venjan er sú, að þegar búið er að halda verðlagi kyrru með verðstöðvun í rúmlega heilt ár, þá er búið að safna fyrir talsverðu af vandamálum, sem ekki hafa verið leyst, og þegar um talsvert verulega kaupbreytingu er að ræða, þá koma slíkir tímar, að viss vandi er á ferðum, og þá er sótt mjög á það að breyta verðlagi. Vonandi er ástandið þannig almennt séð í atvinnurekstrinum í okkar landi og í sambandi við innflutningsmál, að hægt sé að halda þannig á málum, og ég gat ekki skilið formann Sjálfstfl. á annan veg en þann, að það væri hægt að standa gegn öllum verðlagshækkunum. Það er sjálfsagt að hafa það í huga við þessa athugun, sem nú er framundan.