03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í D-deild Alþingistíðinda. (3955)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Ég skal ekki miklu bæta við þær ágætu umr., sem hér hafa farið fram um mjög merkt mál. Hér hefur verið mikið rætt um slæma umgengni okkar Íslendinga við landið okkar á undanförnum áratugum og öldum, og vissulega hefur þar ekki verið ofmælt um margt, og við þekkjum það enn í dag, hvernig ferðalangar, innlendir og erlendir, umgangast íslenzka náttúru á ferðalögum um landið. En það er einnig hægt að segja frá mjög ánægjulegum ferðalögum hópa Íslendinga, sem kunna að meta íslenzka náttúru og umgangast hana með virðingu.

Ég hef átt þess kost undanfarin 10 ár að vera þátttakandi í hópferðalagi ákveðins verkalýðsfélags í Reykjavík, og mig langar að skýra frá því sem smáinnleggi í þessar umr., að þar hefur stjórn þeirra ferðalaga farið þannig fram, að í hverjum áningarstað hefur það verið síðasta verkefni fararstjórnarinnar að mæla svo fyrir, að allir ferðafélagarnir væru drifnir út úr bílum, áður en farið væri úr áningarstað, og áningarstaðurinn væri gersamlega hreinsaður, meira að segja brunnar eldspýtur væru einnig teknar, öllu drasli brennt og það síðan grafið og gengið eins vel frá áningarstaðnum og frekast er hægt. Þetta tel ég vera til mikillar fyrirmyndar og tel ástæðu til þess, að það komi fram í umr., þar sem mikið hefur verið rætt um slæma umgengni við náttúruna. En það er vitanlega eitt af því, sem við þurfum að bæta. Ef við ætlum að hefja hér sókn í því að græða upp landið okkar, þá þurfum við einnig að hefja sókn í því að reyna að koma í veg fyrir þær miklu skemmdir, sem mörg ferðalög og ferðalangar eru því miður allt of oft valdir að.

Á þskj. 142 er rætt um eflingu ferðamannastraumsins, erlends ferðamannastraums til landsins og það þurfi að skipuleggja hann á verðugan hátt. Vissulega erum við sammála um, að við þurfum að efla ferðamannastraum til landsins, en við megum þá ekki gleyma íslenzkri náttúru, þegar um það mál verður fjallað, og megum ekki gleyma því, hvaða áhrif óskipulögð ferðalög útlendinga og stórefling ferðamannastraumsins til landsins getur haft á íslenzka náttúru, því að ég hygg, án þess að ég sé vísindamaður á því sviði, að fullyrða megi, að íslenzkur gróður sé það miklu viðkvæmari en gróður í suðrænni löndum, að hann þoli langtum minni átroðning ferðafólks en í þeim löndum. sem nú eru yfirfull af ferðafólki.

Ég hef einnig orðið vitni að því og sem betur fer litillega þátttakandi í því að sjá stórkostlegan árangur af landgræðslu. Og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það örfáum orðum, það ævintýri, sem skeð hefur í Rangárvallasýslunni eða á Rangársöndum. Að vísu sá ég ekki Rangársanda, þegar þeir voru í sínu fulla veldi á þeim tíma, þegar stór mýraflæmi voru orðin gróðurlaus, vegna þess að þau höfðu fyllzt af sandfokinu. Það þekkja aðrir þm. betur en ég. En þá sögu hef ég heyrt, og ég hef gengið um það land, og ég hef séð mér til mikillar ánægju, hvernig sú landgræðsla, sem þar hefur farið fram, hefur skilað svo miklum árangri, að nánast er ævintýri líkara að sjá en manni fyrir fram þætti það trúlegt, að svo væri hægt að græða upp eyðisanda.

Í þessum umr. hér áður kom það fram, að Lionsklúbbur í Reykjavík hefði kannske verið upphafsaðili að þeirri þjóðarvakningu, sem nú færi fram í sambandi við uppgræðslu íslenzkrar náttúru. Ekki skal ég um það deila, hverjir eru upphafsmenn að þessari þjóðarvakningu, og skiptir kannske ekki öllu máli, en þegar talað er um, hverjir séu upphafsmenn, þá hygg ég, að það væri ekki óeðlilegt, að minnzt væri á nafn Gunnlaugs Kristmundssonar, fyrsta sandgræðslustjórans, sem hóf hið mikla starf Sandgræðslunnar á Rangárvöllum, sem hefur skilað svo gífurlega góðum árangri, og síðar Runólfs heitins Sveinssonar, næsta sandgræðslustjóra, og núv. sandgræðslustjóra, Páls Sveinssonar, bróður Runólfs, sem tók við af honum og hefur haldið því verki áfram af miklum dugnaði og þrautseigju. Fullkunnugt er mér um það, að þeir hafa ekki alltaf verið með fullar hendur fjár og hafa þar unnið mikið og fórnfúst starf og ekki spurt þá alltaf að launum, því að báðir þessir bræður, Runólfur heitinn og Páll, eru slíkir áhugamenn um sandgræðslu og landgræðslu almennt, að til aðdáunar er.

Ég vildi aðeins, að þessi tvö atriði kæmu hér fram, enda þótt þau séu kannske ekki neitt stórt innlegg í þær umr., sem hér hafa farið fram um landgræðsluna, en mér fannst, að það mætti um leið og við ræðum um illa umgengni okkar Íslendinga við íslenzka náttúru einnig minnast á þá umgengni, sem er til fyrirmyndar. Og um leið og við minnumst á það, hverjir séu upphafsmenn að þeim áhuga, sem nú er á þessu, þá mættum við ekki gera það öðruvísi en minnast þá einnig þeirra manna, sem hafa kannske unnið hvað stærst afrekin á þessu sviði.