08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

119. mál, verðlagsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mér sýnist nú, að hv. 5. þm. Norðurl. e. sé með allundarlegar hugsanir í sambandi við kaupmáttaraukningu. Hann hefur ekki skilið það, að ríkisstj. leyfi sér að tala um það að auka kaupmátt launa um 20% á tveggja ára tímabili, jafnvel þótt það. yrðu einhverjar verðlagshækkanir. Hann hefur ekki getað sett saman þetta tvennt. Ég held, að ef honum er bent á þetta, þá hljóti hann nú við endurskoðun á þessu að sjá það ósköp einfaldlega, að það er hægt að veita kaupmáttaraukningu, jafnvel þótt um einhverja verðlagshækkun sé að ræða, vegna þess að við búum við það kerfi, að hér er um verðtryggingu á laun að ræða, og ef um einhverja verðlagshækkun verður að ræða, þá fá menn hana bætta eftir sérstöku kerfi. Það hefur sem sagt legið alveg ljóst fyrir frá byrjun, að ríkisstj. hefur talið, að það væri hægt með ákveðnum ráðstöfunum, sem hún er að vinna að, að tryggja 20% kaupmáttaraukningu á næstu tveimur árum. Hún hefur þegar lagt nokkurn grunn að því, að það megi takast, en hinu hefur henni ekki dottið í hug að halda fram, að á þessu tveggja ára tímabili geti ekki orðið um neina breytingu aðra að ræða en 20% hækkun á kaupi, þ.e. engar verðlagsbreytingar. Á svona einfaldan hátt hefur okkur ekki enn þá dottið í hug að setja upp dæmið. Þessi hv. þm. getur svo auðvitað slöngvað fram einhverjum fullyrðingum um það, að ríkisstj. viti ekkert, hvert hún stefnir, en það breytir bara ekki miklu um það, hvað ríkisstj. er að gera, hvað hann kann að segja í þessum efnum, sem kann að vera rökstutt á þennan sérstaka hátt.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég átti alveg von á því, að hv. 1. þm. Reykv., form. Sjálfstfl., mundi fremur velja sér þá stöðu, sem hann myndaði sig til að gera hér, að halda því jöfnum höndum fram, að ríkisstj. væri að standa fyrir miklum verðhækkunum að óþörfu miðað við góðar aðstæður, og svo því, a.m.k. í eyrun á réttum aðilum, að þeir hefðu ekki fengið nægilegar verðhækkanir miðað við það, sem þeir þyrftu, og því þurfti að taka það fram, að við mættum nú ekki treysta á hans skoðanir í þessum efnum, við yrðum að taka á okkur vandann sjálfir.

Svo talaði hv. 1. þm. Reykv. mikið um það, að ég og aðrir í stjórnarandstöðu hefðum sagt hér í fyrra, að ekkert mætti hækka í verði. Þetta er eins og hvert annað slúður, þetta höfum við ekki sagt. Hann finnur þess hvergi dæmi nokkurs staðar í Alþt., að við höfum sagt þetta. (Gripið fram í.) Já, það væri anzi gaman, að hv. þm. tæki sig til og færi að leita, en þetta höfum við vitanlega aldrei sagt.

Hitt er annað mál. að það hefur verið hér uppi ágreiningur um það, hvort þær verðhækkanir, sem leyfðar hafa verið, hafi allar átt rétt á sér. Mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram, að það væri auðvelt fyrir okkur hér á Íslandi að halda öllu verðlagi óbreyttu, hvað svo sem gerðist í kringum okkur og einnig hér í þjóðfélagi okkar. En það er hægt eigi að síður að halda þannig á málum, að það gefi þá raunverulegu útkomu, að það jafngildi kjarabótum, og vitanlega er að því stefnt í þessum efnum.

Ég skal svo ekki vera að þræta við þessa hv. þm. um þessi atriði öllu meira. Mér sýnist þetta sé nú meira frá þeirra hálfu af vilja en mætti.