17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

119. mál, verðlagsmál

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil lýsa stuðningi mínum við það, að verðlagseftirliti verði haldið áfram samkv. þessu frv., og mun sannarlega ekki vera vanþörf á. Ég geri ráð fyrir því, að það verði miklar beiðnir um verðhækkanir, sem menn munu óska eftir að fá samþykktar, og er það þá auðvitað eins og venjulega, að sumar þeirra eru kannske réttlætanlegar,en öðrum þarf að gjalda mikinn varhug við og standa fast á verði um, að ekki séu samþykktar, og á það jafnt við raunar um einkaaðila og opinbera aðila, því að stundum hefur mér nú þótt eins og opinberu aðilarnir væru fullt eins fljótir til að fara fram á hækkanir. Ég vil þess vegna taka undir það, að það þurfi að hafa hér mikla gát á, en á sama tíma þarf að gera sér grein fyrir því, að það er ekki tilgangurinn að drepa atvinnufyrirtækin. Þarna verður því áreiðanlega um mjög vandasamt verk að ræða.

Nú tók ég eftir því í nál. hv. fjhn., að þrír nm. mæla með frv. í trausti þess, að viðskrh. skipi embættismann sem formann. Ég kom fyrst og fremst hingað til þess að spyrja hæstv. viðskrh., hvort hann geti nokkuð um þetta sagt á þessu stigi, en ég held, að þetta mál sé svo erfitt og viðamikið, að ég er hræddur um, að það verði enn erfiðara, ef um væri að ræða pólitískan fulltrúa sem formann, en eins og hv. þm. vita, hefur ráðuneytisstjórinn í viðskrn. hingað til verið formaður. Ég legg talsvert mikið upp úr þessu atriði, og ég á von á því, að málið allt verði auðveldara viðfangs fyrir væntanlega verðlagsnefnd, ef embættismaður yrði valinn sem formaður.