21.03.1972
Sameinað þing: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (4183)

46. mál, öryggismál Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir það, að leyft er að ræða tillögurnar á sama tíma, vegna þess að þær fjalla um sama mál. Á þskj. 62 berum við allir þm. Alþfl. fram till. til þál. um athugun á öryggismálum Íslands. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela utanrmn. að gera ítarlega athugun á öryggismálum Íslands. Nefndin skal m.a. athuga:

1. Gildi varnarsamtaka Atlantshafsbandalagsins fyrir öryggi Íslands.

2. Gildi Íslands innan þessara varnarsamtaka.

3. Áhrif hinnar miklu aukningar á flotastyrk stórvelda á Norður—Atlantshafi á stöðu Íslands og nágranna þess.

4. Viðhorf næstu nágrannaþjóða til eftirlitsstöðvanna á Íslandi með sérstöku tilliti til Grænlands, Færeyja og Noregs.

5. Gildi radarstöðva og orustuflugsveitar á Íslandi fyrir öryggi landsins og varnarkerfið í heild.

6. Starf varnarliðsins með tilliti til hlutverka þess.

7. Möguleika Íslendinga til að taka meiri þátt í eftirlitsstarfi yfir Atlantshafi, a.m.k. yfir landgrunninu eða að 100 mílna mengunarlögsögu.

8. Kostnað við varnir landsins og efnahagslega þýðingu þeirra fyrir Íslendinga.

Utanrmn. er heimilað að ráða starfslið til að vinna að rannsókn þessari og senda fulltrúa til næstu landa til gagnasöfnunar. Nefndin skal gera ítarlega skýrslu um öll þessi mál og leggja hana fyrir Alþ. svo fljótt sem unnt er.“

Í marg um ræddum málefnasamningi hæstv. ,ríkisstj. segir svo um utanríkismál, með leyfi forseta:

„Stefna Íslands í alþjóðamálum verði sjálfstæðari og einbeittari, en hún hefur verið um skeið, og sé jafnan við það miðað að tryggja efnahagslegt og stjórnarfarslegt fullveldi landsins. Haft skal fullt samráð við utanrmn. Alþ. um öll meiri háttar utanríkismál og um mótun utanríkismálastefnu landsins. Á hverju Alþ. skal gefin skýrsla um utanríkismál og fari þar fram almennar umr. um þau.“ Síðar segir: „Ríkisstj. telur, að vinna beri að því að draga úr víðsjám í heiminum og stuðla að sáttum og friði með auknum kynnum milli þjóða og almennri afvopnun og telur, að friði milli þjóða verði bezt borgið án hernaðarbandalaga. Ágreiningur er milli stjórnarflokkanna um afstöðu til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu að óbreyttum aðstæðum. Skal þó gildandi skipan haldast, en ríkisstj. mun kappkosta að fylgjast sem bezt með þróun þeirra mála og endurmeta jafnan stöðu Íslands í samræmi við breyttar aðstæður. Ríkisstj. er samþykk því, að boðað verði til sérstakrar öryggisráðstefnu Evrópu.“ Svo segir: „Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.“

Eins og sjá má af þessum orðum, er stefnan engan veginn ákveðin, þótt í fyrra tilvikinu sé talað um sjálfstæðari og einbeittari stefnu en verið hefur undanfarin ár. Það er beinlínis tekið skýrt fram, að um ágreining sé að ræða. Boðar það einbeitni og stefnufestu? Því fer auðvitað víðs fjarri. Það boðar togstreitu og mistúlkun, eins og þegar hefur komið greinilega í ljós í umr. um utanríkismálin í sambandi við skýrslu hæstv. utanrrh. hér áður á hv. Alþ., og mun ég ekki fara fremur út í þá sálma.

Á andartaki árla morguns hinn 10. maí 1940 urðu þáttaskil í sögu íslenzku þjóðarinnar, þegar brezkur flugbátur sveimaði með fyrstu hermennina yfir höfuðstað landsins í býtið þann dag. Á eftir fylgdi svo landgöngulið. Rétt í sama mund lýsti nýbakaður forsrh. Englands, Winston Churchill, því yfir, að engum þýzkum her yrði leyft að stíga á land á Íslandi órefsað. Frá þessum degi hefur líf þjóðarinnar verið með öðrum brag en áður var og svo mun verða. Íslendingar voru í einni svipan komnir inn í ægilegustu átök mannkynssögunnar og gátu engu þar um breytt. Þetta hafði misjöfn áhrif á hug og hönd margra. En eitt er augljóst, að enn verra hefði skeð, ef fyrirætlun undir nafninu Ikaros hefði heppnazt. Þá hefðu nazistarnir vaðið hér yfir og sú saga hefði verið mjög svo blóði drifin og full af hörmungum, en frá þessum hernámsdegi hefur verið her á Íslandi.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér gang mála í sambandi við brottför brezka hersins og komu þess ameríska. Hitt er staðreynd, að meiri hl. alþm. og þjóðarinnar hefur samþykkt að hafa hér varnarstöð og nokkur þúsund hermanna til gæzlu í stöðinni. Sú ákvörðun að hverfa frá margyfirlýstri hlutleysisstefnu og sætta sig við varnarliðið í landinu hefur jafnan átt sér harða andstæðinga og með ýmsu móti hefur fremur fámennur hópur baksað við að vinna þeirri stefnu fylgi meiri hl., að fásinna væri að vera innan Atlantshafsbandalagsins og að herinn ætti sem skjótast að hverfa á brott. Þessi hópur hefur komið fram undir safnheitinu „hernámsandstæðingar“. Ég tel það hins vegar staðreynd, að almennt hafi fólk það enn á tilfinningunni, að ekki sé grundvöllur fyrir þeirri stefnu vegna gersamlega breyttra aðstæðna í heiminum, bæði hvað snertir hernaðartækni og möguleika til allra samgangna. Þetta breytta viðhorf almennings táknar auðvitað ekki, að við eigum ævarandi að vera í hernaðarbandalögum. Það er að mínu mati aðeins viðurkenning á staðreyndum í heiminum í dag, og ekki verði um sinn komizt hjá því að starfa með vinveittum þjóðum til þess að tryggja öryggi þjóðar okkar ásamt þeirra samtímis. Þessi stefna leggur þó kvaðir nokkrar á okkur. En eru þær kvaðir svo þungbærar, að við getum ekki borið þær?

Í samningi okkar við Bandaríkjastjórn um hernámið var ákvæði þess efnis, að þegar að stríðinu loknu skyldi herinn hverfa af landi brott, en þegar til átti að taka, fóru þau fram á lengingu samningsins og aðstöðu í 99 ár. Þessu var einróma mótmælt, sem eðlilegt var. Alls staðar í heiminum voru hinir stríðandi hermenn að undirbúast til heimgöngu og menn væntu friðartímabils um ókomin ár. Þessi ægilega styrjöld var háð til þess að tryggja frið, en ekki ofsóknir og kúgun hinna minni máttar. Það var von allra hér á landi, að við gætum verið fjarri stríðsaðilum að lokinni styrjöldinni. Þessi tilmæli um langvarandi herstöð komu því sem reiðarslag yfir þjóðina. En ef þetta eitt sér hefði verið einangrað mál út af fyrir sig, má gera ráð fyrir, að lausn þess hefði skjótlega verið sú, að herinn hefði farið af landi brott. En því var alls ekki svo farið. Því miður kom brátt í ljós, að Rússar kærðu sig ekki um að kalla heri sína frá mörgum Evrópulöndunum og vildu halda dauðahaldi í þá aðstöðu, sem sigurinn hafði fært þeim. Þeir komu upp leppstjórn í hverju ríkinu á fætur öðru á næstu árum og komu fram þá sem bein ógnun við heimsfriðinn. Þetta er staðreynd, hvað sem hver segir hér í aðra átt.

Upp úr þessu umróti eftirstríðsáranna fram til ársins 1948 kom sú hugmynd, að vestrænar þjóðir yrðu að standa saman móti ásælni Rússa og með byltingunni í Tékkóslóvakíu 1948 kom smiðshöggið á mótun samtaka í þessu skyni. Undirbúningur var hafinn að stofnun Atlantshafsbandalagsins, sem jafnan er kallað NATO. Nánari atvik að inngöngu okkar í NATO og umr., sem af því spunnust, tel ég ekki ástæðu til að rekja hér. En hvað er þá þetta margumrædda Atlantshafsbandalag eða NATO? Rétt er að fara um það nokkrum orðum. Því hefur oft verið haldið fram, að NATO væri varnarbandalag. Það er friðarbandalag. Í öðru lagi er NATO milliríkjastofnun. Það er ekki yfirþjóðleg stofnun í neinum skilningi. Í þriðja lagi fá herir einstakra bandalagsríkja eingöngu fyrirmæli frá eigin ríkisstj. á friðartímum, þótt þeir haldi sameiginlegar heræfingar. En hernaðarlegt verkefni NATO á friðartímum er að gera sameiginlegar varnaráætlanir, sem tryggi tafarlausa og beztu hugsanlega notkun herliðs aðildarríkjanna, skyldi til styrjaldar koma. Þessi hernaðarlega árvekni miðast framar öðru við það að koma í veg fyrir stríð. Stjórnmálalegt verkefni bandalagsins er að vera vettvangur athugunar og ráðfærslu um öll stjórnmálaleg vandamál, sem varða einstök aðildarríki eða bandalagið í heild. Menn sjá af þessu, að Atlantshafsbandalagið er eitthvað nýtt og raunar einstakt í sögunni. Það er kunnugt, að mörg hafa bandalögin verið í gegnum aldirnar og haft misjöfnu hlutverki að gegna. Aldrei hefur samstarf þjóðanna verið svo náið eins og er í NATO. Á því byggist raunverulegur styrkur samtakanna. Þetta er þeim þjóðum kunnugt um, sem utan NATO standa. Það er grjóthörð staðreynd, sem sumir vilja ekki muna eftir, að frá stofnun NATO hefur útþenslustarfsemi þjóðanna í austri, og á ég þá við Rússa, verið stöðvuð. Þau hafa ekki náð þumlungi lands, eftir að tilvera NATO kom til.

Upp úr síðari heimsstyrjöldinni kom nýtt valdajafnvægi til í Evrópu og völd Sovétríkjanna jukust óðfluga. Þýzkaland og Ítalía voru sigruð og féllu úr leik um lengri eða skemmri tíma. Það er staðreynd, að þegar Rússar beittu herafla sínum til þess að tryggja sér og sínum flokksmönnum, kommúnistum, valdaaðstöðu í ýmsum ríkjum, þrýsti þetta vestrænum þjóðum saman í eina heild til þess að mæta þessari útþenslustefnu. Og meira en það. Nauðsyn var á að stöðva hana alveg. Það hefur tekizt og vonandi mun svo verða um ókomin ár. Ef sigurvegararnir hefðu getað varðveitt góða samvinnu og samheldni frá stríðsárunum, var engin þörf á stofnun NATO. En gamli maðurinn, hann Stalín, barnavinurinn mikli, eins og segir í grein um hann í Þjóðviljanum á sínum tíma og stúdentablaðinu þeirra kommanna, rauf samvinnuna til þess að koma fram sínum eigin áformum. Að vísu höfðu komið fram á stríðsárunum brestir í einlægri samvinnu og hin nýja alþjóðastofnun, Sameinuðu þjóðirnar, hafði ekki sýnt getu sína. Þótt hún væri sett á stofn til verndar friði og öryggi. Sameinuðu þjóðirnar voru á þessum tíma að ýmsu leyti vanmáttugri en vonir höfðu staðið til. Það hefur sýnt sig, að þegar ágreiningur kom upp innan Sameinuðu þjóðanna, var öryggisráðið enn ekki svo sterkur aðili í þessum samtökum, að það gæti gegnt hlutverki sínu, eins og menn höfðu gert sér vonir um. Það er staðreynd, að Rússar höfðu náð yfirráðum yfir landssvæði að styrjöldinni lokinni, sem var um 475 þús. km2, heldur minni en Frakkland og með rúmlega 23 millj. íbúa. Þó átti eftir að gerast hér meira. Raunverulega hafði Sovétstjórnin yfirráð yfir Póllandi, Austur—Þýzkalandi, Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Albaníu, vegna þess að Sovétríkin í skjóli herstyrks síns komu til valda valdhöfum og ríkisstjórnum, sem voru þeim vinveittar, kommúnistum. Þetta er staðreynd. Það er staðreynd, að á þessum árum var þetta meira eða minna sem ein heild, er laut yfirstjórn frá Moskvu. Allt þetta landssvæði var um 1 millj. km2 og með hátt í 100 millj. íbúa eða fast af því helmingur á móti íbúafjölda Sovétríkjanna sjálfra. Þessa þróun litu Vesturveldin óhýru auga eðlilega og mótmælin voru borin fram, en hrukku hvergi. Frammámenn þessara ríkja gerðu sér grein fyrir, að eitthvað varð að gerast til þess að þessi þróun héldi ekki áfram og hinn rússneski bjarnarhrammur teygði sig ekki áfram hægt og bítandi vestur yfir Evrópu. Þetta var skuggi, sem enginn þessara manna, sem stóð að stofnun NATO, kærði sig um að sitja í. Einnig reyndu Rússar að ná víðar áhrifum en hér í Evrópu, en ég skal ekki fara út í þá sálma.

Vegna alls þessa var mönnum enn ljósara, að nauðsyn var á að mynda samstarf þeirra þjóða. er gátu borið traust hver til annarrar, samstarf, sem væri svo sterkt og heilbrigt, að það gæti heft þessa þróun, er átti sér stað í hinum kommúnistíska heimi. En Evrópuþjóðirnar voru í rústum eftir hina ægilegu styrjöld. Raunverulega voru það Bandaríkin ein, sem gátu skapað valdajafnvægi í heiminum, og það var útþenslupólitík Rússa á þeim tíma, sem knúði Bandaríkjamenn til þess að taka hina heimssögulegu ákvörðun að ganga í varnarbandalag Evrópu á friðartímum. Með þessari stefnu rufu Bandaríkin raunverulega hefðbundna utanríkisstefnu, sem hafði verið við lýði allt frá dögum George Washington, frá einangrun og hlutleysisstefnu, sem hið mikla lýðveldi hafði fylgt að undanskildum árunum 1917—1918 og 1941—1945, þegar Norður—Ameríkumenn drógust inn í fyrri og síðari heimsstyrjöldina. Að mati Bandaríkjamanna var yfirvofandi hætta það mikil, að þeir hófu viðræður við Kanada og Vesturbandalagslöndin og síðan Danmörk, Ísland, Ítalíu, Noreg og Portúgal. Niðurstaðan af þessum viðræðum var sú, að þessi 12 ríki gerðu með sér samtök og undirrituðu Atlantshafssáttmálann, The North—Atlantie Treaty. Þetta gerðist í Washington 4. apríl 1949. Síðan bættust Grikkland, Tyrkland og Vestur-Þýzkaland í hópinn.

Þýðingarmesta ákvæði sáttmálans er í 5. gr. þar sem segir m.a.: „Það er álit Atlantshafsríkjanna, að líta skuli á vopnaða árás gegn einu eða fleiri aðildarríkjum, ríkjunum í Evrópu eða Norður-Ameríku, sem árás á öll aðildarríkin.“ Ef slík árás verður gerð, skulu aðildarríkin „aðstoða það eða þau ríki, sem fyrir árásinni verða, hvert fyrir sig og gera jafnframt þær ráðstafanir í samráði við hin aðildarríkin, sem það telur nauðsynlegar til að koma aftur á öryggi á Norður-Atlantshafssvæðinu, þar með talin beiting vopnaðs valds.“

Þá er það mjög undirstrikað í sáttmálanum, að bandalagið sé eingöngu varnarbandalag. Aðildarríkin heita Sameinuðu þjóðunum og sáttmála þeirra fullum stuðningi og trúnaði og lýsa því yfir, að þau vilji búa í friði við allar þjóðir og ríkisstjórnir. Þau eru ákveðin í „að tryggja frelsi þjóða sinna, sameiginlegan menningararf og siðmenningu, sem byggist á grundvallaratriðum lýðræðisstjórnar, einstaklingsfrelsis og réttarríkis.“

Raunverulega er langþýðingarmesta atriði Atlantshafssáttmálans það atriði, sem fjallar um samábyrgðina. Þar segir, að allir skuli standa sem einn fyrir alla og allir fyrir einn. Með þessu á að hindra, að varnarlaus lönd verði árásarríki að bráð hvert af öðru á sama hátt og átti sér stað í Austur— og Mið-Evrópu fyrstu árin eftir stríðið og í lok 4. tugs aldarinnar, þegar Hitler einangraði fórnarlömb sín og yfirbugaði þau hvert út af fyrir sig.

Ég mun ekki rekja í lengra máli aðdraganda að stofnun NATO og með hvaða hætti bandalagið varð til. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því, að innan þessa bandalags eru nokkur smáríki, sem hafa um aldaraðir lýst yfir hlutleysi og aldrei orðið þátttakendur í styrjöld nema út úr neyð. En nú hafa þau af fúsum vilja gengið inn í svo víðtækt hernaðarbandalag sem NATO er. Er ekki rétt að staldra við og hugleiða, hvers vegna slík ákvörðun er tekin? Getur það verið, að stjórnendur þessara ríkja séu svo skyni skroppnir, að þeir geri sér ekki grein fyrir því, hvaða áhætta fylgir því að vera í NATO? Er það svo, að með því að vera aðili að NATO hafi þessi smáríki glatað möguleika sínum á því að verða utan stríðsátaka, ef til heimsstyrjaldar kemur? Slíkar spurningar geta komið í hug manns, þegar hugleidd er staða og geta hjá smáþjóð sér til varnar á móti stórveldunum og hvað nútíma hernaðartækni felur í sér mikla möguleika á því að tortíma jafnvel heilli þjóð og stóru landssvæði. Getur það verið, að forsvarsmenn smáþjóðar stígi slíkt skref inn í hernaðarbandalög að ástæðulausu? Er ekki einmitt augljóst, að þátttaka í NATO feli í sér nokkra áhættu? Ég tel að svo sé. Því miður eru tímarnir þannig, að það er óhugsandi fyrir nokkurt ríki, stórt eða smátt, að fylgja áhættulausri utanríkisstefnu. Mér virðist sá einn kostur að velja á milli áhættu í einni eða annarri mynd. Það er staðreynd, að styrjaldir verða æ umfangsmeiri og einstaka þjóðir ráða litlu um það, hvort styrjöldin nær til þeirra eða ekki. Einhliða hlutleysisyfirlýsingar hafa dugað mörgum skammt. Það sannar sagan. Þetta gildir um þjóð, hversu friðelsk sem hún er og vill vera. Og liggi landið á hættusvæði eða mikilvægu hernaðarlega séð, þá er ekki að sökum að spyrja, sá sterki gerir það, sem hann telur sér koma að notum og spyr engan að því, hvað er rétt eða rangt í því sambandi. Hin hernaðarlega aðstaða getur beinlínis skapað kapphlaup milli hinna stríðandi aðila um að ná svæðinu sem fyrst.

Ef við lítum til baka, þá getum við séð, hvernig heimsstyrjöldin breiddist út eins og eldur í sinu á ýmsum stöðum og hvernig áætlun hefur verið gerð fyrir fram um að hagnýta sér viss hernaðarleg landssvæði. Þá var ekki spurt um utanríkisstefnu viðkomandi þjóðar, hvort hún hefði verið friðelsk á undanförnum árum, jafnvel öldum. Spurningin var: Er það stórveldinu, hinum sterka, til aðstöðubótar að ná þessu landi eða ekki, svo að hann geti heldur sigrað óvininn að sínu eigin mati? Þá er ekki spurt um eitt eða neitt. Heraflinn er sendur til þess að hertaka landið eins fljótt og nokkur kostur er á. Hér er ekki heldur spurt um mannslíf hjá viðkomandi þjóð. Má ég benda á örlög landa eins og Hollands, Belgíu, Danmerkur og Noregs í síðustu heimsstyrjöld. Þessi lönd voru hernaðarlega mikilvæg og einnig með hráefni til styrjaldarreksturs. Getum við gert ráð fyrir því, að ný stórstyrjöld, jafnvel heimsstyrjöld, geti verið umfangsminni og mannúðlegri en styrjöldin 1940—1945? Getum við gert ráð fyrir því, að það skipti máli, að smáþjóð hafi löngun og vilja til þess að standa utan við deilurnar, að það skipti máli fyrir þá þjóð, hvað hún segir, ef stórveldið og forustumenn þess eru sannfærðir um það, að lega þess landssvæðis, þar sem smáþjóðin er, hafi mikið hernaðarlegt gildi og það verði að ná landinu til varnar eða sóknar gegn óvininum? Er það ekki gefið mál, að lítið, einangrað land má sín lítils nú á tímum í hernaði og smáríki, sem er vanmáttugt til varnar, myndar eins konar tóm í valdabaráttu stórveldanna? Undir flestum kringumstæðum er bráð hætta á, að styrjaldaraðilar hefji kapphlaup til þess að hertaka það, þótt ekki sé til annars en að koma í veg fyrir, að andstæðingurinn verði fyrri til þess.

Í ályktun okkar Alþfl.—manna fjallar 2. liður um gildi Íslands innan þessara varnarsamtaka. Eins og að framan hefur verið sagt, er augljóst, að aðstaða smáþjóðar er erfið í dag. Það hefur sýnt sig, að hlutleysis yfirlýsingar eru ekki mikils metnar af stórveldunum, þegar til stórátaka kemur. Valið virðist því vera, eins og ástandið er í dag, aðeins það að velja á milli hinna stóru aðila, vera með í samstarfi þeirra þjóða, sem næstar manni standa í sögu— eða menningarlegu tilliti, eða reyna að sýnast óháðir og vita ekkert um, hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir eigið öryggi eða nágrannaþjóða. Það hefur verið öruggur meiri hluti hjá íslenzku þjóðinni fyrir því að standa við hlið þeirra þjóða, þótt því fylgi nokkrar kvaðir, sem næstar okkur eru að menningu og hugsun í lýðræðisskipulagi. Þess vegna höfum við gerzt aðilar að NATO. Við munum aldrei hafa her hér sjálfir. Það er marg yfirlýst, og það dettur engum manni í hug, að til slíks verði stofnað af okkur sjálfum. Það, sem við höfum getað gert, er að skapa hér aðstöðu á takmörkuðu landssvæði fyrir nokkurt setulið, sem hér er til gæzlu og til þess að fylgjast með í lofti og á sjó, hvernig aðrar þjóðir haga sínum könnunarferðum, bæði gagnvart Íslandi og öðrum nágrannaþjóðum. Örugglega má segja, að þetta tryggi okkur nokkra vernd fyrir hugsanlegum óvini, hvaðan svo sem hann kæmi og færi að leita eftir aðstöðu hér á landi sér til handa óboðinn.

Eins og áður var á minnzt, var hið uggvænlega ástand á næstu árum eftir heimsstyrjöldina orsök myndunar NATO. NATO er meira en hernaðarbandalag. Í sáttmálanum er ekki aðeins lögð áherzla á samstöðu á hernaðarlega sviðinu, heldur er mjög mikilvægt talið að stuðla að menningarlegum og félagslegum framförum þjóðanna og kröfum um, að frjálsum stofnunum borgaranna í aðildarríkjunum séu veitt skilyrði til vaxtar og viðgangs. Það kemur skýrt fram í stofnsamningnum, að það sé ekki hafið yfir þjóðirnar. Það skipar ekki fyrir verkum. Bandalagið á að vera tæki til samvinnu milli frjálsra og sjálfstæðra ríkja og er þannig í eðli sínu algerlega andstætt við Varsjárbandalagið. Þar ræður aðeins einn vilji, sem hin aðildarríkin verða að hlýða möglunarlaust. Svipað og ánauðugir þrælar hlýða herra sínum. Þessi þáttur, sem fjallar um menningarleg samskipti, hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár og mun meira gildi er í þessum þætti, en ljóst er við fyrstu yfirsýn. Fari svo, sem er von okkar allra, að Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið lognist út af í náinni framtíð sem hernaðarbandalag, er einmitt mjög mikilvægt, að þessum þætti sé vel sinnt, hinum menningarlega og hinum efnahagslega. Til þess ber einnig brýna nauðsyn, að þessir þættir séu efldir, því að innri styrkur samtakanna er fólginn í þessu samstarfi, ef takast á að skapa samfélag sjálfstæðra Atlantshafsríkja og samhentra.

Varla getum við átt von á því, að sífellt hættuástand ríki hér í Evrópu eða annars staðar í heiminum, en eðlileg, frjáls viðskiptaleg og menningarleg samskipti skyldra þjóða eiga að vera tryggð um óákveðinn tíma og þurfa að eflast. Gildi samtakanna á hernaðarsviðinu á að fara minnkandi, en hinir tveir þættirnir að sama skapi að eflast og aukast á komandi árum. Að þessu leyti er NATO ólíkt Varsjárbandalaginu, að sívaxandi áherzla er lögð á menningarleg og viðskiptaleg tengsl aðildarríkjanna, en hinn hernaðarlegi þáttur Varsjárbandalagsins er hinn eini og sanni rauði þáttur í starfsemi þess og því miður er ekki sjáanlegt, að hann rýrni á næstunni. Þessu til staðhæfingar vil ég leyfa mér að vitna í nýlegt hefti af tímaritinu Time, dagsett 31. jan. s.l., en þar er grein um flotastyrk Rússa og gerður góður samanburður á flota stórveldanna beggja, Rússa og Bandaríkjamanna. Greinin lýsir á ótvíræðan hátt, hversu Rússar hafa aukið gífurlega flota sinn núna síðustu árin, og augljóst er, að ef svo heldur áfram um nokkurn tíma enn, þá muni rússneski flotinn von bráðar verða sá langstærsti í heiminum. Ég ætla mér ekki þá dul að spá neitt um það, hvað þetta þýðir fyrir Ísland og Atlantshafsbandalagið, það verða aðrir að gera, en hitt er víst, að þessi aukning veldur manni áhyggjum og er því miður ekki til þess fallin að draga úr þeirri spennu, sem er á milli bandalaganna tveggja, að hernaðarmátturinn fari dvínandi og fjari sem fyrst út, sem við þó vonum allir. Það kemur fram, að Rússar muni nú eiga 90 kafbáta með kjarnorkuskeytum og 260 aðra kafbáta, auk þess um 100 landgönguskip og um 560 minni stríðsskip. Einnig liðlega 200 tundurspilla og stærri beitiskip. Áhöfn þessa flota er fast að 500 þús. manns, og mega allir sjá, að hér er ekki um neina smámuni að ræða. Hluti af þessum flota siglir nú um meira og minna á hafinu, sem umlykur Ísland. Mikilvægi fyrir NATO er ótvírætt fólgið í því að hafa hér eftirlits aðstöðu með þessum siglingum rússneska flotans og gefa nánar gætur að því, hvernig hann hagar siglingum sínum umhverfis landið. Ólíklegt er, að Rússar auki svo flota sinn að gamni sínu einu saman. En ég ætla ekki að gera ráð fyrir því, að þeir séu að undirbúa flotastyrk sinn svo með ákveðna árás í huga, heldur sér til varnar einungis.

Það er óumdeilanlega mikilvægt að hafa aðstöðu til að fylgjast með flotaæfingum og siglingum eins vel og kostur er á, þótt skjóta megi flugskeytum jafnvel 1.000 mílna vegalengd. Bækistöð, sem er eins vel í sveit sett og hér á Íslandi, er óneitanlega eftirsóknarverð, þar sem allar vegalengdir til eftirlits styttast um helming eða jafnvel meira fyrir stórveldin tvö. Þessi hagkvæma lega til eftirlits skapar þann möguleika, að gera má viðvart um árás með mun styttri fyrirvara og koma þannig til varnar á tiltölulega skömmum tíma, ef nauðsynlegt er. Þessum aðstöðumun til eftirlits og áhrifa gerðu stríðsaðilar sér grein fyrir í síðustu heimsstyrjöld. Þess vegna vildu báðir aðilar ná landi okkar undir sín yfirráð. Það var gæfa okkar, að bandamenn urðu á undan hingað. Þótt ég hafi stiklað hér á stóru í röksemdum fyrir aðstöðu til eftirlits, er augljóst mikilvægi þess að hafa hér eftirlitsstöð. Fimmti liður í ályktun okkar fjallar einmitt um að athugun fari sérstaklega fram á gildi radarstöðvar og orustuflugsveitar á Íslandi fyrir öryggi landsins og varnarkerfið í heild.

Sjötti liðurinn er um athugun á störfum varnarliðsins með tilliti til hlutverka þess í þessu sambandi.

Í sjöunda lið okkar till. bendum við á nauðsyn þess, að möguleikar okkar Íslendinga sjálfra til að taka meiri þátt í eftirlitsstarfi, a.m.k. yfir landgrunninu og hugsanlegri mengunarlögsögu, séu athugaðir. Hér er um mjög mikilvægan þátt í öryggismálum okkar að ræða og virðist mér persónulega hugsanlegt, að í framtíðinni geti landhelgisgæzlan okkar tekið að sér veigamikil verkefni í þessu sambandi. Á vegum landhelgisgæzlunnar mætti hugsa sér flugsveit, sem færi í reglubundið eftirlitsflug yfir hafsvæðið, sem umlykur Ísland. Þetta flug gæti verið sem einn þáttur í varnar— og eftirlitsflugi annarra NATO—landa, sem næst okkur liggja og halda uppi reglubundnu eftirlitsflugi. Auðvitað mun þetta kosta okkur verulegar upphæðir, en getum við, vil ég spyrja, sloppið endalaust við útgjöld í sambandi við ytri varnir landsins?

Áttundi og síðasti liður í till. okkar Alþfl.—manna fjallar um, að athuga skuli kostnað við varnir landsins og hins vegar efnahagslega þýðingu þeirra fyrir Íslendinga. Ef það verður niðurstaðan, að nauðsynlegt verði talið, að erlent varnarlið annist alla starfsemi í varnarstöðinni hér á landi, má gera ráð fyrir því, eins og verið hefur, að um fjármagnsstraum af þessari starfsemi verði að ræða inn í ríkissjóð. Ekki hef ég handbærar nákvæmar tölur um tekjur ríkissjóðs frá varnarliðsmönnum og starfsemi, sem fylgir í kjölfar dvalar þeirra hér á landi, en talað hefur verið um gjaldeyristekjur kringum 1.300 millj. króna. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir, að athugun sé þegar hafin á þessum þætti, og vonandi greinir hann frá einhverju nú í þessu sambandi.

Leiði athugun á öryggismálum Íslands til þeirrar niðurstöðu, að ekki verði talin nauðsyn á dvöl erlends varnarliðs hér, þá er augljóst mál, að um aukin bein ríkisútgjöld verður að ræða, þar sem varnarstöðin verður ekki lögð niður, a.m.k. ekki alveg á næstu árum. Þetta segi ég hér vegna þess, að sjálfur forsrh. hefur lýst því yfir í sjónvarpsviðtali í norska sjónvarpinu, að varnarstöðin verði áfram. Hins vegar kom ekki fram í viðtalinu, með hvaða hætti eða hvernig starfsemin yrði í varnarstöðinni. Þessu sjónvarpsviðtali var sjónvarpað í byrjun okt. s.l. í Noregi í þætti, sem stóð yfir í u.þ.b. 1 klst. og fjallaði um auknar siglingar rússneska flotans í Norðurhöfum og könnunarferðir rússneskra eftirlitsflugvéla. Ég vil leyfa mér hér sem innskot að mælast til þess, að þessi þáttur verði sýndur í íslenzka sjónvarpinu sem allra fyrst.

Freistandi væri að rekja hér margar tilvitnanir úr blöðum undanfarna mánuði, sem sýna, svo að ekki verður um villzt, hversu djúpstæður ágreiningur er í stjórnarliðinu í afstöðu til varnar— og öryggismála Íslands. En þar sem ég reikna með, að margir muni taka til máls og fjalla meira og minna um þennan ágreining og vitna í því sambandi í einstök viðtöl við ráðh. og þm. stjórnarliðsins, er birzt hafa í blöðum undanfarnar vikur, leiði ég hjá mér þennan þátt, þótt stórmerkur sé. Þó vil ég undirstrika alveg sérstaklega, svo að ekki verði um villzt, að hér á hv. Alþ. er í dag ekki meiri hl. fyrir þeirri stefnu að skilja Ísland eftir varnarlaust og í öryggisleysi meðal vestrænna vinaþjóða. Það eru því sáralitlar líkur á því, að efndir verði á þeim þætti málefnasamningsins hjá ríkisstj., að varnarliðið hverfi á brott á næstu þremur árum. Fróðlegt verður að sjá, hver viðbrögð hins kommúníska arms í Alþb. verða, þegar þessi staðreynd rennur upp fyrir þeim. Ef að líkum lætur, verður þeim ekki svarafátt, þótt þeir sitji í ríkisstj. áfram og varnarliðið í landinu. Þeirra rök verða einfaldlega sem fyrr: Við vildum herinn alltaf burt, en höfðum ekki mátt til þess gegn andstöðu hinna.

Herra forseti. Ég læt nú senn lokið máli mínu í þessu viðkvæma og umdeilanlega máli um varnir og öryggi Íslands. Það er von mín, að þessari till. verði vísað til utanrmn. og nefndin taki þessi mál til alvarlegrar meðferðar og alþm. fái þar með glögga yfirsýn yfir varnarmálin og einnig komi fram nýjar hugmyndir um betri skipan þessara mála, en er í dag. Við þm. Alþfl. teljum það réttan gang mála að fela utanrmn., þessa athugun og allt það, sem nokkur leið er að skýra frá í þessu sambandi, komi sem trúnaðarmál í hendur utanrmn. Ég treysti því, að nefndin geti farið með trúnaðar— og öryggismál ríkisins á þann veg, að ekki hljótist tjón af og hver nm. sé trúnaðartraustsins verður. Það á að vera óþarfi að taka það fram, að við ætlumst til þess, að utanrmn. vinni auðvitað í fullu samráði við hæstv. utanrrh. Ég tel, að til fastanefnda þingsins eigi einmitt að vísa oftar stórmálum til sérstakrar athugunar og tillögugerðar og í þessum nefndum eigi allir flokkar sinn fulltrúa. Þetta eru þingleg og lýðræðisleg vinnubrögð. Við skulum hafa slíkan hátt á í varnar— og öryggismálum þjóðarinnar.

Herra forseti, að svo mæltu legg ég til, að hlé verði gert á umr. og málinu vísað til hv. utanrmn.