20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (4245)

56. mál, endurskoðun orkulaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja nokkur orð í belg í sambandi við umr. um þessa till. til þál., sem við nokkrir sjálfstæðismenn flytjum hér, um endurskoðun orkulaga. Þessi till. miðar að því í meginatriðum að dreifa ákvörðunarvaldi til fólksins úti um byggðir landsins um grundvallaratriði uppbyggingar hvers landsfjórðungs og hvers byggðarlags. Við vitum að orkumálin eru í þessu efni eitt af undirstöðuatriðunum í uppbyggingu þessara byggðarlaga og að við margir hverjir teljum, að sem mest áhrif fólksins á slík grundvallarmál sinna heimabyggða séu farsæl.

Það er svo með þessi mál, að jafnan fyrir hverjar kosningar telja flestir stjórnmálaflokkar sig vera á þessari skoðun og lýsa þeirri stefnu sinni, að dreifa eigi valdinu sem allra mest til allra þjóðfélagsþegna einmitt um þau mál, sem þá varða sérstaklega og þá á ég við fólk í hverju og einu byggðarlagi. En svo vill stundum fara, þegar til framkvæmdarinnar kemur, að þá er farið öfugt að. Og mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. hafi gert það í þessum efnum og stuðningsflokkar hennar, a.m.k. að því er varðar þá hluti, sem þegar eru komnir í ljós í sambandi við framkvæmd á stefnu hennar í orkumálum. Það hefur komið fram og alþjóð er um það kunnugt, að verulegur styrr stendur á milli ríkisvaldsins og Norðlendinga í raforkumálum. Ég skal ekki fara út í þá sálma hér, en ég vil undirstrika það, að Norðlendingar líta svo á og forustumenn þeirra, forustumenn Fjórðungssambands Norðlendinga líta svo á, að þeir séu ekki beint að standa þar á sínum hagsmunum eingöngu, heldur þjóðarheildarinnar, þeir telji sínar till. í orkumálum betri fyrir þjóðina í heild, en ekki eingöngu fyrir sjálfa sig og byggðir Norðurlands.

Ég ætla ekki að fara að efna hér til umr. um þetta mál, en hæstv. ráðh. kom hér inn á stefnu ríkisstj. einmitt í þessum efnum og sérstaklega að því er varðar sjálfa orkuvinnsluna og samtengingu orkuvera. Ég vil því í því sambandi spyrja hann, af því að þetta er brennandi spursmál einmitt í mínu kjördæmi, hvort iðnrn. hafi nú látið hanna háspennulínu frá Þjórsársvæðinu til Norðurlands, hvað þessi háspennulína muni kosta og hvað áætlað sé, að flutningskostnaður á hverja kwst. muni nema í þessari háspennulínu. Einnig vil ég spyrja að því, hvort rn. hafi gert sér nákvæma grein fyrir því, hvort slík samtenging sé í rauninni tímabær, þ.e. hvort hagkvæmnis athugun hafi farið fram á því, hvort samtengingin sé tímabær. Ég geri ráð fyrir því, að slík samtenging komi, en það er spurning um, hvenær hún verður hagkvæm.