18.11.1971
Sameinað þing: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (4272)

63. mál, hafnarstæði við Dyrhólaey

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tek heils hugar undir þá till., sem hér hefur verið gerð grein fyrir og ég met mikils þá ræðu, sem hv. 1. þm. Sunnl. flutti fyrir þessari till., sem hann ber fram hér í Sþ. Ég hygg, að hann hafi drepið á flest það, sem verulegu máli skiptir og sem rök mega teljast fyrir því máli, er hann ræddi og nauðsynlegt framgangi þess. Flest allir ef ekki allir þm. Sunnl. hafa á liðnum 10—20 árum annaðhvort verið viðriðnir þáltill., sem fara eða fóru í líka átt og þessi, sem hér liggur fyrir, eða hafa gert fsp. um það, hvað rannsóknum liði í þessu efni. Allir höfum við verið sammála um það, að því er ég bezt veit, að hér væri á ferðinni mikið þjóðþrifa fyrirtæki, ef hægt væri að byggja höfn á þessum stað. Og að sjálfsögðu yrði það ekki síður til hagsbóta fyrir þau héruð, sem liggja næst og Suðurlandsundirlendið allt. En hinu er ekki að leyna, að þessum þáltill., sem áður hafa verið fluttar, hefur ekki verið sinnt neitt að því marki, sem bar. Hins vegar hefur sjálfsagt nokkuð þokazt áfram í undirbúningi og rannsóknum, en miður er það, en skyldi og vitaskuld verður engu slegið föstu, hvorki um hafnarstæði né legu eða aðstöðu hafnarmannvirkja á landi uppi, fyrr en fullnaðarrannsókn þessa máls liggur fyrir. Þegar fengin eru fullnaðargögn eða nægjanlegar upplýsingar um málið í heild, þá er loks hægt að gera sér grein fyrir því, hvernig halda skuli áfram og gera kostnaðaráætlun. En á þessum undirbúnings rannsóknum hefur allan þennan tíma staðið og svo gerir enn í dag, eða ég veit ekki betur.

Á árinu 1969 var gerð fsp. af minni hálfu til þáv. samgrh. Ingólfs Jónssonar um, hvernig liði undirbúnings aðgerðum samkv. ákvörðun Alþ. með samþykkt á fyrri þáltill. Var ekki annað að heyra á honum, en að því miður hefði illa gengið, en nú skyldi brotið í blað og hann lofaði góðu um það, að frekari rannsóknir skyldu fram fara og þeim hraðað svo sem auðið væri. Nú veit ég ekki, hvernig staða rannsóknanna er í dag og væri gott undir meðferð málsins að fá það upplýst. Að vísu drap hv. flm. á nokkur atriði, en ég teldi rétt, að gögn fengjust um það frá vitamálaskrifstofunni eða á hafnamálaskrifstofunni, hvernig þessum rannsóknum, sem þegar hafa farið fram á undanförnum 20 árum, hvernig þeim væri komið í einstökum atriðum og eins að við fengjum þá upplýsingar um það um leið, hvað þyrfti meira með, til þess að hægt væri að hanna þessa höfn. En ég tel alveg fullvíst, að þessum rannsóknum sé ekki nema skammt á veg komið og held mig fast við það, meðan ekki kemur annað sannara í ljós.

Hv. flm. gat um það, að nærri væru 100 ár liðin, síðan fyrst var tekið upp þetta mál hafnarmál við Dyrhólaey og það er rétt. En ég vil bæta við þá sögu einu atriði, sem ég hef áður minnzt á í hv. Alþ., en mér þykir rétt, að það komi enn fram. Á árinu 1901 ritaði franskur hefðarmaður grein í blaðið Ísafold. Sá maður var kallaður baróninn á Hvítárvöllum. Í grein þessa hefðarmanns er fjallað um útgerð togara, erlendra togara og gerir hann ráð fyrir því, að gerðir verði út 16 togarar á vegum félags, sem stofnað yrði með erlendu fjármagni, ef leyfi fengist til þess að veiða í landhelgi fyrir suðurströndinni. Um þessar mundir var Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður Vestur-Skaftfellinga og einnig þm. þeirra. Hann var snemma hrifinn af þessari hugmynd barónsins og fékk fylgi Skaftfellinga við hana. Skömmu síðar flutti svo Guðlaugur sýslumaður frv. á Alþ., frv. til l. um heimild til að veita undanþágu frá lögum um bann gegn botnvörpuveiðum hér við land og þessi undanþága átti að gilda í 50 ár og snerta landhelgissviðið út af Skaftafellssýslu sérstaklega. Taka átti fram í leyfisbréfi, ef gefið yrði út, ýmis skilyrði, svo sem það, að bæta skyldi það tjón, sem fiskveiðar Skaftfellinga yrðu fyrir, fyrir þessa sök. En aðalskilyrðið var að sjálfsögðu hitt, að þetta erlenda félag eða menn á vegum þess byggðu trygga höfn við Dyrhólaey. Um þetta mál urðu allharðar sviptingar á Alþ., sem lauk þannig, að þetta frv. var fellt með jöfnum atkv. og einhvers staðar hef ég lesið það, að í það var látið skína, að Magnús Stephensen, sem þá var landshöfðingi, hefði haft auga á þessu máli meira, en almennt gerðist og fylgir það sögunni, að það hafi þá sérstaklega verið vegna þess, að hann var tengdur Rangárvallasýslu, ef ekki Skaftafellssýslu líka. En hvað um það, þá hygg ég, að segja megi, að hafnarmálið við Dyrhólaey hafi einna lengst komizt í sölum Alþingis. Þessu vildi ég rétt bæta við þessa 100 ára sögu þessa máls.

Ég tel vafalaust, að nýstofnuð samtök sveitarfélaga á Suðurlandi láti þetta mál mjög til sín taka, svo stórfellt hagsmunamál sem það er, ekki aðeins fyrir okkur Sunnlendinga, heldur fyrir þjóðina í heild og þá jafnframt, að þar verði málið tekið upp til athugunar við gerð Suðurlandsáætlunar. Vissulega verður mjög dýrt að koma upp höfn á þessum stað, traustri höfn. Það er alveg vafalaust. En við Sunnlendingar teljum, að annars staðar sé ekki ráð að byggja höfn við suðurströndina, ekki á þessum eða nálægum slóðum með minni kostnaði. Og auk þess er aðstaða þarna að því er varðar Suðurlandsundirlendið og miðin fyrir utan sú ákjósanlegasta, eins og hér hefur verið vel lýst áður. Og ekki verður það síður dýrt að sjálfsögðu að byggja öll mannvirki á landi uppi, sem þarf, til þess að höfnin komi að þeim notum, sem ætlazt yrði til. Dæmið er þannig stórt, en eigi að síður er það að minni hyggju svo þarft og mikilvægt, að það verður að finna leiðir til þess að leysa það með sem hagfelldustum hætti og fyrsta skilyrðið er það, að fullkomnar rannsóknir, undirstöðurannsóknir bæði til lands og sjávar liggi fyrir, þannig að það sé hægt að hefja sem fyrst annan áfanga þessa máls, þ.e. að hanna hafnargerðina og mannvirkjagerð á landi uppi, sem ætti að vera í sambandi eða samhengi við hafnarstæðið sjálft.