30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (4276)

63. mál, hafnarstæði við Dyrhólaey

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð um liðið síðan þessi till. var til umr., en var tekin út af dagskrá, áður en umr. lauk. Svo hittist á, að ég hafði þá beðið um orðið og hugðist segja nokkur orð í tengslum við það, sem áður hafði komið fram. Þá hafði hv. þm. Einar Oddsson gert málinu alllöng skil, og lagði flm. allríka áherzlu á þjóðhagslegt gildi þess, að höfn yrði gerð við Dyrhólaey. Auk hans ræddi málið hv. 4. þm. Sunnl. og snerti hinn sögulega streng, sem virðist vera orðinn í lengra lagi. Sem sagt: Þetta er orðið gamalt baráttumál Skaftfellinga og í stuttu máli má segja, að hafnarmálið sé þeirra langstærsta mál. Það mætti orða það þannig, að þetta væri framtíðarmál þeirra, sem búa þar eystra. Mér virðist sanngjörn krafa þessa fólks, að málinu sé verulegur gaumur gefinn og rannsókn fari fram á því, hvort unnt sé að gera þarna höfn, hvar hún yrði staðsett og með hvaða hætti hún yrði gerð og hve mikið hún kostaði. Rannsókn á þessum atriðum hlýtur að vera all yfirgrips mikið verkefni, ef hún á að ná yfir alla þá þætti, sem nauðsynlegir eru. Það þarf að gera bylgjumælingar til athugunar á venjulegri bylgjuhæð og mestri bylgjuhæð væntanlega. Það þyrfti að koma til rannsókn á efnisflutningi með ströndinni, en miklar líkur benda til, að sandburður sé verulegur á þessu svæði og er ekki þörf á að rekja það nánar, hverjar afleiðingar það gæti haft fyrir höfn við sandströnd, ef ekki væri tekið tillit til þessa atriðis og athuganir gaumgæfðar sérstaklega. Þeir brimbrjótar, sem ættu að verja höfnina, eru í senn forsenda hafnarinnar og um leið langdýrasti þáttur hennar. Þeir mega ekki sigla sinn sjó, eins og dæmi eru um, í einhverju ofviðrinu eða skekkjast né heldur siga. Þar af leiðir, að rannsaka þarf vel með hverjum hætti undirstaða þeirra yrði tryggð, en með nútímatækni vona ég, að ekki þurfi að kosta óhóflega miklu til þeirrar athugunar.

Hin hafnvana strönd gerir það að verkum, að Skaftfellingar þurfa að flytja sinn varning langar leiðir með bílum og greiða mikið fé fyrir. Hafnleysi kemur þá að sjálfsögðu í veg fyrir alla möguleika til útgerðar, en þeir Skaftfellingar hafa lagt nokkra áherzlu á, að fengsæl fiskimið séu skammt undan og muni höfn við Dyrhólaey auka verulega fiskveiðar með þjóðinni. Ég er reyndar ekki alveg viss um, að svo sé í raun, því að þessi umtöluðu fiskimið eru þegar ofsetin og það reyndar fyrir löngu og alls ekki meiri sókn á þau bætandi. Þó er ekki fyrir það að synja, að kostur væri fyrir fiskiskip, sem veiðar stunda undan Vík og Kötlutanga, auk þeirra, sem sækja lengra, t.d. austur fyrir Ingólfshöfða, að þau gætu stytt sér siglingu með aflann að landi með því að leggja upp í Dyrhólahöfn í stað þess að sigla með aflann t.d. til Faxaflóahafna. En frá sjónarmiði Skaftfellinga er að mínu áliti langmikilvægast, að með Dyrhólahöfn skapaðist þéttbýliskjarni í kringum útgerð og fiskvinnslu, vöruflutninga o.s.frv. sem gerir það að verkum, að unga fólkið gæti setzt að í héraðinu í stað þess að flytjast á mölina hér syðra. Fólkinu fjölgar ekki þar eystra, því að þó að þarna séu fagrar sveitir, lifir fólkið ekki á náttúrufegurðinni einni saman.

Ég vil nú ekki fjölyrða um þetta mál að þessu sinni, en ég vil ítreka það, að hvert álit sem aðrir hafa á þessum framkvæmdum, eiga Skaftfellingar kröfu til þess, að vönduð rannsókn fari fram á þessum atriðum öllum, sem lúta að hafnargerð við Dyrhólaey. Auk þess er nauðsynlegt að draga saman þær athuganir, sem þegar hafa verið gerðar í þessu skyni. Að þessum rannsóknum loknum, þegar búið er að gera sér grein fyrir framkvæmda möguleikum, framkvæmda aðferðum og fjármagnsþörf, kemur til kasta Alþ. að vega og meta, hvort félagslegt gildi og notagildi annars vegar, kostnaðarhliðin hins vegar standi í þeim hlutföllum, að rétt sé að ráðast í hafnargerð við Dyrhólaey.