30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (4289)

70. mál, erlendir starfsmenn við sendiráð á Íslandi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. mjög lengi, en kveð mér hljóðs í fyrsta lagi vegna þess, að ég er annar af flm. þessarar þáltill. og ef ráðh. sér ástæðu til þess að tala um, að hér sé ástæðulaust fyrir menn að bera fram þáltill., vegna þess að þeir eigi að vita einhverja hluti vegna sinnar þingreynslu, þá er ekki hægt að segja það um mig eða mína undirskrift á þessari þál. og lýsi ég reyndar furðu minni á þeim rökum, sem fram koma í slíku svari.

Fyrri flm. till. hefur reyndar lýst því og ég geri það líka, að þessar upplýsingar, sem komu fram um fjölda starfsmanna ýmissa sendiráða, kæmu sér mjög á óvart. Satt að segja gerði ég mér alls ekki grein fyrir því, hversu ótrúlega mikill fjöldi er hér af erlendum starfsmönnum á vegum ýmissa sendiráða í Reykjavík. Í því sambandi er ástæðulaust að blanda saman íslenzkum starfsmönnum og útlendum hjá þessum sendiráðum. Sú staðreynd blasir við, að hjá ýmsum sendiráðum, án þess að verið sé að nefna hér þau sendiráð eða þjóðir þeirra, er um mikinn fjölda að ræða af erlendum mönnum og þessi till. snýst fyrst og fremst um þessa erlendu starfsmenn, vegna þess að íslenzk lög ná ekki yfir þá. Um þá íslenzku starfsmenn, sem starfa hjá þessum sendiráðum, gilda að sjálfsögðu íslenzk lög og ástæðulaust fyrir okkur að hafa áhyggjur af því, hversu marga starfsmenn er þar um að ræða. Við erum ekki að hafa áhyggjur af því í sjálfu sér, hvaða starfsemi fer fram eða hvað þetta fólk er að gera. Það má í sjálfu sér velta vöngum yfir því, hversu eðlilegt það sé, að sendiráð, sem eiga í eðli sínu að hafa engu meiri starfsemi en önnur, séu hér með margfalt, margfalt fleiri starfsmenn. En látum það vera. Við skulum ekki fara að gera því skóna, að þeir séu að gera hér nein voðaverk eða að grafa undan þessari þjóð og sjálfstæði okkar. En það er hitt, sem veldur okkur áhyggjum, að þessi sendiráð geta óáreitt safnað til sín liði hér án nokkurra afskipta íslenzkra yfirvalda. Safnað bæði til sín liði, þ.e. fólki, og líka eignum, alveg án nokkurra aths. Það er þessi ástæða fyrir þessari till. okkar, að við höfum virkilegar áhyggjur af því, að hér skuli vera sendiráð, sem safnar hér eignum, alveg eins og aðrir safna frímerkjum nánast og ég vil leyfa mér að spyrja: Má virkilega skilja svar utanrrh. svo, að hann sé á móti því, að settar séu almennar reglur, sem a.m.k. fela það í sér, að viss athugun fari fram á þessu máli?