25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í D-deild Alþingistíðinda. (4401)

179. mál, Vestfjarðaáætlun

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég gerði mér mjög far um, taldi ég, í málflutningi mínum að stilla orðum mínum í hóf, því að ég veit, að hv. síðasti ræðumaður er afar hörundsár, þegar rætt er um Vestfjarðaáætlun, og eru þar ríkar ástæður til.

Hv. ræðumaður taldi það furðulegt, að ég skyldi á það minnast, að sá misskilningur virtist ríkur víða, að lokið væri þeim áætlunum, þeirri vegaframkvæmd á Vestfjörðum, sem þyrfti að gera með sérstakri áætlun. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að í 1. mgr. grg. segir svo:

„Sá misskilningur virðist hins vegar mjög almennur, að með þessari framkvæmd Vestfjarðaáætlunar séu samgöngumál kjördæmisins og ekki sízt vegakerfi komið í viðunandi horf.“

Undir þetta skrifar hann. Ég taldi mig fara hér með mál sem við værum allir sammála um. Ég vísa því þessari aths. hans heim til föðurhúsanna og ég hygg, að það væri betra, að hv. þm. léði ýmsu því eyra, sem aðrir, sem að ýmsum vegáætlunum vinna, um þessi mál tala. Mér hefur aldrei komið til hugar, að nokkur Vestfirðingur telji, eins og hann komst að orði, að lokið sé slíkum framkvæmdum á Vestfjörðum og því síður dettur mér í hug, að nokkrum þm. Vestf. komi til hugar, að svo sé. Einmitt þess vegna er þessi sameiginlega þáltill. okkar þm. fram komin.

Hv. þm, ræddi töluvert um sögu og aðdraganda Vestfjarðaáætlunar. Ég reyndi að vera þar sem allra sögulegastur og meta sem minnst sjálfur, hvert mætti rekja aðdraganda þeirra framkvæmda, sem ég taldi lofsverðar og þar hafa verið gerðar. Ég sagði, að lagt hefði verið fram frv. til l. um auknar framkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum og gert ráð fyrir því, að til þessarar framkvæmdar yrðu teknar 10 millj. kr. að láni. Það hefur ekki verið hrakið, að þetta er í fyrsta sinn, sem lagt er til, að tekið verði sérstakt fjármagn að láni til stórra vegaframkvæmda og ég vil vekja athygli á því, að þessar 10 millj. kr. voru ekki lítið fjármagn á mælikvarða þess tíma. Síðan hafa að vísu orðið fjölmargar gengisfellingar í tíð viðreisnarstjórnarinnar og mig grunar, að þessar 10 millj. séu sízt minna, en varið var til vegaframkvæmda á Vestfjörðum, þegar loksins að þeim kom. Það er reikningsdæmi. En hv. þm. getur sjálfur dundað við að reikna það út. Og það má vitanlega lengi um það deila, hvort þá endanlegu ákvörðun að taka sérstakt lán til vegaframkvæmda á Vestfjörðum megi fremur rekja til samþykktar á þáltill. um fimm ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar á fólksflótta frá Vestfjörðum, sem samþ. var 19. apríl 1963, eða til frv. til l. um auknar framkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum, sem vísað var til ríkisstj. árið 1962. Mér er ekki kunnugt um það, hvort hefur orðið til þess, að hæstv. síðasta ríkisstj. ákvað að fara þessa leið. En hitt veit ég, að í þáltill. frá 1963 er gert ráð fyrir því, að í lok þess árs liggi fyrir fimm ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar fólksflótta frá Vestfjörðum. Það er að vísu ekki minnzt á Vestfjarðaáætlun. Sú áætlun var aldrei lögð fram og margsinnis spurt eftir henni. Og brtt. við fjárlög, sem ég minntist á áðan, um 10 millj. kr. til vega og 10 til stöðvunar fólksflótta, voru fram komnar einmitt í þeim tilgangi að koma til framkvæmda þeirri þáltill., sem hv. Alþ. hafði samþ.

Ég hygg, að allt þetta, og ég er ekki að gera þar upp á milli, hafi stuðlað að þeim ágætu framkvæmdum, sem síðar urðu. En ég get einnig vakið athygli á því, að það er ekki fyrr en í marz 1971, að hæstv. ríkisstj. skrifar þáv. Efnahagsstofnun og óskar eftir því, að hafin verði vinna við atvinnumálaþátt Vestfjarðaáætlunar. Þá eru átta ár liðin frá því, að þáltill. var samþ. um fimm ára framkvæmdaáætlun, sem átti að liggja fyrir í lok ársins 1963, þannig að ég hygg, að það mætti vitanlega lengi ræða þessi mál og ég efast ekki um, að hv. þm. þekkir vel þær umr., sem hér fóru fram á sínum tíma, en hverjar svo sem þær voru, þá efast ég um, að niðurstaða fáist í því, hvert megi rekja þær framkvæmdir, sem þarna hafa orðið og ég sé ekki ástæðu til þess að vera að kasta hér a milli okkar orðum í því sambandi.

Það mætti einnig lengi ræða ýmsa þætti svonefndrar Vestfjarðaáætlunar, sem ég kaus að minnast ekki á. Það mætti t.d. spyrja að því, hvar þessi áætlun væri. Hvar er yfirleitt markmiðið, sem var sett fyrir þessa áætlun? Um þetta hefur oft verið spurt á fundum fyrir vestan, og við höfum aldrei fengið að sjá það. Um þetta hefur verið spurt í Efnahagsstofnuninni og hún hefur sagt okkur, starfsmenn hennar, að það sé engin Vestfjarðaáætlun til. Það mætti einnig spyrja að því, hvers vegna hafi ekki verið lögð fram áætlun Norðmannanna um vegáætlun á Vestfjörðum. Um allt þetta mætti spyrja og ég hygg, að ef svör fengjust og þessi plögg yrðu lögð fram, þá gætu umr. orðið æði fjörugar.

Ég kaus að nefna sjóð Evrópuráðsins engu ákveðnu nafni. Það er vitanlega réttast að nefna hann þá með enska nafninu, því að ensk nöfn má oft þýða á ýmsa vegu. Ég kaus að nefna hann ekki með ákveðnu nafni, því að mér er kunnugt um, að nafnið Flóttamannasjóður hefur farið mjög í taugarnar á sumum. En ég nefndi hann ákveðinn sjóð og ég er ekki að vanþakka það fjármagn, sem þaðan hefur komið. Fjarri er það mér og aldrei hef ég haft á orði, að það fjármagn muni á einn máta eða annan stuðla að flóttamannaflutningi til Vestfjarða. Ég ætla ekki að svara þeim ummælum.

Hv. þm. sagði, að ég hefði aðeins minnzt á vegamál. Ég minntist að vísu líka á Ísafjarðarflugvöll, það þyrfti að malbika hann, en hitt er rétt, eins og aftur segir í þessari þáltill.:

„Sérstaklega skal lögð áherzla á að tengja það vegakerfi, sem byggt var í fyrsta áfanga Vestfjarðaáætlunar í samgöngumálum, vegakerfi landsins með varanlegri vegagerð.“

Ég kaus í minni framsögu að leggja sérstaka áherzlu á þetta, sem við allir flm. leggjum sérstaka áherzlu á í þáltill. Það er líka svo, að í þeim 1. áfanga, sem minnzt hefur verið á, var unnið mikið í hafnarmálum og það er mikil spurning, hvort í hinum almennu hafnaráætlunum er ekki hægt að ljúka verulegum hluta af því, sem þar er enn ólokið. Þó eru þar vissir þættir, sem þarf að skoða sérstaklega. En ég er þeirrar skoðunar, að langsamlega stærsta ólokna átakið sé á sviði vegamála, langsamlega stærsta og því hef ég lagt höfuðáherzlu á það, þó að ég sé alls ekki að gera lítið úr þeim ýmsu endurbótum, sem nú eru í gangi og verður haldið áfram í hafnarmálum og flugmálum Vestfjarða.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að með þessari till. erum við að leggja áherzlu á, að sérstakt fjármagn fáist til þessara framkvæmda, sem ég taldi mig rekja nokkuð ítarlega, að ekki verður lokið með hinum almennu vegáætlunum á nokkrum viðunandi tíma, ef nokkurn tíma. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er mín skoðun eins og við skrifum undir í grg., að það sé einnig tilgangurinn með þessu að leggja ríka áherzlu á, að stórkostlega miklu sé enn ólokið í vegamálum Vestfjarða og verður að sjálfsögðu að taka það með í þær allsherjaráætlanir, sem nú eru í gangi.