02.05.1972
Sameinað þing: 63. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í D-deild Alþingistíðinda. (4610)

262. mál, raforkumál

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. ýkja mikið, en það eru örfáar aths., sem mig langaði að koma fram með. Hér hafa talað þrír fulltrúar af hálfu Sjálfstfl., þ. á m. formaður flokksins, hv. þm. Jóhann Hafstein. Hann virtist telja það mjög óeðlilegt, að lögð væri fram þáltill., þar sem farið væri fram á það, að Alþ. markaði stefnuna í raforkumálum, þá meginstefnu, sem ætti að reyna að framkvæma á næstu árum og áratugum. Hann taldi, að það væri engin ástæða til að leggja fram slíka till. Hann sagði, að ríkisstj. gæti tilkynnt Alþ., hvaða stefnu hún hefði.

Þarna er ég á algerlega andstæðri skoðun. Ég tel það bæði lýðræðisleg og þingleg vinnubrögð að mælast til þess við Alþ., að það fjalli um jafnveigamikið atriði og þetta og marki heildarstefnuna og á grundvelli slíkrar heildarstefnu verði svo unnið að þeirri löggjöf, sem þarf að breyta í því sambandi, og þeim samningum, sem verður að taka upp við fjölmarga aðila. Ég held, að einmitt vinnubrögð af þessu tagi séu vinnubrögð, sem alþm. eigi að óska eftir, en ekki að gagnrýna, eins og þessi hv. þm. gerði.

Hv. þm. vék í upphafi að því, að hann undraðist, að ekki skyldi unnið að endurskoðun vatnalaga og taldi, að það væri forsenda fyrir framkvæmdum á þessu sviði. Í því sambandi lét hann þess getið, að frv. af hliðstæðu tagi væru námulög, sem unnin voru, meðan hann var iðnrh. á Íslandi, og þá komst hann svo að orði, að það mundi vera ráðlegt að fara hægt í þeim málum. Ég fæ nú ekki almennilega komið þessu saman og heim. Ég tók við þessu frv. um námulög, þegar ég hóf störf í iðnrn., og ég lagði þau fyrir þetta þing, og ég tel ákaflega mikilvægt, að þau lög nái fram að ganga, því að ég tel, að þau séu í öllum aðalatriðum mjög svo mikilvægt plagg. Á sama hátt tel ég, að það væri mjög nauðsynlegt, að vatnalögin væru endurskoðuð líka.

Hv. þm. minntist á brbl. í sambandi við þessa þáltill., en sagðist nú ekki reikna með því, að það væri meiningin að nota þessa þáltill. til þess að setja brbl. Ég skal lýsa því yfir ákaflega skýrt, að það er ákaflega fjarri mér, mér hefur hreinlega ekki dottið það í hug, að nokkur maður hefði þvílíkt ímyndunarafl, að hann hugsaði sér, að maður setti brbl. á grundvelli þáltill. af þessu tagi. Að sjálfsögðu mun ég leggja á það mikla áherzlu, að við alla gerð frv., og ég tala nú ekki um samþykkt frv. um þetta efni, verði haft sem nánast samráð við Alþ. og við sveitarstjórnir og við alla þá aðila, sem hagsmuna eiga að gæta. Ég hef sannarlega ekki áhuga á því að fara á bak við einn eða neinn í þessu sambandi.

Hv. þm. vildi bera brigður á það, að það hefði ekki verið ágreiningur um stórákvarðanir í raforkumálum á undanförnum árum, og fór að minnast á álbræðslusamningana í því sambandi. Það var ekki neinn ágreiningur hér á þingi um Búrfellsvirkjun. Hún var samþ. einróma. Ágreiningurinn var um hitt, hvernig farið var með raforkuna frá virkjuninni, um samninginn, sem gerður var við svissnesku álbræðsinna. Þar kom ágreiningurinn fram. Hann var ekki um raforkumál. Hann var um þau viðskiptamál, þann samning, sem gerður var við erlendan aðila. Og þar er um að ræða „prinsip“-ágreining á milli mín og þessa hv. þm., ágreining, sem enn virðist vera óbreyttur, eftir því sem hann talaði í ræðu sinni hér áðan. Ég tel, að við eigum ekki að ráðast í stórvirkjun á Íslandi til þess að sjá erlendum auðfélögum fyrir raforku, svo að þau geti haft þar hagkvæma framleiðslu fyrir sig og flutt arðinn af þeirri framleiðslu að meiri hluta til úr landi. Þetta tel ég vera algerlega ranga stefnu. Ég taldi það, þegar álbræðslusamningurinn var gerður, og ég er á nákvæmlega sömu skoðun enn þá. Það er algerlega rangt hjá þessum hv. þm., að ég lýsi öðrum skoðunum nú um þetta mál en ég gerði fyrir nokkrum árum. Ég hef nákvæmlega sömu skoðanir á þessum málum, og ég held, að þessi hv. þm. ætti ekki að tala að fyrra bragði um raforkusamninginn, sem hann gerði við álbræðsluna, sem tryggir henni raforku fyrir 22 aura á kwst. á sama tíma og við erum nú að ráðast í virkjun, þar sem kostnaðarverðið verður 35 aurar á kwst., sem við verðum sjálfir að búa við og þau fyrirtæki, sem við kunnum að standa að í sambandi við það. (LárJ: Kostar sú virkjun ekki meira?) Kostar sú virkjun ekki meira? Þetta er það raforkuverð, sem okkur sjálfum er skammtað á sama tíma og erlendur aðili á að búa við það í aldarfjórðung að fá raforkuna fyrir 22 aura. Það eru slík viðskipti, sem ég er algerlega andvígur. Og ég tel ekki, að útlendingar eigi að hafa sérréttindi að því er varðar raforku á Íslandi. Ég tel, að við eigum að nýta raforkuna í þágu okkar sjálfra.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið auglýsingaskrum, þegar ríkisstj. tilkynnti í haust, að það væri ákveðið að virkja við Sigöldu, enda þótt enginn markaður væri fyrir hendi, sagði þessi hv. þm. Enginn markaður. Þessi hv. þm. var þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að ákveða virkjun við Sigöldu án þess að tryggja sér erlendan viðskiptavin áður. Hann vildi, að það yrði hafður sami háttur á og hafður var í sambandi við virkjun Búrfells, að samningar við erlendan aðila væru forsenda þess, að hægt væri að ráðast í stórvirkjun á Íslandi. En þetta er samningsaðstaða, sem ég tel vera algerlega óviðunandi fyrir Íslendinga. Ef erlendur aðili veit, að við treystum okkur ekki til þess að ráðast í stórvirkjun nema það náist samningar við hann, þá er hann kominn með samningsaðstöðu, sem er gersamlega óviðunandi fyrir okkur.

Það er ekki rétt hjá þessum hv. þm., að það sé ekki til markaður á Íslandi. Sá markaður er til. Hann er til í sambandi við húshitun. Landsvirkjun gerði grein fyrir því í áætlunum sínum um virkjanir í Tungnaá, að hún teldi vera á núverandi landsvirkjunarsvæði einu saman markað, sem jafngilti nærri 400 gígawattstundum á ári með þróun þeirri, sem yrði á næstu árum. Þetta er hátt í helmingur af raforkunni frá Sigölduvirkjun, og hér er einvörðungu um núverandi landsvirkjunarsvæði að ræða. Þessi markaður er mun stærri annars staðar á landinu, m.a. á Norðurlandi, þannig að þennan markað er hægt að stækka með samtengingu, eins og að er stefnt. Við erum ekki að kasta okkur út í neina óvissu með því að taka ákvörðun um virkjun við Sigöldu. Við höfum þennan markað, og við þurfum ekki að láta neina erlenda aðila setja okkur neina afarkosti í því sambandi. Ef okkur bjóðast ekki kostir, sem okkur henta og okkur falla og eru í samræmi við okkar hagsmuni, við erlenda aðila, þá höfum við þennan markað. Og það er það, sem gefur okkur nauðsynlegan styrk í viðræðum við erlenda aðila. Ég minntist á það í ræðu minni hér áðan, að það færu fram viðræður við ýmsa erlenda aðila um orkufrekan iðnað á Íslandi. Ég lét þess sérstaklega getið. En ég greindi einnig frá því, á hvaða forsendum ég teldi, að hægt væri að gera samninga af slíku tagi. Og forsendurnar voru þær, að Íslendingar ættu eða eignuðust meiri hluta í slíkum fyrirtækjum, þau lytu í einu og öllu íslenzkum lögum og að Alþingi Íslendinga hefði rétt yfir slíkum fyrirtækjum eins og öðrum, og við munum ekki una því, að erlendur gerðardómur segði okkur fyrir verkum um, hvernig ætti að túlka samningsákvæði. Samningar af slíku tagi tel ég að aldrei framar verði gerðir á Íslandi. Ég hef sagt það áður hér í þinginu, og ég er sannfærður um, að það verður aldrei gert.

Annars fannst mér það einkenna ræðu þessa hv. þm. og flokksbræðra hans beggja, að þeir gerðu ekki grein fyrir neinni stefnumörkun af sinni hálfu. Í þessari þáltill. er lögð fram alveg tiltekin stefna, skýr og einföld tiltekin stefna. En af hálfu Sjálfstfl. er ekki um neina slíka stefnumörkun að ræða, engan valkost. Menn koma bara hér og gera aths., yfirleitt ákaflega smávægilegar. En það er engin stefna, sem þarna er boðuð til andstöðu við það, sem hér er lagt til. Ég lagði á það mikla áherzlu í sambandi við gerð þessarar þáltill., að ég vildi, að þar yrði mótuð slík stefna, að um hana gæti tekizt sem víðtækust samstaða. Ég tel mig þar hafa komið til móts við margs konar gagnrýni, sem ég tel mjög eðlilega og réttmæta og sem m.a. ýmsir þm. Sjálfstfl. hafa flíkað mjög hér í þinginu. Ég gerði þetta vegna þess, að ég taldi þetta rétt og ég gerði þetta í þeirri trú, að þm. Sjálfstfl. hefðu það málefnalega afstöðu til mála, að þeir gætu þá komið til samvinnu um mál af þessu tagi, sem skipta þjóðina alla og þróun okkar þjóðfélags ákaflega miklu máli.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason taldi, að með till. um dreifingu raforku væri ekki komið eins langt til móts við till. Sjálfstfl., sem níu þm. hans fluttu hér áður, eins og ég vildi vera láta. Ég held nú samt, að svo sé, ef menn vilja yfirleitt fallast á raunveruleika mála í stað þess að hengja sig í orð. Það kom fram hjá honum og hefur oft komið fram hjá þm. ákaflega hörð og ómakleg gagnrýni á Rafmagnsveitur ríkisins. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa á undanförnum aldarfjórðungi unnið ákaflega merkilegt starf og þær eiga meginþátt í þeirri mjög svo jákvæðu og stórfelldu þróun raforkumála, sem hefur mótað þetta tímabil. Rafmagnsveitur ríkisins selja um 43 þús. landsmanna raforku beint eins og nú er og annast auk þess heildsölu til byggðarlaga miðað við 33 þús. manns. Þegar frá er talið höfuðborgarsvæðið, þá lætur nærri, að Rafmagnsveitur ríkisins sjái beint og óbeint fyrir raforku til um 80% annarra landsmanna. Þessi mikla dreifing á raforku, sem við erum réttilega hreyknir af og þar sem við stöndum e.t.v. framar en nokkur önnur þjóð, sem býr í landi, sem er ámóta strjálbýlt og Ísland, þessi mikla dreifing er fyrst og fremst afrek Rafmagnsveitna ríkisins. Og þó að skipulag Rafmagnsveitnanna sé núna ekki að minni hyggju í samræmi við viðhorf okkar tíma, þá eiga menn að viðurkenna þessa staðreynd engu að síður. Í till. er lagt til, að nú þegar verði Rafmagnsveitum ríkisins skipt í landshlutaveitur með landfræðilegum mörkum, er hafi stjórn í héraði og séu sjálfstæðar rekstrareiningar. Þar er lagt til, að fyrirkomulaginu verði breytt á þessa leið, að landinu verði skipt niður með landfræðilegum mörkum og það verði stjórn í héraði og sjálfstæðar rekstrareiningar. Ef þarna er ekki komið til móts við þau sjónarmið héraðanna, að heimamenn eigi að geta sagt til um sínar eigin þarfir og framkvæmdir, þá skil ég ekki, hvað menn eru að fara. Vissulega er einnig lagt til, að Rafmagnsveiturnar sameiginlega hafi svo eina heildarstjórn til þess að sinna sameiginlegum verkefnum, sem ég er viss um, að allir skilja, að væru ekki á valdi þessara dreifiveitna eins og nú standa sakir. Við megum aldrei gleyma því, hve við erum fáir og að við erum ekki þess megnugir að halda uppi alls konar þjónustu nema við sameinum krafta okkar. Og það verðum við að gera á þessu sviði einnig, og það er gersamlega ástæðulaust að vera að búa þarna til einhvern ágreining á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Það er í sjálfu sér engin eðlileg forsenda fyrir slíkum ágreiningi. Ríkið tók að sér forustu í þessum málum til þess að tryggja landsmönnum öllum raforku. Það var tilgangurinn. Og þessi tilgangur hefur náðst. Ríkið hefur sannarlega engan áhuga á því að sitja yfir hlut almennings úti um landið, engan áhuga. Og hvers vegna ætti ríkið að hafa áhuga á því? Menn eru þarna að búa til ágreining, þar sem enginn ágreiningur ætti að vera, og ég tel, að það sé mjög auðvelt að uppræta þennan ágreining, einmitt með þessari dreifingu, sem gert er ráð fyrir í till.

Hv. þm. Lárus Jónsson taldi, að ég hefði lagt of mikið upp úr ályktun Laxárvirkjunarstjórnar, þar sem hún lýsti jákvæðri afstöðu til þeirrar hugmyndar minnar, að stofnað yrði sérstakt landshlutafyrirtæki á Norðurlandi og í öðrum landshlutum. Það má vel vera, að í mínum orðum hafi falizt einhver víðari merking en er í þessari ályktun. Engu að síður var ályktunin mjög ótvíræður stuðningur við þær hugmyndir, sem ég gerði grein fyrir á fundi Sambands ísl. rafveitna og felast í þessari þáttill. En þar er allt saman í samhengi hvað við annað að sjálfsögðu. Og þegar Laxárvirkjunarstjórn tók sína jákvæðu afstöðu til þessa atriðis, þá vissi hún ósköp vel, að það var liður í stærri hugmynd, stærri samtengingu, og að sjálfsögðu kom þar fram jákvæð afstaða, sem ég fagna mjög.

Hér hefur mikið verið talað um miðstjórnarvald ríkisins, og að hér í þessari till. sé stefnt að miðstjórnarvaldi ríkisins, ríkiskapítalisma og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held, að það sé algerlega augljóst mál, að ef við eigum að hagnýta orkulindir okkar eins og við þurfum að gera, þá verðum við að vera menn til þess að sameina krafta okkar, einbeita okkur, allri getu þessarar litlu þjóðar til þess að stuðla að slíkri þróun. Það tæki, sem við höfum í því sambandi, er ríkið. Og við skulum ekki tala um ríkið eins og einhvern fjarlægan hlut utan og ofan við okkur, því að ríkið erum við sjálf, það er þjóðin, það erum við þm., og það er ríkisstj. Og það lýðræðiskerfi, sem við byggjum upp, er aðferðin til þess, að þegnarnir geti haft áhrif á ákvarðanir þessa ríkis, að menn geti haft lýðræðisleg áhrif á ákvarðanirnar, en engu að síður sé hægt að beita sameiginlegum krafti. Og tilgangurinn með þessari Landsvirkjun Íslands, sem um er rætt, er einmitt sá, að hægt sé að beita þessu sameiginlega afli og við getum hagnýtt þá möguleika, sem gefast, á sem hagkvæmastan hátt. En þarna er einnig gert ráð fyrir lýðræðislegri uppbyggingu, þannig að landshlutarnir og fólkið geti haft bein áhrif á slíkar ákvarðanir. Það er það, sem felst í þessari till. Það er verið að búa til kerfi, beint lýðræðiskerfi, þar sem áhrif landshlutanna eru tryggð, en þar sem það er einnig tryggt, að það geti komið til sameiginlegra átaka. Og ef við getum ekki unnið þannig að málum eins og þessum og raunar miklu fleiri málum, þá munum við ekki geta staðið í samkeppni við aðra. Þjóðfélag okkar er svo smátt og einstakir aðilar í því eru svo lítils megnugir, að við munum ákaflega fljótt dragast aftur úr, ef við temjum okkur ekki samvinnu, lýðræðislega samvinnu af þessu tagi. Og einmitt þess vegna geri ég mér vonir um það enn þá, þrátt fyrir þær aths., sem hér hafa komið fram í ræðum þm. Sjálfstfl. og sem mér finnst vera minni háttar, að við getum náð samstöðu um sameiginlega stefnumörkun á þessu sviði. Ég legg á það mjög mikla áherzlu, að þessi till. verði tekin til afgreiðslu á þessu þingi, vegna þess að sú stefna, sem í henni felst, er þannig, að það mun að sjálfsögðu taka mörg ár að framkvæma hana. Það verður að framkvæma hana í mörgum áföngum, og þess vegna er það alveg nauðsynlegt, að hægt sé að hefjast handa um hagnýt verkefni á því sviði sem allra, allra fyrst, samninga við sveitarfélög, viðræður við alla mögulega aðila, breytingar á gildandi lögum o.s.frv. Og ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að að svo miklu leyti sem ég kem nálægt slíkum málum framvegis, þá mun ég tryggja það, að það verði sem allra breiðust samvinna um alla þróun þessara mála.