17.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í D-deild Alþingistíðinda. (4647)

69. mál, niðurfelling fasteignaskatts af íbúðum aldraðra

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í tilefni af niðurlagsorðum seinasta ræðumanns langar mig aðeins til þess að segja þetta: Mér finnst sanngjarnt, að þjóðfélagið láti þá njóta þess í ellinni, sem hafa lagt það á sig að sýna með miklu erfiði, að þeir vilja duga og hefur tekizt það. Þeir, sem af einhverjum ástæðum eiga við erfiðan kost að búa, ég efast um, að þeir séu betur settir í ellinni, þótt hinir, sem tekizt hefur að vera sjálfbjarga í ellinni, séu skattpíndir. Ég held, að þeir megi alveg njóta afraksturs af sínu erfiði og viðurkenningar síns þjóðfélags í því, að þeir séu ekki skattlagðir endalaust fram yfir dauðastund aftur og aftur fyrir það, að þeim skuli hafa tekizt að eignast þak yfir höfuðið. Hitt er svo alveg rétt, og ég skil ósköp vel þá hugsjón, sem kom fram hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að vitaskuld ber hinu opinbera að létta þeim, sem erfiðast eiga, lífsbaráttuna á þessum efstu árum ævi sinnar. En ég tel, að það hreki ekki það, sem hér hefur verið sagt, að þeir, sem hafa lagt á sig erfiði til að vinna fyrir og spara saman fé til að eiga til elliáranna og verða ekki til byrði, að þeir eigi ekki síður að njóta fyrirgreiðslu í ellinni af þeim sökum. Sú tilhögun, sem hv. þm. Bjarni Guðnason nefndi, mundi hins vegar með nokkrum hætti stuðla að fyrirhyggjuleysi fólks og koma í veg fyrir það, að fólk reyni að búa í haginn fyrir sig á efstu árum.

Að öðru leyti stóð ég hér fyrst og fremst upp vegna nokkurra atriða, sem fram komu í ræðu flokksbróður míns og ágæts félaga, hv. 10. þm. Reykv. Hann byrjaði sína ræðu á því að segja, að varhugavert væri nú í þessu efni að gleypa allt hrátt, sem frá útlöndum kæmi, þótt um frændþjóðir væri að ræða. Mér varð nú á að hugsa, að eins og það mun satt vera, að hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og í Grímsnesinu, þá hald ég, að það sé ekki fráleitt, að sálir mannanna hjá grannþjóðum séu mjög skyldar. Og þess vegna held ég, að við getum dregið talsverða lærdóma af reynslu okkar grannþjóða í þessu efni. Hins vegar tek ég undir það, að það væri mjög þarft að láta fara fram viðtæka könnun á því meðal aldraðs fólks, hver vilji þess væri í sambandi við húsnæðismál þess í ellinni. Hv. þm. minntist hér á könnun, sem fram fór í tveimur bæjarfélögum, og ég vil geta þess, að svo vill til, að ég hef hér í höndum niðurstöður könnunar, sem gerð var í öðru þessara bæjarfélaga. Mig langar til að lesa fyrir hv. þm. svör við þessari spurningu: „Teljið þér yður þarfnast vistar á dvalarheimili nú?“ „Já“, svöruðu 8 konur, „nei“ svöruðu 112 konur, óákveðnar voru 3. „Já“ svöruðu 7 karlar, „nei“ svöruðu 105 karlar, óákveðnir voru 2. Ég hygg, að þetta gefi til kynna, að við getum ekki alveg dregið beinar ályktanir af því, sem fram kemur og hefur komið fram undanfarið í ásókn og eftirspurn eftir plássum á dvalarheimilum, enda benti hv. þm. á, að það hafi verið allt að því — ég held, að hann hafi nú sagt, að það væri eina lausnin, sem um væri að ræða. Ég vil nú ekki alveg taka undir það, — nei, vafalaust hefur hann ekki átt við það, það hefur sjálfsagt verið mín misheyrn, svo margt sem gert er til þess að stuðla að því, að aldrað fólk geti haldið heilsu sem lengst og lifað sjálfstæðu lífi sem lengst.

Svo langar mig til þess að lýsa gleði minni yfir þeirri till., sem hann lýsti hér, að hann hefði þegar flutt varðandi aldrað fólk hér í Reykjavík og dagheimili fyrir það fólk. Mér finnst sú hugmynd mjög snjöll, og raunar kom mér það ekki á óvart, því að þessi hv. þm. hefur fyrr lagt margt gott til mála á þessu svíði og býr yfir mikilli reynslu í þessum efnum, og ég vona af heilum hug, að það takist að koma þessari till. í framkvæmd, sem hann hefur borið fram.