26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í D-deild Alþingistíðinda. (4677)

18. mál, vegamál í Vesturlandskjördæmi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þessar viðamiklu spurningar hafa verið sendar embætti vegamálastjóra, og eru svörin byggð á upplýsingum vegamálaskrifstofunnar.

Fyrsti liður spurningarinnar er: „Hvenær lýkur þeirri rannsókn á samgöngumöguleikum yfir Hvalfjörð, sem ákveðin var með þál. 18. apríl 1967?

2. Hvenær lýkur undirbúningsrannsóknum vegna brúargerðar yfir ósa Hvítár hjá Borgarnesi?

3. Hvenær verður varanlegt slitlag lagt á hraðbrautir út frá Akranesi og Borgarnesi?

4. Er undirbúningur hafinn að nauðsynlegum endurbótum, sem gera verður á veginum frá Borgarnesi til þéttbýliskjarnanna á norðanverðu Snæfellsnesi í sambandi við Heydalsveg?“

Svörin eru á þessa leið:

1. Fsp. um störf Hvalfjarðarvegarnefndar var borin fram á Alþ. á s.l. hausti, og gerði þáv. samgrh. ítarlega grein fyrir störfum nefndarinnar fram til ársloka 1970. Síðan hefur nefndin unnið áfram að úrvinnslu gagna og lokaskýrslu, og er gert ráð fyrir, að niðurstöður hennar geti legið fyrir snemma á næsta ári og því verið tiltækar, þegar vegáætlunin fyrir árin 1972–1975 kemur til meðferðar á Alþingi.

2. Varðandi rannsóknir á Borgarfirði. Á þessu ári hefur verið og er unnið að ýmsum rannsóknum og

mælingum í sambandi við framtíðarlausn samgangna við Borgarfjörð. Tilhögun rannsókna og mælinga í ár hefur miðazt við, að þær gefi nothæfan grundvöll til að gera megi frumsamanburð á kostnaði og tækni við þær tvær meginúrlausnir, sem til greina geta komið, í fyrsta lagi leið yfir Borgarfjörðinn frá Seleyri að Borgarnesi og í öðru lagi leið fyrir botn Borgarfjarðar. Jafnframt yrðu þessar rannsóknir undirstaða frekari rannsókna, sem nauðsynlegar verða, þegar samanburður ofangreindra leiða liggur fyrir og önnur hvor þeirra leiða verður valin. Einkum gildir þetta um leið nr. 1, Seleyri—Borgarnes. En verði hún fyrir valinu, er ljóst, að framkvæma þarf miklar viðbótarrannsóknir, þar eð sú lausn getur falið í sér víðtæk áhrif á vatnsstöðu í innanverðum firðinum og þar með á landnytjar, laxveiði og fleira þess háttar.

Helztu þættir rannsókna og mælinga, sem unnið hefur verið að á þessu ári, eru eftirfarandi:

a. Framkvæmdar voru seismiskar botnrannsóknir á fyrirhuguðum brúar- og veglínum.

b. Komið hefur verið upp síritandi vatnshæðarmælum á þrem stöðum til að fylgjast með vatnsborðssveiflum í innanverðum Borgarfirði og í ánum, sem til hans falla.

c. Mældar hafa verið veglínur á báðum áðurgreindum leiðum og framkvæmdar jarðvegsrannsóknir á hinum mældu línum.

d. Í framhaldi af seismískum botnrannsóknum voru framkvæmdar sjómælingar til viðbótar þeim, sem áður voru gerðar.

e. Unnið er nú að kortagerð af svæðinu, og er þar um að ræða kort af landi og sjávarbotni í Borgarfirði.

f. Ýmsar aðrar athuganir hafa verið gerðar eða eru í gangi, svo sem umferðartalningar, athuganir á framburði í ám o.fl.

Þess er að vænta, að þessum rannsóknum ljúki fyrir áramót n.k. Ætti þá úrvinnsla gagna og fyrsti samanburður ofangreindra hugsanlegra lausna að geta farið fram fyrri hluta ársins 1972.

3. Hvenær verður varanlegt slitlag lagt á hraðbrautir út frá Akranesi og Borgarnesi? Eins og fram kemur í fsp., eru Akranesvegur og Borgarnesbraut í flokki hraðbrauta samkv. flokkun þjóðvega í vegáætlun fyrir árin 1969–1972. Hins vegar er hvorki í þeirri vegáætlun né heldur í endurskoðaðri vegáætlun fyrir árið 1971 eða í bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972 veitt neitt fé til lagningar varanlegs slitlags á þessar hraðbrautir. Og hvenær það verður gert fer að sjálfsögðu eftir ákvörðun Alþ. En ný vegáætlun fyrir árin 1972–1975 á að vera samin af Alþ. því, sem nú situr, samkv. ákvæðum vegalaga.

4. Er undirbúningur hafinn að nauðsynlegum endurbótum, sem gera verður á veginum frá Borgarnesi til þéttbýliskjarnanna á norðanverðu Snæfellsnesi í sambandi við Heydalsveg? Frá Borgarnesi til Stykkishólms eru 98 km, þegar farið er um Kerlingarskarð. Leiðin milli þessara staða lengist um 14 km við það að fara um Heydalsveg og Skógarstrandarveg, en Heydalsvegur verður opnaður fyrir umferð í lok þessa árs, þó að hann sé ekki enn þá fullgerður. Vonir standa til, að vegurinn um Heydal reynist mun snjóléttari en vegurinn um Kerlingarskarð og Bröttubrekku, og muni því verða hagkvæmt að beina vetrarumferð á norðanvert Snæfellsnes og til Dalasýslu um þann veg, þó að leiðin milli Borgarness og Stykkishólms lengist, eins og áður er sagt, um 14 km við þetta og leiðin milli Borgarness og Búðardals um 10 km miðað við leiðirnar um Kerlingarskarð og Bröttubrekku hins vegar. Þeir vegarkaflar, sem sérstaklega er nauðsynlegt að lagfæra vegna vetrarumferðar milli Borgarness og kauptúnanna á norðanverðu Snæfellsnesi, eru Stykkishólmsvegurinn frá Borgarnesi að vegamótum Heydalsvegar og vegurinn inn fyrir Álftafjörðinn á Skógarstrandarvegi. Versti hlutinn af Stykkishólmsvegi á þessari leið er kaflinn frá Borgarnesi að Hitará, sem er 27 km. Gert er ráð fyrir, að nota megi núverandi veglínu á 5.4 km vegalengd með því að styrkja veginn, en af þeim 21.6 km, sem endurbyggja þarf, hefur verið lokið við mælingar á fimm vegarköflum, sem alls eru 10.6 km að lengd, og því eftir að mæla fyrir breytingum á um 11 km vegalengd. Lokið verður endurbyggingu fyrsta vegarkaflans af þessum fimm á þessu hausti, en það er kaflinn um Borg á Mýrum.

Það skal tekið fram, að mjög aðkallandi er að endurbyggja meira af Stykkishólmsvegi en kaflann milli Borgarness og Hitarár, enda er mikið af þessum vegi lagt á fyrstu tveim áratugum þessarar aldar og því eðlilega ekki miðað við þá umferð, sem þar er í dag og enn síður þá, sem þar verður í næstu framtið. Vegurinn inn fyrir Álftafjörð á Skógarstrandarvegi er alls 8.Í km að lengd, og þarf að endurbyggja mikinn hluta þess vegar og þó sérstaklega veginn um Narfeyrarhlíð. Mælingar hafa verið gerðar á vegi yfir Álftafjörð, og mundi það stytta leiðina um 5.5 km. Fullkominn samanburður á kostnaði við þessa tvo möguleika liggur þó ekki fyrir, en það er ljóst, að vegur yfir fjörðinn með brú verður æði miklu dýrari en endurbætur á núverandi vegi inn fyrir fjarðarbotninn. Hvort hagnaður umferðarinnar af styttingu vegarins er í samræmi við þennan kostnaðatmismun, er ekki heldur ljóst, þó að líkurnar fyrir því aukist með vaxandi umferð við tilkomu Heydalsvegarins. En það er gefinn hlutur, að umferðin um þessa leið kemur til með að vaxa að miklum mun við opnun Heydalsvegar.

Ég vona, að þessu stóra máli séu gerð nokkur skil með þessum upplýsingum vegamálastjórnarinnar um það, hvernig þessi mál standa, en um samgöngumálin yfir Hvalfjörð og athuganir á þeim málum vil ég segja það sem mína persónulega skoðun, að ég teldi, að inn í þá athugun, áður en henni væri lokið, þyrfti að koma athugun á möguleikum á að leysa persónuflutningana milli Reykjavíkur og Akraness með helikopter.