26.10.1971
Sameinað þing: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í D-deild Alþingistíðinda. (4686)

901. mál, læknaskortur í strjálbýli

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það var nú eiginlega ekki ætlun mín að taka til máls við þessa umr. hér á hv. Alþ., en vegna þess að þessi mál bar á góma, taldi ég mér skylt að gera hér örstutta aths.

Ég vil fyrst þakka hæstv. ráðh. fyrir þá yfirgripsmiklu ræðu, sem hann hefur flutt hér um þetta mikilvæga mál, og þá benda á það, sem raunar kom fram í hans máli, að það þyrfti að gera tvennt í þessum efnum. Í fyrsta lagi þarf að finna einhverja bráðabirgðaúrlausn á þessu efni og í annan stað að hyggja að framtíðarskipulagi þessara mála. En ég vil benda á eitt í þessu sambandi, sem ég tel ákaflega mikilvægt, og það var ástæðan fyrir því, að ég tók hér til máls nú. En það er, að viða þar sem læknaskorturinn er tilfinnanlegastur, þar eru samgöngur afar erfiðar, og það hefur einhvern veginn æxlazt svo, að ekki virðist vera nægilega mikið samráð milli samgönguyfirvalda og heilbrigðisyfirvalda um lausn á þessu máli. Það er þannig t.d. víða á Norðurl. e., að þar er rutt snjó af vegum einu sinni í mánuði, en læknar eiga að komast til staða tvisvar í mánuði, þar sem yfirleitt er mjög mikill snjór á vetrum og svo snjóþungt, að það verður að teljast furðuleg ráðstöfun, að svona skuli að farið. Eins er um stað eins og Ólafsfjörð, sem er algerlega samgöngulaus að kalla nema á sjó, þegar snjóar í einn erfiðasta fjallveg landsins, Múlaveg. Það er í reglum samgrn., að einungis skuli ryðja snjó af þeim vegi einu sinni í viku, og ef það er gert á mánudegi og snjóar á þriðjudegi, þá má ekki ryðja þaðan snjó á miðvikudegi, jafnvel þótt þar sé fársjúkur maður fyrir. Þetta held ég, að þurfi að taka til gagngerðrar endurskoðunar, og ég vil beina þeim tilmælum bæði til hæstv. heilbrmrh. og samgrh., að úr þessu verði bætt hið snarasta.