16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í D-deild Alþingistíðinda. (4728)

65. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., en þar sem það vill svo til, að þetta mál var afgreitt hér á hinu háa Alþingi, þegar ég fór með embætti fjmrh., þá vildi ég aðeins segja örfá orð, sérstaklega með hliðsjón af því, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði í sinni ræðu hér áðan, að það hefði sýnilega ekkert verið aðhafzt í þessu máli frá því að samgrn. kom hreyfingu á málið í júnímánuði og þangað til nú í okt. Í fyrsta lagi er vert að taka það fram í sambandi við þá galla, sem komið hefur fram, að væru á þessari löggjöf, að þessi löggjöf, þó að hún hafi verið undirrituð á sínum tíma af fjmrh., þá er það formsins vegna, en þetta er ekki stjfrv., eins og við vitum, heldur var það þmfrv. og ríkisstj. hafði í þann tíð engin afskipti af því, hvernig frá þessu máli var gengið. Og í annan stað taldi ég, að þetta væri fyrst og fremst samgöngumál og það væri því eðlilegt, að það væri samgrn., sem hefði forgöngu um það að koma á framfæri óskum um það, hvenær rétt væri að beita þessari heimild, sem hér er um að ræða. Þegar eftir að hæstv. fyrrv. samgrh. eða rn. hans hafði átt um það viðræður við fjmrn. á s.l. vori, þá var, eins og hér hefur verið skýrt frá áður, Seðlabanka Íslands falið að annast um undirbúning á þessu lánsútboði. Það er eðli málsins samkvæmt, að bankinn geri það. Hann annast um lánsútboð og lánsútveganir fyrir ríkið í samráði við rn., þannig að hér var fylgt ákveðinni reglu í því efni. Hvort segja má, að það hafi verið of mikill seinagangur hjá Seðlabankanum í þessu máli, skal ég láta algerlega ósagt. Það kom fram þegar í vor, þegar hann fór að athuga það, að hann teldi eða forráðamenn Seðlabankans, að það mundi þurfa að íhuga þetta mál nánar, eins og upplýst hefur verið hér, og það hefur síðan verið til meðferðar að ég hygg í Seðlabankanum, þó að ég viti ekki nákvæmlega, hvað gerzt hefur í því, eftir að ég lét af embætti fjmrh.

En sem sagt, ég vil láta það koma skýrt fram, að málinu hafði verið komið áleiðis eftir eðlilegum leiðum þegar áður en stjórnarskipti urðu, og tek ég það fram, að ég er ekki að segja þetta til að ásaka hæstv. núv. ríkisstj. um neinn seinagang í málinu. Ég fullyrði ekkert um það, og það getur allt verið eðlilegt, að það hafi beðið, eins og hér hefur verið upplýst. Ég vildi aðeins taka þetta fram, til að það ylli ekki misskilningi, að ekki hefði verið hafizt handa af hálfu fjmrn., þegar efni stóðu til að koma málinu áleiðis, svo að hægt yrði að bjóða þetta happdrættislán út með eðlilegum hætti.