14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

1. mál, fjárlög 1972

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Starf fjvn. er örugglega meira en starf allra annarra nefnda þingsins til samans, og það má fullyrða, að þeir menn, sem í fjvn. sitja, eiga miklu nánara samstarf og með öðrum hætti en almennt gerist í öðrum nefndum, sem koma tiltölulega sjaldan saman og til stuttra funda. Ég hef átt sæti í fjvn. s.l. 8 ár og ég verð að segja, að þó að vinna sé þar oft mikil, sérstaklega þegar fer að líða að afgreiðslu mála, þá hefur verið ríkjandi þar góður andi og samstarf verið með ágætum með nm., hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Mér er ljúft og skylt að segja það hér, að á þessu hefur ekki orðið nein breyting í störfum fjvn. við það, að nýr formaður var þar kjörinn, og er mér mjög ljúft að þakka honum fyrir mjög ánægjulegt samstarf og sanngirni í afgreiðslu mála, sem fyrir n. hafa komið, og sömuleiðis öðrum fjvn.-mönnum og hagsýslustjóra, sem hefur starfað eins og áður með n. og veitt upplýsingar bæði stjórn og stjórnarandstöðu, eftir því sem honum hefur verið frekast unnt hverju sinni, eins og hann hefur alltaf gert áður.

Till. þær, sem fjvn. flytur, eru á þskj. 174 og 177, og þær nema með leiðréttingum á sérstöku þskj. um 765 millj. kr. hækkun á gjaldaliðum fjárlaga. Ég skal taka það fram, eins og frsm. 1. minni hl. okkar sjálfstæðismanna gerði raunar hér í dag, að við sjálfstæðismenn áttum aðild að fjölmörgum þessara tillagna og munum fylgja þeim hér við afgreiðslu í Alþ. Þó eru nokkrar till., sem við erum andvígir. Það eru tiltölulega smávægilegar till. hvað upphæðir snertir, en um stærstu till., sem fjvn. leggur hér fram, er að mínum dómi fullt samkomulag á milli nm. í fjvn., og þá á ég fyrst og fremst við skiptingu á framlagi til byggingar skólamannvírkja og til hafnaframkvæmda og sömuleiðis til sjúkrahúsa, læknamiðstöðva og læknabústaða. Hins vegar tek ég það fram, að við erum ekki sammála um heildarfjármagnið, sem til þessara framkvæmda er ætlað. Það er auðvitað fyrst og fremst ákvörðun ríkisstj., en samvinna og samstarf í fjvn. um skiptingu á því fjármagni, sem hér er um að ræða innan ramma þessara tillagna, var tiltölulega mjög gott. Ég mun síðar koma að þessum till. og ræða þær nánar. En áður en ég held lengra vil ég koma að því, sem ég tel miklu varða í sambandi við vinnubrögð og störf í fjvn., en það er tekjuhlið fjárlagafrv. Þar höfum við stjórnarandstæðingar engan staf séð, — engin grein hefur verið gerð, ekki einu sinni fyrir breytingum, sem verða á þeim tekjuliðum, sem fyrir eru í frv. Ég hefði nú talið, að þó að seint hefði gengið með jafnmikil störf og verið er að vinna og ætlunin er að framkvæma í sambandi við gerbreytingu á skattakerfinu, þá hefði þó mátt gefa fjvn. yfirlit og skýrslur um það fyrir 2. umr., hvaða breytingu tekjuliðir fjárlagafrv. hefðu tekið, frá því að fjárlagafrv. fór í prentun nokkru fyrir þingbyrjun. En það var látið algerlega undir höfuð leggjast, eins og fjvn. kæmi það á engan hátt við, hvernig ætti að afla fjár til þeirra framkvæmda og annarra útgjalda varðandi erindi, sem n. hafði með að gera.

Það verður ekki hjá því komizt, þegar við ræðum um þetta fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, að fara aftur til þess tíma í sumar, þegar núv. ríkisstj. var mynduð, og það má segja, að þau fyrirheit, sem ríkisstj. hafi gefið þjóðinni, séu upptalning á óskum manna um, að þetta skuli gert, og það er eins og þeir, sem þar hafi komið saman, hafi verið í kappi um að panta það, sem á að gera, án þess að gera sér grein fyrir því, að til þess að framkvæma alla þessa hluti þarf auðvitað að afla fjár til þess að uppfylla þessar óskir. Það þarf að gera sér grein fyrir, hver útgjöldin verða, og jafnframt en ekki mörgum mánuðum seinna að ákveða, hvernig fjár skuli aflað, eins og var gert í þessu tilfelli. Það þarf líka að gera sér grein fyrir, hvað skattborgararnir og atvinnufyrirtækin í landinu geta lagt mest af mörkum til ríkisins, og verða útgjöld ríkissjóðs að fara eftir því. Fari skattaálögur á einstaklinga og fyrirtæki mikið fram úr því, sem almennt gerist í þeim löndum, sem búa við svipaða lífnaðarhætti og lífskjör og við gerum, mun það hafa margvíslegar og skaðlegar afleiðingar á alla uppbyggingu atvinnulífsins og leiða af sér samdrátt í atvinnulífi og minnkandi atvinnu fyrir almenning í landinu.

Á undanförnum árum hafa hv. stjórnarandstæðingar haft um það mörg orð, hvað verðbólgan hefði aukizt í landinu, og að fjárlög hefðu farið ört hækkandi. Mátt hefði því ætla, að á þessu hefði orðið breyting með valdatöku núv. ríkisstj. Málefnasamningur er í svo nefndu Ólafskveri, en sá, sem kverið er kennt við, hefur lagt á það ríka áherzlu við okkur þm., að við lesum þetta kver bæði kvölds og morgna, og hefur hann fullyrt, að með tímanum munum við öðlast skilning á því, sem segir í þessu kveri. En í Ólafskveri segir:

Ríkisstj. leggur ríka áherzlu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt hefur til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helztu nágranna- og viðskiptalöndum.“

Ég læt hvern og einn um að dæma, hvernig til hefur tekizt í þessum efnum, það sem af er valdatíma hæstv. ríkisstj., og enn fremur ætla ég ekki að spá um framhaldið á næstu mánuðum. Hitt held ég, að liggi ljóst fyrir, að hækkana er að vænta á öllum sviðum. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu hér á Alþ. við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1971, en þá var hann talsmaður stjórnarandstöðunnar, að fjárlagafrv. væri spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt væri, og enn fremur, að stjórnarstefnan hefði áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar og hækkun verðbólgunnar í landinu. Nú skulum við líta aðeins á þessa spegilmynd, sem núv. hæstv. fjmrh. gerði að umræðuefni fyrir einu ári síðan.

Á fjárlögum ársins 1971 námu aldaliðir fjárlaga 11 milljörðum 23 millj. 273 þús. kr. Á fjárlagafrv. því, sem hæstv. fjmrh. lagði fram í þingbyrjun fyrir árið 1972, eru gjaldaliðir 13 milljarðar 971 millj. 188 þús. kr., en samkv. till. fjvn. hækka þeir um 765 millj. kr., þegar leiðréttingar hafa verið teknar með, og eru því nú um 14 milljarðar 736 millj. kr. Er því hækkun á fjárlagafrv. nú við 2. umr. um 331/2% frá fjárlögum þessa árs. En hvað á svo eftir að koma? Það er stóra spurningin. Það hefur ekki komið skýrt fram í raun og veru, hvað á eftir að koma eða hve háar upphæðir fjárlagafrv. hækkar um. En í frv. því, sem lagt var hér á borðið í gær hjá okkur alþm. og fjallar um tekjustofna sveitarfélaga, er tekið fram í aths. við frv., að framlög sveitarfélaga til lífeyristrygginga verði felld niður, framlög sveitarfélaga til sjúkratrygginga verði lækkuð um helming, persónuiðgjöld til lífeyristrygginga almannatrygginga verði felld niður og iðgjöld hinna tryggðu til sjúkrasamlaganna felld niður. Eins og hv. 6. þm. Sunnl. gat um hér í sinni ræðu í dag, mun vera hér um að ræða útgjöld, sem nema 1.8 milljarði kr., og vitnaði hann í því sambandi til upplýsinga um fjárhagsáætlun Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 1972, sem kom fram í blaði trygginganna, sem heitir Félagsmál og þm. hefur verið sent. Auk þessa kemur ríkissjóður til með að taka að sér allan kostnað við löggæzlu í landinu eða þann hluta kostnaðarins við löggæzluna, sem hingað til hefur verið greiddur af sveitarfélögum. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hver sá kostnaður væri, hvað þetta ætti eftir að hækka gjaldahlið fjárlaga og bera það saman við kokhreysti hæstv. fjmrh. í fjölmiðlum í gærkvöld, þegar hann skýrði frá tekjuskattsfrv., því að það mátti á honum skilja, að þar væri fremur um lækkanir skatta að ræða en nokkrar hækkanir, þó að eigi að taka hér á ríkið útgjöld, sem nema töluvert á þriðja milljarð. Hins vegar heyrir maður, að það eigi að lækka mjög verulega niðurgreiðslur á vöruverði, en það er með það eins og annað, að þetta hefur verið farið með eins og mannsmorð. Það hefur ekki verið hægt að skýra fjvn. frá þessum málum enn þá, en samt hefur verið ætlunin að afgreiða fjárlög eftir nokkra daga. Mér er líka spurn, hver er ætlun ríkisstj. og hæstv. fjmrh. í þeim efnum? Hvað er ætlunin að lækka þann gjaldalið á fjárlagafrv. um mikið? Og hvernig er ætlað að mæta því að hleypa því út í verðlagið? Fylgir ekki í kjölfar þess vaxandi verðbólga, en hv. núv. stjórnarsinnar hafa helzt fundið fyrrv. stjórn það til foráttu, að hún hafi engan veginn staðið í stykkinu í þeim efnum?

Fyrir ári siðan, einmitt við 2. umr. fjárlaga, var fluttur kafli úr ræðu, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa upp:

„Hér er um stórfelldari hækkun að ræða heldur en nokkru sinni fyrr á fjárlagafrv., þar sem hækkunin ein nemur þremur milljörðum 139 millj. kr. Á undanförnum þingum hafa hv. alþm. og þar á meðal ég gert að umtalsefni þær hækkanir, sem hafa orðið á fjárlagafrv., en ég verð nú að viðurkenna það, að allt, sem hefur gerzt um þá hluti á undanförnum árum, eru smámunir einir samanborið við það, sem nú er að gerast. Það má geta þess, að árið 1965 eða fyrir 6 árum voru niðurstöðutölur fjárlagafrv. þrír milljarðar, 529 millj. kr., eða 308 millj. kr. hærri tala heldur en hækkunin ein er nú.“

Hver skyldi nú hafa sagt þessi orð? Jú, þessi orð eru rétt höfð eftir núv. hæstv. fjmrh., Halldóri E. Sigurðssyni. Ég segi nú eftir þetta: Loftarðu þessu, Pétur?

Ég ætla að koma nokkuð inn á liði, sem er varið til framkvæmda í þjóðfélaginu, og þá ætla ég fyrst og fremst að minnast hér nokkuð á skólakostnaðarliðina. Ég sé, að í nál. minna ágætu samstarfsmanna í fjvn., sem skipa meiri hl., eru þeir dálítið grobbnir yfir því, hvað framkvæmdaféð hækkar mikið, og þeir birta ákveðna hlutfallshækkun í nál., sem á að vera máli þeirra til sönnunar. Það út af fyrir sig er snjallræði manna að sýna, hvað hlutfallstala getur hækkað með því að taka einn og einn lið, sem getur náð yfir 100% hækkun, en nefna svo sakleysislega þá liði, sem eru í raun og veru stærstir, og segja, að þeir nái nú þessari tilteknu hækkun. Þá á ég við að taka t.d. aðalframkvæmdaliðinn, sem er til byggingar barnaskóla og gagnfræðaskóla, skólastjóra- og kennarabústaða og íþróttamannvirkja, og segja: Þessi liður hækkar um 37%.

Og það er látið líta svo út, að hér sé alveg um sérstakar hækkanir að ræða, sem aldrei hafi þekkzt fyrr í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Nú skulum við athuga örlítið nánar þennan stærsta lið í framkvæmdunum, sem við erum nú að afgreiða hér við 2. umr. fjárlaga.

Á fjárlögum ársins 1970 var varið 206 millj. 860 þús. til hyggingar skólamannvírkja í landinu á barna- og gagnfræðaskólastigi. Á árinu 1971 hækkaði þessi liður upp í 288 millj. og 91 þús., eða um 39%. Nú hækkar þessi sami liður úr 288 millj. 91 þús. í 394 millj. 360 þús., eða um 37%. Hækkun er minni nú en var við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Þar við bætist, að þegar við afgreiddum síðustu fjárlög, sáum við fram á, að hækkanir yrðu ekki eins gífurlega miklar og við sjáum nú við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972, svo að framkvæmdamáttur þessara peninga er í raun og veru mun minni en framkvæmdamáttur þess fjármagns, sem veitt var á síðustu fjárlögum, fjárlögum ársins 1971.

Hæstv. fjmrh. gerði að umræðuefni hér, — því ætlaði ég algerlega að sleppa í minni ræðu, en vegna þess að hann reið á vaðið í þeim efnum, þá sé ég mig knúinn til þess að gera það nokkuð að umræðuefni, — greiðslur ríkisins til skólabygginga samkv. skólakostnaðarlögum. Hann lýsti því yfir sem sinni skoðun, að hann teldi, að það ætti að breyta ákvæðum skólakostnaðarlaganna á þann veg, að ríkissjóður greiddi framlög til skólabygginga á fimm árum en ekki þremur árum eins og segir í gildandi lögum um greiðslu skólakostnaðar. Ég spyr hæstv. fjmrh. að því, hvers vegna flytur ríkisstj. þá ekki frv, til l. um breytingu á skólakostnaðarlögunum í þá átt, að skólakostnaður greiðist á fimm árum? Hvers vegna var það ekki gert, áður en fjvn. gekk frá tillögum sínum í sambandi við skólabyggingar? Með nýju skólakostnaðarlögunum var sú breyting gerð á greiðslu ríkisins til þessara framkvæmda, að í stað þess að greiða á fimm árum hluta ríkisins til sveitarfélaganna af skólabyggingum, þá var það ákvæði tekið upp, að það skyldi greitt á þremur árum. Fyrrv. ríkisstj. breytti þessum lögum á þann veg, að framlög til skólabygginga skyldu greiðast á fjórum árum og skyldi það gilda í eitt ár, en á s.l. ári skal ég fúslega játa, af því að ég starfaði einnig í þessari sömu undirnefnd í fjvn., að við neyddumst til þess að halda áfram að miða framlögin við fjögur ár, eins og gert var árið á undan með sérstakri lagaheimild, og nú höfum við einnig orðið að gera þetta sama. Og við gengum að vissu leyti lengra nú til þess að komast sæmilega frá því að skipta því fjármagni, sem hæstv. ríkisstj. taldi sig geta lagt fram í þessu skyni, með því ekki eingöngu að skipta á fjögurra ára tímabil heldur einnig, að í sambandi við þau mannvirki, sem eru lengra komin, jöfnuðum við greiðslurnar út með jöfnum greiðslum, það sem eftir er af framkvæmdatímabilinu. Hins vegar skal ég jafnframt upplýsa það og tel rétt, að það komi fram, að um þær byggingar á skólamannvirkjum, sem komnar eru af stað samkv. gildandi lögum um skólakostnað, hefur verið gerður sá samningur á milli viðkomandi sveitarfélags og menntmrn., að þrátt fyrir það, að fjárveitingar eru í sumum tilfellum lækkaðar nú frá því, sem þær ættu að vera eftir framkvæmdastigi nokkurra þessara mannvirkja, þá eiga sveitarfélögin og þeir aðilar, sem standa að þessum byggingum, fullan rétt á því að fá greiðslu samkv. þeim samningi, sem þegar hefur verið gerður.

Og þá kunna þm. að spyrja: Er þá ekki of miklu fjármagni varið þess vegna til skólabygginga? En þá vil ég minna á það, að í skólakostnaðarlögunum er heimild fyrir menntmrn. til að færa fé á milli, þannig að fé til framkvæmda, sem ganga hægt vegna kannske aðstæðna sveitarfélaga, eða framkvæmda, sem ekki er farið í, en heimild er í lögum til að fara út í, það fé hefur menntmrn. rétt til að nota til þess að koma til móts við hina, sem eru með samning og halda áfram á fullum byggingarhraða.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram vegna ummæla hæstv. fjmrh. í þessu máli. Og ég spyr hann, hvernig stendur á því, að ríkisstj., ef hún hefur þetta í huga, flytur ekki frv. til þess að fá það jafnframt lögfest, fimm ára tímabilið, því að auðvitað á það að fylgja, því að það getur ekki gengið árum saman, að farið sé í kringum skólakostnaðarlögin.

Ég verð nú að segja eins og er, að mér finnst hljóðið í sumum mönnum vera nokkuð annað en verið hefur undanfarin ár. En hlutverkaskipti hafa nú orðið, eins og öllum er kunnugt. Það má kannske segja um fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn., að þeir hafa verið seinir að skipta um hlutverk hvað þetta snertir, því að við flytjum enga brtt. við fjárlagafrv. hér við 2. umr. Ástæðan er sú, að við teljum, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að það hafi í mörgum tilfellum verið komið mjög til móts við okkar óskir, og við eigum ekki síður en stjórnarsinnar þátt í sumum þessum tillögum, sem hér liggja fyrir. Við eigum þær alveg sameiginlega og í mörgum tilfellum erum við eftir atvikum ánægðir, en nokkrar tillögur, eins og ég gat um í upphafi, eru aftur mál, sem við ekki styðjum. Við stöndum við það við atkvgr. að styðja þær tillögur, sem við í rauninni höfum stutt í fjvn., og heitum þeim okkar fylgi hér í Alþ., en hins vegar höfum við viljað bíða eftir því að sjá heildarmynd tekjuhliðar fjárlaga, áður en við förum að flytja brtt. Þess vegna bíða þær brtt. okkar til 3. umr., því að enginn má taka það á þann veg, að við teljum ekki, að það séu mörg hugsjónamál okkar og annarra óleyst, þó að við flytjum ekki sand af brtt. hér við 2. umr. fjárlaga.

Ég sagði áðan, að sumir menn hefðu skipt um hlutverk. Ég tel nauðsynlegt að sýna fram á með skýrum dæmum, að hlutverkaskipti hafa orðið, og mig langar að nefna í því sambandi eitt mál alveg sérstaklega. Á árinu 1970 var tekið inn í fjárlagafrv. og afgreitt í fjárlögum fyrir það ár 10 millj. kr. framlag, sem hét að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms. Við gerð fjárlaga fyrir árið 1971 var þetta framlag hækkað um 50%, eða í 15 millj. kr. Þáv. stjórnarandstæðingum, núv. hv. stjórnarsinnum, fannst þetta framlag litilfjörlegt í meira lagi og til stórskammar, — þetta væri í rauninni ekkert framlag, hér þyrfti að gera á stórkostlega breytingu. Og á tveimur síðustu þingum hafa stórhuga menn í forustuflokki ríkisstj., Framsfl., flutt frv. um stofnun námskostnaðarsjóðs, sem hefði það hlutverk að veita námsstyrki nemendum í skólum landsins, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur. Og þeir lögðu til, að sjóður þessi hefði þessar tekjur:

1. Leggja skal gjald á allar vörur frá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, svo og á hvers konar öl og gosdrykki. Skal gjaldið nema 5% af söluverði nefndra vara.

Ráðh. setur nánari reglur um álagningu gjaldsins og innheimtu þess.

2. Framlag ríkissjóðs, er nema skal 150 kr. á hvern íbúa landsins, samkv. síðasta manntali.

Ég fór að gera mér grein fyrir því, ef við hefðum nú samþ. þetta frv. á síðasta þingi fyrir áhugamennina í Framsfl., hvað þessi sjóður hefði nú miklar tekjur á árinu 1971. Samkv. áætlun fjárlagafrv. er áætlað, að seldar vörur Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins muni nema 1 milljarði 774 millj. og 600 þús., en það mundi þýða, að í þennan sjóð þeirra framsóknarmanna hefðu farið, til þess að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms, hvorki meira né minna en 88 millj. 730 þús. kr. Talið er, að það seljist 7 millj. 760 þús. flöskur af öli og 37 millj. 193 þús. flöskur af gosdrykkjum, og meðalverð á flösku er talið 9.28 kr. Þá mun láta nærri, að heildarsalan nemi um 417 millj., þannig að sjóður þeirra framsóknarmanna hefði fengið þar 20 millj. 850 þús. kr. Hitt er nú auðvelt að reikna út, 150 kr. skatt á hvern íbúa landsins. Það mun láta nærri að vera 30 millj. 600 þús. kr. Samkv. þessu hefði nú í ár verið varið 140 millj. 180 þús. kr. til að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms. En nú eru höfðingjarnir komnir að, stórhöfðingjarnir, sem fluttu frv. og studdu það. Hverju verja þeir svo til þess, sem þeir vildu í fyrra hafa 140 millj? Núna verja þeir til þess 25 millj., 10 millj. kr. meira en fyrrv. ríkisstj. var með í fjárlögum ársins 1971. En það þýðir ekki, að það sé 10 millj. kr. meira í raun og veru, því að nemendum fjölgar ár frá ári. En framsóknarmenn voru ekki einir um þetta. Það var annar maður, sem nú á sæti í ríkisstj., sem flutti frv. 1969, bjartsýnismaður mikill, hæstv. félmrh. Hann lagði þá til, að vegna nemenda, sem kostaðir verða til dvalar í heimavist eða koma utan heimilis á annan hátt til námsdvalar í ríkisskólum, hvort heldur er á barnaskólastigi, í skólum gagnfræðastigsins eða í menntaskólum, skuli ríkissjóður greiða 25 þús. kr. á því skólaári, sem nú er hafið, vegna dvalarkostnaðar hvers nemanda, er eigi getur sótt skóla frá heimili sínu. Upphæð þessi breytist síðan í samræmi við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar. Ég held, að það sé rétt hjá mér með þá breytingu, sem orðið hefur á vísitölu framfærslukostnaðar, frá því að þetta frv. var flutt, hún muni hafa verið 130.98 stig þá, en var nú 13. des. 155.58 stig. Eftir því sem ég kemst næst um þá nemendur á barna- og gagnfræðaskólastigi í heimavistarskólum, sem mundu hafa notið þessarar fyrirgreiðslu samkv. frv. því, sem hæstv. félmrh. flutti þá, mundu tekjur þessa sjóðs hafa numið um 140 millj. kr. Það getur leikið á 10 millj. Hitt er miklu nákvæmara og betur hægt að reikna út, frv. framsóknarmanna. En hann var nú þetta lægri í þessum yfirboðum á þeim tíma heldur en hv. framsóknarmenn. Ég kom hérna með þetta dæmi til þess að sýna, hvað fyrrv. hv. stjórnarandstaða var hátt uppi í yfirboðum sínum á þessum tíma.

Það er mikið veður gert út af því, hvað framlög til hafnamála hækki nú frá gildandi fjárlögum. Ég fyrir mitt leyti fagna innilega þeim hækkunum, sem orðið hafa á framlögum til hafnamála, og ég tel það mjög skynsamlegt af hæstv. ríkisstj. að hækka þau framlög, og ég er henni og hæstv. samgrh. þakklátur fyrir það að hafa beitt sér fyrir því, að þessi framlög fengjust hækkuð. En ég er ekki alveg sammála mínum ágætu samstarfsmönnum í fjvn. um hækkunina til hafnamála í heild. Þeir telja, minnir mig, í nál., að þau hafi hækkað um 160%, en þá taka þeir aðeins einn lið, til hafnarmannvirkja. Til þess að gera samanburð á því, sem er í fjárlögum yfirstandandi árs, þá verðum við auðvitað að taka alla liðina til hafnamála og leggja þá saman og svo aftur það, sem er nú samkv. till. fjvn. Og þá held ég, að mínir ágætu samstarfsmenn og vinir mundu fá sama út og ég. En það, sem ég fæ út úr þessum málum, er það, að til hafnarmannvirkja og lendingarbóta er varið á fjárlögum yfirstandandi árs 99 millj. 365 þús., til ferjubryggja 3 millj. 281 þús., til landshafna 52 millj. 988 þús. og til hafnarmannvirkja, eftirstöðvar framlaga, 25 millj. 200 þús., til Hafnabótasjóðs 17 millj. og til sjóvarnargarða 2.3 millj. kr. eða samtals 200 millj. 134 þús. kr. En samkv. fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, nema þessir liðir, sem ég nefndi áðan, samtals 270 millj. 702 þús. kr., og það fæ ég út, að sé rúmlega 35% hækkun. Og það er vel farið, enda skal ég játa það fúslega, að framkvæmdamáttur í hafnarmannvirkjum eða sú mikla aukning, sem hefur orðið á kostnaði við hafnarframkvæmdir, gerir þáð að verkum, að við verðum að stórauka þessi framlög. En hitt liggur líka ljóst fyrir, að þó að hafnalög hafi verið sett fyrir örfáum árum, þá hefur það komið í ljós, að hin minni sveitarfélög geta á engan hátt staðið undir þeim hluta, sem þessi hafnalög gera ráð fyrir, að þau eigi að standa undir. AS vísu hefur verið komið nokkuð til móts við sum þessara sveitarfélaga með styrkjum úr Hafnabótasjóði, en það hefur engan veginn verið nóg. Ég flutti ásamt fleirum á síðasta þingi till. til þál. um endurskoðun hafnalaganna. Þessi till. var ekki útrædd, en fyrrv. samgrh. tók þá ákvörðun að skipa nefnd til þess að endurskoða hafnalögin. Núv. hæstv. samgrh. hefur breytt nokkuð þessari nefnd eða réttara sagt fjölgað í henni, og þar er nú unnið að endurskoðun hafnalaganna, og ég vænti þess, að þeirri endurskoðun verði lokið fljótlega í byrjun næsta árs eða sennilega í janúarlok, og þá auðvitað tekur ríkisstj. það nál. til athugunar og tekur þá jafnframt ákvörðun um að flytja frv. til nýrra hafnalaga, en á því er mikil þörf. Ég veit það, að hæstv. samgrh. hefur mikinn áhuga á þessu máli. Það hef ég heyrt og fundið í samtölum við hann og sömuleiðis á hans viðbrögðum hér í sambandi við afgreiðslu þessara mála í fjvn., og ég trúi því og treysti, að hæstv. ríkisstj. taki ákvörðun fljótlega um þetta mál og Alþ. lögfesti nýtt hafnalagafrv., sem eykur nokkuð þátttöku ríkisins í kostnaði við hafnagerðir, sérstaklega gagnvart hinum minni sveitarfélögum, og jafnframt lagar það ástand, sem er víða í sambandi við fjárhag hafnanna.

Ég sagði áðan, að það hefði verið tiltölulega gott samstarf í sambandi við skiptingu á hinum stærstu framkvæmdaliðum í fjárlögum. Þó vil ég segja það, að í sambandi við skiptingu á fé til sjúkrahúsa, læknamiðstöðva og læknahústaða kom till. frá heilbrrn. til fjvn., sem ég hygg, að orðið hefði mikill ágreiningur um, ef meiri hl. fjvn. hefði fallizt á þá till. En ég ætla enn einu sinni að segja það, að fjvn. skildi það, að ekki var hægt að ganga frá skiptingu þess fjármagns á þann hátt, að ekki hefði einu sinni orðið sæmilegt samkomulag meðal stjórnarsinna hvað þá heldur stjórnarandstæðinga, og á því máli var gerð mjög veruleg bragarbót, sem var á þann veg, að ég hygg, að allir hafi getað mjög vel sætzt á þá lausn málsins.

Hv. 2. þm. Vesturl. minntist í dag á uppbætur á línufisk. Það liggja fyrir erindi í fjvn. um sérstakar uppbætur á línufisk, að þær verði teknar upp í fjárlagafrv., en það hefur ekki verið tekið til endanlegrar afgreiðslu í n. Á fjárlögum yfirstandandi árs var sérstök upphæð í þessu skyni, en óskiljanlega féll þessi upphæð niður við samningu fjárlagafrv. Veit ég ekki vegna hvers það var, en ég vænti þess og treysti því, að hæstv. ríkisstj. muni verða við þeim sanngjörnu óskum, sem hér er um að ræða. Til þess að gera mönnum nokkra grein fyrir því, hvað þetta er há upphæð, er talið, að á árinu 1970 hafi magnið af línufiski, — en það er eingöngu um að ræða fyrsta flokks línufisk, — verið 50 þús. 326 tonn, og uppbótin miðað við 33 aura pr. kg varð í reynd 16 millj. 607 þús. kr. Stærsta upphæðin fór til svæðanna frá Grindavík að Ísafjarðardjúpi, en svæðið Patreksfjörður — Hólmavík fékk 5 millj. 195 þús. af þessari uppbót, Akranes að Stykkishólmi 3.3 millj. kr., Grindavík að Kópavogi 4 millj. 765 þús. og Reykjavík tæpar 1 200 þús. Norðurland, Austfirðir og Suðurland fengu tiltölulega mjög lágar greiðslur. Hv. 2. þm. Vesturl. gat þess hér í sinni ræðu í dag, að þessar uppbætur hefðu verið miðaðar við línufisk veiddan frá hausti til vors, en ekki yfir sumarmánuðina, og taldi hann, að hér ætti að gera breytingu á. Ég skal ekki segja neitt um það efni. Ef línuuppbótin verður tekin upp eða henni haldið áfram réttara sagt, þá verður það á valdsvíði sjútvrh. og ríkisstj., hvort þessu verður breytt í það horf eða ekki. En ég vil aðeins minnast á það, að fiskkaupendur greiða nú 55 aura á kg í uppbætur til útgerðar- og sjómanna á línufisk og lengi vel fylgdust að sama upphæð, sem ríkissjóður greiddi uppbót af, og sú uppbót, sem greidd er af fiskkaupendum. Ósk okkar er sú, að sú venja haldist áfram, þó að það hafi breytzt á s.l. ári. Það verður enginn eldur út af því. Hins vegar trúi ég ekki öðru en hæstv. ríkisstj. meti og skilji þýðingu þessara veiða fyrir þjóðarbúið.

Ég verð að segja það eins og er, að mér kemur nokkuð á óvart, að framlög til sjávarútvegsins breytast í raun og veru ekkert, þegar undan eru skildar rannsóknastofnanir sjávarútvegsins, en framlag til Fiskveiðasjóðs er óbreytt í fjárlögum. Ég held, að ég muni það rétt, að hæstv. núv. sjútvrh. deildi oft á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, hvað framlag ríkisins til Fiskveiðasjóðs var lágt. Á þeim árum var tiltölulega lítið byggt af skipum í landinu, en þó skal ég játa það fúslega, að ég var mjög óánægður með framlagið til Fiskveiðasjóðs á þeim árum. En ég bjóst nú við, að jafnharður og duglegur maður og hæstv. sjútvrh. er mundi beita sér fyrir því að hækka mjög verulega framlagið til Fiskveiðasjóðs. Það er um leið viðurkenning á því mikla hlutverki, sem Fiskveiðasjóður gegnir, og svo jafnframt því, hvað um er að ræða gífurlegar beiðnir, sem liggja fyrir Fiskveiðasjóði, þó að ég viti, að framlag ríkissjóðs verður ekki annað en dropi í hafið í þeim efnum. En ég tel, að sú gagnrýni, sem hann viðhafði í sambandi við þetta mál við fyrrv. ríkisstj., hafi átt við mikil rök að styðjast, og nú ríður svo aftur á, þegar menn eru komnir í valdaaðstöðu, að láta verkin tala.

Mig langar líka að koma hér nokkuð að Atvinnujöfnunarsjóði, sem nú á samkv. frv. ríkisstj. um Framkvæmdastofnun ríkisins að leggja niður og eignir hans að færast til nýrrar stofnunar, sem á að heita Byggðasjóður. Á þinginu 1969 var flutt frv. til l. um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins og ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggðarlaga. Samkv. þessu frv. áttu tekjur Byggðajafnvægissjóðs að vera 2% af árlegum tekjum ríkissjóðs, en þannig lá það nærri miðað við fjárlagafrv., eins og það er nú, — það á eftir að hækka, eins og við vitum, við 3. umr., — að tekjur þessa sjóðs mundu þá hafa farið upp í 295 millj. kr. Jafnframt var lagt til, að skattgjaldið vegna álversins í Straumsvík yrði það sama og svo auðvitað vaxtatekjur sjóðsins. Nú leggur hæstv. ríkisstj. til, að tekjurnar af álgjaldi renni til Byggðasjóðs, og það er áætlað að vera 46 millj. 85 þús. kr., og jafnframt leggur fjvn. til, að 15 millj. kr. framlagið frá ríkissjóði til Atvinnujöfnunarsjóðs hækki um 85 millj., svo að beint framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs verði 100 millj. kr. En það er mun minna heldur en ætlazt var til 1969 í frv. framsóknarmanna, því að eins og ég sagði áðan, hefði það orðið nú við 2. umr. 295 millj. kr. og á eftir að hækka enn. Framlag núv. ríkisstj. til Byggðasjóðs kemur því ekki til með að verða þriðjungurinn af því, sem þeir ágætu menn, sem fluttu þetta frv., lögðu til. Og það voru nú ekki ómerkari menn, sem fluttu þetta frv., en Gísli Guðmundsson, Jón Kjartansson, Halldór E. Sigurðsson, núv. hæstv. fjmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, Ágúst Þorvaldsson og Sigurvin Einarsson. Tveir eru nú horfnir af þingi, en fjórir eru eftir og meira að segja einn þeirra fjmrh. Ég hefði því búizt við því, að þeir reyndu nú að muna eftir þessum börnum sínum, sem ekki áttu upp á pallborðið hjá fyrrv. stjórn, og sýndu þeim nú meiri hug í verki en þeir gera.

Ég minnist þess, að oft var rætt um það á undanförnum árum, bæði við afgreiðslu fjárlaga og þá ekki síður við afgreiðslu vegáætlunar, að tekjur af umferðinni ættu allar að fara til Vegasjóðs. Og hæstv. fjmrh. sagði hér í dag, að framlagið til Vegasjóðs eða hækkunin á því væri ekki meiri vegna sérstaks tillits, sem þeir tækju til fyrrv. samgrh., en það þori ég að ábyrgjast, að þó að núv. hæstv. ríkisstj. hefði hækkað þessi framlög og margfaldað þau, hefði fyrrv. hæstv. samgrh. alls ekki tekið það illa upp, nema síður sé. Tekjur af umferðinni, sem ríkissjóður hefur á árinu 1971, eru sennilega í kringum 766 millj. kr., og það er áætlað miðað við sömu áætlun aðflutningsgjalda 627.4 millj. kr., en tekjur af innfluttum bifreiðum eru reiknaðar þannig, að aðflutningsgjald umfram 22% meðaltollprósentu er tekið með. Svo hafið þið nú heyrt, hvað ríkisstj. og fjvn. leggja til, að tekið sé til Vegasjóðs hér í þessu frv. Ég vil líka minna á, að það var búið að taka lán til vegagerðar til ársloka 1968, og þessi lán námu 585.3 millj. kr. Fyrrv. ríkisstj. tók þá ákvörðun, að ríkið tæki að sér þessi lán, og afborganir og vextir og vísitölubætur af þeim hafa verið greiddar af ríkinu af lánahreyfingum. Þessar upphæðir námu árið 1970 í afborgunum 29.9 millj. kr. og vextir og vísitölubætur 59.4 millj. kr. Samtals tók ríkissjóður að sér 89.3 millj. kr. og þetta hygg ég, að hv. stjórnarsinnar ættu að hafa í huga, þegar þeir ræða um framlög til vegamála frá ríkinu á undanförnum árum. Ég veit, að a.m.k. flestir þeirra og vonandi allir vilja þó heldur hafa það, sem sannara reynist.

Áætlaðar afborganir og vextir á árinu 1972 vegna þessara lána eru 103.8 millj. kr. og auðvitað reikna allir með því, að núv. ríkisstj. haldi áfram þessum greiðslum eins og verið hefur. Vegagerðin hefur síðan tekið lán á árinu 1969 að upphæð 41.7 millj. kr. og á árinu 1970 11.8 millj. kr. Og á yfirstandandi ári hafa verið tekin þessi lán: alþjóðabankalánið 160 millj. kr., erlent hraðbrautalán 150 millj. kr., Austurlandslán 60 millj. kr., lán til hraðbrautar við Akureyri 50 millj. kr. og lán til fjögurra tiltekinna kjördæma, 10 millj. í hvert kjördæmi, samtals 40 millj. kr. samkv. heimild í gildandi vegáætlun, þannig að heildarlántaka á þessum árum hefur numið 513.5 millj. kr. Það mun láta nærri, að á árinu 1972 muni vextir og afborganir af þessum lánum, sem ríkissjóður hefur enn þá ekki tekið á sig, nema um 76.9 millj. kr. Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. að því, hvort það sé ekki ætlun núv. hæstv. ríkisstj., að ríkið taki þessi lán að sér og greiði þau af fjárlögum eða sínum tekjum og létti þeim af Vegasjóði alveg, eins og gert var með allar lántökur Vegasjóðs til ársloka 1968?

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri nú ekki mjög alvarlegt, hvernig ástandið væri í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, því að víð, sem áður höfum átt aðild að ríkisstjórn, hefðum ekki verið betri, og máli sínu til stuðnings nefndi hann það, að í sambandi við EFTA-aðildina var gerð breyting á tollskránni eftir að fjárlög voru afgreidd, eða í byrjun nýs fjárlagaárs, tolltekjurnar voru lækkaðar verulega með tilliti til EFTA-aðildarinnar og það var sömuleiðis gerð hækkun á söluskatti, en ég verð að segja, að ósköp voru nú þetta einfaldir hlutir, eftir að fjárlög voru afgreidd. Það var fært til á milli liða á tekjuhlið fjárlaga. Í raun og veru voru lækkuð aðflutningsgjöldin og söluskattur hækkaður. Gjaldaliðirnir breyttust ekkert. Þetta var ósköp einfalt dæmi, þetta vissu allir stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar við afgreiðslu fjárlaga, svo að ég held, að þessi aths. hæstv. fjmrh. sé ákaflega léttvæg, að ekki sé meira sagt.

Hæstv. fjmrh. talaði mikið um pakkann, sem hann hefði tekið við, í ræðu sinni hér í dag. Ég held, að margur hafi tekið við lakari pakka en pakkanum, sem hæstv. fjmrh. tók við. Hvað var í þessum pakka? Það voru peningar, 1.3 milljarðar kr., 1 300 millj. kr. umfram tekjuhlið gildandi fjárlaga. Það voru líka útgjöld, eins og hann nefndi, útgjöldin voru mikil, en þau voru ekki nema hluti af þessari upphæð. Ég hygg, að það sé ekki fjarri sanni að segja, að hæstv. fjmrh. hafi úr þessum pakka haft til ráðstöfunar um 600 millj. kr. Það hefði margur sagt takk fyrir minna. Eftir að hafa setið í embætti fjmrh. frá því í júlí í sumar og nú líður senn að áramótum, talar hann um, að hrollvekja sé fram undan. Hrollvekjan var ekki fram undan, þegar hann tók við. Það sýnir hin góða afkoma ríkissjóðs, það sýnir geta hans sem fjmrh. og ríkisstj. að geta greitt af umframtekjum, umfram það, sem áætlað hefur verið. Ég held, að það fari ekki á milli mála. Honum varð tíðrætt um framlag til lítils kauptúns, til hafnarmála Stokkseyrar, að það hefði hækkað nú í fjárlögum vegna þess, að það hefði verið svo lágt á s.l. ári. Það hækkar að mig minnir úr 2 millj. 330 þús. kr. í 6 millj., en ég vona, að það verði ekki það, sem haldi vöku fyrir hæstv. fjmrh., þó að framlagið til Stokkseyrar hækki upp í 6 millj. kr. af öllu því, sem um er hér að ræða á öðrum sviðum.

Einn af þm. Framsfl. sagði í ræðu á síðasta þingi, ég hygg, að það hafi verið við afgreiðslu fjárlaga, — það var hv. 3. þm. Norðurl. v., hann sagði við þáv. fjmrh., að hann skyldi laga þessa hluti, sem þá fóru aflaga í fjármálum þjóðarinnar, á einum mánuði. Og hann skyldi gera það fyrir ekki neitt, — gera það kauplaust, eins og hann sagði. Ég held, að þessi sami ágæti þm., sem er allra manna snjallastur í sambandi við fjármál og dugnaðarforkur hinn mesti, ætti nú að bjóða hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að laga þau, ég veit að það mun taka lengri tíma en mánuð, en ég veit, að hann sem stórbrotinn persónuleiki mun ekki láta það standa í vegi fyrir sér, þó hann ynni kauplaust í 3–4 mánuði við að koma hlutunum í lag. Ég held, að ekki verði sagt annað en að undanfarna mánuði hafi ríkisstj. á sviði efnahagsmála verið utan við þyngdarlögmálið og hún hafi svifið í lausu lofti. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég kann ólíkt betur við að sjá a.m.k. ágætan vin minn og félaga úr fjvn., hæstv. fjmrh., í framtíðinni með fast undir fótum. Þá held ég, að hann muni reynast betur en þessa mánuði, sem hann hefur svífið í lausu lofti.