25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í D-deild Alþingistíðinda. (4743)

902. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Ég leyfi mér að þakka hæstv. viðskrh. fyrir prýðileg svör við fsp. mínum, sem hann flutti fyrir hönd hæstv. iðnrh., sem því miður er ekki hér með okkur í dag.

Mér sýnist, að svörin séu mjög góð og raunar betri en ég gerði mér vonir um. Það er ánægjulegt, að svo vel hefur verið að þessu máli unnið. Mér sýnist, að ráðgert sé mjög stórt átak til að ljúka þessum málum á næstu árum. Það verða aðeins, eins og fram kom, 158 býli, sem fá ekki raforku frá samveitum samkvæmt áætlun þessari.

Ég fagna því einnig og tel það mikilvægt, að ráðgert er að endurgreiða bæði þau lán og þau framlög, sem tíðkazt hafa nokkuð á undanförnum árum.

Ég lít svo á að fengnum þessum upplýsingum og eins og ég skildi ráðh., að till. þessar séu endanlega frá gengnar og því komi þær til framkvæmda.

Ég vil aðeins skjóta því hér fram, að með mjög lauslegri athugun á þeim býlum, sem ekki er gert ráð fyrir að fái raforku frá samveitum, sýnist mér þó rétt, að nokkur þeirra a.m.k. séu tekin til endurskoðunar, og raunar hef ég þær upplýsingar frá Orkustofnun, að svo muni vera ráðgert. Ég vil svo aftur endurtaka þakkir mínar fyrir svörin.