25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í D-deild Alþingistíðinda. (4767)

907. mál, neytendavernd

Fyrirspyrjandi (Sigurður E. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans og þær upplýsingar, sem hann hefur gefið um þetta mál. Óneitanlega hefði mér þótt betra, að þetta mál væri komið lengra á veg, en þó er ekki með sanngirni hægt að bregða viðskrh. eða rn. um það, að það hafi sofið á verðinum, því að ekki eru þó nema nokkrar vikur liðnar frá því, að frv: drögin frá Hrafni Bragasyni lögfræðingi bárust rn. Ráðh. sagði einnig, að hann gæti ekki lofað neinu um það, hvenær frv. yrði lagt fyrir hv. Alþ. þessa efnis eða í hverju það frv. yrði fólgið, að hverju það stefndi. Ég get vel skilið, að ráðh. þarf sinn tíma til þess að athuga þessar till. gaumgæfilega, en ég heiti á hann, að hann leggi alla áherzlu og allt kapp á að hraða þeirri athugun sem allra mest, svo að unnt sé að leggja málið fyrir Alþ. í þeirri mynd, sem hann og rn. og hæstv. ríkisstj. telja heppilegast, því að, eins og ég sagði áðan, ég tel, að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða fyrir allan almenning og það megi ekki dragast lengi úr þessu, að því verði komið á framfæri og í lög hér á hv. Alþingi.