07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í D-deild Alþingistíðinda. (4785)

912. mál, málefni Siglufjarðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er nú ástæðulaust að lengja þessar umr. mjög mikið, en vegna þess að tveir seinustu hv. þm. hafa vikið að mínum málflutningi, þá sé ég mig tilneyddan að bæta hér nokkru við.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, sagðist eiginlega þurfa að standa upp til þess að leiðrétta það, sem ég hafði sagt hér áður. En það fór nú svo, að ég heyrði ekki, að hann leiðrétti eitt einasta atriði af því, sem ég hafði sagt, en kannske vannst honum ekki tími til þess, tíminn er naumur.

Ég sagði það í minni ræðu hér áðan, að árið 1965 hefði verið samið um, að gerð yrði framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland, sem tryggði öllu vinnufæru fólki þar fullnægjandi atvinnu, og ég minnti á það með örfáum orðum, að við það hefði nú ekki verið staðið, eins og sjá má á því, að fimm árum eftir að þetta loforð var gefið, þá var fimmti hver Norðlendingur orðinn atvinnulaus. Ég veit vel, að það var ekki einungis vegna þess, að lítið væri gert og aðgerðarleysi væri af hálfu yfirvalda, það var vissulega almennt atvinnuleysi á landinu á þessum tíma. En hitt er augljóst mál. að eitthvað hefur samt á skort, úr því að þessi landshluti er núna, eftir að atvinnuleysi er almennt horfið á öllu landinu, eini parturinn á landinu, sem býr við atvinnuleysi. Og ég held, að þetta sýni eins glöggt og verða má, að þessi svokallaða Norðurlandsáætlun var misheppnuð að ýmsu leyti. Ég veit það vel og skal fúslega viðurkenna það, að í tengslum við Norðurlandsáætlun var veitt nokkurt fjármagn til einstakra fyrirtækja á Norðurlandi, en ég vil bara leyfa mér að fullyrða, að það hafi í meginatriðum verið gert án nokkurrar áætlunar eða fyrirhyggju og oft og tíðum hafi þetta fé nýtzt heldur illa. Ég nefni bara sem dæmi þá milljónatugi, sem eytt var í minkabúin á Norðurlandi. Ég tel, að sú ráðstöfun hafi verið afskaplega óskynsamleg til þess að bæta úr atvinnuleysi á Norðurlandi. Það víta allir, sem til þekkja, að minkabú, sem taka kannske til sín lán upp á nokkra tugi milljóna, eru fyrirtæki, sem ekki veita nema örfáum mönnum atvinnu, og ég álít, að þessu fjármagni hafi verið afskaplega óskynsamlega ráðstafað, ef meiningin var að útrýma atvinnuleysi með þessu fjármagni, eins og ég hélt, að ætlunin hefði verið. (Gripið fram í.) Nei, það var engum neitað um lán, sem vildi fá fjármagn að láni, og það má vel vera, að það sé rétt. En það eitt afsakar ekki út af fyrir sig, að atvinnuleysi hafi ekki verið útrýmt, því að ef ekki eru fyrir hendi þeir aðilar, sem vilja byggja upp fyrirtæki, sem eru til þess fallin að útrýma atvinnuleysi, þá verða stjórnarvöldin sjálf að gera ráðstafanir til þess að svo verði og hjálpa til að koma upp einhverjum þeim atvinnutækjum, sem geta þarna hlaupið í skarðið. Það er mín skoðun, en það virðist ekki hafa verið skoðun þeirra, sem að Norðurlandsáætluninni stóðu, og því fór sem fór, að á þeim tíma, sem verið var að framkvæma hana, þá vildi svo hlálega til, að atvinnuleysið fór heldur vaxandi en hitt og er sem sagt enn til skaða í meira mæli en var, áður en atvinnuleysið almennt skall yfir landið.