25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í D-deild Alþingistíðinda. (4809)

908. mál, stofnlán atvinnuveganna

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þessum fsp. eftir því sem tök eru á. Eins og hv. 3. þm. Sunnl. hefur þegar gert grein fyrir, þá eru fsp. þessar: Í fyrsta lagi er spurt um: „Hvenær er að vænta samkv. yfirlýsingu í málefnasamningi ríkisstj. frv. til l. um: a. lækkun vaxta af stofnlánum atvinnuveganna og lengingu lánstíma þeirra; b. endurskoðun á lögum og reglum um ýmiss konar gjöld, sem nú hvíla á framleiðsluatvinnuvegunum, þar sem stefnt verði að því, að þau verði lækkuð eða felld niður?“

Eins og nýlega hefur verið skýrt frá, þá hefur ríkisstj. snúið sér til eins stærsta stofnlánasjóðs atvinnuveganna, sem til er í landinu, Fiskveiðasjóðs, og óskað eftir því með bréfi, að sjóðurinn breytti stofnlánareglum sínum þannig, að lánstími yrði lengdur frá því sem verið hefur og einnig þannig, að vextir á stofnlánunum yrðu lækkaðir. Frá þessu hefur verið opinberlega greint, og ég tel, að ekki þurfi að eyða um það mörgum orðum hér, ég veit, að hv. fyrirspyrjandi hefur þegar fengið þessar upplýsingar, en í meginatriðum eru þær þannig, að þess var farið á leit við stjórn Fiskveiðasjóðs, sem hefur rétt samkv. lögum til þess að ákveða lánakjör sjóðsins, að hún lengdi hinn almenna lánstíma fiskiskipalána úr 15 árum upp í 20 ár og hinn almenna lánstíma út á fasteignir sjávarútvegsins úr 8–12 árum í 10–15 ár. Þetta voru aðalbreytingarnar, sem lagðar voru til, en fleiri minni breytingar var þarna um að ræða, varðandi lánstíma. Þannig var t.d. gert ráð fyrir því, að lánstími á lánum, sem veitt eru út á opna vélbáta, lengdust úr 7 árum upp í 8 ár. Í þessum tilmælum ríkisstj. til stjórnar Fiskveiðasjóðs var einnig farið fram á það, að vextir af þessum stofnlánum yrðu lækkaðir úr 6.5%, sem nú er út á fiskiskip, í 5.5% og úr 8%, sem nú er út á fasteignir, í 7%. Það er síðan unnið að því að koma fram breytingum á stofnlánakjörum annarra atvinnugreina til samræmis við þær breytingar, sem með þessu voru ákveðnar, en eins og kunnugt er, þá eru reglur um stofnlánakjör annarra atvinnugreina engan veginn eins fastmótaðar og hjá sjávarútveginum.

Þá er spurt um það, hvenær sé að vænta lagasetningar eða reglugerða um það að létta af eða fella niður ýmiss konar gjöld, sem nú hvíla á framleiðsluatvinnuvegunum. Því er til að svara, að athugun á þessu máli fer nú fram í sambandi víð þær breytingar, sem kunna að verða gerðar á skattheimtumálum almennt. Þau falla eðlilega inn í þá athugun, og hefur ekki þótt rétt að taka þessi mál þar út úr. Þau verða í rauninni að leysast þar með þeim breytingum, sem fram munu koma varðandi skattheimtuna almennt.

Þá er spurt um í öðru lagi: „Hvenær er að vænta ákvörðunar um, að endurkaupalán Seðlabankans verði hækkuð og vextir af þeim lækkaðir?“ Það hefur einnig verið skýrt frá því opinberlega, að ríkisstj. hefur skrifað stjórn Seðlabankans og óskað eftir því, að bankinn breytti reglum sínum um endurkaupalán í aðalatriðum þannig, að endurkaupalánin yrðu miðuð við 67% af áætluðu útflutningsverði afurðanna í staðinn fyrir 52–54%, sem hefur verið hin almenna regla til þessa eða nú um nokkurra ára skeið. Þá hefur ríkisstj. einnig farið fram á það víð bankann, að vextir af þessum endurkaupalánum verði lækkaðir úr 51/4%, sem þeir eru nú frá bankans hálfu, í 41/2% eða um 3/4%. Jafnhliða þessu hefur svo verið um það rætt við viðskiptabankana, Landsbankann og Útvegsbankann, sem einkum hafa með að gera að veita svonefnd afurðalán út á framleiddar útflutningsafurðir sjávarútvegsins, að heildarafurðalánin yrðu hækkuð út á sjávarafurðir úr 70%, sem þau hafa verið samkv. reglum bankanna, upp í 75%. Rétt er svo að geta þess um leið, af því að það hefur verið nátengt þessu máli, að um leið og þessi breyting verður gerð er svo ætlazt til þess, að bankarnir auki hin almennu rekstrarlán sín til sjávarútvegsins, og hefur fengizt viðurkenning þeirra fyrir því, að það sé réttmætt, að reglur þeirra um rekstrarlán verði endurskoðaðar með tilliti til aukins rekstrarkostnaðar.

Þá er í þessari fsp. einnig spurt um, hvenær megi búast við, að frv. verði flutt um vátryggingarmál fiskiskipa eða reglur um þau mál verði endurskoðaðar. Það hefur þegar verið skipuð nefnd til þess að taka upp þessa endurskoðun og þeim aðilum gefinn kostur á því að eiga fulltrúa í nefndinni, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, þ.e. útvegsmenn annars vegar og vátryggingarfélög hins vegar, auk þess sem sérstakir fulltrúar eru í nefndinni af hálfu sjútvrn. Þessi endurskoðun fer því fram, en það tekur skiljanlega nokkurn tíma, þar til till. þessarar endurskoðunarnefndar liggja fyrir. Reglur varðandi lán til annarra atvinnuvega en sjávarútvegsins, sem ég hef hér rætt aðallega um, reglur af hálfu Seðlabankans um endurkaupalán í víxlum annarra atvinnuvega er nú unnið að því að setja, en af hálfu ríkisstj. var þess farið á leit við bankann, að þær lánareglur yrðu hliðstæðar fyrir aðrar atvinnugreinar eins og voru mótaðar í bréfinu til bankans fyrir sjávarútveginn. En eins og áður hefur komið hér fram í umr. á Alþ., hafa lánareglur bankans varðandi afurðalán til annarra atvinnuvega en sjávarútvegsins verið nokkuð breytilegar, enda telur bankinn, að þar sé um svo mismunandi lán að ræða, að það sé varla hægt að hafa nákvæmlega sams konar reglur um öll þau lán. En að því er nú unnið að setja þessar reglur, sem í meginatriðum eiga að vera þannig, að sams konar lánakjör séu veitt öllum atvinnugreinunum. Gengið er út frá því, að þessar nýju lánareglur, bæði varðandi stofnlán og afurðalán, taki gildi um næstu áramót.

Ég vænti svo, að það, sem ég hef sagt hér um þessi mál, séu fullnægjandi upplýsingar fyrir hv. fyrirspyrjanda á þessu stigi málsins.