01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í D-deild Alþingistíðinda. (4861)

148. mál, sala á kartöflum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 285 hefur hv. 1. þm. Sunnl. flutt fsp. um sölu á kartöflum. Spurt er, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi gert til að koma í verð allri kartöfluuppskeru á s.l. ári. Í sambandi við þessa fsp. vil ég leyfa mér að skýra þetta mál með nokkrum orðum og segja frá því, sem gert hefur verið og hugsað er að gera.

Eins og landsmenn vita, var s.l. sumar óvenjuhagstætt landbúnaðinum í beztu héruðum landsins. Ekki sízt átti þetta við um kartöfluframleiðsluna. Talið er, að heildarframleiðsla landsmanna á kartöflum s.l. sumar hafi verið um 150 þús. tunnur. Eftir því sem næst verður komizt, er ársneyzla landsmanna á kartöflum 100–110 þús. tunnur eða 40–50 þús. tunnum minni en framleiðslan var s.l. sumar. Af framleiðslu sumarsins er talið, að 25–30 þús. tunnur hafi verið ræktaðar af framleiðendum, sem nota sjálfir sina eigin framleiðslu. Sölumagnið ætti því að vera 120–125 þús. tunnur. Skiptingin á framleiðslu kartaflna í sumar eftir landshlutum er í aðalatriðum þannig, að á Norður- og Austurlandi er talið, að hafi verið framleiddar um 22 þús. tunnur, en 82 þús. á svæðinu frá Austur-Skaftafellssýslu til Reykjavíkur. Fyrrnefnda svæðið er talið geta selt alla uppskeru sína án nokkurra sérstakra ráðstafana. Hins vegar er talið, að framleiðsla sú, sem bændur á Suðvesturlandi eiga, muni ekki seljast öll og eftir kunni að verða 10–20 þús. tunnur.

Landbrn. hefur rætt við ýmsa aðila um þetta vandamál og þar á meðal forstöðumann Grænmetisverzlunarinnar, formann Stéttarsambands bænda, framkvæmdastjóra framleiðsluráðs og nokkra bændur. Sannast sagna virðast ekki tiltækileg mörg ráð til lausnar þessu vandamáli með þeim fyrirvara, sem hér er til umráða, enda er þetta óvenjulegt fyrirbrigði, sem ekki hefur gert vart við sig s.l. 17 ár.

Þegar ákveðið var að lækka niðurgreiðslur á búvörum nú fyrir áramótin um 1/4, var það ekki gert hvað kartöflur áhrærir. Niðurgreiðslan er látin halda sér óbreytt, til þess að lækkun niðurgreiðslna gerði ekki vandann meiri en hann annars yrði eða til þess að varna því, að sala kartaflna drægist saman af þeim sökum. Um tíma var um það rætt að taka verðjöfnunargjald af kartöflum til að jafna á milli framleiðenda, þannig að hægt væri að nota nokkurn hluta umframframleiðslunnar til fóðurs. Sú till. var rædd á fundi með Grænmetisverzluninni, er Grænmetisverzlunin boðaði til með fulltrúum framleiðenda á Suðvesturlandi. Fann sú till. ekki náð hjá framleiðendum, og verður því sennilega ekkert úr framkvæmd hennar.

Á þessum fundi kom fram till. um að gera ráðstafanir til að útvega fleiri og betri kartöflugeymslur, þá helzt í kjötfrystihúsum, sem væru orðin tóm. Er þetta hugsað í þeim tilgangi, að lengja megi sölutímabilið. Er nú verið að athuga þessa leið, og mun landbrn. fylgjast með því og reyna að aðstoða framleiðendur í þeim efnum eftir beztu getu. Til tals kom í haust að flytja til Færeyja lítið magn af kartöflum eða 4000 tunnur. Við athugun kom í ljós, að lítið sem ekkert magn var til af þeirri tegund, sem Færeyingar vildu helzt kaupa. En jafnvel þó að hægt væri að selja þeim þær tegundir, sem við höfðum mest af hér, er verðið svo lágt, að ég hef ekki fram að þessu talið það forsvaranlega ráðstöfun á ríkisfé að greiða þann mismun.

Einn er sá vandi, sem hætt er við, að komi upp í sambandi við offramleiðslu kartaflna, og hann er sá, að salan dreifist nokkurn veginn jafnt milli framleiðenda. Á þetta atriði hefur verið lögð rík áherzla við Grænmetisverzlunina, og treysti ég því, að þetta muni takast. Hins vegar ber þess að geta, að viss eftirspurn er eftir ákveðinni kartöflutegund, sem hentar betur en aðrar tegundir við tilbúning svokallaðra franskra kartaflna. Af þessari tegund er lítið ræktað, og því hafa þeir framleiðendur, sem rækta þessar kartöflur, yfirleitt gengið fyrir um sölu á þeim. Enda þótt svo kunni að fara, að eitthvað af kartöfluframleiðslu sumarsins seljist ekki, þarf það ekki að tákna, að tekjur framleiðenda rýrni af þeim sökum miðað við uppskerumagn og tekjur undanfarandi ára. Hér er um að ræða umframframleiðslu, sem stafar af hinu góða sumri. Hins vegar þarf að vinna að því öllum árum að hafa tiltæk úrræði til að koma slíkri umframframleiðslu í verð í framtíðinni, svo að sagan endurtaki sig ekki.

Fleira hef ég ekki að segja við þessari fsp. Vona ég, að þetta skýri það, sem um er að ræða.