17.02.1972
Sameinað þing: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í D-deild Alþingistíðinda. (4920)

919. mál, útflutningur á framleiðsluvörum gróðurhúsa

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þær upplýsingar og fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við fsp. minni. Ég ætla ekki að gagnrýna það, þó að þessu starfi sé ekki lengra komið áfram en raun ber vitni um. Mér er það kunnugt, að rn. sneri sér að því strax í vor að hreyfa þessu máli við þá aðila, sem það taldi fyrst koma til greina til þess að gefa um þetta ráð, en endanleg svör hafa ekki, eftir því sem ráðh. upplýsti, borizt rn. fyrr en núna á haustnóttum.

Hitt er annað mál, sem kemur í ljós, þegar þetta mál er skoðað nánar, að málið er, eins og ég sagði áðan, mjög stórt og þarf mikillar könnunar við, og það er þess vegna full þörf á því að taka það föstum tökum strax í byrjun og haga rannsókn þess svo, að þekking og sjónarmið þeirra sérfræðinga, sem um rannsóknarverkefnin þurfa að fjalla, nýtist sem bezt. Ég segi, að um þetta verkefni þurfi sérfræðingar að fjalla. Ég er ekki þar með að segja, að þeir þurfi nauðsynlega að vera í þeirri nefnd, sem skipuð er til rannsóknanna, heldur þarf hún að hafa heimild til þess að kveðja þá til. Ég tel, að menn verði að gera sér það ljóst nú þegar, að væntanlega verður að beita nýjum aðferðum í mörgum efnum í sambandi við þetta málefni. Það þarf að beita nýjum aðferðum í ræktun, í byggingu gróðurhúsanna, í notkun rafmagns til lýsingar, í sölutækni, í flutningum á markaðsstaði og í hliðargreinum til gjörnýtingar heita vatnsins og lýsingarinnar.

Hvað ræktunina varðar, þá hefur verið reynt með góðum árangri að auka vaxtarhraða jurta með því m.a. að gefa jurtunum COZ eða koldíoxið, en til þess að unnt sé að framkvæma slíka gjöf með nákvæmni, þurfa til að koma dýr tæki, sem ekki teljast hagkvæm nema í mjög stórum húsum. Einnig gat ég um þátt lýsingarinnar áðan, sem að sjálfsögðu vegur þungt hér í okkar norðlæga landi, þar sem vetrarnóttin er óþægilega löng til þess að framleiðslan nái því að vera jöfn og viss árið um kring. Allt þetta notast bezt í stórum gróðurhúsum. En svo er fyrir að þakka, að ýmsar nýjar gerðir húsa eru nú reyndar, og þróast þau í þá átt að leyfa stærri og stærri einingar, og á það jafnt við um grindahús og gróðurhús, sem eru blásin upp.

Þá er einnig nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að líklegast er, að framleiðsluna þurfi að flytja úr landi í heilum flugvélaförmum, og kemur þá að sjálfsögðu til álita við staðarval fyrir gróðrarstöðvarnar, að þær liggi vel við samgöngum, þ.e. að ekki sé of langt að fara til næsta flugvallar.

Um hliðar- eða stuðningsatvinnugreinar víð ylræktina, sem ég gat lauslega um áðan, vil ég að lokum geta þess, að þar kemur fiskrækt vel til greina. Tilraunir hérlendis og erlendis hafa sannað það, að unnt er að auka mjög verulega vaxtarhraða fiska, t.d. lax og silungs, með því að halda eldisvatninu stöðugu við hagstæðasta hitastig. Því er nauðsynlegt að huga að því einnig, hvort ekki sé hagkvæmt að gjörnýta heita vatnið með þessum hætti og færa á þann hátt niður kostnaðinn við ylræktina innanhúss.

Ég hef bent hér á nokkra þætti þessa máls, sem ég tel, að sanni það, að sú rannsókn, sem ályktun Alþ. gerði ráð fyrir, að færi fram, verður að vera átak og umræðuefni fjölmargra sérfróðra manna um hin margvíslegustu efni. Rétt er að benda á það hér og nú, að Rannsóknaráð ríkisins hefur fyrir nokkru komið á ráðstefnu um nýtingu jarðhita. Þá ráðstefnu sóttu t.d. verkfræðingar, garðyrkjubændur, ráðunautar, starfsmenn banka, ráðuneyta, rannsóknarstofnana og fleiri aðilar. Þessi ráðstefna ræddi m.a. þá þætti í nýtingu jarðhitans, sem við fjöllum um hér í dag. En því bendi ég á þessa ráðstefnu Rannsóknaráðsins, að mér sýnist, að hún sanni, að sú nefnd, sem nú hefur verið skipuð til að kanna þetta mál, þurfi að starfa á breiðum grundvelli og eðlilegt sé, að gerðar verði ráðstafanir til þess að þetta stóra mál fái þá afgreiðslu, að á rannsókn og mati nefndarinnar á þýðingu þess fyrir þjóðina megi byggja næstu aðgerðir. Þetta mál er nýmæli, þetta er þýðingarmikið málefni, og framgangur þess verður naumast tryggður með öðru móti en haldgóðum rannsóknum og samvirku átaki fleiri aðila, þegar til framkvæmda kemur. Ég vænti þess fastlega, að hæstv. ríkisstj. stuðli að því, að svo megi verða.