11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í D-deild Alþingistíðinda. (4981)

920. mál, ráðstöfun minningarsjóðs

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Vegna fsp. á þskj. 333, 2. tölul., um möguleika á, að nýta megi minningarsjóð hjónanna Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur til stofnunar elliheimilis samkv. ákvæðum skipulagsskrár, sem sjóðnum var sett 1914, vil ég taka eftirfarandi fram:

Fsp. hefur þegar verið svarað að hluta til fyrir hönd þess rn., sem fjallar um málefni þessa ákveðna sjóðs, þ.e. félmrn. Eftir stendur þá að gera grein fyrir því, hvort fyrirhugað sé að gera tillögur um almenna löggjöf til úrlausnar á vandamálum um hagnýtingu gjafasjóða slíkum sem þessum. Eins og áður hefur komið fram, hlaut lagafrv., sem hneig í þessa átt, ekki afgreiðslu á sínum tíma árið 1951, og afstaða Alþ. þá var ekki skýr um það, hvort rétt væri að setja almennar reglur eða viðhafa lagasetningu hverju sinni. Svo virðist sem sú meðferð geti orðið æði tafsöm fyrir Alþ., og sýnist rétt, að athugað verði, hvort ekki sé heppilegt að leggja að nýju fram lagafrv. um almennar reglur, e.t.v. í eitthvað breyttu formi. Mun ég beita mér fyrir því, að það verði gert.