11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í D-deild Alþingistíðinda. (5011)

927. mál, hlutdeild ríkisins í byggingu elliheimila

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. vil ég geta þess, að árið 1967 skipaði þáv. félmrh. nefnd til að gera tillögur um bætta aðbúð aldraðra á öðrum sviðum en í lífeyrissjóðs- og tryggingamálum. Þessi nefnd vann allmikið starf, og það var tekið mið af niðurstöðum hennar í þeirri löggjöf um tryggingamál, sem samþ. var hér á Alþ. Þegar ég tók við störfum í heilbr.- og trmrn., þá hafði ég samband við formann þessarar nefndar, vegna þess að ég taldi, að nm. hefðu kannað vandamál aldraðra alveg sérstaklega, og síðan endurskipulagði ég þessa nefnd og bað hana að semja frv. til l. um dvalarheimili aldraðra. Í þessari nefnd eiga sæti Erlendur Vilhjálmsson, og er hann formaður nefndarinnar, Jón Ólafsson, Sveinn Ragnarsson, Vigfús Jónsson, Ragnhildur Helgadóttir, Ása Ottesen og Páll Sigurðsson. Nefndin hefur þegar samið drög að slíku frv., en hún ákvað að ganga ekki endanlega frá því, fyrr en hún gæti haft frv. til l. um heilbrigðisþjónustu til hliðsjónar — það frv., sem útbýtt var hér í deild rétt áðan. En á næstunni mun nefndin ganga endanlega frá frv. sínu og væntir þess að geta afhent mér það fljótlega, og ég geri mér vonir um að geta lagt það fyrir hið háa Alþingi, áður en það verður sent heim, til kynningar, þó að ég ætlist ekki til þess, að það verði afgreitt á þessu þingi. Hvað sjálft málið varðar, þá hef ég aflað mér vitneskju um það, sem nefndin hefur orðið sammála um að taka upp í væntanlegt frv. um dvalarheimili aldraðra. Og það eru þessi atriði:

Í fyrsta lagi verða dvalarheimili skilgreind þannig, að þau séu stofnanir fyrir aldrað fólk, sem ekki getur dvalizt í heimahúsum, en þarf ekki að vistast á sjúkrahúsi. Til dvalarheimilis telst þannig allt húsnæði þess, sem er til afnota fyrir vistfólk, hvort heldur það er byggt í einni samfelldri heild eða í smærri einingum. Dagdvalarheimili séu lögð að líku við dvalarheimili.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að ríkisstyrkur til dvalarheimila á vegum sveitarfélaga verði 1/3 af byggingarkostnaði og kaupverði nauðsynlegra tækja. Heimili á vegum annarra verði einnig styrkt, en ekki hefur nefndin enn ákveðið, í hvaða formi eða að hve miklu leyti.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að leita skuli samþykkis rn. á áætlunum um byggingarframkvæmdir og starfrækslu á heimilunum.

Í fjórða lagi skal upphæð vistgjalda á dvalarheimili samþykkt af daggjaldanefnd og miðast við, að þau standi undir rekstri.

Í fimmta lagi er um það talað, að rn. hafi eftirlit með rekstri og fyrirkomulagi dvalarheimilis og geti sent trúnaðarmann sinn til að athuga þessi atriði.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir því, að rn. setji samkv. lögum reglugerð, þar sem m.a. verði kveðið á um starfslið, húsakynni og annan aðbúnað með það fyrir augum, að vistmenn geti lifað sem eðlilegustu lífi.

Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir því, að vistmenn fái aðild, annaðhvort fulla eða að nokkru leyti, að stjórn heimilisins og a.m.k. svo mikla, að öruggt sé, að þeir geti komið sínum sjónarmiðum að í sambandi við fyrirkomulag og rekstur heimilisins.

Eins og ég gat um áðan, geri ég mér vonir um að geta lagt frv. um þetta efni fyrir þetta þing til kynningar, og geta þá bæði sveitarstjórnir haft mið af því frv. í sambandi við áform sín fyrir næsta ár, og einnig teldi ég eðlilegt, að slíkt frv. yrði haft til hliðsjónar, þegar gengið er frá gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Ég tel, að hér sé um mjög veigamikið mál að ræða og mjög væri æskilegt, ef hægt væri að samþykkja nýja löggjöf um þetta efni á þessu ári, þ.e. á haustþinginu, þannig að framkvæmdir samkv. því gætu hafizt á næsta ári.