20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

1. mál, fjárlög 1972

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég hef ekki í hyggju að ræða í heild fjárlagafrv. það, sem nú er hér til síðustu umr., heldur víkja fyrst og fremst að tveimur atriðum. Ég vil þó í upphafi, að sú skoðun komi fram, að ég tel stefnu ríkisstj. og afstöðu hennar til þjóðfélagsmála koma skýrt fram í þeim umtalsverðu hækkunum, sem gerðar eru á ýmsum þáttum félags- og menningarmála. En það var ekki sízt á þeim svíðum, sem fyrrv. stjórnarflokkar höfðu gert sig seka um afskiptaleysi. Aukinn skilningur á félagslegri aðhlynningu og samhjálp einkennir þannig fjárlagafrv. núv. vinstri stjórnar. Sá þáttur frv., sem ég vil þá fyrst gera að umtalsefni, eru fjárveitingar til iðnskóla. En ástæða er til að fagna sérstaklega þeirri myndarlegu hækkun, sem þar er gerð frá fyrri fjárlögum, og ætla ég, að allir þeir, sem eru málefnum iðnnámsins kunnugir, séu mér sammála, þegar ég segi, að þessi ákvörðun mun valda þáttaskilum í byggingu verknámsskóla iðnaðarins. Þannig hækkar gjaldfærður stofnkostnaður iðnskólanna um nær 100% eða úr um það bil 13 millj., eins og hann hefur verið síðustu ár, í rúmar 25 millj. En þetta er hið raunverulega byggingarfé iðnskólanna. Fjárveitingar til iðnfræðslumála hafa löngum verið skornar við nögl af hálfu ríkis og sveitarfélaga, en þessir aðilar hafa í sameiningu annazt starfrækslu skólanna frá 1955. Þannig var t.d. á heilum áratug, 1955–1965, einungís byggt yfir einn iðnskóla, Iðnskólann í Reykjavík, auk lagfæringa, sem gerðar voru á Iðnskólanum á Selfossi. En á þessum áratug var aðeins varið rúmum 18 millj. til iðnskólabygginga á landinu öllu.

Á síðustu árum hefur svo verið hafizt handa um byggingu iðnskóla á nokkrum stöðum, m.a. í Hafnarfirði og á Akureyri. En mikið vantar þó á, að þörfinni sé fullnægt, og sem dæmi um, hve ástandið í málefnum iðnskólanna er slæmt, má nefna, að þrátt fyrir lög frá 1955, sem kveða á um, að iðnskólar landsins skuli vera dagskólar, eru enn þann dag í dag, nær 17 árum síðar, starfandi kvöldskólar. Þetta ástand síðustu ára endurspeglar auðvitað glöggt gildismat valdamanna þjóðfélagsins á menntunarmálum. Þar hefur gildi verkmenntunar veríð lágt skrifað. Miðaldafyrirkomulag, sem allar menntaðar þjóðir, er leggja rækt við tæknivæðingu og þróun þjóðfélagsins, hafa kastað fyrir róða, hefur gilt hér á landi. Meginhluti iðnnámsins hefur farið fram hjá iðnfyrirtækjum og iðnmeisturum utan ramma hins eiginlega skólakerfis og án nokkurs raunverulegs eftirlits. Með tilkomu laga nr. 68 1966, um iðnfræðslu, var ákveðin uppbygging 8 iðnskóla, eða eins í hverju kjördæmi, sem jafnframt því að annast bóklega fræðslu skyldu hafa með höndum víðtæka verknámskennslu, bæði fyrir hinar löggiltu iðngreinar og starfsfólk verksmiðjuiðnaðarins. Væntu allir velviljaðir menn, að með þessari ákvörðun Alþ. væri horfið frá því niðrandi ástandi, sem málefni iðnfræðslunnar höfðu verið í, og að augu manna hefðu opnazt fyrir gildi fullkominnar verknámskennslu.

Nú er nær hálfur áratugur liðinn frá gildistöku laganna 1966, en þó hefur allt of skammt miðað í rétta átt. Frekara álit mitt á skipan iðnskólamála kemur fram í till. til þál., sem ég hef lagt fyrir þingið, en ekki hefur gefizt tækifæri til að útbýta, og mun ég því ekki lengja frekar mál mitt um þetta efni. En ég ítreka aðeins að lokum ánægju mína með þá stefnubreytingu í byggingarmálum iðnskólanna, sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið í trausti þess, að áfram verði haldið á framfarabraut.

Síðara atriðið, sem ég vildi gera að umræðuefni, er aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Þótt nú sé í fyrsta sinni gert ráð fyrir nokkru fé í þessu skyni, eða 3 milljónum, tel ég fjárveitingu Íslands til þróunarlandanna enn allt of lága. Hagstæð viðmiðun við íhaldsstefnu fyrrv. ríkisstj. breytir hér engu um. Þannig var samþ. á síðasta þingi að vinna að því á næstu árum, að framlag Íslands verði 1% af þjóðartekjunum. Þetta jafngildir um 300–400 millj. og sést bezt á þessu, hve langt við eigum eftir að því marki, sem sett hefur verið. Það er svo önnur saga, að stuðning við hinn fátæka heimshluta, sem berst enn við vandamál fátæktar, arðráns og yfirgangs hinna auðugu stórvelda og auðhringa þeirra, má færa fram með ýmsu móti. Þannig hefur stefna núv. ríkisstj. í utanríkismálum og málflutningur hennar innan vébanda Sameinuðu þjóðanna verið beinn og óbeinn stuðningur við málstað þróunarlandanna, enda samrýmist slíkt bezt frelsisvitund íslenzku þjóðarinnar.

Vitað er, að hin ýmsu efnahags- og viðskiptabandalög iðnaðarþjóðanna eru ekki sízt tæki þeirra til að viðhalda enn um sinn núverandi misskiptingu heimsauðæfanna. Með efnahagslegri yfirdrottnun sinni ákveða hin auðugu ríki verð hráefna fátæku landanna, ekki síður en verð þeirrar iðnaðarvöru, sem þróunarlöndin eru nauðbeygð til að kaupa. Þannig, í skjóli efnahagslegra forréttinda, skammtar hinn auðugi heimshluti hinum fátæka hið daglega brauð. Efnahagsbandalag Evrópu var m.a. stofnsett í þeim tilgangi, eins og tengsl þess við nýlendur og fyrrv. nýlendur sýna, svo og ákvæði Rómarsáttmálans um þróunarsjóð, en fjárfesting og arðrán í hinum fátæku löndum kallast oft þróunarhjálp á fjármálamállýzku auðvaldsheimsins.

Á þennan hátt hefur nýlendustefnan gamla tekið á sig nýja, en ekki síður ómannúðlega mynd. Þessar staðreyndir um hina efnahagslegu yfirdrottnun verður núv. vinstri stjórn að hafa hugfastar auk þess, sem leita þarf eftir nýjum leiðum til aðstoðar þróunarlöndunum. Viðskiptatengsl Íslands og þróunarlanda þurfa t.d. að styrkjast. Í því sambandi tel ég rétt, að Íslendingar felldu niður tolla á vörum, sem þróunarlöndin hefðu hug á að senda hingað á markað, til að auðvelda þeim samkeppnisaðstöðu, og þótt margt mætti betur fara í menntakerfi okkar, getum við á þeim svíðum einnig veitt aðstoð með því að bjóða námsfólki frá þróunarlöndunum námsaðstöðu við íslenzka skóla, þar sem við teldum, að þeim gagnaði. Aukna vísindaaðstoð gætum við líka veitt, einkum á sviði fiskveiða. Margt mætti annað nefna af þessu tagi, en aðstoð sem þessi er ekki siður góð og gild og kannske að mörgu leyti auðveldari viðfangs og eðlilegri en bein fjárhagsaðstoð. Um leið og ég vona, að núv. vinstri stjórn taki til endurmats alla þá aðstoð, sem Íslendingar geta veitt þróunarlöndunum í mynd hækkaðra fjárveitinga og annarrar aðstoðar, vænti ég þess fastlega, að stjórnmálalegur stuðningur Íslands við hinn fátæka heimshluta verði stórefldur. Þegar hefur hin nýja ríkisstj. sýnt skilning sinn í þessum efnum og vikið frá íhaldsstefnu fyrri ríkisstj. Áfram þarf að varða þá braut.

Ég mun nú við síðustu umr. fjárlagafrv. ekki flytja neina brtt. um hækkaðar fjárveitingar í þessum efnum. Ljóst er, að ekki hefur náðst samkomulag um meiri hækkun en sem nemur tvöföldun fyrri upphæðar, og mun ég virða það samkomulag fyrir mína parta. Ég lýk svo máli mínu með því að hvetja enn einu sinni af alhug til stóraukins efnahagslegs og stjórnmálalegs stuðnings við þróunarlöndin af öllum þeim mætti, sem Ísland má. — [Fundarhlé.]