18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í D-deild Alþingistíðinda. (5048)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er ekki hugmynd mín að vekja hér upp nýjar deilur um Laxárvirkjunarstjórn og Laxárvirkjun og stjórn Landeigendafélags, sem allir þekkja meira og minna til. en vegna þess að mig hefur oft undrað, hvað menn þekkja lítið til þessa máls hér sunnan fjalla, þá langaði mig að koma að einu atriði um daginn, þegar þessar umr. hófust, þótt það sé orðið langt umliðið núna, og því kvaddi ég mér hljóðs. En til þess að hv. þm. átti sig betur á því, að ég tala ekki sem ókunnugur maður um þetta mál, þá vil ég upplýsa það, að ég er fæddur og uppalinn í Reykdælahreppi og í þeim hreppi er Laxárdalur, hinn umdeildi staður, en nágrannahreppur Reykdælahrepps er Aðaldælahreppur, og þessi virkjun, umdeilda virkjun, Laxárvirkjun, er svo til á mörkum þessara tveggja hreppa, Reykdælahrepps og Aðaldælahrepps, nánar tiltekið á mörkum Aðaldals og Laxárdals.

En það, sem mig langaði að koma hér að og mér finnst ákaflega fáir vita, það er, að allt það landssvæði vestan frá svokölluðum Eyvindarlæk, sem rennur úr Vestmannsvatni á mörkum Aðaldals og Reykjadals, og norður í Laxá og allar götur langt inn í Laxárdal, er landssvæði, sem ríkið á, sem sagt, ríkið á alla Múlatorfuna, sem kölluð er, og alla Grenjaðarstaðatorfuna inn að Halldórsstöðum í Laxárdal. Og á þessu svæði fer virkjunin fram hvað annars vegar snertir í ánni, en á móti er hið svokallaða Prestshvammsland, sem einu sinni var ríkisjörð, en seld af ríkinu 1915 með þeim skilyrðum, að undan var tekinn virkjunarrétturinn, þannig að það fer ekki á milli mála, að það land, þar sem virkjunin fer fram, á ríkið annars vegar og réttinn til þess að virkja hins vegar, og sú röskun, sem verður á rennsli árinnar, er eingöngu á því landssvæði, sem þarna um ræðir. Hins vegar ef stíflan verður gerð, sem um er rætt, þá fer örlítil vatnsborðshækkun inn á land Halldórsstaða, sem nú er að meginhluta eign Háskóla Íslands, má ég segja, en að öðru leyti í einkaeign, og þar býr núna maður aleinn á þessari annars ágætu jörð. Hann er kominn fast að áttræðu.

Annað, sem ýmsir vita ekki um, er það, að Laxárdalur fór fyrst að fara í eyði sem búnaðarsveit, vegna þess að efsta jörðin komst í hendur erfingja, sem eru búsettir í Reykjavík. Það eru Reykvíkingar, sem eiga þá jörð og hafa ekki gert kost á því, að hún væri setin sem bújörð. Og næstefsta jörðin er í eigu Árnesinga og af þeirra hálfu hefur ekki verið kostur á því, að jörðin væri tekin til búsetu. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram hv. alþm. til athugunar og upplýsingar.