25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í D-deild Alþingistíðinda. (5077)

254. mál, vátrygging fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. á þskj. 560, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

Hvenær er að vænta, að lokið verði endurskoðun á vátryggingarmálum fiskiskipa til lækkunar á vátryggingarkostnaði þeirra?

Í stjórnarsáttmálanum á bls. 3 segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun m.a. beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í efnahagsmálum. 3. Að vátryggingarmál fiskiskipa verði endurskoðuð með það fyrir augum að lækka vátryggingarkostnað.“

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi veitt því athygli, að þegar hæstv. sjútvrh. fór fram á auknar tekjur til handa útflutningssjóði með lækkuðum gjöldum til sjóðsins, þá rökstuddi hann það aðallega með því, að sjóðurinn væri ekki þess megnugur að standa nægilega undir greiðslu af vátryggingariðgjöldum til fiskiskipa. Það er því eðlilegt, að spurt sé um það, hvenær ráðstafanir samkv. stjórnarsáttmálanum komi til framkvæmda. Það, sem kann að gera þessar fsp. enn eðlilegri, er það, sem síðar hefur komið fram, að nú virðist svo, að það eigi að fara að höggva í tekjur útflutningssjóðs, en eins og allir vita, fer hann að verulegu leyti til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, nú eigi að fara að höggva í þessar tekjur. Vil ég þar vitna til þess, sem nýlega er búið að samþykkja hér í þessari hv. d., þar sem sjútvrh. er heimilað að ráðstafa útflutningsgjöldum á saltaðri síld og síldarflökum, eins og þar segir, og þar sem heyrzt hefur í sambandi við frv., sem liggur fyrir Ed., um niðurlagningu eða niðursuðu, þá séu þar einnig uppi kröfur um, að eigendur niðursuðufyrirtækja fái hluta af útflutningsgjaldinu. Allt þetta hlýtur að verka til óhagræðis fyrir vátryggingarmál fiskiskipaflotans, og leyfi ég mér að vænta þess, að hæstv. ráðh. geti veitt upplýsingar um, hvað þessu atriði í stjórnarsáttmálanum líði.