25.04.1972
Sameinað þing: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í D-deild Alþingistíðinda. (5080)

254. mál, vátrygging fiskiskipa

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft stóru máli, og ég veit ekki, hvort allir þm. gera sér grein fyrir því, hvað þetta er stórt mál og hefur verið erfitt mál. Kerfið í dag er komið frá útvegsmönnum sjálfum að langmestu leyti, ef ekki öllu leyti, og eins og hæstv. ráðh. tók fram, þá eru ekki sérlög einu sinni um tryggingasjóðinn, en það er fyrir löngu orðið nauðsynlegt að setja slíka löggjöf að mínu mati.

Ég saknaði eins í framsögu ráðh., og það var, hvaða hugmyndir séu um innheimtuna sem slíka. Á hún áfram að vera sem brúttógjald? Ég tel meinsemd þessa kerfis liggja einmitt í því innheimtukerfi að hafa þetta brúttógjald, vegna þess að því miður notfæra margir sér það að koma viðhaldi eins og hægt er í gegnum tjónaskýrslu, af því að gjaldið er brúttóskattur, en ekki kvöð samkv, getu viðkomandi báts, a.m.k. að mestu leyti. Sjálfsagt er, að sameiginleg trygging að verulegu leyti eigi sér stað, en þetta brúttókerfi hefur í mörgum tilfellum reynzt mjög illa. Það er ómögulegt að tilfæra dæmi um það hér, en það eru ótal dæmi um slíkt. Ég held, að til þess að vinna að lækkun á kerfinu, lækkun á gjöldunum og meira aðhaldi, en það eru nú flestir sammála um það, þá verði að koma á annarri innheimtu, a.m.k. að hafa annað form á því, ella mun fyrr eða síðar, þó að ný löggjöf komi, sækja í sama horfið. Því miður eru það allmargir, sem gera út á aðra í þessu tilfelli, og það þekkir hæstv. ráðh. mjög vel.

Hin nýju skip, sem er verið að kaupa til landsins, munu sennilega byrja með iðgjaldsprósentu 2.5%. Það þýðir, að iðgjald þessara skipa er um eða yfir 3 millj. á ári, þessara nýju skutskipa. Þetta er auðvitað stór tala. Ef tjón verða, hækkar síðan iðgjaldið nokkuð, en ég vil leiðrétta þann misskilning, sem mér virtist vera í ræðu hv. 3. þm. Sunnl., að við búum nú við mun óhagkvæmara kerfi en var. Þetta er ekki alls kostar rétt og alls ekki, þegar maður lítur á þann þátt, að við höfum tekið núna stærri eigin áhættu hér inn í landið en var, en áður var áhættan verulega í enskum pundum og tryggt hjá Lloyd's í London. Þá voru tjón mjög tilfinnanleg hjá þeim skipum, sem lentu í þeim. En þessu var breytt fyrir tveimur árum, og hefur nú refsiiðgjald miðað við ákveðna upphæð lækkað verulega, og það er gert hér heima að langmestu leyti og er til verulegra bóta. Um þetta held ég, að menn séu sammála. Hitt geta menn deilt um, hvort tryggingarnar eiga allar að vera frjálsar eða ekki, af hvaða bátastærð sem vera skal, en í dag er það ríkistrygging eftir sérstökum lögum á bátum undir 100 tonnum.

Ég tel, að hæstv. ráðh. hafi gert rétt í því að hafa möguleika á því að hagnýta síldargjaldið svonefnda eða útflutningsgjaldið á síldinni til þess að stuðla að því, að síld verði lögð á land á Íslandi úr Norðursjó, því að ella yrði e.t.v. engin síldveiði, og er þá illa farið fyrir mörg skip og marga staði.

Það, sem mig langaði til að vekja athygli á, var fyrst og fremst þetta, að ef ekki verður hugleitt, hvernig ráðstafa eigi brúttótekjuöfluninni í sambandi við nýja löggjöf um tryggingasjóðinn, óttast ég, að fyrr eða síðar muni sækja í sama farið og hefur verið s.l. 10–11 ár, að þessi sjóður eigi í sífelldum erfiðleikum vegna aðhaldsleysis í sambandi við tjónaskýrslur.