16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í D-deild Alþingistíðinda. (5111)

275. mál, menntaskólar í Reykjaneskjördæmi

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er að vekja athygli á tvennu í sambandi við það mál, sem hér er til umr. Í fyrsta lagi, að á s.l. ári hófst starfsemi menntadeildar við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Menntmrn. hefur formlega heimilað, að þeir nemendur, 37 talsins, sem þar hafa stundað nám í vetur, haldi þar áfram menntaskólanámi á næsta ári. Til þessa menntaskólanáms Flensborgarskólans í Hafnarfirði var stofnað í trausti þess, að þeir nemendur, sem þar eiga hlut að máli, gætu lokið stúdentsprófi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Bindandi yfirlýsingar frá fræðsluyfirvöldum lágu að vísu ekki fyrir um það efni, þegar menntadeildin hóf starfsemi sína á s. I. hausti, en vilyrði var um slíkt, og það komu hér fram, hygg ég, á hinu háa Alþingi yfirlýsingar frá hæstv. fyrrv. menntmrh., sem fólu í sér, að þessi vísir að menntaskóla, sem þarna var að hefja göngu sína, mundi leiða til þess, að þeir nemendur, sem þar væru að hefja nám, mundu útskrifast sem stúdentar frá Flensborgarskóla. Þannig hófu nemendur í menntadeild Flensborgarskólans menntaskólanám sitt þar í trausti þess að verða ekki hraktir á miðjum námstíma til framhaldsnáms í Reykjavík eða annars staðar. Slíkt yrði að sjálfsögðu algerlega óviðunandi fyrir þá. Í Hafnarfirði er mikill áhugi fyrir því, að Flensborgarskóli fái réttindi til að útskrifa stúdenta, enda er slíkt orðið fullkomlega tímabært miðað við fjölda nemenda og annað. Ég vil því eindregið fara þess á leit við hæstv. menntmrh., að hann hlutist til um, að Flensborgarskóli fái réttindi til þess að útskrifa stúdenta og slík formleg ákvörðun verði tekin hið allra fyrsta á þessu sumri og þar með staðfest gefið vilyrði af fyrrv. ríkisstj. um, að svo yrði gert.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntmrh., hvort hann geti ekki gefið um það ákveðnar yfirlýsingar við þetta tækifæri.

Síðara atriðið, sem ég vildi minnast á, var enn fremur að vekja athygli á miklum áhuga á Suðurnesjum fyrir því, að staðsettur verði menntaskóli hið allra fyrsta í Keflavík eða Njarðvík. Öllum hlýtur að vera ljóst það óhagræði, sem því er samfara fyrir nemendur á Suðurnesjum að þurfa að sækja menntaskólanám sitt til Reykjavíkur. Það er ástæða til að ætla, að fjöldi nemenda á Suðurnesjasvæðinu, sem menntaskólanám vilja stunda, sé orðinn slíkur, að fullkomlega tímabært sé orðið að staðsetja þar menntaskóla og þótt fyrr hefði verið. Ég fer þess einnig á leit við hæstv. menntmrh., að hann taki það mál til athugunar hið allra fyrsta og hlutist til um framkvæmdir í því efni.