20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

1. mál, fjárlög 1972

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árnason):

Herra forseti.

Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því, hverjar væru ástæður fyrir hækkunum hinna einstöku liða í fjárlagafrv. að þessu sinni. Í upphafi máls síns sagði hæstv. ráðh., að 910 millj. væru vegna launahækkana, þar af 430 millj. vegna samninga við opinbera starfsmenn, sem áttu sér stað í des. s.l. Ég hef áður bent á, að tekjuafgangi fjárlaga yfirstandandi árs, 270 millj. kr., var fyrst og fremst ætlað að mæta þessum útgjaldalið, og sé tekið tillit til þess, stendur eftir aðeins 160 millj. kr. mismunur, en alls ekki öll upphæðin, eins og hæstv. ráðh. hefur þó enn tekið hér fram.

Um aðra gjaldaliði frv., sem ráðh. minntist á, vil ég aðeins segja það, að þegar um það er að ræða að meta í heild öll útgjöld fjárlagafrv., þá verður varla með sanngirni ætlazt til þess, að einstakir þm. leggi síg fram um að gera uppskurð á fjárlagafrv., þar sem þeir hafa ekki haft aðstöðu til þess að ráða nokkru um stefnumörkun fjárlaga. Þá má vísa til þess í þessu sambandi t.d., að til fjvn. kom forstöðumaður ríkisspítalanna, þeir voru með ákveðna beiðni við n. um það, að þeir fengju að fjölga starfsmönnum við ríkisspítalana, sem þeir töldu brýna nauðsyn á. Okkur var það nm. öllum ljóst, að þarna var um mikið vandamál að ræða, og ríkisspítölunum var mikil nauðsyn á því að fá aukið starfslið. En við vorum sammála um það, að við sáum okkur samt ekki fært að verða við beiðninni eins og hún lá fyrir. Hvað gerðum við þá? Við ákváðum ákveðna upphæð, sem við skyldum tilkynna viðkomandi nefnd, að við mundum vilja samþykkja að mæla með, að þeir mættu fá til ráðstöfunar, en síðan óskuðum við eftir því, að þeir deildu þessu niður, tækju þau störfin, sem þeir töldu nauðsynlegust og notuðu fjárupphæðina til þess. Ef þannig hefði verið ástatt með fjárlögin, þegar þau eru komin út í slíkt óefni, eins og hér á sér stað, þá hefði málið horft allt öðru vísi við, ef við þm. hefðum fengið einhverjar slíkar upphæðir til þess að ráðstafa, eins og þarna átti sér stað með forstöðunefnd ríkisspítalanna, sem við afgreiddum á þennan hátt.

Það má segja, að ástandið sé þannig í efnahagsmátum þjóðarinnar, þegar verið er að afgreiða þessi háu fjárlög, að það væri eðlilegast, að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. gerðu það upp við sig, ekki einungis það, hvað er nauðsynlegt að samþykkja og hvað væri æskilegt að samþykkja í sambandi við útgjöld fjárlaga, heldur hvað mega fjárlögin nema hárri upphæð til þess að allt efnahagslíf þjóðarinnar fari ekki úr skorðum. En þegar um það er rætt af hæstv. fjmrh., hvað hv. þm. vilji fella niður af þeim útgjöldum, sem í frv. eru, eða þeim till., sem fjvn. hefur flutt, þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Voru það fullyrðingar út í hött, sem hann og aðrir fyrrv. stjórnarandstæðingar í fjvn. héldu fram á síðasta ári í sambandi við frv. til fjárlaga fyrir árið 1971? Þeir sögðu þá, að það fjárlagafrv., sem var meira en 5 milljörðum kr. lægra en það, sem hér er lagt fram, væri allt undirlagt af óðaverðbólgu eins og sjúklingur af skæðum sjúkdómi. Hvað hefur átt sér stað í efnahagslífi okkar Íslendinga, hvaða breytingar er þar um að ræða, að það sé réttlætanlegt af þeim sömu mönnum, sem höfðu þessi orð í sambandi við fjárlagaafgreiðslu fyrir einu ári síðan, að koma nú með fjárlagafrv., sem er um 46% hærra heldur en þetta, sem fékk þessa sjúkdómslýsingu fyrir aðeins einu ári síðan? Hvað er það, sem hefur gerzt? Til áramóta hefur verðstöðvunin haldið áfram. Inni í fjárlagafrv. eru háar fjárveitingar enn til niðurgreiðslu á vöruverði til þess að halda verðbólgunni í skefjum að þeirra dómi. Og þeir gera ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að ná kaupgjaldsvísitölunni niður með því t.d. að fella niður þessa svo kölluðu nefskatta, sem eru sjúkrasamlagsgjaldið og þeir liðir aðrir, sem nema að mig minnir um 500–600 millj. kr. Því vil ég spyrja þessa hv. þm., ef það var meining þeirra fyrir ári síðan, að það væri réttlátt mat á afgreiðslu fjárlaga, sem voru þetta miklu lægri fyrir aðeins einu ári síðan: Hvað er það, sem hefur raskazt svo mikið í okkar efnahagslífi að þeirra dómi, að það geti réttlætt, að þetta frv. með rúmlega 5 þús. milljóna hærri útgjalda- og tekjuliðum sé þá ekki undirlagt af þessum sama sjúkdómi og þeir fordæmdu mest fyrir einu ári síðan? Ég vil spyrja hæstv. ráðh. og aðra fyrrv. stjórnarandstæðinga: Í hverju eru læknisaðgerðir þeirra fólgnar í sambandi við fjárlagagerðina, sem nú liggur fyrir til afgreiðslu?

Við 2. umr. fjárlagafrv. harmaði hæstv. fjmrh., að hann hefði ekki eins góða aðstöðu og fyrrv. fjmrh. hvað varðaði það, að hann hefði raunverulega haft 13 innheimtumánuði, og þess vegna hefði það fyrst og fremst verið því að þakka, hve hagstæð afkoma ríkissjóðs á yfirstandandi ári væri. Um þetta er nú búið að ræða hér áður í kvöld, og það er auðséð af því, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. tók fram um fyrirhugaða innheimtu söluskatts, að þegar hún kemur til framkvæmda á næsta ári, þá er ætlað að flýta enn innheimtu söluskattsins, þannig að það verði aðeins um eins mánaðar tímabil að ræða, hann verði innheimtur, þegar kemur fram á næsta ár, mánaðarlega. Með þessu móti hefur hæstv. ráðh. tryggt sér þetta 13 mánaða fjárlagatímabil. En reyndar var það nú svo, að fulltrúi Efnahagsstofnunarinnar sagði, þegar við ræddum um þetta við hann, að þetta eiginlega jafngildi því, að það væri 131/2 mánuður, svo að hann væri alveg búinn að slá þarna út fyrrv. fjmrh. með sína 13 mánuði. En svo segja menn: Ja, hvað tekur við, því að nú er verið að eyða þessu? Hvað tekur við á næsta tímabili? Það er ákaflega skiljanlegt, hvað tekur við þá. Þá verður farið að innheimta söluskattinn og kannske aðra skatta vikulega og mánaðarlega. Þannig er hægt að gera kannske árið að 14 eða 15 mánuðum. E.t.v. er stefnt að því. (Gripið fram í.) Hv. þm. Björn Pálsson segir, að það verði svo næst, að það verði farið að innheimta skatta fyrir fram til næsta árs til þess að halda þá stöðunni eða ná enn þá betri og hagstæðari stöðu í sambandi við innheimtu ríkistekna.

Eins og hér hefur komið fram í þessum umr., hefur hæstv. fjmrh. haldið því fram, að sá munur sé á þessu fjárlagafrv., sem nú sé lagt fyrir, og fyrri fjárlagafrv., að þetta fjárlagafrv. sé raunhæft og það sé gert ráð fyrir öllu, sem til greina geti komið í sambandi við útgjöldin. Ég er nú alveg undrandi á því, að nokkur hv. þm. og því síður hæstv. fjmrh. skuli láta sér detta í hug að gefa slíkar yfirlýsingar sem þessar í sambandi við þessi mál. því að vitanlega er það alltaf meira og minna, eitt og annað, sem kemur, sem ekki verður séð fyrir, þegar fjárlagaafgreiðslan á sér stað. Hins vegar vitum við strax í dag, eins og kannske var réttilega bent á hjá honum í sambandi við laun opinberra starfsmanna, sem var gengið frá í desembermánuði, þá vissum við vitanlega, að þar var um óþekkta gjaldaupphæð að ræða, en sem við því miður gátum ekki gert okkur fyllilega grein fyrir, hver væri. Og það kom á daginn, að við höfðum vanmetið þann útgjaldalið. Nú vitum við það líka í sambandi við þessa sömu starfsmenn, að það hefur komið fram krafa frá þeim um hækkað kaup. Og hæstv. fjmrh. svaraði því til í sambandi við það við 2. umr. málsins, þegar ég gerði fsp. um, hvað ríkisstj. hygðist ætla að gera í þessum efnum, að það mundi verða farið að lögum. Ég efast ekkert um það, að ríkisstj. fari að lögum í þeim efnum, en þó hélt ég, að vinnubrögðin yrðu þau, að fyrst yrði rætt við mennina um það málefni, sem um væri að ræða, til að sjá, hvort ekki væri hægt að komast að samkomulagi um þann ágreining, sem e.t.v. ætti sér stað í þessum efnum, og ef ekki næðist samkomulag um það, sem ríkisstj. teldi sanngjarnt í þessum efnum, þá yrði málinu vísað til dóms. Þetta eru algeng vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu slíkra mála. En í stað þess ætla þeir sér ekki að tala við mennina, vísa bara málinu beint til dóms, en það eru þau vinnubrögð í sambandi við samninga um launakjör, sem ég veit ekki til, að eigi sér nokkur fordæmi.

Nei, ég hygg því, að það muni koma á daginn og kannske áður en árið er liðið, að þarna er um einhverja upphæð að ræða. Hve há hún verður, það verður ekkert sagt um í dag, en ótrúlegt þykir mér það, að þeir haldi fram þessum kröfum og telji sig eiga rétt á 14%, ef þeir hafa ekki við nein lög að styðjast í þessum efnum. Úr því mun svo að sjálfsögðu reynslan skera. Þá er líka hægt að benda á annað í sambandi við það, hvort hér er um raunverulega raunhæfa afgreiðslu fjárlaga að ræða, sem ekkert getur raskað, og það er sá kostnaðarauki, sem átt hefur sér stað síðan fjárlagafrv. er samið. Við vitum, að allir gjaldaliðirnir í sambandi við gjaldfærðan stofnkostnað eru byggðir á kaupgjaldsvísitölu eins og hún var hinn 1. sept. s.l. Síðan hefur átt sér stað kauphækkun, fyrst í sambandi við þá vísitölubreytingu, sem núv. ríkisstj. gerði, eftir að hún tók við völdum, og svo hafa átt sér stað nýir kaup- og kjarasamningar við það stóran hóp launþega í landinu, að Efnahagsstofnunin telur, að þar sé um að ræða 50% af heildarlaunþegum í landinu. Og halda menn svo, að þetta hafi engin áhrif á það, sem fjárlögum er ætlað að standa undir? Það segir sig alveg sjálft, að það vantar mikið á, að þetta fjárlagafrv., þó að það sé að svona miklum hlut stærra og hærra heldur en átt hefur sér stað áður, það vantar enn nokkuð á, að séð verði fyrir öllu, sem kemur til með að lenda á ríkiskassanum á næsta ári. Nei, það mun koma í ljós, og ótrúlega fljótt á væntanlegu nýju árí, að þessar spár hæstv. ráðh. munu ekki reynast réttar. Og ég hygg, að þar verði ekki um neinar smáupphæðir að ræða, þegar að því kemur, að við samþykkjum fjáraukalög fyrir árið 1972.