20.12.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

1. mál, fjárlög 1972

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Mér er af skiljanlegum ástæðum ókunnugt af eigin raun, hvað gerðist á síðasta Alþ. við afgreiðslu á heiðurslaunum listamanna. En skilríkir menn hafa tjáð mér, að þá hafi svipað staðið á og nú, sem sé, að á góma bar ýmsar og sundurleitar till. um að bæta nöfnum á heiðurslaunalistann. Í öndverðu voru þessi heiðurslaun, sem Alþ. ákvað til nafngreindra manna, hugsuð sem sérstök viðurkenning til þeirra, sem bezt þóttu hafa gert í listum með þjóðinni. Það gefur auga leið, að þó að við eigum, sem betur fer, fjölmennan hóp fólks, sem leggur stund á listir, er það ekki nema takmarkaður fjöldi, sem nýtur þeirrar alþjóðarviðurkenningar, að rétt sé, að hann skipi heiðurslaunalista, sem Alþ. ákveður hverju sinni. Því aðeins halda þessi heiðurslaun sínu sérstæða gildi, að mjög sé vandað til vals þess fólks, sem á listann fer.

Um það sýnist að sjálfsögðu sitt hverjum. En finna þarf aðferð, sem allir geta sætt sig við, til þess að velja heiðurslaunafólkið, frekar en á hverju þingi gerist það við lokaumr. fjárlaga, að fram fari kapphlaup um að bæta við á síðustu stundu nöfnum á heiðurslaunalistann. Á síðasta þingi, þegar eins eða svipað stóð á og nú, mun hafa verið kannaður þingvilji fyrir því að koma á fastri skipan um val í heiðurslaunaflokk. Árangur þeirrar athugunar, sem þá fór fram, var stjfrv., sem borið var fram, en varð ekki útrætt. Þetta var 261. mál á þskj. 517, og aðalefni þess er þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi veitir árlega fé í fjárlögum til að launa listamenn. Getur það bæði veitt allt að 12 listamönnum ákveðin heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni eina upphæð, sem síðan skal skipt af nefnd 7 manna, kosinni af Sþ. að afloknum alþingiskosningum.“

Hér er lagt til, að heiðurslaunalistum sé takmarkaður við 12 nöfn, og býst ég við, að flestum þyki það sanngjörn tala. Þetta frv., sem borið var fram sem stjfrv. á síðasta Alþ. og þáv. menntmrh. talaði fyrir, varð ekki útrætt, en þó kom um það nál. frá menntmn. Ed., þar sem n. lagði einróma til, að frv. yrði samþ. Þar sem nú ríkja svipaðar aðstæður og urðu til þess, að þetta frv. var borið fram á sínum tíma og hafði að því er virðist mjög mikinn byr á þingi, þá hef ég ákveðið að leyfa mér að bera málið fram á ný, en í nokkuð annarri mynd. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 276 brtt. við 14. lið brtt. á þskj. 243. Brtt., sem ég her fram, er í því fólgin, að við listann yfir heiðurslaunamennina, bætist svo hljóðandi mgr.:

„Heiðurslaun má veita allt að 12 listamönnum, og skulu menntmn. beggja deilda Alþ. gera í sameiningu till. um, hverjir í þann flokk hætist hverju sinni.“

Hér er, eins og menn sjá, tekin upp úr fyrra frv. talan 12 sem hámarkstala listamanna á heiðurslaunalista, sem Alþ. skipar. En við er bætt ákvæði um, hvar það sé innan þings, sem forganga og frumkvæði sé um að fylla þessa tölu. Ég legg til, að menntmn. beggja deilda í sameiningu geri till. um listamenn á heiðurslaunalistann, og er þá vitanlega ekki verið að taka fram fyrir hendur á háttvirtum þm. eða ráðh., sem ekki sitja í menntmn. Þeir geta að sjálfsögðu komið sínum hugmyndum á framfæri við nefndirnar. En síðan mundu menntmn. kanna það, hverjir listamenn hafa þann byr á þingi, að rétt sé að bera þeirra nöfn fram, en ekki farið eins og nú, þegar komnar eru fram a.m.k. tvær till. og fleiri jafnvel á döfinni. Hér hefur verið orðuð af hv. 10. þm. Reykv. sú þriðja og það flýgur fyrir, að sú fjórða, fimmta, sjötta og ég veit ekki hvað margar séu á döfinni hjá einstökum þm. Ég held, að allur þingheimur sjái, að ef þannig er haldið áfram, er stefnt í algert óefni, og því hef ég borið fram þessa brtt. við 14. lið brtt. á þskj. 243.

Nú gilda fjárlög aðeins ár frá ári, og því vil ég skýra frá því, að minn vilji er, og ég held, að ég megi segja, að það sé stjórnarvilji fyrir því, að borið verði fram sem stjfrv. á ný frv. sniðið eftir því, sem dagaði uppi á síðasta þingi að viðbættu ákvæðinu, að frumkvæði um till. um heiðurslaunafólk sé í höndum menntmn.