26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

132. mál, Jarðeignasjóður

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., er um breyt. á lögum um Jarðeignasjóð. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að farið hefur fram athugun á stöðu þeirra bænda í þjóðfélaginu, sem verst eru settir, og var skipuð nefnd í þetta 19. marz í fyrra, og sú nefnd lauk störfum sínum núna í haust.

Við þessa athugun, sem fram hefur farið, hefur það komið í ljós, að nauðsyn ber til að breyta lögunum um Jarðeignasjóð ríkisins í þá átt, að heimild sé til að kaupa jarðir af þeim bændum, sem verst eru settir, á þann hátt, að þeim verðisíðar gefinn kostur á að endurkaupa jarðirnar, ef þeir hafa bolmagn til þess. En jafnframt því, sem það er tryggt, er einnig gert ráð fyrir, að þeir hafi lífstíðarábúð á jörðinni, en eigi sem sagt endurkauparétt, ef til þess kemur. Fyrirmynd þessarar hugmyndar er að finna í lögum um Kreppulánasjóð, sem var hér starfandi á árunum 1930–1940, eða 1933 og 1934 mun það hafa verið, en þá átti sér stað slík úrlausn í sambandi við erfiðleika bænda.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. landbn.