16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 171 hefur ríkisstj. leyft sér að flytja frv. til I. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt. Eins og vænta mátti um mál eins og tekju- og eignarskatt, er það mikið atriði í stjórnmálaákvörðunum hverrar ríkisstj., hvaða stefnu skuli fylgt í tekjuöflunarleiðum. Í stjórnarsamningnum var gefið fyrirheit um að endurskoða skiptingu verkefna og vald á milli ríkis og sveitarfélaga og í öðru lagi endurskoða tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátar en verið hefur.

Nú var öllum ljóst, að tími sá, sem núv. ríkisstj. hafði til þess að endurskoða svo mikinn lagabálk eins og tekju- og eignarskatt, mundi hrökkva skammt á þessu hausti til þess að ljúka því verkefni fyrir afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni. Nokkur ástæða var þó til að reyna að freista þess, og fljótlega eftir að ríkisstj. kom til valda, skipaði hún nefnd, sem í voru Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri í fjmrn. sem formaður, Guðmundur Skaftason endurskoðandi, Magni Guðmundsson hagfræðingur, Gunnar R. Magnússon endurskoðandi og Björn Jónsson alþm. Þessi nefnd hóf störf, fljótlega eftir að hún var skipuð, og hefur hún unnið mikið verk. Enda þótt hún hafi leyst af hendi mikið verk á þessum stutta tíma, er langt frá því, að lokið sé við að vinna það verk, sem þessari nefnd er ætlað, því að það er aðeins á frumstigi, og sá þáttur, sem hér er sýndur, er ekki nema fyrsti þáttur í verkahring þessarar nefndar, og hann er einnig fram settur með þeim fyrirvara, að í framhaldsendurskoðun muni nefndin athuga þær veilur, sem fram kynnu að koma í þessari nýju skattalöggjöf. Ákveðið var, jafnhliða því sem tekjustofnar ríkisins væru endurskoðaðir, að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og tryggingakerfið, því að að dómi ríkisstj. bar nauðsyn til, að þessi endurskoðun færi fram í heild. Svo veigamiklir þættir voru að dómi ríkisstj. samantvinnaðir í þessum þrennum lögum, að ekki væri hægt að endurskoða eina löggjöfina, án þess að önnur væri endurskoðuð líka, því að öllum er ljóst, að skattakerfi ríkisins segir ekki nema hluta af þeirri sögu, hvaða skattheimta það er eða skattar það eru, sem þegnarnir greiða, því að þar koma einnig til greiðslur þeirra til sveitarfélaganna og til trygginganna. Þess vegna var ákveðið, að þessi endurskoðun færi fram samtímis.

Ég hef látið gera á því nokkra athugun, að hve miklu leyti aðrar þjóðir noti beina skatta í tekjuöflun sinni. Hefur komið í ljós, að Ísland er þar mjög neðarlega. T.d. er Bretland með 44.5%, Noregur 47.4%, Danmörk 48.3%, Svíþjóð 62.5%, en Ísland var komið niður í 22%, en mun nú vera í um 24%.

Á s.l. vori voru samþykkt hér á Alþ. skattalög, sem þáv. stjórnarandstaða hafði ýmislegt við að athuga. Þessi lög höfðu ekki komið til framkvæmda enn þá, og að dómi núv. ríkisstj. bar brýna nauðsyn til að breyta skattalögunum, svo að áhrifa þeirra gætti ekki í skattakerfinu. Þessi ástæða ásamt því að ganga strax til verks í þeirri stefnumótun, sem ríkisstj. hafði markað sér um tekjuöflun ríkisins, varð þess valdandi, að lagt hefur verið kapp á að fá hluta af þessu verki unninn nú og leggja fram þann hluta, sem hér er til meðferðar, og frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem er til meðferðar í hv. Ed., fyrir þetta þing og byggja fjárlagagerðina á niðurstöðum af þessari áætlun.

Þau höfuðatriði, sem ríkisstj. ákvað að leggja áherzlu á við endurskoðun á þessum tekjuöflunarmálum, var afnám persónuskatta, sem hafa verið verulegir og farið vaxandi á síðari árum. M.a. vegna aukinnar þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í félagsmálum þjóðarinnar var nauðsynlegt að taka þann þátt inn í tekjuöflunarkerfið. Í öðru lagi var svo að gæta þess, að sköttum af lágtekjum væri mjög í hóf stillt og tilfærsla innan skattakerfisins væri með þeim hætti, að þeir, sem lægri hefðu tekjurnar, bæru þar minni hlutann. Í þriðja lagi var svo talið eðlilegt að taka til athugunar verkaskiptingu á milli ríkisins og sveitarfélaganna. En það er búið að vera alllengi á dagskrá hjá sveitarfélögunum að fá þar breytingu á, þar sem ríkissjóður tæki að sér ýmis verkefni. sem sveitarfélögin hafa áður annazt, og þá var þar fyrst og fremst um að ræða þau verkefni, sem ríkisvaldið ákvarðar alveg um útgjaldahliðina á, eins og almannatryggingagjaldið, lögreglukostnað og sjúkrasamlögin. Sveitarfélögin hafa sótt af miklu kappi á undanförnum árum, að ríkissjóður tæki að sér greiðslu á þessum verkefnum, og auðvitað leiddi það til þess, að tekjuþörf þeirra yrði metin eftir öðrum ástæðum, eftir að þessi breyting hefði verið gerð. Þetta voru þær forsendur, sem eru að þeirri löggjöf eða því frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. og ég mun skýra nokkru nánar.

Í sambandi við fyrsta þáttinn, um afnám persónuskatta, hversu mikils virði það er orðið og yrði á næsta ári, vil ég geta þess, að samkv. þeim upplýsingum, sem mér hafa verið látnar í té þar um, mundu persónuskattar á hjónum, þegar þær breytingar á tryggingalöggjöfinni, sem nú eru komnar fram á hv. Alþ., kæmu til framkvæmda, ef engu hefði verið breytt um hlutföllin í greiðslunum, vera orðnir 21 900 kr. Einhleypur karlmaður mundi greiða í persónuskatta, almannatryggingagjaldið og sjúkrasamlagsgjaldið, 15 800 kr. og einhleyp kona 13 100 kr. Það er ljóst, þegar þetta er haft í huga, að hér er orðið um verulegar fjárhæðir að ræða, og það skiptir máli fyrir þá, sem litlar sem engar tekjur hafa, eins og t.d. margir unglingar. Gamalt fólk greiðir að vísu ekki þessi gjöld, en fyrir fólk, sem hefur engar tekjur eða litlar, skiptir það verulegu máli, hvort það á að greiða þessa skatta eða ekki. Og t.d. fyrir hjón, sem væru með 2–3 börn í skóla, sem væru komin yfir 16 ára aldur og ekki hefðu tekjur nema að litlu leyti, væri hér um verulegar fjárhæðir að ræða, sem þessir foreldrar yrðu að greiða.

Jafnhliða þessum breytingum, sem lagðar eru til í þessu frv., að leggja þessa nefskatta niður, þá er og hér á ferðinni frv. um tryggingalöggjöfina, þar sem gert er ráð fyrir lágmarkstekjum til þeirra, sem hafa minnstar tekjur, sem eru 10 þús. kr. fyrir einhleypan og 18 þús. kr. fyrir hjón á mánuði. Þessir tveir þættir, sem fara saman, gerðu það að verkum, að nauðsyn bar til, eins og ég gat um í upphafi, að taka þessa þrjá þætti samtímís og meta þá alla í einni heild. Þess vegna hefur það orðið niðurstaða hæstv. ríkisstj. að fara þannig að nú um mat á þessum sköttum, að það skyldi allt gert samtímis til þess að tengja þetta kerfi saman í eina heild.

Niðurstaðan af þessum athugunum, sem gerðar hafa verið, er, eins og ég áður sagði, að ákveðið er með þessu frv. að leggja niður þessa persónuskatta hjá einstaklingum, sem eru þær fjárhæðir, sem ég hef áður greint. Jafnhliða þessu hefur svo verið tekin sú ákvörðun að hafa þá verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, að sveitarfélögin þyrftu ekki að greiða gjald til almannatrygginga eða löggæzlu og losnuðu við greiðslu til sjúkrasamlaga að mestu leyti. Jafnhliða því sem þessi ákvörðun hefur verið tekin, hefur einnig verið ákveðið, að nokkur breyting yrði á um skiptingu tekjustofna milli sveitarfélaga og ríkisins, þar sem sveitarfélögin fengju í sinn hlut fasteignaskatta, sem nú eru teknir upp sem meiri tekjustofn en áður hefur verið, vegna hins nýja fasteignamats, sem nú er að færast á eðlilegri grundvöll en áður var.

Mörg rök hníga að því, að fasteignaskatta eigi að leggja á. Það er öllum kunnugt, sem til þekkja í sveitarfélögum, að það er verulegur kostnaður, sem er fólginn í því, að hægt sé að koma fyrir byggingum. Það þýðir götur, vatnsleiðslur, rafmagn, skolp og fleira, og uppbyggingarkerfi byggðarlaganna er tengt þeim byggingum, sem þar eru. Það mælir líka með fasteignasköttum, að þeir eru nokkuð stöðugir skattar, og í öðru lagi, að það mundi geta verkað sem nokkur heimili á óeðlilega stórt húsnæði, ef fasteignaskattar væru þar teknir. Nú er það um þessa skatta að segja, sem gert er ráð fyrir, að innheimtir verði samkv. þessu frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., að ekki er gert ráð fyrir því, að þeir verði hærri en svo, að það sé 1/2% af íbúðarhúsnæði og því, sem tengt er landbúnaði, en aftur 1% af öðru húsnæði, en heimild er til að hækka þessa skatta um 50%.

Ég hef þér hjá mér sýnishorn um nokkur hús hér í borginni og þá breytingu, sem mundi verða í sambandi við fasteignaskattana. Af íbúð, sem er 61 fermetri að stærð, mundi 1/2% skatturinn verða 3 635 kr. eða hækka um 2 332 kr. Annað dæmi er íbúð, sem er 87.7 fermetrar, þriggja herbergja íbúð. Þar mundi skatturinn verða 5 760 kr. og hækkun frá núv. skatti 3 711 kr. Þriðja dæmið er um fjögurra herbergja íbúð, 106 fermetra. Hækkun á skattinum þar yrði 4 557 kr., en skatturinn yrði 7 145 kr. Og fjórða, sem er 6 herbergja íbúð, 125.4 fermetra, þar yrði skatturinn 8 075 kr. og hækkaði um 5 181 kr.

Í sambandi við tekjustofna sveitarfélaganna er sú breyting á, að útsvör verða þar ekki hærri en 10% af tekjum manna, en lækka á lægri tekjum niður í 5%. Þegar komið er upp í 450 þús., eru 10% hámarkið, en að sjálfsögðu má lækka útsvör, eins og venja hefur verið til um útsvarsreglur. Þau hefur verið hægt að lækka, ef þau hafa gefið meiri tekjur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, að þörf væri á.

Að þessu sinni var ákveðið, að hálft aðstöðugjald skyldi heimilt að innheimta á árinu 1972 miðað við það, sem var á árinu á undan. Það hefur nokkur deila verið um það, hversu réttmætt það væri að innheimta aðstöðugjöld. En í sambandi við fasteignaskattana kom það til álita, hvort ætti að fella aðstöðugjöldin niður. Að athuguðu máli var það þó ekki talið ráðlegt, m.a. vegna þess, að ekki var séð, hvernig kerfið mundi reynast, og svo hitt, að þeir, sem ráku sín fyrirtæki í leiguhúsnæði, hefðu með þessu móti getað sloppið kannske að miklu leyti við stigann. Þetta, eins og aðrir þættir þessa máls, mun að sjálfsögðu verða athugað í ljósi reynslunnar, og enn fremur mun þetta mál verða til meðferðar og athugunar hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, stjórn þess og fulltrúaráði nú í þinghléinu, að því er félmrh. hefur sagt þar um.

Þessir tekjustofnar, sem sveitarfélögin þannig fá, eru ekki sveiflukenndir, eins og þeir voru, þar sem þeir eru ekki stighækkandi, og bæði fasteignaskattur og svona lágt tekjuútsvar eru nokkuð öruggir tekjustofnar. En í sambandi við þessa breytingu hafa sveitarfélögin ekki aðrar tekjur af atvinnufyrirtækjum en fasteignaskattana og aðstöðugjöldin, því að tekjuútsvör og eignarútsvör falla til ríkissjóðs.

Í framhaldi af þessu, sem hnígur að sveitarfélögunum, vil ég snúa mér að tekjustofnum ríkisins. Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að persónufrádráttur hjóna verði 220 þús., en hann var 188 200 kr. Persónufrádráttur einhleyps manns verður 140 þús., var 134 þús. kr., og barns 30 þús., var áður 27 þús. kr. Um þetta vil ég geta þess, að að sjálfsögðu er um allt annað að ræða í sambandi við persónufrádráttinn, eftir að felldir hafa verið niður þeir nefskattar, sem hver og einn varð að greiða alveg án tillits til tekna. Sú meðferð mun verða á þessu máli, að þessi persónufrádráttur, sem hér hefur verið kynntur, mun að sjálfsögðu, eins og ákveðið var í fyrra í lögunum þá, gilda sem 100 og hreyfing á vísitölu koma svo síðar til.

Í þessu skattafrv. er gert ráð fyrir því, að aðeins sé um tveggja þrepa skattstiga að ræða. Má vel vera, að sumum þyki þar fullskammt gengið, og gerðar hafa verið ýmsar athuganir á því að hafa skattþrepin þrjú. En það, sem hins vegar mælir með því að hafa skattþrepin fá, er einmitt það, að ef horfið yrði að því, sem mikið hefur verið hér til umr. á undanförnum árum, að innheimta skatta jafnharðan og tekjur falla til, svo kallað staðgreiðslukerfi skatta, þá er það ólíkt betra, eftir því sem skattstigarnir eru færri. Þessir skattstigar eru 25% á fyrstu 50 þús., eftir að farið er að leggja á skatt, og 45% úr því.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða verkanir kynni að hafa í skattkerfinu að breyta því á þennan veg, sem hér hefur verið gert. Um það hef ég hér sýnishorn, þar sem hafa verið reiknuð út mörg dæmi í sambandi við þessa breytingu, sem hér er verið að gera. Í sambandi við þá útreikninga, sem hér hafa verið gerðir, hefur verið fylgt þeirri reglu að hafa meðaltalsfrádrátt frá tekjum þegnanna, áður en til skatts er reiknað, sem er talinn vera 15% fyrir einstaklinga og 25% fyrir hjón. Þessir skattstigar, sem hér verða nú tekin sýnishorn af, eru miðaðir við þá frádrætti, sem ég hef nú kynnt, og skal ég nefna nokkur dæmi þar um.

Í fyrsta lagi, ef tekinn er maður, sem hefur 133 þús. kr. tekjur brúttó eða 100 þús. kr. tekjur til skatts, hefði hann samkv. gamla kerfinu átt að greiða 27 þús. kr., sem eru fyrst og fremst þeir persónuskattar, sem hann greiðir, nefskattarnir, en samkv. nýja kerfinu mundi þessi skattþegn greiða 7 þús. kr. Hér er um að ræða barnlaus hjón. Ef um er að ræða 267 þús. kr. tekjur, sem eru 200 þús. nettó, þá mundu þessi hjón hafa greitt samkv. gamla kerfinu 36 þús., en samkv. hinu nýja 18 þús. eða lækkað um helming.

Ef um er að ræða hjón með tvö börn, sem hafa 467 þús. kr. brúttótekjur eða 350 kr. nettótekjur, þá mundu þau eftir gamla kerfinu hafa greitt 92 þús., en eftir nýja kerfinu 90 þús.

Eftir þetta, eftir að komið er upp fyrir hrúttótekjur, sem eru 533 þús. kr. og 400 þús. kr. nettó, þá fara barnlaus hjón að hækka og mundu greiða l 300 kr. meira eftir nýja kerfinu en því gamla. Ef ég tek svo aftur hér hjón með 600 þús. kr. tekjur, 450 þús. kr. nettótekjur, þá greiða þau samkv. gamla kerfinu 144 þús. en samkv. nýja kerfinu 149 þús.

Ef ég svo tek hjón, sem hafa 1 200 þús. kr. í tekjur, sem eru 900 þús. kr. nettó, þá greiða þau alls samkv. gamla kerfinu 326 þús., en samkv. því nýja 355 þús. Þetta voru hjón með tvö börn.

Hér eru aftur hjón með eitt barn, ég þarf að gefa sýnishorn af því. Þar er um að ræða, að nettótalan væri 100 þús. kr., sem er 144 þús. brúttó, þau mundu greiða alls 22 þús. samkv. gamla kerfinu, en því nýja 8 þús. Ef þau hefðu 250 þús. nettó, mundu þau greiða alls samkv. gamla kerfinu 45 þús., en hinu nýja 28 þús. Ef þau hefðu 350 þús. nettó, mundu þau greiða alls 84 þús., en samkv. hinu nýja aftur 81 þús. Eftir það færi þetta að hækka, og af 450 þús. mundu hjón með eitt barn greiða samkv. gamla kerfinu 136 þús., en samkv. nýja kerfinu 140 þús. Og hjón með 1 millj. kr. nettótekjur mundu greiða samkv. gamla kerfinu 422 þús., en samkv. hinu nýja 464 þús.

Hjón með tvö börn, svo að ég haldi áfram þessum lestri, þótt ekki þyki hann skemmtilegur, þá kem ég þar fyrst, þar sem hjón með nettótekjur 100 greiddu eftir gamla kerfinu 22 þús., en eftir hinu nýja 9 þús. Með 300 þús. kr. tekjunum greiddu þau eftir gamla kerfinu 59 þús., en eftir hinu nýja 46 þús. Með 400 þús. kr. tekjur greiddu þau samkv. gamla kerfinu 102 þús. og sömu upphæð eftir nýja kerfinu. Þetta eru nettótekjur, sem nú eru uppgefnar. Brúttótekjurnar eru 25% ofan á þetta. Aftur mundu hjón, sem væru með millj. kr. í nettótekjur, og þar eru brúttótekjurnar 1 355, greiða eftir gamla kerfinu 414 þús., en eftir hinu nýja 455 þús.

Ef ég tek næst fjögurra barna hjón, þá greiða þau af 100 þús. 22 þús. í fyrra dæminu, 8 þús. í hinu seinna. Af 250 þús. greiða þau 38 þús. í fyrra dæminu, 31 þús. í hinu seinna. Af 400 þús. greiða þau 87 þús. í fyrra dæminu og 82 þús. í hinu seinna. Og af 700 þús. greiða þau 242 þús. í fyrra dæminu og 259 þús. í hinu seinna.

Þessi sýnishorn segja nokkuð um áhrif af þessu skattakerfi, þótt þau segi nú ekki allt. Og hér er ég kominn að hjónum með sex börn, sem sumum hv. þm. finnst kannske heldur fráleitt að vitna til, en til munu þau vera enn þá og verða vonandi áfram hjón, sem eiga sex börn. En þar er dæmið þannig, að af fyrstu 100 þús. er þetta 22 þús. í fyrra tilfellinu og 5 þús. í hinu síðara. Af 200 þús. er þetta 22 þús. í fyrra tilfellinu og 18 þús. í hinu síðara. Þegar komið er upp í 500 þús. kr. nettótekjur, eru 122 þús. í fyrra, en 119 þús. í hinu síðara. Nú er það við þetta að athuga, að í frv. um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir því, að þegar börn séu orðin þrjú eða fleiri, þá sé frádráttur 2 þús. kr. af útsvari fyrir hvert barn.

Hér er aftur um einhleypan mann að ræða. Af fyrstu hundrað þús. greiðir hann 16 þús. í fyrra tilfellinu, en 6 þús. í hinu síðara. Af 200 þús. greiðir hann 40 þús. og 26 þús. í hinu síðara. Af 300 þús. greiðir hann 85 þús. í hinu fyrra, en 87 þús. í síðara tilfellinu.

Nú skal ég ekki þreyta hv. alþm. lengur á því að lesa upp þessi sýnishorn, því að þeir munu að sjálfsögðu geta kynnt sér þau og það með hægara móti en við þennan lestur.

Í sambandi við þessi atriði eða í framhaldi af þessu vil ég koma að því, hvaða möguleika til tekna þessir tekjustofnar mundu gefa. Þá er því til að svara, að samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að innheimtar tekjur yrðu í fyrsta lagi það, sem eftir stæði af tryggingjalöggjöfinni, en í fjárlagafrv. munu gjöld atvinnurekenda vera færð eins og var í upphaflega frv., sem stafar af því, að það var áformað um tíma að breyta þeim yfir í launaskatt. En í vinnudeilunum töldu atvinnurekendur sig hafa veður af því, að með þeirri breytingu ætu að hækka skattana, þannig að þeir greiddu meira en þessi gjöld nema nú, framlag þeirra til trygginganna, slysatrygginga og lífeyristrygginga og þeirra trygginga, sem þeir greiða í. Forsrh. átti viðræður við þá í sambandi við vinnudeilurnar, og til þess að ekki orkaði tvímælis, að það fyrirheit væri haldið, sem þeir töldu, að hann hefði gefið, þá er þessu haldið alveg óbreyttu og ekki tekið með í þetta skattafrv. Hins vegar er það skoðun ríkisstj. og þeirra nm., sem um hafa fjallað, að eðlilegra væri að breyta þessu í launaskatt, og það muni reynast einfaldara, og ef samkomulag fæst um það við atvinnurekendur við meðferð málsins hér á þinginu, þá mun það að sjálfsögðu verða gert. En að öðrum kosti, til þess að ekki orki neitt tvímælis um það, að hér sé loforð haldið, þá er þannig frá þessu gengið nú. Þessir skattar ásamt eftirstöðvunum í tryggingakerfinu, sem gert er ráð fyrir að innheimta á næsta ári, eru 567.6 millj. kr.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að eignarskattur verði 251.7 millj., og tekjuskattur einstaklinga og félaga 3 milljarðar 141.1 millj. kr. Hér er um að ræða tæpum milljarði hærri tölu en sambærilegar tölur eru á fjárlagafrv. nú.

Í sambandi við þessi mál hef ég látið gera athugun á því, hvaða raunveruleg áhrif þetta frv. kann að hafa á skatta manna í heild, þegar allt er tekið í einu, persónuskattarnir, sveitarfélagagjöldin og tekjuskattar og eignarskattar. Ég vék hér að í upphafi máls míns, að lög þau, sem sett voru á síðasta vori, mundu hafa haft veruleg áhrif í skattheimtu á næsta ári. Er talið, að ef þau hefðu komið til framkvæmda með þeim breytingum, sem þar var gert ráð fyrir, hefði mátt búast við því, að mörg fyrirtæki hefðu orðið algerlega skattlaus. Eins og kunnugt er þeim hv. þm., sem sátu hér á þingi í fyrra, urðu nokkrar deilur um réttmæti þeirra laga og þær breytingar, sem sneru að fyrirtækjunum. Þar var um að ræða svo kallaða flýtifyrningu, sem var verulegt atriði, þar sem fyrirtækin máttu fyrna eignir sínar eftir eigin ákvörðunum um allt að 30%. Eigandinn réð því, hvenær hann notaði sér þetta ákvæði, og það gat því haft mikil áhrif á skattgreiðslu hans á því ári, sem hann hefði notað það að verulegu marki. Og það er talið, að þau áhrif, sem þessi löggjöf hefði getað haft á næsta ári, hefðu verið mínus í skattainnheimtunni um 300–500 millj. kr. Með þeim breytingum, sem nú er verið að gera með þessu frv., er þessu breytt og fleiri atriðum, sem þarna koma við sögu, eins og um sameignarfélögin, sem var þannig búið að, að gera mátti ráð fyrir því, að menn hyrfu yfirleitt að því að mynda smáhlutafélög. Staða sameignarfélaganna var mjög þrengd í þessari löggjöf og sveigt inn á það svið, að heldur yrði notað hlutafélagsformið. Eins og bent var á í umr. um skattamálin á þinginu í fyrra, m.a. af prófessor Ólafi Björnssyni, mátti gera ráð fyrir því, að þetta ákvæði leiddi til þess, að fjölskyldur og ýmsir smáatvinnurekendur hyrfu að hlutafélagsforminu og næðu þannig í veruleg skattfríðindi. Með þessu frv. er hins vegar horfið frá því að veita hlutafélögunum þessi forréttindi fram yfir sameignarfélög, og staða sameignarfélaganna er nú gerð svipuð og hún var í löggjöfinni, sem gilti áður en lögin í fyrra voru sett.

Þá er einnig í þessu frv. gert ráð fyrir því að fella niður arðjöfnunarsjóðsákvæðið, en aftur gert ráð fyrir því, að horfið verði að varasjóðstillagi félaga, eins og hafði verið, áður en lögin í fyrra voru sett.

Með lögunum í fyrra var einnig gert ráð fyrir því, að hagnaður af sölu fasteigna teldist skattskyldur, en með þessu frv. er það fært aftur inn á þá braut, sem áður var, að það er ekki, ef keypt er aftur íbúð, og er þá söluhagnaðurinn miðaður við rúmmál eigna og kemur ekki til, nema um breytt húsnæði sé að ræða frá því selda húsnæði.

Þá er, eins og ég gat um áðan, fyrningarákvæðum mjög breytt í þessu frv. Það er gert með þeim hætti, að eigi má nota meira en 1/5 hluta aukafyrningar á ári hverju, þ.e. 6%, en eins og þetta var í lögunum frá í fyrra, var það á valdi viðkomandi aðila, hversu mikið hann notaði, og gaf honum því verulega möguleika til þess að hafa flýtifyrninguna sér til framdráttar gagnvart skatti, ef áraði verulega vel fyrir hann.

Sama er að segja um mat á lausafé til fyrningar. Í lögunum í fyrra var sú regla ákveðin, að til grundvallar endurmati lausafjár skyldi leggja endurkaupsverð þess, en frá því verði skyldi síðan dregin hlutfallstala þeirrar fyrningar, sem samtals hefði verið notuð af eiganda eignarinnar á liðnu ári, þó ekki meira en 80% fyrir eignir, sem eigandi eignaðist fyrir 1. jan. 1960, og 50% fyrir eignir, sem hann eignaðist eftir þann tíma. Nú er horfið að því að gera matið einfaldara og auðveldara í framkvæmd, og er því lagt til í frv., að endurmatshækkunin skuli vera að hámarki 20% af upphaflegu kaupverði eða kostnaðarverði eignanna, er síðar verði afskrifuð á 5 árum, nema endingartími viðkomandi eignar sé skemmri.

Þá eru ýmis ákvæði, sem voru í lögunum frá í vor, felld niður og önnur ný tekin upp með þessu frv. T.d. er komið í veg fyrir það, að gift kona njóti sérstaks frádráttar að fullu, ef hún vinnur í fjölskyldufyrirtæki.

Þá er áréttað, að hlunnindi, svo sem fæði, húsnæði og afnot af bifreiðum, sem látin eru í té í kaupgjaldsskyni, skuli vera skattskyld.

Einnig er fellt niður það ákvæði í lögunum frá í vor, að arður af hlutabréfum, sem mátti vera 60 þús. kr. hjá hjónum og 30 þús. hjá einhleypum, átti að vera skattfrjáls. Þetta ákvæði er nú fellt niður og ekki talin ástæða til þess, að þarna sé frekar um skattfrelsi að ræða heldur en á ýmsum öðrum sviðum, t.d. í sambandi við atvinnurekstur eins og landbúnað og slíkt. Ef menn festa fjármuni sína í búfjáreign, þá er þar ekki um skattfrelsi að ræða. Það var ekki talið eðlilegt, að þetta væri heldur í sambandi við hlutafélögin.

Þá er gert ráð fyrir því, að ákveðið hlutfall verði í skattfrelsi samvinnufélaga í sambandi við utanfélagsverzlun, þannig að 2/3 séu taldir félagsverzlun og 1/3 hlutafélagsverzlun, eftir nánari reglum þar um. En eins og þetta hefur verið, er mjög óákveðið um framkvæmd á þessu.

Heildarskattur á félögum mundi verða 53% eftir þessa breytingu, sem hér er lögð til.

Þá er líka gerð breyting á skattfrjálsri eign, sem í lögunum frá í vor var 3 millj. Hún er nú ákveðin í millj. og skattur hækkaður hjá einstaklingum frá 0.3%–0.6% í 0.4%–0.8%.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu lagafrv., að breyting verði á afstöðu ríkisskattanefndar. Eins og kunnugt er, er ríkisskattanefndin nú lokadómari í skattamálum. Formaður ríkisskattanefndar er ríkisskattstjóri. En það er talið eðlilegt, að ríkisskattanefnd verði ákveðinn skattdómstóll, sem í verði þrír menn og þrír til vara, og verði einn þeirra skipaður af fjmrh. og varamaður hans og verði þeir formaður og varaformaður, en hinir verði skipaðir af fjmrh. úr hópi sex manna, sem Hæstiréttur bendir á. Er gert ráð fyrir því, að eftír þessa breytingu verði ríkisskattstjóri umboðsmaður ríkissjóðs og málflutningsmaður í sambandi við dóminn, en ekki dómari, eins og verið hefur. Ég vil taka það greinilega fram, að það er ekki um að ræða neitt vantraust á núv. ríkisskattstjóra, sem er embættismaður, sem vinnur sitt verk vel. Þetta ákvæði er hins vegar að minni hyggju verulega mikið atriði fyrir skattþegnana í landinu, vegna þess að með þessu móti er um óháðan dómstól að ræða, sem hvorki er bundinn ríkisvaldinu og á ekki heldur að vera bundinn gjaldþegnunum, því að það eru sett ákvæði um það, hvaða atriði komi til, að maður sé gjaldgengur í þetta starf. Það er því mikil trygging fyrir gjaldþegnana í landinu að fá einmitt slíkt mat eða slíkan dóm, þar sem ríkið eða sá aðilinn, sem skattsins á að njóta, hefur ekki betri aðstöðu en skattþegninn, sem skattinn á að greiða.

Ýmis fleiri nýmæli eru í þessu frv., þó að hér hafi þau verið talin, sem mestu máli skipta.

Í sambandi við það, sem ég gat um áðan um þær tekjur eða álagningu, sem af þessum skattabreytingum leiðir, vil ég geta þess, að hér er ekki um neina verulega hækkun á sköttum að ræða frá því, sem verið hefur, því að þótt skattarnir til ríkisins hækki nokkuð frá því, sem var, þá er það m.a. vegna þeirrar tilfærslu, sem verður á milli ríkisins og sveitarfélaganna í sambandi við þá breytingu, sem hér er verið að gera. En það eru að sjálfsögðu ekki nýir skattar, þó að ríkið hafi tekið að sér verkefni sveitarfélaganna og annist það, sem þau önnuðust áður. Það er aðeins um tilfærslu að ræða vegna þessarar breytingar, en ekki nýja skattheimtu. Hins vegar er um nokkra hækkun að ræða, þegar tillit er tekið til laganna frá s.l. vori. Eins og ég gat um áðan, mundu verkanir þeirra hafa orðið á þann veg, að um nokkur hundruð millj. kr. hefði verið að ræða í skattalækkun. Hins vegar, miðað við það gamla kerfi, sem áður var búið við, er ekki um neina stórfellda breytingu að ræða. Hækkunin gæti verið í heild á bilinu kringum 300 millj. kr., en þó tæplega það. Ef tekið er í heild innheimtukerfi sveitarfélaga, Tryggingastofnunarinnar og ríkisins, þá er þetta hámarkið, miðað við það kerfi, sem var hér áður ríkjandi, en ef tekin eru lögin frá því í vor, þá hætast þarna við 400–500 millj. kr. Það er hins vegar um nokkurn tilflutning að ræða á milli ríkis og sveitarfélaga, sem leiðir af því, að verkefnaskipting hefur orðið þarna nokkur, og þessi tilflutningur hefur að sjálfsögðu áhrif á niðurstöðu fjárlaga ríkissjóðs, hæði tekna- og gjaldamegin. Og samkv. þeirri mynd, sem ég hef af því dæmi, þá er tilfærslan í gjöldum, sem sveitarfélög og einstaklingar greiddu áður vegna trygginga og löggæzlu, um 783 millj. kr. og vegna sjúkrasamlaga, greiðslu sveitarfélaga og einstaklinga, um 5 13 millj. kr. Hins vegar eru nettótekjur ríkissjóðs af þessu nýja frv., miðað við gamla kerfið og að ríkissjóður hefði haldið þeim tekjustofnum, sem hann áður hafði, eins og almannatryggingagjöldunum og þeim öðrum, sem felld hafa verið niður, um 950–1000 millj. kr.

Í framhaldi af þessu vil ég geta þess, sem ég gat um í upphafi, að enda þótt þetta frv. sé nú fram komið, þá er afar fjarri því, að því verki sé lokið, sem tekjustofnanefndinni er ætlað að vinna. Henni er ætlað að vinna áfram að athugun á þessum málum, og verður haldið áfram að vinna að frv. um tekju- og eignarskatt, því að það er hugsun ríkisstj. að leggja fram á næsta hausti heildarfrv. um tekju- og eignarskatt, sem yrði þá byggt á þeirri reynslu, sem fengist af þessum lögum. Það er ætlunin að vinna að þessu máli á þann veg, að heildarfrv. að lögum um tekju- og eignarskatt verði lagt fyrir næsta þing. Samhliða þessu verður svo unnið að því að athuga tekjustofna sveitarfélaga, aðflutningsgjöldin, söluskattinn, og í því sambandi mundi virðisaukaskattur verða metinn í okkar teknakerfi. Það má vel vera, að hann muni reynast svo, þegar betur er að gáð, að hann henti okkur frekar en söluskatturinn, og án efa verður reynt að gera fullkominn samanhurð á því, enda mundi þá vinnast tími til þess að vinna að þessum málum með hæfilegum vinnuhraða, sem er meira en hefur verið hægt að segja nú. Þess vegna verður það verkefni ársins 1972 að endurskoða allt skattakerfið eða tekjuöflunarkerfi ríkisins. Þó að þessi þáttur hafi verið tekinn nú, þá er það tengt því, sem ég gat um í upphafi. tekjuöflun ríkisins vegna fjárlaga fyrir 1972, og svo hinu, að ríkisstj. kærði sig ekki um það, að skattalögin frá í vor næðu inn í skattheimtu á næsta ári, því að þá hefði orðið um verulega breytingu að ræða frá því, sem áður hafði verið.

Það, sem ég tel að vinnist með þessum frv., sem hér liggja nú fyrir, þessum þremur, sem ég hef vikið hér að, er í fyrsta lagi það, að persónuskattarnir verða felldir niður, skattar, sem þegnarnir þurfa að greiða, alveg án tillits til tekna. Og það er mitt mat, að það hefði ekki verið framkvæmanlegt að halda þeirri stefnu í tryggingunum, sem gert hefur verið, ef persónuskattarnir hefðu átt að vera áfram. Í öðru lagi hefur það áunnizt, að skattar af lágtekjum hafa verið lækkaðir, og það hefur átt sér stað tilfærsla í skattakerfinu, án þess að um nokkra verulega skattálagningu væri að ræða, því að ég tel, að það sé ekki um verulega skattálagningu að ræða, þótt færsla hafi átt sér stað milli ríkis og sveitarfélaga. Þessir skattar eru innheimtir af sömu aðilum á hinum stærstu stöðum, og mun verða svo í ríkara mæli, og þjónustan er nú alveg sú sama. Ég tel líka, að með þessari skattabreytingu sé stefnt að því að gera skattakerfið einfaldara og stefnt í þá átt, að það muni reynast framkvæmanlegt að innheimta skatta jafnóðum og tekjur falla til. Þetta hefur verið baráttumál, m.a. hjá stéttarfélögunum, og á margan hátt kemur það sér vel, því að það er mjög erfitt fyrir þá, sem hafa verulega háa skatta, að lenda í því að greiða þá eftir á.

Ég vil líka segja það, að með því að taka upp hóflega fasteignaskatta, eins og hér er lagt til. sé stefnt inn á rétta braut og það muni hafa góð áhrif í skattakerfi okkar og skattinnheimtu.

Ég vil líka geta þess, að ég tel, að þessir skattar, sem hér eru lagðir til gagnvart atvinnurekstrinum, séu mjög hófsamlegir. Ég veit, að þeir koma verr út fyrir einstaka aðila en skattafrv., sem var samþ. hér í fyrravor, hefði gert, enda var í því meira rými en eðlilegt er að gefa skattinum. Hins vegar kemur þetta skattakerfi fullt svo vel út eins og það skattakerfi, sem búið var við áður. Og með því að gera aðstöðugjaldið eins takmarkað og nú er lagt til, er það mjög til hagsbóta fyrir atvinnureksturinn.

Þá vil ég og geta þess, að sú breyting á skattakerfinu, sem nú var verið að gera, hefur þau áhrif, að vísitala mun nokkuð lækka við þessa breytingu. Sú breyting, sem verður á vísitölunni, verður með afnámi almannatryggingagjaldsins lækkun um 2.05 vísitölustig og sjúkrasamlagsgjaldsins að þeim hluta, sem var ekki búið að greiða það niður, um 1.67 stig, eða samtals 3.72 stig. Þetta gerir það að verkum, að við fjárlagaafgreiðslu nú myndast dálítið rými til þess að lækka niðurgreiðslurnar. Það hefur verið mikill þyrnir í augum og oft verið hér til umr. áður, hvað niðurgreiðslurnar væru orðnar háar í okkar landi, og ég man eftir því, að ég las það í blöðum í haust, eftir að fjárlagafrv. kom fram, að því var haldið á lofti, að hér væri í hreint óefni komið. Og það má með nokkrum rökum segja, að svo hafi verið, því að með þeim breytingum, sem voru ákveðnar hér í fyrrahaust, að hækka niðurgreiðslurnar verulega, og þeirri ákvörðun núv. ríkisstj. að halda áfram út árið með þær niðurgreiðslur, þá voru fjárhæðir til niðurgreiðslna orðnar verulega miklar. Það er gert ráð fyrir að lækka niðurgreiðslurnar um 450 millj. kr. Þetta mun verða gert með því, að landbúnaðarvöruniðurgreiðslurnar á flestum vörutegundum verða lækkaðar um 25%, en þó ekki á öllum og kannske ekki öllum samtímis. En inn í þetta dæmi var einnig komin niðurgreiðsla á sjúkrasamlagsgjaldi, sem gerir rúmar 100 millj. kr. Þessi ákvörðun kemur að sjálfsögðu fram í afgreiðslu fjárlaga og hefur þar sín áhrif. Enda þótt þetta verði gert, er samt eftir til þess að mæta örum hækkunum á annað vísitölustig, og mun að sjálfsögðu ekki af veita vegna þeirra hækkana, sem fram undan kynnu að vera.

Herra forseti. Ég held, að ég muni nú láta máli mínu lokið. Ég hef gert grein fyrir frv. um tekju- og eignarskatt í aðalatriðum og reynt að skýra þá mynd, sem því er samfara. Ég veit, að það geta verið skiptar skoðanir manna um ágæti þess eins og annarra hluta, og það eru uppi misjafnar skoðanir hjá hv. þm. um það, hversu mikill hluti tekjuskattar eiga að vera í tekjuöflunarkerfi ríkisins. Það hefur hins vegar verið mjög farið inn á það á síðari árum að gera neyzluskattana ráðandi í okkar tekjuöflunarkerfl. En að dómi núv. ríkisstj. er slík stefna á margan hátt óæskileg, því að þeir skattar leggjast þyngst á þá, sem hafa ekki tekjur nema til þess, sem þeir þurfa að ráðstafa vegna eigin framfærslu. Ráðstöfunartekjur þeirra eru að öðru leyti svo takmarkaðar, að slíkir skattar koma mjög illa við fólk, sem er með slíkar tekjur. Að því leyti eru tekjuskattarnir eðlileg leið til þess að jafna í þjóðfélaginu milli borgaranna, sem meira mega sín, og hinna, sem minna mega sin. Og það er ekki nema eðlilegt, að svo sé. Ég held hins vegar, að með þessu frv. hafi verið stillt í hóf í þessum efnum og e.t.v. finnist mörgum of skammt gengið hér í tekjuöfluninni. Það verður að metast, eins og það er. En ég held, að það orki ekki tvímælis, að þetta skattafrv. er þeim verulega í hag, sem lægstar hafa tekjurnar. Og það er ekki heldur gengið svo nærri þeim, sem hafa verulega góðar tekjur, að ráðstöfunartekjur þeirra séu ekki einnig verulegar.

Að öðru leyti mun ég nú láta máli mínu lokið og leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. fjhn.

Ég vil að lokum geta þess, eins og komið hefur fram í umr. hér áður, að enda þótt æskilegt hefði verið, að þetta frv. hefði getað hlotið afgreiðslu fyrir þinghlé, þá er öllum ljóst, að slíkt er óframkvæmanlegt, og fá því hv. alþm. góðan tíma til þess að virða það og meta, og þá treysti ég því, að ef augljósir gallar reynast á einhverjum atriðum, er til framkvæmda horfa, þá verður á það horft. En að sjálfsögðu er miðað við, að það skili þeim tekjum, sem gert verður ráð fyrir í fjárlagafrv. og gert er ráð fyrir í því yfirliti, sem ég vitnaði til hér áðan.