09.03.1972
Neðri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég mun eins og aðrir þm., sem hér hafa talað á undan mér, reyna að vera eins stuttorður og ég tel mér frekast unnt, en ég hef flutt hér á þskj. 428 mjög einfalda till., þar sem lagt er til, að í stað 50% í 1. málsgr. 1. gr. frv. komi 60%. Þetta er varðandi það ákvæði, sem heimilar giftum konum frádrátt frá tekjum sinum í sameiginlegu framtali við mann sinn.

Þegar þetta ákvæði var tekið inn í lög fyrir hálfum öðrum áratug eða svo, þá hefur það að sjálfsögðu verið talið réttlætismál. þar sem giftar konur með vinnu sinni og þátttöku í þjóðarframleiðslunni lögðu á sig störf umfram þau eðlilegu heimilisstörf, sem þær höfðu á hendi. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort eðlilegt sé eða ekki að örva giftar konur til starfa utan heimilis, menn geta haft á því skiptar skoðanir, en hins vegar er það staðreynd, að þetta er þróun, sem hefur átt sér stað, bæði hér á landi og í öllum okkar nágrannalöndum. Íslenzkt atvinnulíf er í dag orðið svo háð vinnu giftra kvenna, að ég hygg, að allir geri sér ljóst, að um verulegan samdrátt yrði að ræða, ef þær allt í einu hyrfu allar af vinnumarkaðinum. Ég tel því þetta ákvæði, sem gildandi var og er enn í lögum, mjög eðlilegt og sjálfsagt, en þegar það kemur fram, að þessi réttur þeirra til frádráttar á tekjum skerðist í sambandi við tekjustofnalögin, sem nú hafa verið til umr. í hv. Ed., þá tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að við þær breytingar, sem verið er að gera á lögum um tekju- og eignarskatt, þá verði tekið tillit til þessarar skerðingar og þetta mark hækkað í það, sem ég hef hér leyft mér að leggja til á þskj. 428. Ég hef látið reikna þetta út, og mér sýnist, að þetta mark, þessi hækkun, sem lögð er til, mundi verða til þess að þessu leyti varðandi frádrátt á tekjuskattinum að giftar konur stæðu þá nokkurn veginn jafnfætis og áður var, þegar þeim var einnig leyfður frádráttur við álagningu útsvara. Þess vegna tel ég þetta eðlilegt og réttlætismál og vænti þess, að þetta verði hér samþykkt. Þetta er ekki svo mikil breyting fyrir ríkissjóð, að það geti þar nokkru breytt verulega og að ríkiskassinn mundi ekki þola þessa breytingu. Og ég vil í þessu sambandi benda á það, sem ég veit ekki, hvort allir gera sér ljóst, að margar þær konur, sem vinna úti, — það eru sjálfsagt ekki allar, — taka á sig veruleg útgjöld í sambandi við það að hverfa að störfum utan heimilis. Ég á þá við þær konur, sem hafa yngri börn í umsjá sinni, en þær verða að koma þeim börnum fyrir í gæzlu, meðan þær vinna utan heimilisins, og þetta kostar orðið veruleg fjárútlát. Ég hygg, að það sé ekki ofsagt, að það kosti þær kannske 4–5 þús. kr., ég vil ekki segja á stykki. eins og hæstv. fjmrh., heldur á hvert barn sitt, þannig að einnig að þessu leyti er eðlilegt, að þær njóti einhverra sérstakra fríðinda í sambandi við þetta.

Það hefði vissulega verið mjög skemmtilegt að ræða frv., sem hér liggur fyrir, eftir þær umr., sem maður hefur hlustað á í d., því að margt hefur þar komið fram. Það merkilega er, að í öllum þeim ágreiningi, sem um skattamálin er, er þó eitt atriði, sem allir hv. þm. eru sammála um, og það er að gera skattakerfið einfaldara. Ég ætla engan að dæma, hvorki neina fyrrv. ríkisstj. eða neinn fyrrv. eða núv. hv. þm., en hitt er staðreynd, að þróunin hefur á undanförnum áratugum hér á landi öll verið í þá átt að gera skattakerfið flóknara og flóknara hæði fyrir skattgreiðendur og þá, sem eiga að framkvæma skattalögin. Fram hjá þessu verður ekki gengið, því að þetta liggur alveg augljóslega fyrir.

Ég tek þarna aðeins tvö dæmi: Á skattseðli, sem skattgreiðendur fengu á síðasta ári, var um að ræða 17 skatta, sem einn aðili, sem einhvern atvinnurekstur hafði, gat lent í að greiða. Þegar við lítum á þann seðil, sem launagreiðendum er afhentur nú á þessu ári og þeir eiga að útfylla til þess að gefa upp tekjur á aðra og hlunnindi og það, sem talið er, að skattskylt sé, þá er þar úr 29 mismunandi reitum að velja, sem launagreiðandi á að fylla út, og verður að leita uppi, hvar hann á að setja hverja upphæð, sem hann hefur innt af hendi. Ég bendi aðeins á þessi tvö dæmi hér til að sýna, út í hvaða ógöngur, ég segi hiklaust ógöngur, hv. Alþ., sem auðvitað ræður þarna hlutunum, er komið í í sambandi við skattaálögurnar.

Skattar verða án efa alltaf heldur illa séðir af skattgreiðendum. Það er nú einu sinni alltaf svo, en ég hygg nú samt, að hv. Alþ. geti sér kannske þar í nokkuð um kennt, vegna þess, sem ég hef nú bent á, að þetta er orðið svo flókið kerfi, að menn eru eiginlega hættir að skilja í því og hættir að reyna að botna nokkuð í því, því að þetta gerir menn leiða á öllum greiðslum til ríkisins, þegar þannig er að staðið.

Þá er annað, sem gerðist á sínum tíma, en sem betur fer er búið að laga það nokkuð, en það er það, að á þeim tíma, sem lögin um stríðsgróðaskattinn voru í gildi, þá var svo komið, að menn, sem lentu þá í háum tekjum, áttu að greiða í skatt til ríkis og bæja hærri upphæð en þeir öfluðu sér, eftir að þeir voru komnir í visst tekjuhámark. Hæstv. fjmrh. upplýsti það hér í umr. í fyrradag, að stríðsgróðaskatturinn hefði numið 30% eða upp í 35%, þegar gjaldandinn var kominn í 200 þús. kr. tekjur. Eftir því, sem ég get séð af lagasafninu, þá skilst mér, að tekjuskatturinn með öllum þeim viðaukum, sem þá voru á hann komnir, hafi numið 27%, þegar komið var upp í hámarkið. Þetta gerir samtals, skilst mér, 62%. Og ef við lítum svo á skattstiga sveitarfélaganna, sem þá giltu, suma þeirra, — ég þekki einn þeirra, sem mér var afhentur sem bæjarstjóra í Vestmannaeyjum úr höndum þáv. vinstri stjórnar, — var hann hvorki meira né minna en 42% á hæstar tekjur. Þetta þýðir, að þarna var komið upp í 104%, sem menn áttu að greiða í samanlagða skatta til ríkis og sveitarfélaga, ef þeir lentu í því að greiða stríðsgróðaskatt, sem allmargir gerðu þá.

Þetta þýddi tvennt, sem þá kom alveg greinilega í ljós: Þeir, sem lentu í hæstu tekjunum, hættu hreinlega að vinna á miðju ári. Menn, sem þá voru í siglingum, höfðu mjög góðar tekjur, — ég þekkti persónulega mörg dæmi þess, — en menn fóru bara í land á miðju ári og hættu að vinna, sögðust bara ekkert vera að borga með þeim sköttum, sem á þá væru lagðir, hæði af ríki og sveitarfélögum. Þetta voru eðlileg viðbrögð. En það var annað, sem skeði, sem var miklu verra og hefur haft miklu verri afleiðingar fyrir þjóðfélagið. Það var, að þegar þannig er komið, að farið er að taka meginhlutann og kannske allan hlutann af kaupi manna til hins opinbera, hvað gera menn þá? Þeir gera nákvæmlega sama og þá var almennt talið, að menn gerðu, reyna að koma undan skatti öllu því, sem þeir mögulega gátu. Skattaeftirlitið var þá miklu lakara en það er nú. Menn komust þá upp með það. Það vissu allir, að þetta var orðin landplága, að menn, bæði heiðarlegir og óheiðarlegir, sáu sig tilneydda að reyna að koma undan sköttum þeim tekjum, sem þeir mögulega gátu. Þetta auðvitað orsakaði það, að menn hættu að bera virðingu fyrir skattalögunum og er það ekkert óeðlilegt, og það eimdi nokkuð lengi eftir af þessu, en þessi hliðin er, sem betur fer, mikið að lagast nú. Skattaframtölin eru að verða miklu betri en þau voru. Menn eru farnir að gera sér það ljóst, að þeir sem þjóðfélagsþegnar verði að borga og eigi að borga eftir ákveðnum lögleiddum reglum hluta af tekjum sínum, bæði til sveitarfélags og ríkissjóðs, þannig að þetta hefur að mínum dómi mjög breytzt. En þetta hefur því miður enn og allt fram undir það síðasta loðað við, og þetta hefur sett mjög leiðinlegan og erfiðan blæ á framkvæmd skattamála og afstöðu almennings til greiðslu opinberra gjalda.

Ég tel því mjög nauðsynlegt, og vildi mjög gjarnan ræða það miklu ítarlegar en mér gefst tími til hérna, að hv. þm. geri sér það almennt ljóst, að það dugir ekki að stefna að smálagfæringu á skattalögunum eða einhverjum smábreytingum, eins og hæstv. fjmrh. boðar nú, að sé í undirbúningi. Við verðum að stefna að grundvallarbreytingu á skattalögunum. Það er hið eina, sem við getum gert til að komast á eðlilegan hátt út úr þeim ógöngum, sem ég tel, að við séum komnir í í sambandi við þessi mál. Og þegar ég segi, að við verðum að stefna að grundvallarbreytingu, þá á ég við það, að að mínum dómi þarf að hækka persónufrádráttinn svo mikið, að allar framfærslutekjur, ekki neinar tekjur miðað við ákveðinn Dagsbrúnartaxta, heldur allar framfærslutekjur, sem eru taldar eðlilegar á hverjum tíma, sem ein meðalfjölskylda þarf til sinnar framfærslu, verði gerðar skattfrjálsar frá beinum sköttum, t.d. miðað við 400 þús. kr. á hjón og 50 þús. kr. á barn. Það mundi gera 500 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Þannig mundi hverfa frá skattyfirvöldunum stór hluti af öllum skattframtölum til úrvinnslu. Þetta mundi létta þeim, sem eiga að framkvæma skattalögin, starfið mjög mikið, og það mundi jafnhliða gefa þeim ákaflega gott tækifæri til þess að vinna að og fylgjast miklu betur með framkvæmd skattamálanna, þannig að menn hvorki kæmu undan tekjum fyrir sjálfa sig á sínu eigin framtali eða gerðu það, sem er kannske versta meinið hjá okkur í dag, og menn gera það mjög almennt enn þá, því miður allt of almennt, að koma undan tekjum fyrir aðra. Ég tel, að það sé einhver mesta meinsemdin í sambandi við skattamálin, að þetta loðir við enn þá, að menn vilja gera ýmsa hluti, selja vinnu sína og annað, ef því er skotið undan skatti. Þótt það varði við lög, vitum við öll, að þetta gerist í þjóðfélaginu í dag. Það þýðir ekkert að vera að blekkja okkur á þeim hlutum, en þannig er það í framkvæmd. En út úr þessu mætti komast með því að fara þá leið að gera persónufrádráttinn svo háan, að menn borguðu í óbeinum sköttum til ríkisins af öllum eðlilegum framfærslutekjum sínum.

Það er sagt í sambandi við óbeina skatta, að þeir komi misjafnlega niður, að þeir lendi pyngst á stærri fjölskyldum og kannske láglaunafólki. Ég tel það mjög mikinn misskilning. Ef þannig væri farið að, þá borgaði hver fjölskylda í óbeina skatta vissan hluta og jafnan hluta af tekjum sínum í gegnum söluskatt eða aðra óbeina skatta. Þær tekjur, sem þar væru fram yfir, ætti að skattleggja með beinum skatti, og ég segi hiklaust, þá með einu skattþrepi. Það ætti að hafa aðeins eitt skattþrep, sem lagt væri á þær tekjur, því að þá væru allir komnir upp í hátekjur og það þyrfti ekki að nota nein skattþrep eða neina mismunandi skattstiga við álagningu á slíkar tekjur. Ég mundi telja, að þetta væri miklu heilbrigðara og einfaldara og gerði viðhorf þjóðfélagsþegnanna miklu betra til stjórnvalda í sambandi við þær skattgreiðslur, sem þeir þyrftu að inna af hendi og þeir væru krafðir um, og á ég þar við tekjur til ríkissjóðs. Sveitarfélögin verða eðli sínu samkv. að innheimta mikið af tekjum sínum með beinum sköttum. Ég hygg, að enn þá sé ekki fundið ráð til þess að auka möguleika þeirra til tekjuöflunar eftir leið óbeinna skatta.

Ríkisvaldið getur vissulega hreinsað verulega til í þessum efnum, og af því að hæstv. fjmrh. hefur boðað endurskoðun á skattalögunum, þá vil ég leyfa mér að beina því til hans, að þetta mál eða þessi hugmynd verði skoðuð um leið. Það má vel vera, að ég að athuguðu máli fari inn á það að flytja þáltill. í sambandi við þetta mái. þar sem ég léti hugmyndir mínar, sem ég hef hér rakið í stórum dráttum, koma fram.

Eins og ég sagði, skal ég stytta mál mitt eins og ég sé mér frekast fært og skal reyna að taka ekki ræðutíma frá öðrum, en það er þó eitt atriði, sem ég tel, að ég verði hér aðeins að koma inn á, en það eru þeir útreikningar, sem hv. þm. hafa verið afhentir í sambandi við frv. um tekju- og eignarskatt. Fyrst var það hjá hæstv. fjmrh., að þegar hann lagði frv. fyrir, þá var hann með tilbúin dæmi um það, hvernig þetta mundi verka. Hv. frsm. meiri hl. var einnig með tilbúin dæmi um, hvernig skattálagningin mundi verka. Ég hlýt að spyrja: Hvers vegna er verið með tilbúin dæmi um það, hvernig fyrirhuguð skattabreyting kemur til með að verka? Hvers vegna voru ekki tekin skattframtöl frá síðasta ári og þau hreinlega umreiknuð miðað við hin nýju lög, sem á að fara að samþykkja hér, og þannig gerður samanburður og þá að sjálfsögðu tekið tillit til niðurfellingar nefskattanna, sem hér hefur verið til umr.? Ég lét gera þetta þegar fyrir áramót, lét eina skattstofu í landinu gera þetta. Ég veit, að þetta er alveg hárrétt, það er hægt að standa við það ábyggilega hvar sem er. En ég fékk út úr því allt aðrar tölur en hæstv. fjmrh. og hv. frsm. 1. meiri hl. eru hér að boða okkur. Ég ætla ekki að fara að rekja þetta, það tæki of langan tíma.

Aðeins að lokum vil ég benda á, að ég tel hreint ekki sæmandi, hvorki fyrir hæstv. fjmrh. eða hæstv. viðskrh„ það, sem þeir hafa verið að halda hér fram í sambandi við frv. um tekju- og eignarskatt, að skattabreytingin væri einvörðungu, eins og þeir orðuðu það, gerð vegna hækkunar almannatryggingabóta. Þetta er svo mikil misnotkun á þeim lögum og þeim rétti, sem þetta fólk fær samkv. almannatryggingahótum, að ég tel það ekki sæmandi fyrir þessa hæstv. ráðh., að láta þetta koma fram hér á hinu háa Alþ. Það vita allir, að fjárlög hækkuðu um 5 500 millj. kr. Að vísu er inni í því hækkun til almannatryggingabóta, ég viðurkenni það, að nokkru leyti, en þó ekki öllu, og þess vegna liggur alveg augljóslega fyrir, að það er hin almenna hækkun á fjárlögum, þar með að litlum hluta hækkun almannatryggingahótanna, sem er þess valdandi, að nú verður að setja fram og lögleiða nýtt skattakerfi, sem gefur ríkissjóði mun meiri tekjur en áður, eða 5 500 millj. kr. meira en áður. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að verið er að breyta skattalögunum. Hefði ekki verið um annað að ræða en hækkun til almannatrygginganna, þá hefði ekki þurft að breyta einum staf í skattalögunum. Þau gátu staðið eins og þau voru, og þau hefðu meira en nægt ríkissjóði til þess að mæta útgjöldum vegna þessa eina málaliðs, trygginganna, því að tekjur almennings hafa sem betur fer á árinu 1971 hækkað mun meir en ráðgjafar hæstv. ráðh. hafa hér verið að reyna að túlka. Ég hygg, að það viti orðið allir í dag, að tekjuhækkunin er mun meiri en gert er ráð fyrir, og þar af leiðandi hljóta skattar ríkissjóðs að fara verulega fram úr því, sem áætlað var í upphafi.